25.4.2021 | 10:45
Tveggja stoða reglunni kastað fyrir róða
Líklega var s.k. Tveggjastoða regla ein af ástæðum þess, að samningurinn um aðild EFTA-landanna Íslands, Noregs og Liechtensteins, að Evrópska efnahagssvæðinu (EES), var samþykktur á Alþingi og í Stórþinginu 1992-1993. Ef sú regla væri ekki við lýði, þá mundi aðildin stríða klárlega gegn ákvæðum stjórnarskráa Íslands og Noregs um leyfilegt fullveldisframsal til erlendra ríkja eða stofnana, þar sem löndin eiga ekki aðild. Tveggjastoða kerfið var augljóslega sniðið í því augnamiði að friða þá stjórnmálamenn og aðra íbúa landanna, sem voru andvígir aðild að Evrópusambandinu (ESB), og til að skapa samningnum visst lögmæti, a.m.k. á Íslandi og í Noregi.
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) á þannig að spegla framkvæmdastjórn ESB og EFTA-dómstóllinn á að spegla ESB-dómstólinn. Sjálfstæði þessara EFTA-stofnana frá ESB er þó meira í orði en á borði, þannig að um formsatriði er að miklu leyti að ræða, sem viðheldur efasemdum um lögmæti aðildar Íslands og Noregs. Þessar efasemdir koma upp á yfirborðið, þegar veigamiklir lagabálkar koma til umræðu í fagnefndum og Fastanefnd EFTA, í Sameiginlegu EES-nefndinni (EFTA-löndin og ESB) og við staðfestingu löggjafarsamkundanna á innleiðingu gerða. Er skemmst að minnast Orkupakka 3 í því sambandi, og nú er Orkupakki 4 á umræðustigi innan EFTA og í þjóðþingum landanna, en er ekki genginn til Sameiginlegu EES-nefndarinnar. Er vonandi, að viðamikilla undanþága verði krafizt fyrir Íslands hönd, en til að koma því í kring, verða þingnefndir að grípa til sinna ráða og setja embættismönnum, sem eins og kunnugt er eru gengnir hugarfarslega í ESB, stólinn fyrir dyrnar.
Í Noregi hafa mestar deilur um innleiðingu lagabálka ESB eftir Orkupakka 3 orðið um Járnbrautarpakka 4, sem afnemur einkarétt, oftast ríkisins, á að nýta innviði járnbrautakerfa innan EES. Ísland er undanþegið innleiðingu af eðlilegum ástæðum. Fyrir þessari innleiðingu er tæpur meirihluti á Stórþinginu eða 4 atkvæði, af því að Verkamannaflokkurinn, sem er hefðbundinn ESB-flokkur, er á móti afnámi einkaréttar Norske Statsbaner, NSB, á innviðum og rekstri járnbrauta í Noregi og þar með einkavæðingu járnbrautanna. Málið er þess vegna verulega umdeilt í Noregi, og það hefur magnað deilurnar, að Noregur og Liechtenstein hafa í viðræðum við ESB fallizt á að fórna Tveggja stoða reglunni við þessa innleiðingu, og samkvæmt norskum fréttum hefur íslenzka utanríkisráðuneytið gert samkomulag við Noreg og Liechtenstein um yfirlýsingu, sem leggja á fram í Sameiginlegu EES-nefndinni, þar sem fallizt er á þessa málsmeðgerð. Þetta er stórhættulegt fordæmi, þar sem rökin eru einvörðungu, að í ESA sé ekki fyrir hendi þekking á járnbrautamálum, en nákvæmlega hið sama á við um orkumálin, en Tveggjastoða reglan var samt í heiðri höfð við innleiðingu Orkupakka 3.
Hæstiréttur Noregs hefur að beiðni Stórþingsins úrskurðað, að einfaldur meirihluti Stórþingsins dugi við staðfestingarferli Járnbrautarpakka 4, og Stórþingið mun væntanlega afgreiða málið samkvæmt því í maí 2021. Hæstirétturinn var hins vegar ekki spurður um afleiðingar þess að hundsa Tveggjastoða kerfið.
Þessi sniðganga EES-samningsins felur í sér, að völd yfir norskum járnbrautarmálum munu færast beint til stofnana ESB. Eru þetta ekki vonbrigði fyrir þá, sem líta á EES-aðild sem varanlegan valkost við ESB-aðild ? Leynisamningur utanríkisráðherra, ef hann er til, stríðir gegn yfirlýsingum hans sjálfs og formanns Sjálfstæðisflokksins.
Ef Stórþingið samþykkir tillögu Sólberg-ríkisstjórnarinnar um Járnbrautarpakka 4, færist ákvörðunarvald um aðgang og öryggi á norskum járnbrautarteinum til Járnbrautarstofnunar ESB, ERA, framkvæmdastjórnar ESB og til ESB-dómstólsins. Þarna hefur Noregur ekki atkvæðisrétt eða er alls ekki gjaldgengur.
Forsenda EES-samningsins hefur alla tíð verið, að hann sé þjóðréttarlegs eðlis, þ.e. samningur jafnrétthárra aðila, og þar með er hann ekki yfirþjóðlegur, eins og ESB-aðild er. Löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald skyldi áfram vera í höndum EFTA-þjóðanna með nokkrum fáum, umsömdum undantekningum. Fullveldi EFTA-landanna skyldi vera innsiglað með Tveggjastoða kerfinu. Samþykktir ESB skyldu ekki sjálfvirkt hafa áhrif í EFTA-löndunum.
Christoffer Conrad Eriksen, lagaprófessor við Óslóarháskóla,skrifar í greinargerð til Sambands norskra járnbrautarstarfsmanna og Sambands norskra eimreiðarstjóra, að valdframsalið til ESB-stofnananna "muni verða brot gegn hinu sérstaka ákvörðunartökuferli í Tveggjastoða kerfi EES" ("EUs fjerde jernbanepakke - konstitusjonelle spörsmål", april 2020).
Eriksen bendir ennfremur á, að þetta muni gera EFTA-þjóðunum erfiðara fyrir en áður að hafna kröfum ESB um að framselja vald beint til ESB-stofnana í síðari málum.
Þótt Ísland sé undanþegið Járnbrautarpakka 4, er þetta hliðarspor Norðmanna grundvallaratriði fyrir alla aðila EES-samningsins, þ.e. ef valdframsal á sér stað frá EFTA-ríkjunum beint til stofnana ESB. Ef menn eru búnir að gefast upp á Tveggjastoða fyrirkomulaginu, hefur EES-samningurinn gengið sér til húðar; svo einfalt er það.
Norska ríkisstjórnin hefur átt frumkvæði að sameiginlegri yfirlýsingu í EES-nefndinni með Íslandi og Liechtenstein, en ríkisstjórnin og íslenzka utanríkisráðuneytið hafa hingað til neitað að upplýsa um efni yfirlýsingarinnar. Hér virðist þó íslenzka utanríkisráðuneytið hafa látið kollegana í Ósló fá frítt spil, "carte blanche", til að endurskilgreina leikreglurnar í EES. Það er hneyksli, ef satt reynist. Hvað er utanríkisráðherrann að hugsa ?
Stöðugt fleiri yfirþjóðlegar stofnanir ESB ógna formlegri fullveldisvörn, sem sett var í EES-samninginn í upphafi. Ýmsir íslenzkir stjórnmálamenn, þ.á.m. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafa lýst áhyggjum sínum yfir, að þetta kollkeyri EES-samninginn. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði á fundi í EES-ráðinu 23. maí 2018: "Það hefur orðið stöðugt erfiðara, þegar ESB-löggjöf, sem felur í sér valdframsal, er felld inn í EES-samninginn, að finna lausnir, sem taka tillit til Tveggjastoða fyrirkomulags samningsins."
Ef Ísland sýnir Noregi undanlátssemi vegna þrýstings í máli, sem ekki varðar Ísland, mun það skapa hættulegt fordæmi, sem ógnar uppbyggingu EES-samningsins.
Einnig Bente Angell-Hansen, hinn norski forseti ESA, varar við að láta ESB-stofnanirnar veikja Tveggjastoða kerfið. Eftir að hafa undirstrikað óskina um "að varðveita og þróa EES-samninginn", lýsti hún því yfir á ráðherrafundi EFTA 27. október 2020, að "tímabært er að sjá, að EES-EFTA-stoðinni er vel sinnt með því að fara eftir Tveggjastoða fyrirkomulaginu, sem gerir EES-samninginn svo einstæðan". Sem vanur diplómati nefnir ekki Angell-Hansen járnbrautarpakkann eða önnur bein dæmi, en eins og hún segir: "Þegar einnarsúlu lausn er valin, hverfur möguleikinn á að kæra mál til EFTA-dómstólsins". Með öðrum orðum: þegar ákvörðunarvaldið er flutt til ESB, verða EES-stofnanirnar haldlausar.
Röksemd norska samgönguráðuneytisins fyrir því að víkja af braut EES-kerfisins er, að ESA hafi ekki þekkingu á járnbrautarmálum og að það verði erfitt að koma EFTA-járnbrautarstofnun á legg. Hins vegar er engu meiri þekking hjá ESA á fjármálaeftirliti eða orkumálum, og samt var Tveggjastoða fyrirkomulagið notað í þeim málaflokkum. Þess vegna eru innantómar röksendir fyrir því að meðhöndla járnbrautarmálin öðruvísi.
Það, sem Stórþingið getur gert til að viðhalda trúverðugleika EES-samningsins og sýna Íslandi og Liechtenstein virðingu, er að biðja ríkisstjórnina að endurskoða frumvarpið þannig, að valdframsalið verði til ESA og EFTA-dómstólsins. Þá verður líka unnt að sneiða hjá framsali löggjafarvalds til framkvæmdastjórnar ESB, sem stefnir í í þessu máli, með því að reglugerðir hennar og tilskipanir þessu lútandi verði meðhöndlaðar á vanalegan hátt í EES og taki ekki gildi fyrr en eftir samþykki í Sameiginlegu EES-nefndinni.
Stjórnarandstöðuflokkarnir, Verkamannaflokkurinn, Miðflokkurinn, SV, Rautt og MDG, eru allir á móti járnbrautarpakkanum. Það er þó 4 atkvæðum of lítið til að koma í veg fyrir meirihlutasamþykkt í Stórþinginu. Gagnrýnisraddir frá Íslandi gætu e.t.v. fengið einhverja stjórnarliða til að endurskoða hug sinn til þessa máls.
Þeir einu, sem hagnast á járnbrautarpakka, sem veikir EFTA-stoðina í EES, eru ESB-sinnar, sem dreymir um einnarleiðar farmiða inn í ESB, og þeirri leið óskar aðeins minnihluti Norðmanna og Íslendinga eftir.
Þessi pistill er reistur á grein eftir formann "Nei til EU" í Noregi, Roy Pedersen, sem fylgir í viðhengi pistilsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)