"Góðar samgöngur eru fyrir alla"

Fyrirsögnin eru einkunnarorð á vefsetrinu https://samgongurfyriralla.com , sem áhugahópur borgara um bættar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu stendur að.  Einkunnarorðin gætu líka verið "Betri samgöngur fyrir alla" með skírskotun til núverandi ástands, þar sem talið er, að tímasóun vegna frumstæðrar ljósastýringar, þrengsla og kauðslegra, stórhættulegra gatnamóta, nemi 30-40 mrdISK/ár.  Slysakostnaður og eldsneytiskostnaður er ekki inni í þessu tölulega mati, heldur aðeins verðmæti tímans, sem fer í súginn. Þetta ástand hafa núverandi borgaryfirvöld kallað yfir vegfarendur og fjárhag heimila og fyrirtækja með óskiljanlegri þvermóðsku og framkvæmdastoppi á Vegagerðina, sem ábyrg er fyrir þjóðvegum í þéttbýli. Þessi hegðun ætti að binda enda á valdabrölt þeirra misheppnuðu, einstaklinga, sem skipa meirihluta borgarstjórnar og berjast fyrir lífstílsbreytingu almennings. Minnir það ónotalega á gamla sovétið, þar sem skapa átti "homo sovieticus". 

Lausn þvergirðinga og þursa í meirihluta borgarstjórnar er engin lausn, heldur magnar hún tafirnar, svo að tafakostnaðurinn mun tvöfaldast á næstu tveimur áratugum, ef sú leið, leið miðlægra sérakreina fyrir almenningsvagna, verður farin.  Bergþursar halda því fram, að vonlaus úrbótaaðferð sé að fjölga akreinum og losna við ljósastýrð gatnamót með mislægum gatnamótum á helztu umferðarásum höfuðborgarsvæðisins, af því að þá fjölgi bílunum enn þá meira og fulllesti umferðarmannvirkin.  Þetta er úr lausu lofti gripið í því samhengi, sem hér um ræðir, en alveg dæmigerður afturhaldsmálflutningur, sem svipar til fíflagangsins í virkjanaumræðunni, þar sem streitzt er á móti nýjum virkjunum, af því að þær verði bráðlega fullnýttar líka. 

Umferðarsérfræðingar á ofannefndu vefsetri halda því aftur á móti fram, að sú tæknilega og framfarasinnaða lausn að losna við ljós og þar með þverandi akstursstefnur í sama plani á helztu umferðaræðum muni duga sem lausn á umferðarvanda höfuðborgarsvæðisins í heila öld, ef jafnframt verður horfið af braut óþarfra þrenginga og hraðalækkana og farin leið téðs áhugahóps um nýjar sérreinar fyrir almenningsvagna hægra megin núverandi akreina.  

Almenningi hafa verið kynntar þessar hugmyndir í fjölmiðlum.  Einn sá ötulasti í þessum hópi er prófessor í verkfræðigrein (straumfræði) í HÍ, Jónas Elíasson.  Eftir hann birtist grein í Morgunblaðinu 8. desember 2021 undir fyrirsögninni:

"Létta borgarlínan".

Hún hófst þannig:

"Létta borgarlínan er kerfi fyrir almenningssamgöngur með sama þjónustustigi og hin upphaflega þunga borgarlína, en kostar aðeins brot af henni.  Munurinn er, að sérstakar akreinar fyrir vagnana eru hægra megin, en ekki í miðri götu.  Í þessu liggur gríðarlegur sparnaður (um 1,2 mrdISK/km) án þess, að neinu sé fórnað, en skipulagslegur ávinningur er mikill. 

Létta línan gefur möguleika á að byggja kerfið upp í áföngum og útilokar ekki, að miðjubrautirnar [verði] gerðar seinna, ef þörf verður fyrir þær og möguleiki finnst á að koma þeim fyrir.  Því má líta á léttu borgarlínuna sem fyrsta áfanga af þeirri þungu.  Að óbreyttum farþegafjölda verður ekki þörf fyrir miklar brautarlagnir strax; aðrar aðgerðir, sérstaklega þær, sem varða nýtingu á nýrri tækni, og loftslagsmálin eru meira aðkallandi." 

Hin þunga borgarlína er umferðartæknilegt örverpi við íslenzkar aðstæður, sem verður líklega aldrei nokkur spurn eftir.  Létta borgarlínan slær þungu borgarlínuna bæði út í fjárfestingarupphæð og rekstrarkostnaði.  Sú þunga útheimtir vart minna fjárfestingarfé en mrdISK 100, en sú létta þarf minna en mrdISK 20.  Tafakostnaður bílaumferðar einvörðungu vegna þungu borgarlínunnar mun nema um 40 mrdISK/ár um árið 2040, og má við samanburðinn færa þetta sem viðbótar rekstrarkostnað þungu borgarlínunnar, en sú létta mun ekki valda töfum.  Þetta er svo sláandi mikill mismunur, að hið opinbera hlutafélag, sem á að fást við þessar framkvæmdir, verður að taka tillit til hans.

Ef borgaryfirvöld á borð við núverandi afturhald hefðu ráðið Reykjavík frá aldamótum 1900 væri höfuðborgin varla svipur hjá sjón, framfaraskref á borð við rafvæðingu og hitaveituvæðingu hefðu verið í skötulíki og íbúum höfuðborgarinnar hefði fjölgað lítið, því að þeim hefði ekki gefizt kostur á öðru en að búa í þröngum hnappi í kringum 101 R., og samgönguæðar og bílastæði hefðu verið skorin við nögl í Aðalskipulagi.  Núverandi borgaryfirvöld draga lappirnar og skemma fyrir framfaramáli á borð við Sundabraut og brjóta þannig samgöngusáttmálann títtnefnda.  Í Morgunblaðinu 26. nóvember 2021 birtist frétt með eftirfarandi fyrirsögn:

"Sundabraut hluti af samgöngusáttmála".

Hún hófst þannig:

""Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa skipulagsvaldið.  Um leið sækja þau á ríkið um fjármagn í samgöngum", sagði Vilhjálmur Árnason, alþingismaður, sem hefur setið í umhverfis- og samgöngunefnd þingsins.  Hann minnti á, að gerður hafi verið samgöngusáttmáli milli ríkisins og 6 sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, oft kallaður höfuðborgarsáttmáli.  Í honum felst, að sveitarfélögin hagi skipulagsmálum sínum þannig, að áform ríkisins um uppbyggingu gangi eftir.

"Sundabraut er hluti af höfuðborgarsáttmálanum, og sveitarfélögin þurfa að gera hana skipulagslega mögulega.  Ef þau eru tilbúin að mæta ríkinu í skipulagsmálum þannig, að hægt sé að bjóða upp á betri samgöngur og fjölbreytta ferðamáta á öllu svæðinu, þá kemur ríkið að fjármögnun á uppbyggingunni", sagði Vilhjálmur."

Það er ekki hægt að eiga samstarf við borgina um nein framfaramál, á meðan bergþursar sótsvarts afturhalds sitja þar að völdum, enda hafa þeir ekki staðið við neitt í þessu samkomulagi.  Ríkið vill leggja Sundabraut og reisa mislæg gatnamót, en bergþursarnir vilja stefna bílaumferðinni í öngþveiti. Ríkið vill leggja grunn að framtíðarnotkun Reykjavíkurflugvallar, en bergþursarnir vilja skipuleggja lóðir þarna í Vatnsmýrinni.  Bergþursar vinna allt með öfugum klónum.

"Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og fleiri bentu okkur í nefndinni [Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis] á, að það ætti að vera mislægur samgönguás í gegnum höfuðborgarsvæðið, þannig að t.d. þungaflutningar þurfi ekki að stoppa í borgartraffík, heldur komist greiðlega leiðar sinnar. Þótt hágæða almenningssamgöngur gangi upp 100 %, þá segir skýrslan [verkefnishóps samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra], að það verði 24 % aukning bílaumferðar [til 2033] með breyttum ferðavenjum, en annars 40 % aukning. Það eru því ekki forsendur fyrir því að þrengja að umferð bíla.  Við í meirihluta nefndarinnar vildum uppbyggingu fjölbreyttra samgangna, en ekki þannig, að einn samgöngumáti gengi á annan.  Það að ætla að fækka akreinum á Suðurlandsbraut er ekki í þessum anda og er í andstöðu við forsendur þessarar skýrslu um, að bílaumferð muni aukast þrátt fyrir öflugri almenningssamgöngur.""  

 Auðvitað eiga samgönguásar um höfuðborgarsvæðið ekki að vera stýrðir af umferðarljósum, eins og bergþursarnir í borgarstjórn vilja þó, heldur á umferð þeirra að ganga greiðlega um mislæg gatnamót.  Þótt engin aukning yrði frá núverandi umferð í Reykjavík, eru engin skilyrði fyrir hendi til að hægja enn á henni og auka slysahættu.  Bergþursar stunda skæruhernað gegn íbúunum í nafni afdankaðrar og einfeldningslegrar hugmyndafræði.  Þeir telja sig ekki kosna til að þjóna, heldur til að drottna og troða afdankaðri sérvizku sinni um fyrirkomulag umferðar og annars upp á teikniborð borgarinnar.

 

 

 


Bloggfærslur 27. janúar 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband