Meira um þróun orkupakkanna OP3 og OP4

Í Noregi er nú tekizt á um það í dómsölum, hvort OP3 frá ESB sé "lítið inngrípandi" eða ekki, þ.e. hvort sú orkulöggjöf ESB hafi lítil áhrif á líf almennings í Noregi eða ekki.  Þróun orkumálanna í Evrópu frá innleiðingu OP3 í EFTA-löndum EES-samstarfsins er öll í átt til mikilla áhrifa á líf fólks og rekstur fyrirtækjanna í Noregi.  Þar nægir að benda á ofurhátt innflutt raforkuverð til Noregs um millilandatengingarnar. Á Íslandi áskildi Alþingi sér rétt til að samþykkja eða hafna tengingu aflsæstrengs frá útlöndum við íslenzkt raforkukerfi, en þetta skilyrði kann að brjóta í bága við EES-samninginn og er þess vegna veik vörn.

Vegna OP3 er það ekki á færi lýðræðislegra yfirvalda í Noregi að hamla gegn margföldun raforkuverðs á áhrifasvæði sæstrengjanna þar með því að draga úr eða stöðva útflutning raforku og safna þar með vatni í miðlunarlón vatnsaflsvirkjana sunnan Dofrafjalla (í Suður- og Austur-Noregi), eins og norska ríkisstjórnin hafði áform um í sumar áður en Eftirlitsstofnun EFTA-ESA barði á fingurgóma hennar með reglustriku.  

Nú verður haldið áfram með frásögn Mortens Harper, lögfræðings Nei til EU, NtEU, í Klassekampen 5. nóvember 2022, með ívafi höfundar þessa vefseturs:

OP3 er nú aðeins í gildi í EFTA-löndum EES (Noregi, Íslandi og Liechtenstein).  Í ESB hefur OP4 leyst OP3 af hólmi.  Þetta er lagagrunnurinn, sem ACER (Orkustofa ESB) reisir ákvarðanir sínar á, ákvarðanir, sem hafa mikil áhrif á innri markaðinn fyrir orku, sem Noregur er nú samþættur, en Ísland ekki í raun, því að raforkukerfi Íslands er ótengt raforkukerfum annarra landa.

Hvernig ACER beitir ákvörðunarvaldi sínu sást nýlega, þegar ACER fjallaði um tilraun Svía til að hafa stjórn á raforkuútflutninginum (ákvörðun 26.10.2022).  Hin endurskoðaða rafmagnstilskipun frá ESB í OP4 skyldar aðildarþjóðirnar (að innri markaði orku) til að ráðstafa 70 % af flutningsgetunni til útlanda til frjálsra afnota markaðarins.  Sænska Orkumarkaðseftirlitið, þ.e. Orkulandsreglarinn (Orkumálastjóri hérlendis) hafði samþykkt bráðabirgða undanþágu með vísun til afhendingaröryggis raforku í Svíþjóð og heimilað nokkra takmörkun útflutnings.  Þessu mótmæltu orkulandsreglarar Danmerkur og Finnlands, svo að málið barst ACER til úrskurðar.  Niðurstaðan varð sú, að sænsku röksemdirnar lutu í lægra haldi fyrir óheftu orkuflæði á markaðinum innan 70 % markanna. 

Statnett (norska Landsnet) er í norrænum hópi kerfisstjóra, þar sem 3 af 4 (í Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku) eru formlega undir gildandi ESB-regluverki (OP4).  Í raunveruleikanum sést, að Statnett fylgir líka reglum ESB OP4.  Fyrir fáeinum árum náðu norrænu kerfisstjórarnir 4 ekki samkomulagi um aðferðarfræði til að stjórna langtíma flutningsgetu kerfisins, og ACER var falið að kveða upp bindandi úrskurð.  Samþykkt ACER 30.10.2019 er formlega beint til kerfisstjóranna í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi, en úrskurðurinn verður að gilda líka í Noregi fyrir milligöngu ESA og RME (norska orkulandsreglarans). Annað svipað dæmi er ACER-ákvörðun frá 05.08.2020 um jöfnunarorku.  Í báðum málunum er m.a. vísað til nýju ACER-reglugerðarinnar í OP4, sem ekki hefur hlotið samþykki Noregs í EES (og þess vegna ekki Íslands heldur). 

Þetta vekur spurningar um raunverulega vídd orkuskuldbindinga Noregs og Íslands samkvæmt EES-samninginum. Geta þær spannað reglur, sem ekki hafa lagagildi á Íslandi ? Regluverkið, sem farið er eftir á Innri markaði ESB, einnig í löndunum, sem tengjast Noregi með raforkuflutningsmannvirkjum og náinni kerfisstjórnunarsamvinnu, er enn meira inngrípandi en regluverkið, sem Stórþingið og Alþingi hafa innleitt í EES-samninginn. 

ACER vinnur samkvæmt OP4.  Hvernig á Eftirlitsstofnun EFTA ESA og orkulandsreglarinn að gera eitthvað annað gagnvart Noregi, Íslandi og Liechtenstein ?  Er nokkuð raunverulegt í þessu sambandi í formlegri aðgreiningu Noregs og norrænu ESB-landanna ?  Hér mætti bæta Íslandi við í öðrum málum en þeim, sem varða orkuflutninga á milli landa. Sönnunarbyrðin í þessu máli hlýtur að vera hjá þeim, sem enn telja fullveldisframsalið til ESB-ACER vera "lítið inngrípandi". Þetta verður að fást á hreint á Íslandi líka.  Er það í lagi, að veigamiklum þáttum raforkumálanna sé stjórnað á grundvelli reglna ESB, sem ekki hafa lagagildi á Íslandi ?  Frá leikmannssjónarhorni í lögum er slíkt klárt  stjórnarskrárbrot. Öll verk orkulandsreglarans frá gildistöku OP4 sumarið 2019 eru líklega ólögleg í Noregi og á Íslandi.  Það þýðir, að embætti hans og gjörðir frá gildistöku OP3 haustið 2019 á Íslandi eru sennilega ólögleg.  Hvernig stendur á því, að enginn úr fjölmennum hérlendum lögfræðingahópi hefur vakið athygli á þessari alvarlegu lagaóvissu ?  Sú lagaóvissa er alls ekki á förum, á meðan norski Miðflokkurinn situr við "kongens bord" í Ósló. 

Raforkuverðskreppan veldur því, að ekki getur lengur ríkt mikill vafi á því, að ESB OP3 hefur áhrif á atriði með mikla þýðingu fyrir norska þjóðfélagið - afhendingu raforku og raforkuverðið.  Meirihluti Stórþingsins veturinn 2018 vanmat þjóðfélagslegar afleiðingar þessa regluverks, sem hefur slíkan umbúnað, að norsk yfirvöld hafa ekki möguleika á  nauðsynlegum áhrifum á framkvæmd og þróun regluverksins. Hvorki Noregur né Ísland hafa t.d. atkvæðisrétt í ACER. 

Í Stórþingsfrumvarpi nr 100 (1991-92), sem lá til grundvallar samþykktar EES-samningsins, stóð, að með því að ráða síðasta skrefinu, sem taka yrði til að skapa borgurum landsins nýjar skuldbindingar, fælist grundvallarmunur m.v. það að sleppa þessum stjórnunarmöguleika. 

Á orkusviðinu verða til ákvarðanir hjá ACER, sem ESA á síðan að samþykkja óbreyttar að efni til, og orkulandsreglarinn (RME í Noregi og Orkumálastjóri á Íslandi) á síðan að koma á framfæri gagnvart aðilum á orkumarkaði í Noregi og á Íslandi og fylgja því eftir, að þær séu framkvæmdar.  Þessi ákvarðanatökukeðja veldur því, að Noregur og Ísland hafa enga stjórnun á þessum þáttum.  Í álitsgerð sinni um ACER-málið (OP3) skrifaði lagaprófessor Hans Graver, að það "... hafi verið búin til valdastaða í innanlandsrétti fyrir alþjóðlega stofnun til að taka ákvarðanir..." (september 2018).  Síðasta skrefið er í raun ACER.

  Mun lögmannsrétturinn stíga nauðsynleg skref til baka ?  Hvenær skyldi reyna á lagalegan grundvöll OP3 á Íslandi og á lagalegan grundvöll orkulandsreglarans (Orkumálastjóra), sem starfar ekki eftir OP3, heldur eftir OP4, sem hefur ekkert lagalegt gildi á Íslandi. 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Svona Sovétríki vilja Íslendingar.

Guðjón E. Hreinberg, 15.11.2022 kl. 11:58

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Heill og sæll Bjarni

Þessar hugleiðingar eru svolítið hrollvekjandi. Að í raun sé staðan sú að op4 ráði raforkumarkaðnum þó EFTA ríkin hafi ekki enn samþykkt hann. Eða eru þau kannski búin að samþykkja op4? Er kannski bara formleg afgreiðsla Alþingis eftir, með einni þingsályktun?

Við samþykkt EES samningsins á Alþingi var ljóst að gengið var eins langt á stjórnarskrá og mögulegt var. Sumir töldu reyndar að gengið hafi verið lengra en hún heimilaði. Síðan þá er liðinn nærri þriðjungur aldar og á þeim tíma hefur margt breyst varðandi þann samning. Þar er kannski stærsta breytingin upptaka orkumála í þann samning. Í grein 2.1.5 í greinargerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar segir:

"Þá ber sérstaklega að hafa í huga að við undirritun
EES-samningsins hafði þágildandi Rómarsamingur engin sérstök ákvæði að geyma um raforku.
Beiti stofnanir ESB þeim nýju valdheimildum í orkumálum sem raktar voru hér að framan getur

verið álitamál hvort unnt sé að taka þær upp í EES-samninginn án samsvarandi breytinga á

honum sjálfum. Og jafnvel þótt það teldist unnt yrði að prófa sérstaklega hvort innleiðing gerða
sem byggðist á auknum valdheimildum stofnana ESB stæðist kröfur íslenskrar stjórnarskrár."

Þarna tæpa lögfræðingarnir á þeirri staðreynd að EES samningurinn hafi verið gerður við EB, eða Evrópu bandalagið, Rómarsáttmálinn. Við breytingu þess yfir í ESB, eða Evrópu sambandið, Maastrichtsáttmálinn,  hafi orðið slík grundvallarbreyting að óvíst sé hvort EES samningurinn haldi gildi, án þess að gera grundvallarbreytingu á sjálfum EES samningum. Það má segja að við gildistöku Lissabonsáttmálans Í desember 2009 hafi sambandið stigið enn lengra skref frá gamla Rómarsáttmálanum, en EES samningurinn er gerður meðan hann var grunnsáttmáli Evrópu bandalagsins.

Hvað sem þessum hugleiðingum líður, er ljóst að síðan EES samningurinn var samþykktur á Alþingi, með minnsta mögulega meirihluta, hefur verið gengið nærri stjórnarskránni í fjölmörg skipti. Þá er einnig ljóst að með eðlisbreytingu ESB, frá Rómarsáttmála yfir í Maastrichtsáttmála og að lokum til Lissabonsáttmálans, hefur eðli framkvæmdar sambandsins á EES samningnum breyst, okkur í óhag.

Vissulega er EES samningurinn okkur hliðstæður að sumu leyti en sífellt fleira er okkur í óhag í þeim samningi. Það sem upphaflega var samningur um viðskipti er nú orðinn samningur um fjölda stjórnskipulegra athafna. Því er ljóst að EES samningurinn er fyrir löngu komin yfir þau mörk er stjórnarskrá okkar leyfir. Færsla á stjórnun okkar yfir orkunni er þar kannski alvarlegast brot stjórnarskrár.

Hvenær er nóg, nóg.

Kveðja

 

Gunnar Heiðarsson, 15.11.2022 kl. 17:45

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Guðjón, sumir, því miður. 

Bjarni Jónsson, 15.11.2022 kl. 18:40

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Heill og sæll, Gunnar.  Sammála þér.  4 gjörðir, sem mynda brú á milli OP3 og OP4, hafa verið innleiddar í EES, og mun ég fjalla um þær síðar.  Hvorki EFTA né Sameiginlega EES-nefndin hafa afgreitt OP4, og er það einvörðungu Norðmönnum að þakka eða nánar tiltekið norska Miðflokkinum, sem situr í ríkisstjórn og er algerlega mótfallinn orkupakkamoðverkinu öllu saman.  Hann hefur gert um það flokkssamþykkt, en mér vitanlega hefur enginn íslenzkur stjórnmálaflokkur haft rænu á að álykta um málið.  

Bjarni Jónsson, 15.11.2022 kl. 18:46

5 Smámynd: Tryggvi L. Skjaldarson

Tryggja Landsvirkjun í eigu almennings.  Gera nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá m.a. með því að hafa ákvæði um þjóðaratkvæðagreisðslu ef t.d.20% fara fram á að þjóðin sé spurð.  Málið dautt.

Tryggvi L. Skjaldarson, 16.11.2022 kl. 09:10

6 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Sæll Bjarni.

Er ekki ákvæði í EES samningnum að örþjóðir geti frestað og eða neitað að taka upp boð og bönn frá EES

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 17.11.2022 kl. 07:13

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Hallgrímur;

Það eru fordæmi fyrir því, að norska ríkisstjórnin hafi einfaldlega látið slík boð út ganga til EFTA og ESB, að reglur ESB, sem framkvæmdastjórnin hafi merkt sem EES-mál, geti Norðmenn ekki fallizt á að innleiða.  Þar með var viðkomandi mál ekki lagt fyrir Sameiginlegu EES-nefndina.  Ég lít svo á, að íslenzka ríkisstjórnin eigi ekki að hika við að nota sömu aðferð, ef hún telur tiltekna innleiðingu vera skaðlega íslenzkum hagsmunum.  Eitt svona mál er í gangi núna, þar sem Norðmenn hafa í raun beitt neitunarvaldi, og það er Orkupakki 4. 

Bjarni Jónsson, 17.11.2022 kl. 14:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband