Að eiga ekkert erindi

 

Vinstra moðverkið í stjórnarandstöðunni hérlendis á ekkert erindi við íslenzka kjósendur.  Það sýndu úrslit Alþingiskosninganna 25. september 2021.  Þessir flokkar voru gerðir algerlega afturreka með stefnumál sín.  Að hætti kreddumanna neitaði jafnaðarmannatrúðurinn Logi Einarsson að viðurkenna, að stefnan væri röng, heldur hefði aðferðarfræðin brugðizt. Kosningabarátta Samfylkingarinnar var að vísu algerlega misheppnuð, en aðalatriðið er, að kjósendur höfnuðu fikti við Stjórnarskrána, fikti við Evrópusambandið og fikti við sjávarútveginn.  Kjósendur vita, að forysta Samfylkingarinnar er óhæf til að fást við þessi mál og höfnuðu þess vegna flokkinum. 

Svipaðar ástæður liggja til grundvallar slöku gengi Viðreisnar.  Úr þeim herbúðum heyrast ásakanir á hendur Seðlabankastjóra fyrir að hafa minnkað byr í segl Viðreisnar með því að mæla algerlega gegn þeirri fullyrðingu formanns Viðreisnar, að auðvelt sé og áhættulítið vegna öflugs gjaldeyrisvarasjóðs að tengja gengi ISK við EUR, og að slíkt muni bæta hag launþega og fyrirtækja. Málflutningur Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur í þessa veru er algerlega órökstuddur og aðeins reistur á innantómum fullyrðingum hennar og samanburði við Króatíu, sem er algerlega út í hött.  Í stuttu máli veltir Viðreisn sér upp úr hreinni þvælu og er ekkert annað en leppur ESB.  Það skín í gegn um sjávarútvegsstefnu hennar, sem er afrit af grænbók ESB um CFP (Sameiginlega fiskveiðistefna framtíðarinnar). Leita þarf allt til sósíalista til að finna ókræsilegra framboð. 

Meginboðskapur pírata, ef boðskap skyldi kalla, var borgaralaun á alla.  Þessi boðskapur fór fyrir ofan garð og neðan hjá kjósendum, sem að þorra til skilja lögmál efnahagslífsins betur en píratar, sem reyndust algerir ratar við að útskýra hugarfóstur í þokuheimum. Einhver hefur sagt þeim, að sjálfvirknivæðing 4. iðnbyltingarinnar muni leiða til fjöldaatvinnuleysis.  Þetta er reginmisskilningur á eðli tæknivæðingar.  Við hana verða ný störf til, en fólki fækkar í öðrum. Nýsköpun og hagvöxtur á grundvelli framleiðniaukningar leiðir til aukinnar spurnar eftir vinnuafli af ýmsu tagi.  Lýðfræðileg þróun þjóðfélagsins veldur fjölgun umönnunarstarfa, og fækkun fæðinga á hverja konu niður fyrir 2,1 (er núna nálægt 1,6 á Íslandi) veldur senn minnkun aukningar framboðs vinnufúsra handa og huga og mun á endanum valda fækkun á vinnumarkaði, eins og þegar er komin fram í Japan.  Skilningsleysi pírata á eðli þess þjóðfélags, sem þeir lifa í, veldur því, að framboð þeirra til forystu í þjóðfélaginu er ekki til annars fallið en skellihláturs. 

Öðru máli gegnir um sósíalistana.  Gagnvart byltingarhjali þeirra og stóryrðum, t.d. um að breyta Valhöll í almenningssalerni og ryðja Hæstarétt, er rétt að vera á varðbergi, því að undanfari slíks hlýtur að vera ofbeldisástand og lögleysa í samfélaginu.  Ekki þarf að fjölyrða um fullyrðingaflaum og sögufalsanir strigakjaftsins Gunnars Smára, enda gengur sá maður varla heill til skógar.  Alla vega áttuðu vissir kjósendur sig í tíma á því, að hann ætti ekkert erindi á þing, og rötuðu heim til föðurhúsanna í VG.

Þann 23. september 2021 birtist í Morgunblaðinu grein eftir Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra fyrirtækja í sjávarútvegi, og Ólaf Marteinsson, formann þeirra samtaka, en sjávarútvegurinn mátti sæta linnulausum hótunum af hálfu Samfylkingar, Viðreisnar, pírata o.fl., um aðför stjórnmálamanna að rekstri þessara fyrirtækja með því að ræna þau nýtingarrétti á sjávarauðlindinni í íslenzkri lögsögu, sem fyrirtækin hafa keypt sér eða þau áunnið sér með veiðireynslu, með þjóðnýtingu eða að stórhækka veiðigjöldin, sem eru sérskattur á þessa atvinnugrein og nema þriðjungi hagnaðar, sem er hátt hlutfall.  Viðundrið í formennsku hjá Viðreisn, sem ekki hefur gripsvit á sjávarútvegi, sendi útgerðarmönnum þá köldu kveðju fyrir kosningar, að með núverandi veiðigjaldakerfi væri verið "að verðlauna skussana".  Hvers konar hugarfar býr að baki svona orðaleppum hjá fyrrverandi sjávarútvegsráðherra (þeim versta) ?

"Íslenzkur sjávarútvegur hefur nú þegar náð markverðum árangri í loftslagsmálum.  Á undanförnum árum hefur sjávarútvegur notað helmingi minna af olíu en hann gerði á 10. áratugi síðustu aldar.  Í samanburði við olíunotkun greinarinnar á fyrsta áratugi þessarar aldar nemur samdrátturinn 40 %.  Vissulega er olíunotkun háð framleiðslu á hverjum tíma, en almennt stækkar kolefnisspor atvinnugreina með auknum umsvifum.  Sjávarútvegi hefur á hinn bóginn tekizt að draga úr olíunotkun og minnka kolefnisspor sitt án þess, að það komi niður á framleiðslu og gott betur.  Lykilþáttur í þessari þróun er afgerandi, en hann felst í fiskveiðistjórnunarkerfinu, sem sjávarútvegurinn byggist á."

Sjávarútvegurinn er markaðsdrifinn og er ekki, fremur en önnur atvinnustarfsemi, rekinn til að þjóna einhverjum réttlætishugmyndum sérlundaðra stjórnmálamanna, sem telja sig handhafa réttlætishugtaksins.  Þetta er ekki hlutverk sjávarútvegsins, og þetta er heldur ekki hlutverk stjórnmálamanna með réttu. Frá náttúrunnar hendi býr sjávarútvegurinn við óstöðugleika, eins og alkunna er, og með núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi er leitazt við að veita stjórnkerfi hans hámarksstöðugleika, en hið sama verður ekki sagt um sjálfskipaða sérfræðinga á sviði fiskveiðistjórnkerfa.  Þannig verður heildaróvissu fyrirtækja, starfsmanna og byggðarlaga haldið í lágmarki.  Þetta hafa kjósendur skilið, því að þeir lýstu frati á þá stjórnmálaflokka, sem sækjast eftir að setja sjávarútveginn í uppnám.

Enginn vafi er á því, að verði farið að rýra aflaheimildir útgerðanna umfram það, sem núverandi löggjöf heimilar í því skyni að hámarka afrakstur miðanna til langs tíma, þá verður fjármagnsflótti úr greininni, enda er hlutfallslegur hagnaður hennar nú þegar minni en að meðaltali í öðrum atvinnugreinum landsins. Slíkt mun strax leiða til minni fjárfestinga í greininni, sem hægja mun á tækniþróuninni þar.  Það er einmitt hún, sem er undirstaða hins góða árangurs í eldsneytismálum, sem lýst er hér að ofan. Það hefur verið sjávarútveginum hagfellt að stunda þessa tækniþróun, og þess vegna hefur hann náð frábærum árangri við að minnka kolefnisfótspor sitt í t CO2íg/t afla.  Þessu mun hann halda áfram, því að á mörkuðum hans fer fram samanburður á milli samkeppnisaðila á kolefnisfótspori lokaafurðar. 

 

Óvíst er með hagkvæmni framleiðslu metanóls eða annarra s.k. "rafeldsneytisafbrigða", en ef olíuafurðir úr repju og nepju væru framleiddar í meiri mæli hérlendis, mundi sjávarúrvegurinn vafalítið geta notfært sér þær olíuafurðir í talsverðum mæli áður en lokaskrefið verður stigið í orkuskiptum um borð, hvernig sem þau verða. Framleiðsla sjávarútvegsins (án fiskeldis) mun vonandi fara vaxandi og hann samt verða kolefnishlutlaus á næsta áratugi.   

 "Virðisaukning vegna vinnslu á fiski af Íslandsmiðum fer að langmestu leyti fram á Íslandi, og svo mun verða, [á] meðan samkeppnisstaðan er tryggð.  Hina miklu áherzlu á fullvinnsku hér heima má glögglega sjá í mikilli fjárfestingu sjávarútvegsfyrirtækja í hátæknivinnslum víða um land.  Þess þarf hins vegar að gæta, að opinber gjöld úr hófi á heimavígstöðvunum verði vinnslunni ekki fjötur um fót." 

Það er grundvallaratriði fyrir verðmætasköpun í landinu og viðhald blómlegrar byggðar, þar sem útgerð er stunduð að ráði, að fullvinnsla fari þar fram. Til að sú fullvinnsla sé sjálfbær (varanleg), verður hún að fara fram á viðskiptalegum grundvelli, þ.e. að vera samkeppnishæf við erlendar fiskvinnsluverksmiðjur. Launakostnaður er mun hærri á Íslandi en í samkeppnislöndunum, og þess vegna verður samkeppnishæfni ekki náð á þessu sviði hérlendis án mikillar sjálfvirknivæðingar.  Hún útheimtir miklar fjárfestingar, og aðeins fjárhagslega öflugir bakhjarlar með viðunandi tryggingu um stöðugleika í rekstrarumhverfi treysta sér í slíkar fjárfestingar.  Lykilatriði í þessu sambandi er góð nýting framleiðslutækjanna, og þá þarf fjárfestirinn að ráða aðgangi að hráefni. Með ótímabundnum nýtingarrétti á miðunum innan ramma aflamarks í hverri tegund á hverjum tíma og markaðssetningu á einni hendi er hægt að slá tvær flugur í einu höggi, þ.e. að hámarka nýtingu framleiðslutækja á sjó og landi og að hámarka afurðaverðið með því að skipuleggja starfsemina út frá þörfum markaðarins. Þetta er íslenzka kerfið, og það hefur einfaldlega gefizt bezt m.t.t. að hámarka afrakstur fiskveiðiauðlindarinnar. 

Nokkrir stjórnmálamenn hafa ekki fellt sig við þetta fyrirkomulag, talið sig handhafa réttlætisins og kokkað upp eða afritað misheppnað fyrirkomulag annars staðar frá í nafni réttlætisins.  Það er hins vegar ekki hlutverk neins atvinnurekstrar að reyna að fullnægja einhverju tilbúnu og umdeilanlegu réttlæti. Allur atvinnurekstur á að standa jafnt að vígi gagnvart lögunum, þ.m.t. skattalögunum. Íþyngjandi sérákvæði gagnvart einni atvinnugrein ganga í bága við stjórnarskrárgrein um atvinnufrelsi. Hins vegar er almenn sátt um, að löggjöf fiskveiðistjórnunar setji sjávarútvegsfyrirtækjum ramma um nýtingu auðlindarinnar, sem reist er á vísindalegri ráðgjöf um sjálfbæra nýtingu og langtíma hámarksafrakstur.

Eitt af þessum afstæðu "réttlætismálum" (eins réttlæti er þá á kostnað annars) er að þvinga allan afla á markað.  Hængurinn við þetta er, að umboðsmenn erlendra fiskverkenda geta þá yfirboðið íslenzkar fiskvinnslur, af því að kostnaðurinn erlendis er lægri.  Ef þetta gengi eftir, stæðu miklar fjárfestingar vannýttar og afkomugrundvelli fjölda fólks í traustum sjávarbyggðum yrði kippt undan því.  Þannig gæti þetta afstæða réttlæti virkað.  Réttlæti stjórnmálamanna virkar yfirleitt með þessum hætti.  Af kosningaúrslitunum hérlendis í september 2021 má ráða, að almenningur er sér meðvitaður um, að slíkt afstætt réttlæti gagnast ekki hagsmunum hans.  Það, sem gagnast hagsmunum hans, er hámarks atvinnuframboð og hámarks verðmætasköpun í landinu sjálfu.  Á ensku kallast þetta "non nonsense politics" eða stjórnmál án vitleysu. 

"Það, sem hér hefur verið upp talið [um starfsemi sjávarútvegsins], byggist á því, að sjávarútvegsfyrirtæki hafa haft fyrirsjáanleika og trygga úthlutun aflaheimilda. Væri ekki svo, myndu fyrirtækin ekki fjárfesta til langframa, enda væri með því mjög óvarlega farið. Fyrirtæki fjárfesta ekki, þegar sú hætta vofir yfir, að stórfelldar breytingar verði gerðar á rekstrarumhverfinu.  Það segir sig sjálft.  Ef sjávarútvegur hættir að fjárfesta, mun ekki aðeins draga úr samkeppnishæfni, heldur munu mörg önnur fyrirtæki, starfsmenn þeirra og landshlutar, ekki fara varhluta af því."  

Það er grundvallaratriði fyrir vöxt og viðgang sjávarbyggðanna og þar með í raun landsbyggðarinnar, að sjávarútvegurinn hafi bolmagn til mikilla fjárfestinga.  Hann hefur það aðeins, ef sú atvinnugrein gefur sambærilegan hagnað og önnur starfsemi yfirleitt.  Undanfarin ár hefur hagnaður í sjávarútvegi verið undir meðaltali annarra atvinnugreina.  Til sannindamerkis um það, sem Heiðrún og Ólafur rita hér að ofan, er, að strax eftir síðustu kosningahelgi varð veruleg hækkun á markaðsvirði fyrirtækja í Kauphöll Íslands, einkum sjávarútvegsfyrirtækja.  Líkur minnkuðu mjög á pólitískum asnaspörkum í sjávarútveginn, og fyrirtækjunum barst þarna fjármagn, sem þau geta nýtt til fjárfestinga.   

Eigandi gengur betur um eign sína    

 

 


Bloggfærslur 27. september 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband