Fúsk og bruðl í umferðarmálum býður hættunni heim

Nýlega greindi einn ráðherranna frá því í viðtali í fréttum Ríkissjónvarpsins, að í undirbúningi væri að setja upp gjaldtöku á bifreiðir á leið til höfuðborgarinnar, og væri ætlunin með henni að stýra umferðinni framhjá mesta tafatímanum og að fjármagna framkvæmdir, sem eiga að greiða úr umferðarhnútunum.  Þótt þessi aðferð sé viðhöfð víða erlendis, er ekki þar með sagt, að hún sé skynsamleg og réttlætanleg hérlendis.  Umferðarhnútarnir í Reykjavík eru vegna  vanfjárfestinga í umferðarmannvirkjum á stofnleiðum í Reykjavík, en gjöld á bifreiðaeigendur hafa þó ekki lækkað. Það er órökrétt og ósanngjarnt að taka gjald af umferðinni til að fjármagna það, sem vanrækt hefur verið, og að auki að fjármagna allt of viðamikla og dýra Borgarlínu. Strætó á í fjárhagslegum rekstrarerfiðleikum, en tapið af Borgarlínu, sem er "ofurstrætó, sumir segja strætó á sterum, verður fyrirsjáanlega margfalt, því að spár um þróun hlutdeildar Strætó í heildarumferð á höfuðborgarsvæðinu með tilkomu Borgarlínu úr núverandi 4 % í 12 % eru draumórar einir. Borgarlínan er afsprengi fúskara í umferðartæknilegum efnum og stjórnmálamanna, sem haldnir eru slíkri andúð á einkabílnum, að þeir vilja hrekja almenning út úr honum, þarfasta þjóninum.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri, skrifar iðulega fróðlegar greinar í Morgunblaðið. Ein slík birtist 6. október 2022 undir fyrirsögninni:

"Stefnuleysi og óráðsía".

Hún hófst þannig:

"Núverandi borgarlínutillögur munu aldrei ganga upp.  Kostnaður við þá framkvæmd var áætlaður um mrdISK 120, líklega nú kominn í mrdISK 130-140, sem er óheyrilegur og gott dæmi um óráðsíu borgarstjórnarmeirihlutans í fjármálastjórn undanfarin kjörtímabil.  Ýmsar borgir, sem upphaflega ætluðu að byggja borgarlínu í háum gæðaflokki, hættu við það og byggðu þess í stað miklu ódýrari borgarlínu, stundum nefnd BRT-Lite [Bus Rapid Transit-innsk. BJo] eða létt borgarlína. Sýnt hefur verið fram á, án þess að gerðar hafi verið athugasemdir, að kostnaður við létta borgarlínu sé rúmar mrdISK 20." 

Þórarinn Hjaltason, samgönguverkfræðingur, o.fl. hafa komið fram með þessa Léttlínulausn, sem eru sérreinar hægra megin, en ekki fyrir miðju.  Léttlausnin skerðir hvergi venjulegt umferðarflæði, en hætt er við, að Draumóralínan geri það, og hún mun valda gríðarlegri umferðarröskun á framkvæmdatíma. 

Það eru engin haldbær rök fyrir því að kasta mrdISK 120 af aflafé almennings út um gluggann í glórulaust gæluverkefni, þegar hið opinbera vanhagar alls staðar um fjármuni. Það er óviðunandi, að hið opinbera ætli nú að forgangsraða fjáröflun sinni til bruðlverkefna, sem engin þörf er á og sem verður viðkomandi sveitarfélögum myllusteinn um háls, þegar kemur að rekstrinum, eins og botnlaus hít Strætó er forsmekkurinn að. Hér hafa fúskarar um samgöngutækni látið eigin forræðishyggju um lifnaðarhætti almennings fengið að ráða för, fólk, sem er svo raunveruleikafirrt, að það gerir sér enga grein fyrir bruðlinu eða er nógu siðlaust til að láta sér það í réttu rúmi liggja. 

Þórarinn Hjaltason, samgönguverkfræðingur, skrifaði góða grein í Morgunblaðið 28. september 2022 undir fyrirsögninni:

"Samgöngumál í strjálbýlu landi".

 

 Þar stóð m.a. þetta:

"Þjóðvegir á höfuðborgarsvæðinu hafa líka goldið þess, að vegafé hefur verið af skornum skammti.  Á undanförnum áratugum hafa árlegar fjárveitingar til þjóðvega á svæðinu að jafnaði verið um 2 mrdISK/ár, en hefðu þurft að vera 5 mrdISK/ár.  Það skýrir, hvers vegna umferðartafir eru óeðlilega miklar á höfuðborgarsvæðinu saman borið við önnur borgarsvæði af svipaðri stærð."  

  Tekjur ríkisins á þessu tímabili af ökutækjaeigendum hafa verið meiri en útgjöld til vegaframkvæmda- og viðhalds.  Í ljósi þess er óásættanlegt, að borg og ríki skuli hafa leyft núverandi umferðarhnútum að myndast í stað þess að t.d. reisa mislæg gatnamót.  Borgin á höfuðsök á þessu með því að taka þau út af aðalskipulagi og þvælast fyrir raunverulegum framfaramálum umferðar, t.d. Sundabraut, og til að kóróna vitleysuna hefur áhugafólk um bíllausan lífsstíl vísvitandi og að óþörfu skert umferðarþol gatna borgarinnar með fækkun akreina, þrengingum og álíka ónytjungslegum aðgerðum undir yfirskini umferðaröryggis. 

Þetta er fullkomin hræsni, því að þau, sem látið hafa ljósastýrð gatnamót viðgangast á fjölförnum og varasömum gatnamótum, þótt fyrir löngu sé tímabært að setja þar upp mislæg gatnamót, bera ábyrgð á alvarlegum slysum á fólki og stórfelldu fjárhagstjóni. Það er ófært, að ökumenn, sem hafa verið snuðaðir um nauðsynlegar framkvæmdir í öryggisskyni og til tímasparnaðar, eigi nú að borga viðbótar gjald fyrir löngu tímabærar framkvæmdir og að auki fyrir gjörsamlega óþarft bruðlverkefni, sem mun valda bílaumferð auknum vandræðum og soga til sín fjármagn frá öðrum og þarfari verkefnum á höfuðborgarsvæðinu og reyndar um allt land (vegna þátttöku ríkisins). 

"Árið 2019 gerðu ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu með sér samgöngusáttmála um, að á 15 ára tímabili, 2019-2034, yrðu byggð samgöngumannvirki á höfuðborgarsvæðinu fyrir mrdISK 120.  Þessi framkvæmdapakki er myndarlegt átak að því leyti, að á 15 ára tímabili á að verja jafnmiklu fé og samsvarar hefðbundnu framlagi ríkisins til þjóðvega á svæðinu í 50 ár. Þegar nánar er skoðað, kemur í ljós, að framkvæmdaáætlun sáttmálans mun ekki minnka umferðartafir.  Skýringin er einföld.  Borgarlínan mun ekki leysa neinn umferðarvanda.  Stokkar og/eða jarðgöng eru tvöfalt til þrefalt dýrari en hefðbundnar lausnir með mislægum gatnamótum.  Umferðartafir á höfuðborgarsvæðiu munu því halda áfram að aukast, ef ekki er breytt um stefnu."  

Það, sem samgönguverkfræðingurinn Þórarinn upplýsir þarna um, er reginhneyksli.  Í stað þess að beita beztu verkfræðilegu þekkingu til að hanna lausn á umferðarmálum höfuðborgarsvæðisins, þar sem fjármagnið nýtist bezt til að greiða fyrir umferðarflæðinu og hámarka öryggi vegfarenda, eru fúskarar, draumóramenn og sérvitringar látnir ráða ferðinni.  Það verður viðkomandi stjórnmálamönnum til ævarandi hneisu að standa svona að verki. 

Þarfri grein sinni lauk Þórarinn þannig:

"Vegna fámennis verðum við að gæta ýtrustu hagkvæmni við uppbyggingu samgönguinnviða.  Við höfum einfaldlega ekki efni á rándýrri útfærslu á borgarlínu.  Við höfum heldur ekki efni á því að setja þjóðvegi á höfuðborgarsvæðinu að óþörfu í stokka eða jarðgöng. Við þurfum að fara vel með fjárveitingar til samgönguinnviða.  Veljum því tillögu SFA (Samgöngur fyrir alla) https://www.samgongurfyriralla.com um létta borgarlínu (BRT-Lite) og höfum Reykjavíkurflugvöll áfram í Vatnsmýrinni."

Þetta eru hógvær lokaorð samgönguverkfræðingsins, en þeim fylgir mikill þungi og undir hvert orð er hægt að taka.  Samgöngumál höfuðborgarinnar eru í fullkomnum ólestri, af því að þar hefur verið látið reka á reiðanum og látið hjá líða að beita beztu fáanlegu samgöngutækni til að leita hagkvæmustu lausna, sem þó losa vegfarendur undan umferðarhnútum, auka öryggi vegfarenda og tryggja snurðulaust umferðarflæði um langa framtíð. 

Í staðinn sitja íbúar höfuðborgarsvæðisins og aðrir vegfarendur þar uppi með rándýrt örverpi, sem leysir ekki nokkurs manns vanda, en mun valda fjársvelti til margra þarfra verkefna, ef því verður hleypt áfram, eins og yfirvöld borgarinnar berjast fyrir. 

Það verður ekki af Samfylkingunni skafið, að hún er trú skortstefnu sinni á öllum sviðum.  Hér slær hún 2 flugur í einu höggi: skapar skort á fé til gagnlegra samgönguverkefna og skort á frambærilegum umferðaræðum í Reykjavík, m.a. með úreltum ljósastýrðum gatnamótum í stað mislægra gatnamóta, sem svara kalli nútímans. Stefna Samfylkingarinnar er í raun að stöðugt vaxandi óreiðu, af því að getuna til að standa uppbyggilega og af ábyrgð að málum skortir.   

 

 

   


Bloggfærslur 17. október 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband