Stríð í okkar heimshluta

Frá 24. febrúar 2022 geisar illúðlegt stríð í Evrópu.  Hið árásargjarna rússneska ríki heyr grimmdarlegt nýlendustríð gegn Úkraínumönnum.  Siðferðilega rotnum og ömurlega illa skipulögðum Rússaher gengur svo illa á vígvöllunum, að síðan gagnsókn úkraínska hersins hófst í byrjun september 2022, hefur honum orðið vel ágengt við að frelsa hertekin landsvæði, einkum í norðaustri og suðri. Þar hefur aðkoman verið ömurleg. Fréttir berast nú af 4 pyntingarstöðvum rússneska hersins í frelsaðri Kherson-borg í suðri.  Eru brot Rússa á Genfarsáttmálanum um stríðsrekstur, meðferð stríðsfanga og hegðun gagnvart óbreyttum borgurum, til vitnis um, að Rússland er villimannaríki, hryðjuverkaríki, sem útiloka á frá öllum samskiptum siðaðra manna.

Siðleysi og grimmd rússneskra stjórnvalda og hersins mun koma hart niður á óbreyttum borgurum Rússlands á næstu árum, og getur leitt til upplausnar sambandsríkisins, því að úrþvætti komast ekki upp með yfirráð til lengdar. Stríðið hefur leitt í ljós hrikalega rangt mat Vesturveldanna á öryggi Evrópu í hernaðarlegu og viðskiptalegu tilliti og sýnt frm á  nauðsyn NATO.  Rússar hafa ofmetið hernaðargetu sína og vanmetið samstöðu Vesturveldanna gegn skefjalausu ofbeldi.  Vesturveldin eru þó of treg til að senda Úkraínumönnum þau hergögn, sem gert gætu út af rússneska herinn í Úkraínu á fáeinum mánuðum.  Þessi tregða leiðir enn meiri hörmungar yfir almenning í Úkraínu vegna þess hernaðar, sem hinn ömurlegi rússneski her stundar gegn almennum íbúum Úkraínu. Fólskan ræður þar ríkjum, og hana verður að brjóta sem fyrst á bak aftur og veita síðan hinni stríðshrjáðu og dugandi úkraínsku þjóð inngöngu í NATO. Það er óskiljanlegt, að Þjóðverjar skuli ekki samþykkja tillögu Pólverja um staðsetningu Patriot-loftvarnakerfisins í Úkraínu fremur en í Póllandi.  Patriot-kerfið er líklegast öflugasta loftvarnakerfi, sem völ er á nú um stundir, og mundi líka verja aðliggjandi NATO-lönd, ef það væri staðsett í Úkraínu. Það er engu líkara en Frakkar og Þjóðverjar, hverra einræðisherrar lutu í lægra haldi fyrir gríðarlegum fjölda, sem rússneskir herforingjar öttu fram gegn herjum þeirra á 19. og 20. öld, vilji ekki sjá Rússaher sigraðan í Úkraínu á 21. öldinni.  Það er hrottalega misráðið af Berlín og París. Meira raunsæi er uppi í Eystrasaltslöndunum, Finnlandi og Póllandi, sem liðið hafa undan hernámi Rússa og þekkja eðli þeirra.   

Einn af íslenzkukennurum höfundar í MR skrifaði góða hugvekju í Fréttablaðið 9. nóvember 2022 um ástæður styrjalda almennt, og kveikjan að þeim góðu skrifum er líklega árásarstyrjöld Rússa gegn Úkraínumönnum, sem hneykslazt er á hér að ofan.  Þarna á í hlut Árni Björnsson, þjóðháttafræðingur, en höfundur man ljóslega eftir honum kryfja Eglu með nemendum á einu misseri.  Nokkrir þefnæmir nemendur, einkum nærri kennarapúltinu, töldu sig einstaka sinnum skynja kaupstaðarlykt í loftinu, þegar kennarinn komst á flug við að útskýra boðskap Snorra Sturlusonar og útskýra vísurnar, sem sá lærði maður úr Oddaskóla á Rangárvöllum hafði safnað að sér eða ort sjálfur og sett á kálfskinn.  Konungar voru yfirleitt ófriðsamir og sátu yfir hlut sjálfstæðra bænda með skattheimtu til að fjármagna hirðina og herinn. Að breyttu breytanda á þetta við um einræðisherra nútímans.  

Nú verður gripið niður í lipurlega ritaða hugleiðingu  þjóðháttafræðingsins, sem bar fyrirsögnina:  

"Margtugga um stríð":

"Það er ævinlega fámenn yfirstétt, sem hefur komið stríðsátökum af stað.  Hún lætur, þegar grannt er skoðað, jafnan stjórnast af ásókn í land, auðlindir og völd, þótt menningar- eða trúarlegar ástæður séu oft hafðar á yfirborði.  Til þess hefur hún sér til fulltingis snillinga á sviði innrætingar til að fá almenning til fylgis.  En það er einn afdrifaríkasti veikleiki hins venjulega manns, hvað hann er hrekklaus og ginnkeyptur fyrir málafylgju." 

Þessi texti getur sem bezt átt við Rússland 2022 og Þýzkaland 1939 og 1914.  Í öllum tilvikum var um einræðisstjórnarfar að ræða, og slík ríki eru mun ófriðlegri og árásargjarnari en vestræn lýðræðisríki.  Rússneska yfirstéttin, ólígarkar, ágirnist auð Úkraínu.  Fólkið þar er duglegt og skapandi, moldin er frjósöm, dýrir málmar og olía í jörðu, og nú hafa fundizt miklar jarðgasbirgðir í Suður-Úkraínu og þó einkum í Svartahafi í kringum Krímskagann.

Rússneska rétttrúnarkirkjan virðist vera með böggum hildar, eftir að sú úkraínska sagði skilið við hana 2019 og hefur lýst "sértæka hernaðaraðgerð" Pútíns sem heilagt stríð gegn Úkraínu.  Pútín og skósveinar þessa  nýlenduherra lýsa því blákalt yfir, alveg út í loftið, að úkraínsk þjóð hafi enga sérstöðu og úkraínsk menning sé ekki til. Þetta stríðir gegn heilbrigðri skynsemi og t.d. sögu 18. aldar, þegar Úkraínumenn voru í uppreisn gegn zarnum. Frá því að sænskir víkingar stofnuðu með íbúunum á svæðinu Kænugarðsríkið, hefur Úkraína verið til með sínum kósökkum.  Hér er um harðduglega menningarþjóð að ræða, t.d. á sviði tónlistar og dansa. 

Rússar hafa alltaf verið með tilburði til að þurrka út sérstöðu þjóðarinnar og kúga hana grimmdarlega, eins og tilbúin hungursneið af þeirra hálfu 1932-1933 sýndi.  Til þess var tekið, að Rússar stálu öllum gersemum þjóðminjasafnsins í Kherson og höfðu á brott með sér til Rússlands, ásamt heimilistækjum og salernisbúnaði.  Þeir hafa hagað sér eins og óuppdregnir vandalar í Úkraínu. Herstjórninni væri trúandi til að standa að slíku. Hún er ærulaus. 

"Slík átök byrjuðu smátt fyrir þúsundum ára.  Í frjósömum árdölum tókst fólki smám saman að framleiða meiri matvæli en það þurfti til daglegs viðurværis. Meðal þess spruttu upp klókir og gráðugir menn, sem með ýmsum aðferðum gerðu sig að andlegum leiðtogum og í krafti þess með tímanum að veraldlegum foringjum, sem hirtu framleiðslu fjöldans.  Enginn þeirra var þó þekktur að manngæzku."

Þetta er líklega sannferðug lýsing á upphafi stéttaskiptingar í heiminum. Fólk hefur alltaf verið misjafnlega úr garði gert að andlegu og líkamlegu atgervi, svo að ekki sé minnzt á hugðarefnin, svo að þeir, sem gátu framleitt meira en aðrir, hafa verið taldir vel til forystu fallnir. Hjátrú hefur þjakað lýðinn þá, eigi síður en nú, og það hefur verið góður jarðvegur til að koma því inn hjá honum, að velgengni stæði í sambandi við æðri máttarvöld. Það varð að eins konar réttlætingu á forréttindum og hóglífi æðsta klerks, að þau væru merki um velþóknun æðri máttarvalda.  Áróður og innræting hafa óralengi leikið stórt hlutverk í samfélagi manna og verið jafnan til bölvunar.  

"Þessir foringjar komu sér upp hirð og her til að tryggja völd sín, reistu sér hallir og hof og töldu lýðnum trú um, að toppfígúran hefði þegið stöðu sína frá æðri máttarvöldum, sem öllum bæri að hlýða.  Þegar svo valdaklíkur í nágrannalöndum tóku að keppa um sömu náttúruauðlindir, var kvatt til herútboðs, einatt í nafni trúar, þjóðernis eða ættjarðarástar.  Og lýðurinn kunni ekki annað en hlýða.  Í sögukennslu er svo látið heita, að þetta sé gert í nafni þjóðar og forkólfar yfirgangsins, eins og Alexander mikli, Sesar eða Napóleon, kallaðir mikilmenni." 

Höfundur þessa pistils er hallur undir þessa söguskýringu síns gamla læriföður um Eglu. Í hryðjuverkaríkinu Rússlandi er nú alræði eins manns, sem hefur hlotið blessun rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar á villimannslegu landvinningastríði sínu í Úkraínu, svo að þar kemur sú tenging við yfirnáttúruleg öfl, sem Árni tínir til í kenningu sinni hér að ofan.  Forseti Rússlands boðar ennfremur endurreisn heimsveldis Rússa, eins og það var víðfeðmast á dögum zaranna, og í raun sameiningu allra Slava í eitt ríki undir forystu Rússa.  Það á að endurreisa "mikilfengleika Rússlands", sem er þó anzi þokukenndur. 

Þetta er geðveiki, enda er ekki nokkur raunhæfur grundvöllur fyrir slíkri endurtekningu kúgunarsögunnar.  Forseti Rússlands hefur raunar bólusett Úkraínumenn og aðra Slava endanlega gegn nokkrum áhuga á því að gerast enn og aftur þrælar frumstæðs og ofstopafulls rússnesks ríkis. 

"Pútín er lítið annað en handbendi nýríkra rússneskra auðjöfra, sem ágirnast m.a. auðlindir Úkraínu.  Vopnaframleiðendur meðal þeirra tapa ekki, þótt rússneski herinn tapi á vígstöðvunum.  Að breyttu breytanda gildir sama munstrið í stórum dráttum enn í dag. Það eru ekki þjóðir, sem keppa um auðlindir jarðar, en í stað aðalsmanna fyrri alda er komin yfirstétt fjármálajöfra, sem hagnast m.a. á offramleiðslu og endurnýjun óþarfra hergagna.  Til að réttlæta hana þarf að magna upp stríðsótta og helzt tímabundin átök.  Þetta eru allt annars konar öfl en þeir heiðarlegu dugnaðarmenn í hverju landi, sem eiga frumkvæði að því að byggja upp þarflega atvinnuvegi, en halda sig frá fjármálabraski.  En í krafti hins frjálsa fjármagns ráða braskararnir oft ferðinni."  

Hér skal ósagt látið, hver er handbendi hvers í æðstu  valdastétt Rússlands.  Þá er og komið í ljós núna, að friðarhreyfingar í Evrópu og víðar hafa haft kolrangt fyrir sér varðandi hættuna, sem af Rússum stafar.  Þeir eru einfaldlega enn þá útþenslusinnað og árásargjarnt ríki, þótt herstyrkur og efnahagsstyrkur þessa rotnaða ríkis sé lítill.  Að tala niður fjármálamenn og fjárfesta á Vesturlöndum, af því að þeir græði sumir á framleiðslu og sölu hergagna, missir nú orðið algerlega marks á Vesturlöndum.  Það er full þörf á NATO og hefur alltaf verið til að verja einstaklingsfrelsið og lýðræðið.  Nú eru reyndar svartir sauðir í NATO á borð við Erdogan, Tyrklandsforseta, og Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, sem þvælast fyrir inntöku Finnlands og Svíþjóðar í NATO.  Þá verður hegðun Orbans æ undarlegri, því að nú er hann farinn að sýna tilburði um að vilja færa út landamæri Ungverjalands og lætur mynda sig með trefil, sem sýnir ný landamæri. 

Rússar eru nú þegar búnir "að spila rassinn úr buxunum" í Úkraínu og hafa breytzt í útlagaríki.  Það verður líklegra með hverri vikunni, sem líður, að draumur Úkraínumanna um að reka rússneska herinn út úr landi sínu og endurreisa landamærin frá 1991 muni rætast 2023.  Til að varðveita þann frið, sem þeir þá hafa lagt grunninn að, þarf endilega að verða við bón þeirra um að ganga í NATO.  Síðan mun hefjast gríðarlegt uppbyggingarskeið í Úkraínu, þar sem innviðir, skólar, sjúkrahús,íbúðarhúsnæði og fyrirtæki verða reist að vestrænum hætti, og Úkraína verður tengd vestrænum mörkuðum og stofnunum og verður varnarlegt bólvirki gegn Rússum með öflugasta her Evrópu.  

Það mun ekki líða á löngu, unz verg landsframleiðsla Úkraínu mun sigla fram úr VLF Rússlands, og að nokkrum áratugum liðnum munu Úkraínumenn verða fjölmennari en íbúar leifanna af Rússaríki.  (Kákasusþjóðirnar og e.t.v. einhverjar Síberíuþjóðir munu segja skilið við Sambandsríki Rússlands.)  Auðlindir Úkraínu eru nægar til að veita yfir 100 M manna þjóð góð lífskjör á evrópskan mælikvarða.  Úkraína getur brauðfætt og knúið orkukerfi allrar Evrópu vestan Rússlands. Þannig mun Úkraína verða öflugasta ríki Evrópusambandsins. 

 

 

 

 


Bloggfærslur 8. desember 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband