15.11.2022 | 11:29
Meira um þróun orkupakkanna OP3 og OP4
Í Noregi er nú tekizt á um það í dómsölum, hvort OP3 frá ESB sé "lítið inngrípandi" eða ekki, þ.e. hvort sú orkulöggjöf ESB hafi lítil áhrif á líf almennings í Noregi eða ekki. Þróun orkumálanna í Evrópu frá innleiðingu OP3 í EFTA-löndum EES-samstarfsins er öll í átt til mikilla áhrifa á líf fólks og rekstur fyrirtækjanna í Noregi. Þar nægir að benda á ofurhátt innflutt raforkuverð til Noregs um millilandatengingarnar. Á Íslandi áskildi Alþingi sér rétt til að samþykkja eða hafna tengingu aflsæstrengs frá útlöndum við íslenzkt raforkukerfi, en þetta skilyrði kann að brjóta í bága við EES-samninginn og er þess vegna veik vörn.
Vegna OP3 er það ekki á færi lýðræðislegra yfirvalda í Noregi að hamla gegn margföldun raforkuverðs á áhrifasvæði sæstrengjanna þar með því að draga úr eða stöðva útflutning raforku og safna þar með vatni í miðlunarlón vatnsaflsvirkjana sunnan Dofrafjalla (í Suður- og Austur-Noregi), eins og norska ríkisstjórnin hafði áform um í sumar áður en Eftirlitsstofnun EFTA-ESA barði á fingurgóma hennar með reglustriku.
Nú verður haldið áfram með frásögn Mortens Harper, lögfræðings Nei til EU, NtEU, í Klassekampen 5. nóvember 2022, með ívafi höfundar þessa vefseturs:
OP3 er nú aðeins í gildi í EFTA-löndum EES (Noregi, Íslandi og Liechtenstein). Í ESB hefur OP4 leyst OP3 af hólmi. Þetta er lagagrunnurinn, sem ACER (Orkustofa ESB) reisir ákvarðanir sínar á, ákvarðanir, sem hafa mikil áhrif á innri markaðinn fyrir orku, sem Noregur er nú samþættur, en Ísland ekki í raun, því að raforkukerfi Íslands er ótengt raforkukerfum annarra landa.
Hvernig ACER beitir ákvörðunarvaldi sínu sást nýlega, þegar ACER fjallaði um tilraun Svía til að hafa stjórn á raforkuútflutninginum (ákvörðun 26.10.2022). Hin endurskoðaða rafmagnstilskipun frá ESB í OP4 skyldar aðildarþjóðirnar (að innri markaði orku) til að ráðstafa 70 % af flutningsgetunni til útlanda til frjálsra afnota markaðarins. Sænska Orkumarkaðseftirlitið, þ.e. Orkulandsreglarinn (Orkumálastjóri hérlendis) hafði samþykkt bráðabirgða undanþágu með vísun til afhendingaröryggis raforku í Svíþjóð og heimilað nokkra takmörkun útflutnings. Þessu mótmæltu orkulandsreglarar Danmerkur og Finnlands, svo að málið barst ACER til úrskurðar. Niðurstaðan varð sú, að sænsku röksemdirnar lutu í lægra haldi fyrir óheftu orkuflæði á markaðinum innan 70 % markanna.
Statnett (norska Landsnet) er í norrænum hópi kerfisstjóra, þar sem 3 af 4 (í Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku) eru formlega undir gildandi ESB-regluverki (OP4). Í raunveruleikanum sést, að Statnett fylgir líka reglum ESB OP4. Fyrir fáeinum árum náðu norrænu kerfisstjórarnir 4 ekki samkomulagi um aðferðarfræði til að stjórna langtíma flutningsgetu kerfisins, og ACER var falið að kveða upp bindandi úrskurð. Samþykkt ACER 30.10.2019 er formlega beint til kerfisstjóranna í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi, en úrskurðurinn verður að gilda líka í Noregi fyrir milligöngu ESA og RME (norska orkulandsreglarans). Annað svipað dæmi er ACER-ákvörðun frá 05.08.2020 um jöfnunarorku. Í báðum málunum er m.a. vísað til nýju ACER-reglugerðarinnar í OP4, sem ekki hefur hlotið samþykki Noregs í EES (og þess vegna ekki Íslands heldur).
Þetta vekur spurningar um raunverulega vídd orkuskuldbindinga Noregs og Íslands samkvæmt EES-samninginum. Geta þær spannað reglur, sem ekki hafa lagagildi á Íslandi ? Regluverkið, sem farið er eftir á Innri markaði ESB, einnig í löndunum, sem tengjast Noregi með raforkuflutningsmannvirkjum og náinni kerfisstjórnunarsamvinnu, er enn meira inngrípandi en regluverkið, sem Stórþingið og Alþingi hafa innleitt í EES-samninginn.
ACER vinnur samkvæmt OP4. Hvernig á Eftirlitsstofnun EFTA ESA og orkulandsreglarinn að gera eitthvað annað gagnvart Noregi, Íslandi og Liechtenstein ? Er nokkuð raunverulegt í þessu sambandi í formlegri aðgreiningu Noregs og norrænu ESB-landanna ? Hér mætti bæta Íslandi við í öðrum málum en þeim, sem varða orkuflutninga á milli landa. Sönnunarbyrðin í þessu máli hlýtur að vera hjá þeim, sem enn telja fullveldisframsalið til ESB-ACER vera "lítið inngrípandi". Þetta verður að fást á hreint á Íslandi líka. Er það í lagi, að veigamiklum þáttum raforkumálanna sé stjórnað á grundvelli reglna ESB, sem ekki hafa lagagildi á Íslandi ? Frá leikmannssjónarhorni í lögum er slíkt klárt stjórnarskrárbrot. Öll verk orkulandsreglarans frá gildistöku OP4 sumarið 2019 eru líklega ólögleg í Noregi og á Íslandi. Það þýðir, að embætti hans og gjörðir frá gildistöku OP3 haustið 2019 á Íslandi eru sennilega ólögleg. Hvernig stendur á því, að enginn úr fjölmennum hérlendum lögfræðingahópi hefur vakið athygli á þessari alvarlegu lagaóvissu ? Sú lagaóvissa er alls ekki á förum, á meðan norski Miðflokkurinn situr við "kongens bord" í Ósló.
Raforkuverðskreppan veldur því, að ekki getur lengur ríkt mikill vafi á því, að ESB OP3 hefur áhrif á atriði með mikla þýðingu fyrir norska þjóðfélagið - afhendingu raforku og raforkuverðið. Meirihluti Stórþingsins veturinn 2018 vanmat þjóðfélagslegar afleiðingar þessa regluverks, sem hefur slíkan umbúnað, að norsk yfirvöld hafa ekki möguleika á nauðsynlegum áhrifum á framkvæmd og þróun regluverksins. Hvorki Noregur né Ísland hafa t.d. atkvæðisrétt í ACER.
Í Stórþingsfrumvarpi nr 100 (1991-92), sem lá til grundvallar samþykktar EES-samningsins, stóð, að með því að ráða síðasta skrefinu, sem taka yrði til að skapa borgurum landsins nýjar skuldbindingar, fælist grundvallarmunur m.v. það að sleppa þessum stjórnunarmöguleika.
Á orkusviðinu verða til ákvarðanir hjá ACER, sem ESA á síðan að samþykkja óbreyttar að efni til, og orkulandsreglarinn (RME í Noregi og Orkumálastjóri á Íslandi) á síðan að koma á framfæri gagnvart aðilum á orkumarkaði í Noregi og á Íslandi og fylgja því eftir, að þær séu framkvæmdar. Þessi ákvarðanatökukeðja veldur því, að Noregur og Ísland hafa enga stjórnun á þessum þáttum. Í álitsgerð sinni um ACER-málið (OP3) skrifaði lagaprófessor Hans Graver, að það "... hafi verið búin til valdastaða í innanlandsrétti fyrir alþjóðlega stofnun til að taka ákvarðanir..." (september 2018). Síðasta skrefið er í raun ACER.
Mun lögmannsrétturinn stíga nauðsynleg skref til baka ? Hvenær skyldi reyna á lagalegan grundvöll OP3 á Íslandi og á lagalegan grundvöll orkulandsreglarans (Orkumálastjóra), sem starfar ekki eftir OP3, heldur eftir OP4, sem hefur ekkert lagalegt gildi á Íslandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)