17.12.2022 | 11:04
Vestfirðinga vantar virkjun
Staðarval virkjana landsins er mikilvægt til að lágmarka orkutöp, spennusveiflur og til að hámarka afhendingaröryggi raforku til notenda hennar. Þungamiðja virkjana landsins er á Þjórsár/Tungnaár-svæðinu, sem er tengt Hvalfirði, Straumsvík og þéttbýlinu suðvestanlands með öflugum hætti. Suðurland nýtur góðs af tengingu við Búrfellsvirkjun, en styrkja má enn raforkukerfi Sunnlendinga með tengingu við væntanlegar aðveitustöðvar við virkjanir í Neðri-Þjórsá.
Raforkukerfi Austurlands býr að öflugustu virkjun landsins, Fljótsdalsstöð. Á Vesturlandi er engin stórvirkjun, en öflug aðveitustöð á Brennimel og önnur á Vatnshömrum, en einkum og sér í lagi vantar Vestfirðinga trausta virkjun, sem styrkt geti raforkukerfi þeirra. Þar er nauðsyn á auknu skammhlaupsafli, svo að setja megi 60 kV flutningskerfi LN í jörðu, og spennustöðugleika. Með þessu tvennu væri Vestfirðingum komið í flokk flestra annarra landsmanna gagnvart afhendingaröryggi rafmagns og lítilli losun koltvíildis við raforkuvinnslu.
Ein gleggsta grein, sem um árabil hefur sézt á prenti hérlendis um virkjanamál, birtist í Morgunblaðinu 28. nóvember 2022. Höfundur hennar er Elías Jónatansson, forstjóri Orkubús Vestfjarða, og bar hún fyrirsögnina:
"Að virkja og vernda loftslag - hvar á að virkja".
Hann gerði hnitmiðaða grein fyrir stöðu Vestfirðinga í orkumálum:
"Vestfirðingar fá helming raforku sinnar eftir einni 160 km langri Vesturlínu frá tengivirki Landsnets (LN) fyrir botni Hrútafjarðar [aðveitustöð Hrútatungu] í tengivirkið í Mjólká við Mjólkárvirkjun. Orkan á líklega oftast upptök sín í Blönduvirkjun í 100 km fjarlægð frá Hrútafirði [orkubússtjórinn getur vafalaust vísað til kerfishermana um þetta]. Orkan er því flutt 260 km leið frá orkustöð í tengivirkið í Mjólká með tilheyrandi töpum.
Hinn helmingurinn er framleiddur innan Vestfjarða, og er Orkubú Vestfjarða (OV) þar stærsti orkuframleiðandinn og eini framleiðandinn, sem hefur einhvern varaforða [miðlunargetu], sem heitið getur í lónum við sínar virkjanir. Stærsta virkjun OV er Mjólkárvirkjun, 11 MW, en samtals eru virkjanir í eigu OV og einkaaðila á Vestfjörðum 21 MW."
Það er fljótlegt að reikna út árlegu orkutöpin á þessari 260 km löngu leið frá Blöndu til Mjólkár og kostnað þeirra og kostnaðinn fyrir vestfirzka notendur af völdum truflana, sem valda spennusveiflum og straumleysi hjá þeim. Þar að auki er fyrirsjánlega á næstu árum þörf fyrir aflið, sem nú er flutt til Vestfjarða, nær Bönduvirkjun. Af þessum sökum leikur ekki á tveimur tungum, að um 30 MW virkjun, vel staðsett á Vestfjörðum, er þjóðhagslega hagkvæm. Vert væri, að þingmenn NV-kjördæmis kæmu nú auga á þetta og styddu við bakið á ríkisfyrirtækinu Orkubúi Vestfjarða í viðleitni fyrirtækisins til að hrinda af stað góðum hugmyndum fyrirtækisins um næstu þokkalegu vatnsaflsvirkjun á Vestfjörðum.
"Til að tryggja afhendingaröryggi á Vestfjörðum, þegar flutningslínur eru straumlausar, hefur verið komið upp neti varaaflsvéla víða um Vestfirði. Stærsta varaaflsstöðin er í Bolungarvík, 11 MW dísilstöð í eigu LN, byggð árið 2015. Varaaflsstöðin er jafnstór Mjólkárvirkjun. Á Patreksfirði er 4,7 MW dísilstöð OV (mikið endurnýjuð 2018), en OV er með 11 varaaflsstöðvar um alla Vestfirði, alls 18 MW. Varaaflsstöð LN og nokkrar varaaflsstöðvar OV eru búnar sjálfvirkni og ræsa inn á net á innan við 90 s, ef raforkunetið verður straumlaust vegna bilana eða viðhalds.
Það hefur sýnt sig, að Vestfirðir þurfa í dag að vera með 100 % (dísil-) varaafl fyrir raforku til heimilisnota og til þeirra fyrirtækja, sem nota forgangsorku, til að tryggja ásættanlegt afhendingaröryggi. Þá þarf 100 % varaafl í formi olíukatla við straumleysi í stað rafkyntu hitaveitnanna. Varaafl á Vestfjörðum í formi dísilvéla og olíukatla er um 50 MW í dag."
Þetta er fróðleg lesning, sem sýnir stöðu raforkumála á Vestfjörðum, sem er frábrugðin því, sem aðrir landsmenn búa við. Svo þakkarvert sem það er að búa við tiltækt varaafl, er engu líkara, en þróun raforkumála Vestfirðinga hafi að sumu leyti stöðvazt með tilkomu Vesturlínu. Það er ekki vegna þess, að slæmt hafi verið fyrir Vestfirðinga að tengjast stofnkerfi landsins, heldur hins, að hún er langur leggur, en ekki hringtenging Vestfjarða við landskerfið í líkingu við það, sem aðrir landsmenn búa við. Að hringtengja Vestfirði við landskerfið er dýrt og tekur sinn toll af landinu. Hagkvæmara og meiri landvernd er í því fólgin að virkja vatnsfall eða vatnsföll á vel völdum stöðum á Vestfjörðum m.t.t. stöðugleika kerfisins og afhendingaröryggis raforku. Til þess að losna að mestu við að brenna olíu í varaaflsstöðvum þurfa Vestfirðir að verða sjálfum sér nógir um rafmagn frá virkjunum sjálfbærra orkulinda, og 60 kV flutningskerfi LN þarf að setja í jörðu svo fljótt sem auðið er til að draga úr bilanatíðni og neikvæðum áhrifum á ásýnd lands.
OV mundi þá einvörðungu flytja inn raforku um Vesturlínu, á meðan viðhald eða viðgerðir fara fram í virkjunum fyrirtækisins, og gæti jafnvel flutt raforku til landskerfisins á sumrin, þegar hitunarálagið hefur minnkað, og slíkur flutningur gæti bætt stöðu miðlunarlóna Landsvirkjunar. Allt virðist þetta vera þjóðhagslega hagkvæmt, enda kostar varaaflvélaorkan 70 ISK/kWh, sem er 13-falt heildsöluverð til almenningsveitna um þessar mundir.
"Það er hægt að koma upp virkjun innan svæðisins í seilingarfjarlægð frá mestu notkuninni, sem hefur nægilegt afl og nægilegt vatn í lónum til að mæta orkuþörf innan Vestfjarða, þegar flutningslínur inn á Vestfirði verða straumlausar. Með því að slík virkjun sé nægilega aflmikil til að mæta aflþörfinni innan Vestfjarða ásamt öðrum virkjunum, þá þarf í flestum tilvikum ekki að ræsa dísilknúið varaafl. Þar sem aflið í virkjuninni er auðvitað ekki dísilknúið, heldur vatnsafl, er í raun búið að tryggja afhendingu með vatnsafli og varaaflið þá orðið grænt.
Með byggingu virkjunar er ekki einungis verið að snúa við þeirri stefnu að auka sífellt við varaaflið í formi dísilvéla, heldur mun draga stórkostlega úr notkun þess varaafls, sem fyrir er, eða um 90 %.
Nærtækasta dæmið um slíka virkjun er 20-30 MW virkjun í Vatnsdal í Vatnsfirði, en með tilkomu virkjunarinnar, sem er einungis í 20 km fjarlægð frá Mjólkárvirkjun, gæti straumleysistilvikum hjá 90 % Vestfirðinga fækkað um 90 % og olíunotkun vegna varaafls einnig minnkað um 90 %."
Hér er um mjög mikið hagsmunamál Vestfirðinga og landsmanna allra að ræða, eins og Elías Jónatansson útskýrir þarna vel. Það er kominn tími til að rétta hlut Vestfirðinga í orkulegum efnum, og þess vegna ættu þingmenn og orkuráðuneyti að taka vel í þessa hugmynd OV. Vonandi verða ekki búnar til óþarfa blýantsnagaratafir á þetta verkefni, en vegna staðsetningarinnar þarf líklega sérstakan atbeina umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og mun þá reyna á hann að láta nú nú meiri hagsmuni víkja minni hagsmunum úr vegi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)