Fullveldið er fjársjóður

Forfeðrum okkar og formæðrum í Noregi var frelsishugsjónin í blóð borin. Bændur á Vesturlandinu norska börðust gegn valdabrölti kóngsins í Víkinni (nú Ósló (lóð ásanna)), og þegar þeir sáu, að þeir höfðu ekki bolmagn til að verjast hernaðarmætti kóngsa (Haraldar hárfagra), sem vildi sameina Noreg í eitt ríki, þá seldu þeir sumir hverjir jarðir sínar, fjárfestu í rándýrum skipakosti (allt að 400 MISK/stk að núvirði) og freistuðu gæfunnar á Bretlandseyjum, Færeyjum og á Íslandi.  Með lævísi, tökum á siglingunum vegna norskra skipasmíða og hervaldi eða hótunum þar um tókst Noregskonungi síðar að ná tangarhaldi á þessum landsvæðum, byggðum afkomendum Norðmanna. Þegar Íslendingar brutust undan oki Danaveldis, sem höfðu vegna konunglegra mægða öðlazt völd í Noregi, í Færeyjum og á Íslandi auk Grænlands, sönnuðu þeir fyrir sjálfum sér og öðrum mátt og styrk sjálfstjórnunarinnar (fullveldisins), sem þeir höfðu barizt svo lengi fyrir. Ekkert hefur breytzt, sem ætti nú að leiða til betra lífs á Íslandi, gerist landið fylki í Noregi (sem ekki er í boði, nema í höfði grillupúka) eða fullgildur aðili að Evrópusambandinu (ESB). 

Engu að síður lifir frelsishugsjónin enn á meðal íbúa þessara landsvæða norska ríkjasambandsins, ekki sízt á Íslandi, og fullveldið hefur borið ríkulegan ávöxt hér.  Frelsishugsjón forfeðra okkar og formæðra var ekki bara reist á vilja þeirra til að lifa lífi sínu óháð fjarlægu valdi, sem þau höfðu enga stjórn á, heldur hafa þau áreiðanlega talið, að afkomu sinni væri bezt borgið með frelsinu til að haga málum sínum að eigin geðþótta innan marka laganna, sem ákveðin voru á héraðsþingum í Noregi (fyrirmynd íslenzkra héraðsþinga og Alþingis að breyttu breytanda).

Þegar við skoðum stöðu Íslendinga í samfélagi þjóðanna núna, hefur tekizt ótrúlega vel til. Varnarmálunum hefur verið skipað, eins vel og kostur er fyrir herlaust land úti í Atlantshafi, hvers lega skapar talsvert hernaðarlegt mikilvægi.  Landið gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum án þess að segja fyrst öxulveldunum stríð á hendur, eins og þó var krafa Vesturveldanna.  Það var farsæl ákvörðun fyrir framtíðar samskiptin við Þýzkaland, Ítalíu og Japan.

  Landið nýtur góðs af aðild að Fríverzlunarsamtökum Evrópu, EFTA, og á aðild að ýmsum fríverzlunarsamningum EFTA og tvíhliða fríverzlunarsamningum, en afdrifaríkastur er EES-samningurinn, sem EFTA gerði við ESB árið 1992 og 3 af 4 ríkjum EFTA hafa innleitt í sína löggjöf. Þessi samningur er ekki venjulegur fríverzlunarsamningur, heldur gerir hann kröfu um innleiðingu löggjafar ESB, sem framkvæmdastjórn Sambandsins telur varða Innri markaðinn, og er þetta skilyrði fyrir aðild að honum.

Þetta er að sjálfsögðu viðkvæmt mál fyrir fullvalda ríki, sem stendur utan samningsins, því að innleiðing löggjafar ESB á sér alls engar lýðræðislegar rætur í EFTA-ríkjunum, og dómsvaldið er líka að nokkru leyti flutt til EFTA-dómstólsins, sem dæmir samkvæmt löggjöf ESB og fylgir dómafordæmum ESB-dómstólsins.  Það eykur vandann, að Framkvæmdastjórnin er tekin að færa út kvíarnar, hvað varðar málefni Innri markaðarins, og eru persónuverndarlöggjöfin og orkulöggjöfin (orkupakkarnir) með eigin stofnunum dæmi um þetta.  Í EES-samninginum er þó að finna ýmsa varnagla fyrir EFTA-ríkin. Við innleiðingu OP3 var innleiddur í löggjöfina sá varnagli, að Alþingi skyldi þurfa að samþykkja lagningu aflsæstrengs til Íslands, og var það vel.  Í raun og veru eiga þessir orkupakkar ESB ekkert erindi við Íslendinga, á meðan landið er ótengt við raforkukerfi ESB-ríkjanna. 

Þann 10. júlí 2021 birtist í Morgunblaðinu grein um mikilvægi þess fyrir Íslendinga að vera á varðbergi gagnvart útþynningu lýðræðis og fullveldis í nafni meints "frjálslyndis", sem eru í raun alger öfugmæli sem lýsing á stefnu þeirra, sem telja nú mestu varða fyrir Íslendinga að fela framkvæmdastjórn ESB völd til að ráðskast með málefni Íslands, eins og ráðherraráði og þingi ESB þóknast hverju sinni.  Það er með ólíkindum, að nokkur hérlendis skuli vera svo blindur á staðreyndir, sögulega lexíu og lítilla sanda og sæva að vilja fela ríkjasambandi, sem stefnir á að verða sambandsríki Evrópu, forsjá fullveldis landsins rúmlega 100 árum, eftir að það var endurheimt frá Dönum. Sem betur fer nær áróður fyrir þessari fúlu stefnu litlum hljómgrunni á meðal þjóðarinnar, en þó setja a.m.k. 2 stjórnmálaflokkar á Alþingi, Samfylkingin og Viðreisn, þetta mál á oddinn hjá sér, og píratar virðast hallir undir þennan málflutning líka, þótt þeir virðist hafa lítinn áhuga á öðru en skrumi, pólitískum upphlaupum og "nýrri stjórnarskrá", sem mikil dulúð hvílir yfir.  

Téð Morgunblaðsgrein er eftir manninn í baráttusæti Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi, Arnar Þór Jónsson- AÞJ, og nefnist:

"Höfum það sem sannara reynist".

Greinin var rituð af því tilefni, að Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og nú innarlega á gafli hjá Viðreisn, fékk birta í Morgunblaðinu 8. júlí 2021 grein, þar sem hann með útúrsnúningi reynir að kenna baráttumál AÞJ við andstöðu við "fjölþjóðastefnu", "Evrópusamstarf" og skort á frjálslyndi, m.ö.o. einangrunarhyggju.  Það er til marks um vondan málstað ÞP og Viðreisnar að gera andstæðingum sínum upp skoðanir og deila síðan á þá fyrir þær:

"Í greininni segir Þorsteinn m.a.: "Sjálfstæðismenn í suðvesturkjördæmi ákváðu nýlega að setja í baráttusæti á lista sínum í þessu sterkasta vígi flokksins einn helzta andófsmann EES-samningsins, sem auk þess var aðalhugmyndafræðingurinn í andstöðunni við þriðja orkupakkann.  Áður skipaði þetta sæti talsmaður frjálslyndra viðhorfa í flokknum.""

Þetta er skrýtið hnoð hjá ÞP. Hvaða skilning ætli Þorsteinn leggi í þau hugtök, sem þarna er fleygt fram, eins og t.d. "frjálslyndur".  Bezt gæti ég trúað, að sá sé "frjálslyndur" í huga ÞP, sem er alveg sama, hvernig íslenzka stjórnarskráin, lýðveldisstjórnarskráin, sem um 96 % atkvæðisbærra manna samþykkti árið 1944, er teygð og toguð og jafnvel hundsuð.  Það er mjög afbrigðilegt viðhorf, sem ekkert erindi á við þorra þjóðarinnar. 

Orðabókin skilgreinir hins vegan frjálslyndan þannig: "víðsýnn, umburðarlyndur og í stjórnmálum er sá frjálslyndur, sem beitir sér fyrir frjálsum markaði með sem minnstum afskiptum og er yfirleitt fremur umburðarlyndur í siðferðilegum efnum".  

Þessi lýsing á ágætlega við um Sjálfstæðisflokkinn frá fornu fari, og höfuðbarátta AÞJ á stjórnmálasviðinu hefur einmitt snúizt um að hefja upphafsgildi Sjálfstæðisflokksins til vegs og virðingar á ný.  Mörgum þykir mjög tímabært að beina flokkinum inn á þær brautir í meiri mæli en verið hefur um sinn. 

Meira úr hinni ágætu grein AÞJ:

"Sú "ákvörðun" sjálfstæðismanna, sem Þorsteinn vísar þarna til, er lýðræðisleg niðurstaða prófkjörs, þar sem alls 4772 manns greiddu atkvæði, fleiri í þessu kjördæmi einu en í prófkjörum allra annarra íslenzkra stjórnmálaflokka samtals á landsvísu.  Flokkur Þorsteins valdi ólýðræðislega á framboðslista sína." 

Sú klíkukennda aðferðarfræði við val á framboðslista fyrir Alþingiskosningar haustið 2021 sýnir, að flokkurinn er hallur undir valdboð að ofan og skortir lýðræðislegan þroska. Klíkunni í Viðreisn hefur farizt verkið einstaklega óhönduglega, t.d. gagnvart fyrrverandi formanni, sem sóttist eftir að leiða flokkinn í einu kjördæmanna.  Klíkan bauð honum neðsta sætið í Reykjavík. Síðan fékk klíkan pata af því, að búast mætti við klofningsframboði gamla formannsins, og þá bauð nýi formaðurinn þeim gamla 2. sætið í öðru Reykjavíkurkjördæmanna.  Þetta ákvað sá gamli að þiggja, en þá dró sá nýi allt til baka og kvað klíkuna ekki unna honum þessa sætis.  Nú er náttúrulega hver höndin uppi á móti annarri í þessu klíkuviðrini, sem Viðreisn nefnist.  Eitt er víst, að einkunnin "frjálslyndur" fer viðrininu afar illa. 

"Eftir útgöngu Breta hefur þessi straumur [í átt að "æ nánari samruna ESB-ríkjanna"-innsk. BJo]  orðið merkjanlega þyngri, sbr. frétt Reuters 8. júní sl. um þau ummæli utanríkisráðherra Þýzkalands, að afnema ætti neitunarvald aðildarríkja ESB í utanríkismálum. Smáríkjum á þannig ekki lengur að leyfast að standa í vegi fyrir meirihlutavaldi innan ESB.  Á sama tíma berast fregnir af sambærilegri einstefnuþróun í innanríkismálum aðildarríkjanna, því [að] framkvæmdastjórn ESB hefur tilkynnt, að hún hyggist stefna 7 ríkjum fyrir dómstól ESB vegna brota á Evrópureglum, m.a. Þýzkalandi fyrir að heimila þýzka stjórnarskrárdómstólnum að segja, að skattfé Þjóðverja skuli varið í samræmi við þýzku stjórnarskrána, en ekki samkvæmt Evrópurétti. Þeir, sem harðast vilja halda sig við ESB-draumsýnina [og á Íslandi eru ýmsir kaþólskari en páfinn-innsk. BJo], munu svara þessu með því að segja, að allar þessar málshöfðanir og valdbeiting þjóni göfugum tilgangi.  [Í Þriðja ríkinu var svipað haft á orði: "Der Erfolg berechtigt das Mittel"-innsk. BJo.]  Fram hjá því verður þó ekki horft, að slíkir einstefnutilburðir Brusselveldisins misvirða ítrekað lýðræðislegan vilja aðildarþjóðanna. Í framkvæmd víkur lýðræðið þar fyrir skrifræðinu og lýðveldin fyrir skrifstofuveldinu. 

 Íslendingar þurfa ekki að rýna í neina krystalskúlu til að sjá, hver staða smáríkja í slíku fyrirkomulagi kemur til með að vera.  Stærstu ríkin, sem leggja fram mest fjármagn, verða ráðandi í öllum meginatriðum."

Þróun stjórnfyrirkomulags ráðherraráðsins er í átt til atkvæðagreiðslna með veginni þyngd hvers ráðherra samkvæmt hlutfallslegum mannfjölda í ríki hans og til afnáms neitunarvalds einstakra ráðherra. Ríki verða því ofurliði borin í atkvæðagreiðslu, og atkvæði okkar ráðherra mundi vigta um 1/1000.  Við mundum týnast í mergðinni, og sjálfstæði Íslands mundi heyra fortíðinni til.  Hvers konar framtíðarsýn er það ?

Í landsöluáróðrinum hefur verið reynt að draga fjöður yfir þessa náköldu baksviðsmynd ESB-trúboðsins með hagfræðilegum vangaveltum um, að Íslendingum mundi vegna betur með EUR en ISK. Það hefur þó aldrei verið sýnt fram á það, að hagvöxtur og stöðugleiki verðlags muni vaxa í litlu hagkerfi með því að taka upp mynt stórs hagkerfis, sem sveiflast með allt öðrum hætti en litla hagkerfið.  Þeim, sem eru í vafa um hagfræðileg rök fyrir því að kjósa ISK fram yfir EUR, er bent á að lesa grein eftir Adam Glapinski, prófessor í hagfræði og forseta ríkisbanka Póllands, í Morgunblaðinu, 13.07. 2021. 

"Skrif Þorsteins bera vott um skeytingarleysi gagnvart fullveldi Íslands, því [að] hagsmunir Íslands samræmast illa þeim veruleika að vera jaðarsett og áhrifalaust smáríki gagnvart æðsta valdi innan ESB.  Hugsjónir um sjálfsákvörðunarrétt þjóða og alþjóðlega samvinnu eru ekki í takti við þá vaxandi einstefnu, sem nú blasir við á vettvangi ESB. Fullveldi felur í sér, að íslenzk lög séu sett af lýðræðislega kjörnu Alþingi og að æðsta túlkunarvald um þau lög sé hjá íslenzkum dómstólum. Vilji menn ofurselja íslenzka kjósendur öðru fyrirkomulagi, er sjálfsagt, að viðkomandi láti á það reyna í lýðræðislegum kosningum." 

Íslenzka stjórnarskráin takmarkar alþjóðasamvinnu nánast við þjóðréttarlegar skuldbindingar á borð við aðild að Sameinuðu þjóðunum, NATO og Hafréttarsáttmálanum, en þegar kemur að samstarfi, sem felur í sér að lúta yfirþjóðlegu valdi með innflutningi á erlendri löggjöf, sem hefur vel merkjanleg áhrif á daglegt líf íslenzkra ríkisborgara, þá vandast málið augljóslega, ekki aðeins gagnvart íslenzku stjórnarskránni, heldur einnig í Noregi gagnvart hinni norsku.

Á vettvangi EFTA/ESB við gerð EES-samningsins var brugðizt við þessum vanda með því að búa til lögfræðileg lausn, hálfgerða hrákasmíði, enda ætlað standa til bráðabirgða fram að inngöngu í ESB, sem kallast tveggja stoða fyrirkomulagið, þar sem stofnanir EFTA-ríkjanna eiga að spegla ESB stofnanir.  Þar speglar ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) Framvæmdastjórnina og EFTA-dómstóllinn ESB-dómstólinn. Evrópusambandið virðist verða æ þreyttara á þessari sérsniðnu lausn, og samhliða fjölgun stofnana þess hefur það krafizt sömu valda þeirra yfir viðkomandi málefnasviðum í EFTA-ríkjunum og á við í ESB-ríkjunum.  Dæmi um þessar stofnanir eru Persónuverndarstofnun ESB, Fjármálaeftirlitsstofnun og Orkustofnun ESB (ACER). EFTA-ríkin hafa þó ekki atkvæðisrétt í þessum stofnunum, aðeins áheyrnar- og tillögurétt. 

Þessi þróun í átt til aukinnar miðstjórnar í ESB veldur því, að EFTA-þjóðirnar verða að gæta betur að fullveldi sínu en áður var þörf á innan EES og knýja á um undanþágur í meiri mæli. Regluverkið á Íslandi er líka orðið svo íþyngjandi fyrir fyrirtæki og almenning, að það stendur framleiðniaukningu fyrir þrifum og þarfnast stórfelldrar grisjunar, eins og OECD hefur nýlega bent á. Embættismenn hafa af tillitsleysi við hagsmuni almennings plantað frumskógi reglugerða, sem erfitt og kostnaðarsamt er að rata í, sérstaklega fyrir lítil fyrirtæki, og þannig eru flest fyrirtæki á Íslandi.

"Í því samhengi mun mér gefast tækifæri til að draga fram veikleika og misskilning, ef ekki afbökun, í málflutningi Þorsteins og annarra, sem horfið hafa frá sjálfstæðisstefnunni og telja nú "augljóst", að fríverzlun útheimti fullveldisframsal til yfirþjóðlegs embættismannavalds og stofnanaveldis í fjarlægum borgum. Þennan draug hafa Bretar kveðið niður eftir útgöngu sína úr ESB með tvíhliða samningum við önnur ríki [og við ESB-innsk. BJo].  Lausnin felst einfaldlega í gagnkvæmri viðurkenningu framleiðslustaðla, auk synjunar- og neitunarvalds, þar sem það á við.  

Hvað sem firrum Þorsteins Pálssonar kann að líða, er Íslandi þessi leið fær sem fullvalda ríki án þess að ofurselja sig erlendu lagasetningar- og túlkunarvaldi.  Þetta er hrein skynsemi og stendur nær klassísku frjálslyndi í framkvæmd en ákall Þorsteins Pálssonar um blint íhald, undirlægjuhátt, miðstýringu og órjúfanlega tryggð við ESB, allt á kostnað sjálfsákvörðunarréttar og lýðræðis.  Ég treysti kjósendum til að hafna gervistjórnmálum, sýndarlýðræði og gervifrjálslyndi af þeim toga, sem Þorsteinn Pálsson boðar nú."

Það neistar undan hófförum ritfáks AÞJ, þar sem hann ríður á hólm við ÞP. Það er kominn tími til að hrekja af snerpu villukenningar falsspámanna um utanríkismál Íslendinga. Hvað gengur þeim til ? Í Fréttablaðinu 15.07.2021 heldur ÞP sig við firrur sínar og líkir jafnvel aðild Íslands að NATO við þá aðild að ESB, sem hann berst fyrir. Barnalegri málflutning er vart hægt að hugsa sér, og getur hann vart orðið Viðreisnarhrófinu til vegsauka, því að hann sýnir málatilbúnað án tengsla við raunveruleikann, eins og tíðkast innan raða sértrúarsafnaða.

Með NATO-aðild höfum við undirgengizt, að árás á einn er árás á alla, en er hægt að hugsa sér meiri öryggistryggingu fyrir herlaust land en slíkan samning við öflug vestræn herveldi ?  NATO semur ekki lög, sem hægt er að þröngva upp á Ísland, enda hafa aðildarlöndin neitunarvald um samþykktir varnarbandalagsins.  NATO rekur heldur ekki dómstól, sem er fordæmisgefandi um uppkvaðningu dóma, er varða Ísland.  Þessi samanburður er algerlega út í hött og sýnir, að málstaður Viðreisnar er vondur.  

 

 


Bloggfærslur 15. júlí 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband