31.1.2022 | 10:35
Loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar eru í uppnámi
Þingmenn flestir og fjöldi annarra þreytast ekki á þeirri tuggu, að loftslagsmálin séu mál málanna í heiminum og einnig á Íslandi. Hvað Íslendinga varðar er staðan sú, að það er alveg sama hvað þeir gera. Þeir munu í öllum tilvikum hafa hverfandi, nánast engin, áhrif á styrk koltvíildis í andrúmslofti, og allt tal um að aðrar þjóðir líti hingað í leit að fyrirmyndum í orkumálum er ímyndun ein.
Við eigum engu að síður að einhenda okkur í orkuskiptin, en á réttum forsendum. Þær eru efnahagslegs eðlis, eins og heimurinn hefur fengið forsmekkinn af í vetur, og heilsufarslegs eðlis, því að bruni jarðefnaeldsneytis mengar nærumhverfið með sóti, brennisteinsildum, níturildum og þungmálmum.
Það er hins vegar löngu orðið ljóst, að fjölþjóðlegar skuldbindingar Íslands um 55 % minni losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 en árið 2005 eru í uppnámi, og líkur á því, að hægt verði að fara í nægilega hröð orkuskipti á komandi 8 árum til að standa við þessar skuldbindingar íslenzkra stjórnmálamanna, þ.e. ríkisstjórna Katrínar Jakobsdóttur nr 1 og 2, eru orðnar mjög litlar.
Ríkisstjórnin hefur búið til stórt verkefni og sett landsmenn í næstum óyfirstíganlega tímaþröng við að leysa það, en samt gerir hún ekkert til að skapa raunverulega möguleika á að leysa það, þ.e.a.s. að skapa viðunandi skilvirkt leyfisveitingaferli í raforkugeiranum, og deyfð orkufyrirtækjanna er sláandi. Landsvirkjun sótti ekki um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun í Neðri-Þjórsá fyrr en um mitt ár 2021 til Orkustofnunar, og hún hefur enn ekki virt umsóknina viðlits. Hvað er að ?
Sú staða er einstæð, að raforkuskortur frá endurnýjanlegum orkulindum hrjáir nú atvinnulífið og olía er brennd aftur til að knýja vaxtarbrodd þess, en ekki hillir undir framkvæmdaleyfi fyrir nýja virkjun á sama tíma. Áður hefur orðið raforkuskortur, en þá hefur ný virkjun jafnan verið á næstu grösum.
Þetta er grafalvarlegur vitnisburður um hræsni og yfirdrepsskap ríkisstjórnar og þings. Núverandi forstjóri Landsvirkjunar hefur upplýst opinberlega, að fyrirtækið hafi ítrekað vakið athygli ráðherra á, að samkvæmt lögum væri enginn ábyrgur fyrir því að koma í veg fyrir orkuskort í landinu. Ef þetta er gjaldið, sem Sjálfstæðisflokkurinn með ábyrgð á orkumálunum þarf að greiða fyrir ríkisstjórnarsamstarf við Vinstri hreyfinguna grænt framboð, þá er það einfaldlega of hátt.
Tveir stærstu losunaraðilarnir, sem ríkisstjórnin hefur skuldbundið landsmenn til að minnka losun frá, eru farartæki á landi og fiskveiðiskip. Farartæki á landi losuðu árið 2019 952 kt CO2, sem þarf að fara niður um 607 kt til ársins 2030. Þetta eru um 190 kt af jarðefnaeldsneyti, sem þarf að spara, og nota raforku í staðinn. Ef 90 % eru leyst af hólmi með rafgeymum, þarf um 1,0 TWh/ár vinnslu í virkjun til að hlaða þá, og ef 10 % eru leyst af hólmi með rafeldsneyti, þarf þarf um 0,2 TWh/ár til framleiðslu þess.
Fiskiskipin losuðu árið 2019 522 kt CO2, sem þarf að fara niður um 186 kt til ársins 2030. Þetta jafngildir um 58 kt af olíu, og um 0,6 TWh/ár vinnslu í virkjun þarf til framleiðslu rafeldsneytis í staðinn.
Þetta eru alls 1,8 TWh/ár í virkjun, og ætla má, að þörfin fyrir landtengingu farþegaskipa aukist um a.m.k. 0,2 TWh/ár, svo að til að ná markmiðunum um 55 % samdrátt losunar þessara notkunargeira í síðasta lagi 2030 m.v. árið 2005 þarf viðbótar orku og afl inn á raforkukerfi landsins, sem nemur 2,0 TWh/ár og 500 MW. Þetta er um 10 % aukning raforkuvinnslu á 8 árum eða um 250 GWh/ár og rúmlega 60 MW/ár. Aukning aflgetunnar er hlutfallslega tvöföld á við aukningu orkuvinnsluþarfar, því að notkunarmynztur orkuskiptanna er ójafnara yfir sólarhringinn en í núverandi raforkukerfi landsins.
Eins og nú horfir munu orkuskiptin á næstu 5 árum ganga svo hægt vegna orkuskorts, að næstum ómögulegt verður að ná loftslagsmarkmiðum ríkisstjórnarinnar 2030. Þessi dapurlega staða er í boði þeirra, sem mest hafa umhverfisvernd og "loftslagsvá" á vörunum í þjóðfélaginu, og pólitíska fulltrúa þeirra á þingi má m.a. finna í Vinstri hreyfingunni grænu framboði, sem sennilega hafa þannig náð lengst hérlendis í pólitískri hræsni og yfirdrepsskap.
Stjórnvöld geta ekki skýlt sér á bak við sofandi embættismenn, því að sterk aðvörunarorð komu frá fyrrverandi Orkumálastjóra, t.d. í jólahugvekjum hans, og fulltrúar atvinnulífsins hafa ekki dregið af sér við að lýsa áhyggjum sínum. Hér verður nú vitnað í einn úr þeim hópi:
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, birti 16. desember 2021 grein í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:
"Aðgerða er þörf í orkumálum þjóðarinnar".
Hún hófst þannig:
"Blikur eru á lofti í raforkumálum landsmanna. Undanfarið hefur umræða skapazt um, hvort raforka sé næg eða ekki, og sitt sýnist hverjum. Staðreyndirnar tala sínu máli. Skerða hefur þurft raforku til ákveðinna atvinnugreina, og hluti landsmanna hefur þurft að búa við það eftir óveður að vera án raforku í marga daga. Þá hefur komið fram, að ónýtt raforka rennur til sjávar engum til gagns vegna raforkukerfis, sem er úr sér gengið.
Óhætt er að fullyrða, að með núverandi orkusamningum sé búið að selja þá raforku, sem tiltæk er, og hún því uppseld. Líkt og Landsvirkjun hefur greint frá, þá hafa vinnslumet ítrekað verið slegin í vinnslukerfi Landsvirkjunar, nú síðast föstudaginn 3. desember [2021], þegar vinnsla fyrirtækisins [álag á kerfi LV-innsk. BJo] fór í fyrsta skipti yfir 1900 MW. "Við slíkar aðstæður verður mjög þröngt um tiltækt afl í vinnslukerfi Landsvirkjunar og það í raun alveg upp urið." Þá gerir orkuspá hins opinbera ráð fyrir aukinni raforkunotkun landsmanna á næstu árum og áratugum."
Væntanlega hefur raforkunotkun landsmanna farið talsvert yfir 20 TWh á árinu 2021, og forgangsorkugeta raforkukerfisins þar með verið fullnýtt. Eins og fram kemur hér að ofan, hefur legið við kerfishruni, þegar álagið var í hámarki, enda ekki nægt reiðuafl í kerfinu fyrir hendi þá til að bregðast við fyrirvaralausri alvarlegri bilun í kerfinu, t.d. rofi einnar af stærstu einingum kerfisins. Þetta sannaðist í viku 04/2022, þegar tengivirkisbilun varð í Nesjavallavirkjun með þeim afleiðingum, að talsverð orka var skert við Norðurál til viðbótar við fyrri skerðingu ótryggðrar orku.
Þetta sýnir, að höfuðvandamálið er ekki lélegt vatnsár, heldur skortur á aflgetu í kerfinu og þörf á betri nýtingu vatns. Hvort tveggja mun nást með virkjun í Neðri-Þjórsá, en hún getur falið í sér lausn á brýnum og klárum vanda, sem felst í of lítilli miðlunargetu Þórisvatns og of litlu raforkukerfi m.v. álag og þar af leiðandi stórhættu á raforkuskorti til 2027, eða þar til næsta virkjun af stærð um 100 MW kemst í gagnið. Er Orkustofnun enn að stauta sig fram úr virkjunarleyfisumsókn Landsvirkjunar, sem verður ársgömul í sumar ?
Núverandi kreppa raforkugeirans mun óhjákvæmilega hamla orkuskiptum og draga úr hagvexti, því að ekki er og verður ekki hægt næstu 5 árin að fullnægja spurn eftir raforku. Flotið hefur verið sofandi að feigðarósi með einstæðu athafnaleysi í boði sérvitringa um breyttan lífsstíl og núll-hagvöxt, sem tekizt hefur að koma ár sinni fyrir borð við ríkisstjórnarborðið og í ráðuneytunum með ofstækisáróðri um, að "náttúran verði að njóta vafans", þótt enginn vafi leiki á um, að takmörkuð og staðbundin áhrif nýrra virkjana séu langt innan viðunandi marka að teknu tilliti til ávinningsins, sem einnig getur falið í sér aukin loftgæði og bætt heilsufar.
Undantekning frá þessu eru vindmyllurnar, sem fela í sér óskilvirka aðferð og dýra með hvorki takmörkuð né staðbundin umhverfisáhrif m.v. ávinning. Vindmyllur eru lengi að vinna upp kolefnisfótsporið, sem myndast við námuvinnslu, framleiðslu og uppsetningu að meðreiknaðri gríðarlegri, steyptri undirstöðu undir tæplega 100 m háa súlu. Þá menga plastspaðarnir umhverfið við slit, valda hávaða og nokkur fugladauði er rakinn til þeirra erlendis. Íslendingum er nauðsynlegt og nægjanlegt að halda sig við fallorku vatns og við jarðgufuna, en enga nauðsyn ber til að spilla ásýnd landsins og jafnvel nærumhverfis byggðar með óskilvirkum búnaði til raforkuvinnslu úr vindorkunni.
Grein sinni lauk dr Sigurður Hannesson þannig:
"Það er áhyggjuefni, ef ekki tekst að sækja tækifærin, sem felast í aukinni eftirspurn eftir grænni orku. Við búum svo vel að hafa aðgang að nægri slíkri orku, en hana þarf að vinna og nýta til að skapa verðmæti fyrir þjóðarbúið. Við eflum samkeppnishæfni Íslands og þar með lífskjör allra landsmanna með aðgengi að nægu magni raforku til að mæta kröfum framtíðarinnar.
Ný ríkisstjórn hefur kynnt framsækna framtíðarsýn. Því eru vonir bundnar við, að raforkumál landsmanna verði sett í forgang með nauðsynlegum framkvæmdum, svo [að] Ísland geti áfram verið í fremstu röð í framleiðslu og nýtingu á endurnýjanlegri orku. Hefjast þarf handa hið fyrsta."
Ekki er neitt lífmark enn með ríkisstjórninni í þá veru, að hún sé að rumska í orkumálum. Sú staða blasir við, að með hverju árinu muni orkuskerðingarnar nema fleiri MWh en árið á undan, og þar af leiðandi nemi tjón þjóðarbúsins yfir mrdISK 100 fram að næstu virkjun. Vitað er hverju það sætir. Er ekki bezt að senda þeim hinum sömu og flækzt hafa fyrir nánast öllum leyfisveitingum á orkusviði undanfarin ár reikninginn ? Það væri ágætis ráð að refsa þessu afturhaldi í næstu kosningum, sem eru til sveitarstjórna í maí 2022 enda verðskuldar erkiafturhald ekki stuðning almennings til valda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)