Vinnumálalöggjöfin er barn síns tíma

Furðulegar uppákomur í verkalýðshreyfingunni hafa dregið athyglina að rotnun hennar.  Úrelt löggjöf um vinnumarkaðinn, sem að uppistöðu til er frá krepputíma 4. áratugar 20. aldarinnar, á sinn þátt í þessari hrörnun.  Hluti þessarar löggjafar, eins og sá, er varðar raunverulega aðildarskyldu að stéttarfélagi, er gjörsamlega út úr kú, þegar hann er borinn saman við mannréttindaákvæði samtímans og löggjöf annarra vestrænna landa um sama efni.  Steingervingsháttur vinstri flokkanna hefur hindrað umbætur á þessu sviði, og vitnar hann um afturhaldseðli þessara stjórnmálaflokka og hræsni, því að þeir mega vart vatni halda í hverri viku yfir meintum mannréttindabrotum einhvers staðar í heiminum, einkum hérlendis gagnvart hælisleitendum. 

 Nú reyna nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins að rjúfa stöðnunina á þessu sviði, og er það löngu tímabært, en þeir hafa fengið skít og skömm fyrir frá miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ).  Hvað skyldi bankadrottningin, sem nú hefur tekið við formennsku í  "Jafnaðarflokkinum", hafa um þessa nútímavæðingu hluta af íslenzkri vinnulöggjöf að segja ?  Hætt er við, að þar á bæ hafi bara orðið umbúðaskipti fyrir ímyndina, og að þar sé enn á ferðinni gamalt vín á nýjum belgjum.

Í 2. grein lagafrumvarps sjálfstæðisþingmannanna segir:

"Launamenn og vinnuveitendur skulu hafa rétt til þess að stofna og ganga í þau stéttarfélög, sem þeir kjósa, og eru einungis háðir reglum hlutaðeigandi félaga um inngöngu í það.

Óheimilt er að draga félagsgjald af launamanni eða skrá hann sem félagsmann í stéttarfélag, nema með skýru og ótvíræðu samþykki hans.  Óheimilt er að skylda mann til að ganga í tiltekið stéttarfélag."

Þetta, sem virðist sjálfsagt og eðlilegt á 21. öldinni, líta verkalýðsforingjar á sem aðför að frelsi sínu til að ráðskast með alla á sínu fagsviði og svæði.  Þarna er sem sagt stungið á kýli verkalýðshreyfingarinnar, sem verður að fá að vessa úr, ef þessi hreyfing á að eiga sér viðreisnar von í samtímanum.  Þegar formaður Starfsgreinasambandsins sér sig knúinn til að biðja umbjóðendur sína afsökunar á því í beinni útsendingu sjónvarps, hvað sé að gerast á Alþýðusambandsþingi, þegar þar fór allt í háaloft í haust, er ljóst, að ASÍ hefur rotnað innan frá vegna einokunar verkalýðsfélaganna á vinnumarkaðinum í skjóli löggjafarinnar, sem sjálfstæðismenn vilja nú hleypa hleypa nútímanum að.

Til þess enn frekar að herða á rétti launamanna til félagafrelsis á vinnumarkaði stendur þetta í 3. grein frumvarps sjálfstæðismannanna:

"Vinnuveitanda er óheimilt að synja að synja umsækjanda um laust starf eða segja launamanni upp starfi á grundvelli félagsaðildar hans.

Vinnuveitanda er óheimilt að synja umsækjanda um laust starf eða segja launamanni upp starfi á þeim grundvelli, að hann standi utan félags eða félaga."

Þarna er lögð rík áherzla á, að það séu mannréttindi launamanns að ákveða sjálfur án afskipta atvinnurekandans, hvort hann gangi í stéttarfélag eða ekki.  Þetta er í takti við tíðarandann um einstaklingsfrelsi á Vesturlöndum, og allt annað er arfleifð kommúnisma eða þjóðernisjafnaðarstefnu, sem tröllriðu húsum í Evrópu og víðar á þeim tíma, þegar grunnurinn að núgildandi vinnulöggjöf var mótaður.  Að hanga á þessum forréttindum stéttarfélaga um forgangsrétt stéttarfélagsfélaga að vinnu ber dauðann í sér fyrir vinnumarkaðinn, sérstaklega stéttarfélögin, þar sem félagsáhuginn er lítill sem enginn, og hvatinn til að gæta langtímahagsmuna félagsmanna er hverfandi vegna einokunaraðstöðu verkalýðsfélaganna.  Þess vegna komast valdagráðugir slagorðakjánar til valda í verkalýðsfélögunum, oft á tíðum raunveruleikafirrt fólk með sáralítinn eða engan skilning á gangverki efnahagslífsins, fólk, sem afneitar efnahagslegum og fjárhagslegum staðreyndum, en setur í staðinn fram heimskulegar kenningar og gagnrýni á Seðlabankann, sem ná engri átt og þjóna engan veginn hagsmunum umbjóðenda þeirra, launþeganna. 

Morgunblaðið fjallaði um þetta mál í forystugrein 28.10.2022 undir fyrirsögninni:

 "Félagafrelsi".

Þar var getið um taugaveiklunarkennd viðbrögð fyrsta miðstjórnarfundar ASÍ eftir að þing þess splundraðist af ástæðum, sem nokkra vinnustaðasálfræðinga þarf til að greina, en þeir munu áreiðanlega ekki ráða bót á vandanum, því að hann liggur í því heiftarlega ófrelsi, sem ríkir á vinnumarkaðinum og snertir raunverulega skylduaðild að verkalýðsfélögum.  Hún drepur niður áhugann innan félaganna og greiðir leið furðufugla til valda þar:

"Í gær gerðist það t.a.m., að miðstjórn Alþýðusambands Íslands samþykkti sérstaka ályktun um fyrrgreint frumvarp og lýsti þar yfir "mikilli furðu á framkomnu frumvarpi þingmanna Sjálfstæðisflokksins um félagafrelsi á vinnumarkaði".  Í ályktuninni segir, að verkalýðshreyfingin hafi "engan hug á að láta sérvizku jaðarhóps stjórnmálamanna hafa áhrif á þá kjarnastarfsemi sína" að vinna að bættum kjörum launafólks."

Þessi ályktun miðstjórnarinnar er alveg eins og út úr kú.  Hún er þóttafull einkunnargjöf til hóps þingmanna, sem enginn, nema afneitarar staðreynda í hópi furðufugla verkalýðshreyfingarinnar, hefur komið til hugar að kalla jaðarhóp.  Margur heldur mig sig, enda er vægt til orða tekið, að svartagallsrausarar miðstjórnarinnar séu jaðarhópur á Íslandi samtímans. 

Síðar stóð í téðri forystugrein:

"Þetta er raunar ekki meiri sérvizka en svo, að nánast öll vestræn ríki hafa bannað forgangsréttarákvæði kjarasamninga, enda ganga þau gegn hugmyndum um raunverulegt félagafrelsi.  Eins og Óli Björn Kárason, fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, benti á í framsöguræðu sinni á þingi, er markmiðið með frumvarpinu að tryggja, að íslenzkt launafólk búi við sömu réttindi og launafólk í nágrannalöndunum. Frumvarpið er "ekki róttækara en það", eins og hann benti á, og bætti við:"Við erum að tryggja íslenzku launafólki sömu réttindi og launafólk hefur í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og öðrum þeim löndum, sem við viljum gjarnan bera okkur saman við".  

Heiftarleg viðbrögð Alþýðusambands Íslands eru mikið umhugsunarefni og eru enn ein vísbendingin um, að stéttarfélögin eru úr tengslum við félagsmenn sína. Þetta kemur fram í sérhverjum kosningum um forystu í þessum félögum, þar sem þátttaka er jafnan sáralítil, og þetta kemur fram í baráttu þessarar forystu, sem iðulega gengur þvert gegn hagsmunum félagsmannanna." 

Verkalýðshreyfingin er helsjúk, eins og uppnám út af engu á ASÍ-þinginu í haust sýndi, en þar gerðu nokkrar prímadonnur þingið óstarfhæft.  Þessi sýki eða úrkynjun stafar af einokunarstöðu verkalýðsfélaganna á vinnumarkaðinum, sem flutningsmenn téðs frumvarps á Alþingi vilja afnema og færa þar með þennan hluta vinnulöggjafarinnar til nútímahorfs.  Fróðlegt verður að sjá afstöðu Viðreisnar, sem aldrei lætur af skjalli sínu á Evrópusambandinu (ESB), en frumvarp sjálfstæðismannanna er í samræmi við stefnu ESB og aðildarlandanna í þessum efnum.  Þá verður athyglisvert að virða fyrir sér bankadrottninguna, sem nú hefur setzt í hásæti Samfylkingarinnar-Jafnaðarflokks og vill afla sér ímyndar ferskra, nútímalegra strauma í stjórnmálunum.  Er það bara í nösunum á henni ? Verður hún ígildi Tonys Blair, formanns brezka Verkamannaflokksins, fyrir misheppnaða Samfylkingu ?  Þá þarf hún á talsverðu hugrekki að halda.  Hefur hún það ? 

 

  


Bloggfærslur 21. nóvember 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband