Orkupakki 3 í lausu lofti ?

Eins og Ólafur Ísleifsson, hagfræðingur og fv. Alþingismaður, vakti athygli á í Morgunblaðsgrein 05.11.2022, féll Orkupakki 3 (OP3) úr gildi innan Evrópusambandsins (ESB) fyrir nokkrum árum, þegar OP4 tók þar gildi.  Ef OP3 hefur ekkert lagalegt gildi lengur í ESB, hvernig er þá háttað lagalegu gildi hans í EFTA-löndum EES-samstarfsins ? Þessu velta menn líka vöngum yfir í Noregi, og Morten Harper, lögfræðingur Nei til EU í Noregi, birti 5. nóvember 2022 grein í Klassekampen um stöðu OP3 og OP4 í Noregi um þessar mundir.  Þessi vefpistill er með hans leyfi reistur á téðri grein:

Lögmannsréttur Borgarþings var 31. október 2022 settur með 5 dómurum til að fjalla um kæru Nei til EU (NtEU) á hendur ríkinu fyrir það, að Stórþingið beitti ekki grein 115 í Stjórnarskrá um aukinn meirihluta við atkvæðagreiðsluna um OP3 í marz 2018. NtEU staðhæfir, að innleiðing OP3 ein og sér eða í samhengi við aðra lagasetningu frá ESB um orkumál feli í sér fullveldisafsal, sem Stórþinginu sé óheimilt með einföldum meirihluta.  Af því að fullveldisafsalið er meira en "lítið inngrípandi", hefði Stórþingið átt að fylgja Stjórnarskrárgrein 115, sem krefst 3/4 meirihluta og að 2/3 hlutar þingheims mæti til fundar. 

Framkvæmdastjórn ESB hefur gefið út allmargar reglugerðir til skýringa og áherzluauka við OP3.  Árið 2021 samþykkti Stórþingið 4 þeirra.  Samþykktir ACER á grundvelli þessara reglugerða eiga einnig að fara um Eftirlitsstofnun EFTA-ESA til framkvæmdar hjá Orkumálastjóra, sem gegnir stöðu fulltrúa ACER-Orkustofu ESB á Íslandi (Landsorkureglari).  Framkvæmdir þar á bæ hafa ekki verið áberandi. 

Landsorkureglarinn er óháður innlendum yfirvöldum í gjörðum sínum og ber að fylgja eftir framkvæmd reglna EES-samningsins á orkusviðinu á Íslandi. 

Ennfremur hefur ESB samþykkt OP4  (einnig kallaður "hreinorku" pakkinn), og aðildarlöndin hafa innleitt OP4 í lagasöfn sín.  Hann veitir ACER meiri völd en OP3.  Efni OP4 var þekkt, þegar Stórþingið samþykkti OP3.  Reglugerðirnar 4 í OP4 hafði ESB þegar samþykkt, og Framkvæmdastjórnin hafði  gert tillögu um OP4 til þings og ráðs.  

Hæstiréttur Noregs sagði í greinargerð sinni um 4. járnbrautarlagapakkann frá ESB í marz 2021, að Stórþinginu beri að meta uppsafnað fullveldisframsal, þannig að ekki verði unnt að sniðganga grein 115 með því að búta innleiðingu laga niður.  Þetta sjónarmið hlýtur einnig að ráða hjá ríkisstjórn Íslands og Alþingi.  Munurinn er sá, að aukinn meirihluti er ekki heimilaður í Stjórnarskrá Íslands til að samþykkja meira en "lítið inngrípandi" fullveldisframsal.  Alþingi er einfaldlega slíkt framsal með öllu óheimilt.  Hér er komið að því, sem lagafræðimennirnir Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson vöruðu þáverandi utanríkisráðherra og Alþingi við í skýrslu sinni í aðdraganda innleiðingar Alþingis á OP3, 02.09.2019.  Grasrót Sjálfstæðisflokksins varaði sumarið 2019 eindregið við þessari innleiðingu, og áhyggjur Landsfundar Sjálfstæðisflokksins komu ljóslega fram í ályktun hans veturinn áður.  Þáverandi utanríkisráðherra hundsaði þá gjörsamlega þessa grasrót, sem hann svo smjaðraði ótæpilega fyrir í aðdraganda og á Landsfundi í nóvemberbyrjun 2022 í ótímabærri tilraun sinni til að velta sitjandi formanni Sjálfstæðisflokksins úr sessi, sem þó ber höfuð og herðar yfir hann, hvernig sem á þá er litið. 

Í Noregi verður sem sagt að líta til alls orkuregluverks ESB á orkusviði, þegar lagt er mat á, hversu inngrípandi fullveldisframsalið er.  Virkni orkuregluverksins og réttarfarið á Innri markaðinum veldur því, að ekki aðeins þarf að taka tillit til lagasetningar fram að samþykktardegi, heldur einnig þekktra og væntra reglugerða og 4. orkupakka. Þetta hefur mikla þýðingu í Noregi vegna umrædds dómsmáls, en einnig þýðingu á Íslandi, ef/þegar ný orkulagasetning frá ESB verður þar til umræðu.   

Hér með lýkur fyrri hluta þessarar umfjöllunar, en síðari hlutinn verður birtur í næsta vefpistli á þessu vefsetri.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

 Heill og sæll Bjarni

Tók einmitt eftir þessum hugleiðingum Ólafs, í grein hans frá 5.11. síðastliðinn. Það að Alþingi hafi verið að samþykkja tilskipun frá ESB er innihéldu reglugerðir sem sambandið var þá þegar búið að fella úr sinni lagaumgjörð, fyrir nýjar reglugerðir, er auðvitað svolítið grátlegt. Hver réttaráhrif þessa eru er óljóst og full ástæða til að láta á reyna. Hvort þessi samþykkt Alþingis er þar með lögleysa, sem ber að afturkalla, eða hvort Alþingi hafi þarna verið að samþykkja hina nýju reglugerð, sem menn telja með op4, þarf auðvitað að fá úr skorið. Þarna á auðvitað við reglugerðir 713/2009 og 714/2009, sem annars vegar fjalla um stofnun ACER og vald þeirrar stofnunar og hins vegar um orkuflutning yfir landamæri. Eftir því sem ég kemst næst halda þessar reglugerðir númerum sínum í op4, þó efnisinnihald sé endurskoðað, einungis ártalið sem breytist. Lítur ESB svo á að númer reglugerðarinnar ráði en ártalið ekki, er ljóst að Alþingi hefur þegar samþykkt þennan hluta op4, að mati ESB.

Kannski er þögn Alþingis um op4 svo ærandi af því stjórnvöld og þingmenn vita upp á sig sökina. Í öllu falli er þetta mál sem íslenskir dómstólar verða að kveða úr um.

Hitt er deginum ljósara að ACER starfar eftir hinum endurskoðuðu reglugerðum, ekki þeim sem felldar var brott og Alþingi Íslendinga samþykkti tveim mánuðum eftir brottfallið.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 13.11.2022 kl. 07:50

2 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Það má túlka tvær stjórnarskrár greinar hérlendis þannig að Forseta beri skylda til að neita undirritun laga er brjóti stjórnarskrá, á vissan hátt vegur það upp á móti 115 gr. Norskra.

Guðjón E. Hreinberg, 13.11.2022 kl. 12:17

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Gunnar og þakka þér tilskrifið.

OP4 hefur ekkert lagagildi á Íslandi, í Noregi og Liechtenstein.  Um það er engum blöðum að fletta, því að OP4 bíður afgreiðslu hjá EFTA að skipun ríkisstjórnar Noregs, sem miklu ræður hjá EFTA.  Ríkisstjórn Noregs er klofin í afstöðunni til OP4.  Miðflokkurinn hafnar OP4 alfarið.  Þess vegna er málið ekki komið á flot.  Það var mikill tvískinnungur hjá Alþingi að samþykkja úrelta orkulöggjöf ESB.  Þingmenn virðast hafa verið svo barnalegir að ímynda sér, að ACER mundi vinna samkvæmt OP3 gagnvart EFTA-löndum EES.  Það stríðir gegn grundvallarreglunni um samræmdar kvaðir í öllum löndum EES.  Afleiðingin er lögleysa.  Orkulandsreglarinn tekur við fyrirmælum frá ESA, sem eiga að vera samhljóða samþykktum ACER, og ACER hefur unnið eftir OP4 frá lögleiðingu OP3 hér.  Þetta er enn eitt klúðrið hjá óhæfri stjórnsýslu frá mínum bæjardyrum séð.  

Bjarni Jónsson, 13.11.2022 kl. 17:03

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Guðjón;

Ég skil íslenzku stjórnarskrána þannig, að hún heimili enga lagasetningu, sem felur í sér framsal valds til útlanda. Þannigvar að mínu mati lögleiðing OP3 stjórnarskrárbrot.  Sú norska heimilar framsal valds, sem hefur lítil áhrif á daglegt líf almennings.  Hún leyfir líka framsal valds til útlanda, sem áhrif hefur á daglegt líf almennings, en þá með auknum meirihluta.  

Hérlendis væri heppilegt, að stjórnvöld mundu leita til Hæstaréttar til að úrskurða um, hvort frumvörp stríði gegn stjórnarskrá.  

Bjarni Jónsson, 13.11.2022 kl. 17:16

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Guðjón

Til að komast framhjá þessum þröskuldi notar Alþingi þá aðferð að samþykkja tilskipanir frá ESB með þingsályktun. Þetta er í meira lagi undarleg ráðstöfun þar sem í flestum tilfellum verður að gera lagabreytingu í kjölfarið, eða taka inn ný lög. Þetta skapast af því að sameiginlega EES nefndin semur um upptökur tilskipana ESB, eða öllu heldur samþykkir þær. Það er gert með fyrirvara um samþykki Alþingis. Þingsályktanir eru því í raun einungis aflétting þess fyrirvara. Þar með hefur forseti enga aðkomu að málinu.

Gunnar Heiðarsson, 13.11.2022 kl. 23:19

6 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Sæll Bjarni.

Góð umfjöllun hjá þér að vanda.

Því miður munu stjórnvöld ALDREI leita til Hæstaréttar vitandi af þeirri skömm

sem þeir fengju. Þegar um og yfir 70% þeirra sem á þingi sitja, hafa aldrei unnið

handtak sem skilað gæti einhverju til þjóðarbúsins, er þá nema von að flest sem

þaðan komi sé barnalegt og illa hugsað. Aldur og reynsla er svo gott sem farin

þaðan og rétttrúnaðar og populismi ræður för.

Sorglegt en satt.

Sigurður Kristján Hjaltested, 14.11.2022 kl. 11:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband