12.11.2022 | 16:57
Orkupakki 3 í lausu lofti ?
Eins og Ólafur Ísleifsson, hagfræðingur og fv. Alþingismaður, vakti athygli á í Morgunblaðsgrein 05.11.2022, féll Orkupakki 3 (OP3) úr gildi innan Evrópusambandsins (ESB) fyrir nokkrum árum, þegar OP4 tók þar gildi. Ef OP3 hefur ekkert lagalegt gildi lengur í ESB, hvernig er þá háttað lagalegu gildi hans í EFTA-löndum EES-samstarfsins ? Þessu velta menn líka vöngum yfir í Noregi, og Morten Harper, lögfræðingur Nei til EU í Noregi, birti 5. nóvember 2022 grein í Klassekampen um stöðu OP3 og OP4 í Noregi um þessar mundir. Þessi vefpistill er með hans leyfi reistur á téðri grein:
Lögmannsréttur Borgarþings var 31. október 2022 settur með 5 dómurum til að fjalla um kæru Nei til EU (NtEU) á hendur ríkinu fyrir það, að Stórþingið beitti ekki grein 115 í Stjórnarskrá um aukinn meirihluta við atkvæðagreiðsluna um OP3 í marz 2018. NtEU staðhæfir, að innleiðing OP3 ein og sér eða í samhengi við aðra lagasetningu frá ESB um orkumál feli í sér fullveldisafsal, sem Stórþinginu sé óheimilt með einföldum meirihluta. Af því að fullveldisafsalið er meira en "lítið inngrípandi", hefði Stórþingið átt að fylgja Stjórnarskrárgrein 115, sem krefst 3/4 meirihluta og að 2/3 hlutar þingheims mæti til fundar.
Framkvæmdastjórn ESB hefur gefið út allmargar reglugerðir til skýringa og áherzluauka við OP3. Árið 2021 samþykkti Stórþingið 4 þeirra. Samþykktir ACER á grundvelli þessara reglugerða eiga einnig að fara um Eftirlitsstofnun EFTA-ESA til framkvæmdar hjá Orkumálastjóra, sem gegnir stöðu fulltrúa ACER-Orkustofu ESB á Íslandi (Landsorkureglari). Framkvæmdir þar á bæ hafa ekki verið áberandi.
Landsorkureglarinn er óháður innlendum yfirvöldum í gjörðum sínum og ber að fylgja eftir framkvæmd reglna EES-samningsins á orkusviðinu á Íslandi.
Ennfremur hefur ESB samþykkt OP4 (einnig kallaður "hreinorku" pakkinn), og aðildarlöndin hafa innleitt OP4 í lagasöfn sín. Hann veitir ACER meiri völd en OP3. Efni OP4 var þekkt, þegar Stórþingið samþykkti OP3. Reglugerðirnar 4 í OP4 hafði ESB þegar samþykkt, og Framkvæmdastjórnin hafði gert tillögu um OP4 til þings og ráðs.
Hæstiréttur Noregs sagði í greinargerð sinni um 4. járnbrautarlagapakkann frá ESB í marz 2021, að Stórþinginu beri að meta uppsafnað fullveldisframsal, þannig að ekki verði unnt að sniðganga grein 115 með því að búta innleiðingu laga niður. Þetta sjónarmið hlýtur einnig að ráða hjá ríkisstjórn Íslands og Alþingi. Munurinn er sá, að aukinn meirihluti er ekki heimilaður í Stjórnarskrá Íslands til að samþykkja meira en "lítið inngrípandi" fullveldisframsal. Alþingi er einfaldlega slíkt framsal með öllu óheimilt. Hér er komið að því, sem lagafræðimennirnir Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson vöruðu þáverandi utanríkisráðherra og Alþingi við í skýrslu sinni í aðdraganda innleiðingar Alþingis á OP3, 02.09.2019. Grasrót Sjálfstæðisflokksins varaði sumarið 2019 eindregið við þessari innleiðingu, og áhyggjur Landsfundar Sjálfstæðisflokksins komu ljóslega fram í ályktun hans veturinn áður. Þáverandi utanríkisráðherra hundsaði þá gjörsamlega þessa grasrót, sem hann svo smjaðraði ótæpilega fyrir í aðdraganda og á Landsfundi í nóvemberbyrjun 2022 í ótímabærri tilraun sinni til að velta sitjandi formanni Sjálfstæðisflokksins úr sessi, sem þó ber höfuð og herðar yfir hann, hvernig sem á þá er litið.
Í Noregi verður sem sagt að líta til alls orkuregluverks ESB á orkusviði, þegar lagt er mat á, hversu inngrípandi fullveldisframsalið er. Virkni orkuregluverksins og réttarfarið á Innri markaðinum veldur því, að ekki aðeins þarf að taka tillit til lagasetningar fram að samþykktardegi, heldur einnig þekktra og væntra reglugerða og 4. orkupakka. Þetta hefur mikla þýðingu í Noregi vegna umrædds dómsmáls, en einnig þýðingu á Íslandi, ef/þegar ný orkulagasetning frá ESB verður þar til umræðu.
Hér með lýkur fyrri hluta þessarar umfjöllunar, en síðari hlutinn verður birtur í næsta vefpistli á þessu vefsetri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)