Opinberar sóttvarnaraðgerðir hafa valdið tjóni, en hafa þær gert gagn ?

Hér birtist þýðing á grein sænska læknisins Sebastians Rushworth á vefsetri hans undir fyrirsögninni:

"Covid opinberlega afstaðin í Svíþjóð"

Við eigum eftir að standa andspænis öðrum og alvarlegri sjúkdómsfaröldrum en C-19.  Þess vegna er nauðsynlegt að gera hlutlæga athugun á viðbrögðum hins opinbera og einkaaðila við þessum tiltölulega væga faraldri, t.d. í samanburði við ebólu, svo að móta megi hagkvæm og skilvirk og fumlaus viðbrögð við næstu faröldrum.  Hefst nú grein Sebastians:

"Sænska ríkisstjórnin hefur ákveðið að binda enda á allar hömlur tengdar covid 9. febrúar 2022.  Þar að auki verður samkomuhöldurum og atburðastjórnendum óheimilt að krefja gesti um bólusetningarvottorð. Ennfremur mælir landlæknir með, að covid verði ekki lengur flokkað sem "ógn við lýðheilsu".  Svíþjóð er 3. í röð Norðurlandanna til að afnema covid-hömlur og fylgir þar á hæla Danmerkur og Noregs.

Ákvörðunin felur í sér viðurkenningu á þeirri staðreynd, að covid hefur breytzt úr því að vera heimsfaraldur í hefðbundna umgangspest.  Landlæknir áætlar, að 500´000 Svíar hafi smitazt í viku 04/2022 [18´500 á íslenzkan mælikvarða-innsk. BJo] (sem er tvöfaldur fjöldi greindra tilvika ).  Á sama tíma dó aðeins 181 af/með covid [7 á íslenzkan mælikvarða] (mögulega fleiri "með" en "af").  Það setur núverandi dánarhlutfall af covid í sömu stíu og kvef.  Eins og margir hafa spáð, hefur C-19 nú orðið 5. "kvef"- kórónuveirusjúkdómurinn.

Nú þegar faraldurinn er opinberlega afstaðinn, finnst mér áhugavert að líta til baka og athuga, hversu slæmur hann raunverulega var.  Áður en við gerum það skulum við minnast þess, að Svíþjóð beitti vægum úrræðum gegn faraldrinum allan tímann. Það þýðir, að Svíþjóð er gagnleg "viðmiðun" til að skilja, hvað mundi hafa gerzt, ef yfirvöld (í mörgum löndum) hefðu ekki beitt aflokunum (lockdowns), lokað skólum og þvingað alla til að setja upp grímu. 

Ef við viljum skilja, hversu mikil lífsógn faraldurinn var, þá er bezti mælikvarðinn fjöldi heildardauðsfalla.  Það er eini mælikvarðinn, sem ekki er auðveldlega hægt að föndra með í annarlegu augnamiði.  "Coviddauðdagar" er ekki góður mælikvarði, af því að hann er túlkunaratriði.  Ólíkir læknar, ólík sjúkrahús og ólík lönd, skilgreina coviddauðdaga með ólíkum hætti.  Oft sést í opinberri tölfræði, að "dauðdagar með covid" (þ.e. dánarorsök önnur, en sá látni var með covid eða a.m.k. hafði slíkt próf reynzt jákvætt) eru skilgreindir sem "coviddauðdagar", sem gerir erfitt um vik að ákvarða hina raunverulegu dánartíðni af völdum covid. [Þetta á nánast örugglega við um Ísland einnig-innsk. BJo.]

Tölfræðistofnun sænsku ríkisstjórnarinnar (SCB) [Hagstofan] vinnur fyrirtaks tölfræðigögn, mögulega áreiðanlegustu opinberu tölfræðigögn  í heiminum.  "Harold on Twitter" hefur útbúið afar hjálpleg gröf á grundvelli þessarar tölfræði. 

Á "harold-graph-1" í viðhengi koma fram heildardauðsföll í Svíþjóð 1991-2021.  Við sjáum hægt fallandi dánartíðni á þessu 30 ára skeiði, frá u.þ.b. 1´100 dauðsföllum á 100´000 í byrjun 10 áratugarins niður í að meðaltali u.þ.b. 900 dauðsföll á 100´000 íbúa síðastliðin 5 ár.  Þessi lækkun er líklega aðallega út af því, að vænt ævilengd í Svíþjóð hefur lengst töluvert á þessu 30 ára skeiði eða úr 78 árum 1991 í 83 ár núna. 

Næst sjáum við óvenju lága dánartíðni 2019.  Þess vegna var viðbúið, að árið 2020 yrði verra en meðalár af þeirri einföldu ástæðu, að árum með dánartíðni undir meðaltali fylgja vanalega ár með yfir meðaltals dánartíðni (af því að ár með undir meðaltals dánartíðni þýðir, að þá eru margir heilsuveilir við dauðans dyr í upphafi næsta árs).  Við getum séð þetta á grafinu - þegar dánartíðni lækkar umtalsvert á einu ári, fylgir því venjulega hækkun dánartíðni árið eftir. Þannig verður árið 2020 líklegt til að vera með hærri dánartíðni en meðaltals dánartíðni áður en C-19 varð vart. 

Þá komum við að árinu 2020, og þar sjáum við áhrif faraldursins (ásamt viðbúinni dánartíðni aðeins yfir meðaltalinu), með heildardauðsfallafjölda u.þ.b. 945 á 100´000 íbúa í samanburði við meðaltal síðustu 5 ára, sem er 900 á 100´000 íbúa.  Þannig voru árið 2020 45 viðbótar dauðsföll á 100´000 íbúa í samanburði við meðaltal undanfarinna 5 ára, sem jafngildir u.þ.b.    4´600 manns.  Það þýðir, að faraldurinn ásamt þeirri staðreynd, að 2020 sigldi í kjölfar árs með óvenju lága dánartíðni, olli um 4´600 viðbótar dauðsföllum, sem er 0,04 % af íbúafjölda Svíþjóðar. 

Hvað getum við ályktað ?

Jú, það varð smáfjölgun dauðsfalla 2020 út af covid, en hún varð ósköp lítil.  Ég segi ekki, að covid sé ekki hættulegur sjúkdómur fyrir suma hluta þjóðfélagsins, en allar fullyrðingar um, að þetta væri afar lífshættulegur faraldur á við spænsku veikina eru greinilega gríðarlega orðum auknar.  Það kemur einkar vel í ljós, þegar við höldum áfram og lítum á árið 2021. Eins og fram kemur af grafinu, var dánarhlutfall það ár ekkert umfram meðaltalið.  Raunar var 2021 með næstminnstu dánartíðni í sögu Svíþjóðar !

Þetta er svo þrátt fyrir þá staðreynd, að opinberar tölur sýna 6000 dauðsföll með/af covid í Svíþjóð 2021 [þetta eru 220 á íslenzkan mælikvarða].  Greinilega voru þá flest þessara 6000 dauðsfalla fremur "með" en "af" covid, eða fólkið, sem dó af covid var flest komið svo að fótum fram, að það hefði látizt árið 2021 hvort eð var, jafnvel án covid.

Þegar við skoðum gögnin mánuð fyrir mánuð (aftur leyfi frá Harold og SCB, sjá viðhengi þessa pistils), sjáum við dálítið áhugavert [harold-graphs-2-1].

Við sjáum dauðsföll yfir meðaltali í Svíþjóð frá apríl til júní 2020 og síðan aftur frá nóvember 2020 til janúar 2021.  Í öllum öðrum mánuðum þessa tveggja ára tímabils voru dauðsföllin færri en búast mátti við.  Þannig voru umframdauðsföll af völdum þessarar veiru í reynd aðallega á tveimur stuttum tímabilum, og var annað vorið 2020 og hitt veturinn 2020/2021.  Utan þessara tveggja tímabila voru áhrif veirunnar lítil.  Sænska ríkisstjórnin hefur opinberlega lýst yfir lokum faraldursins nú, en sé litið á tölfræði mánaðarlegra heildardauðsfalla, lítur út fyrir, að honum hafi lokið fyrir einu ári [líklega með hjarðónæmi í Svíþjóð - innsk. BJo].

Jæja, þetta var um það, hvernig covid lék Svía, þjóðina, sem aldrei var beitt aflokunum á starfsemi og sem margir gerðu lítið úr sem "útlagaþjóð" á fyrri hluta faraldursskeiðsins.  Þegar við hins vegar skoðum tölfræði heildarandláta og sjáum fjöldann, sem raunverulega dó af völdum covid, er alveg ljóst, að Svíþjóð var e.t.v. landið, sem brást viturlegast við faraldrinum með aðgerðum, sem voru að mestu í samræmi við ógnina, sem við blasti.  Aðrar þjóðir á hinn bóginn gengu fram með slaghömrum gegn flugum. 

Eitt er það, sem áhugavert er að hugsa um í ljósi þessa, og það er heildardauðsfallafjöldi á 100 k íbúa í öðrum löndum.  Fyrst Svíþjóð, sem skellti ekki í lás, var aðeins með örlítið fleiri dauðsföll 2020 en að meðaltali 5 árin á undan og engin umframdauðsföll 2021, er ljóst, að covid-19 hefur í sjálfu sér ekki valdið umtalsverðu tjóni.  Það þýðir, að tíðni dauðsfalla umfram smáræðið í Svíþjóð í löndum, sem skelltu í lás (lockdown), getur ekki verið vegna veirunnar.  Orsakanna hlýtur að verða að leita annað. Fyrst hið hina, sem skildi að Svíþjóð og þessi önnur lönd um þetta 2 ára skeið, var höfnun [Svíþjóð] og notkun [aðrir] aflokana, er næstum örugglega hægt að skýra umframdauðsföll með aflokunum.  

Tökum Bandaríkin (BNA) sem dæmi.  Ólíkt Svíþjóð var víða í BNA gripið til stórtækra aflokana.  Komu þessar aflokanir í veg fyrir einhver covid-dauðsföll ?  Ja, ef við lítum bara á hráar tölurnar, þá sjáum við enga slíka fækkun dauðsfalla m.v. Svíþjóð.  Samkvæmt opinberum tölum hafa 0,27 % bandarísku þjóðarinnar látizt af/með covid [Ísland 0,01 %] í samanburði við 0,16 % Svía - þrátt fyrir aflokanir hafa Bandaríkjamenn mátt þola marktakt fleiri covid-dauðsföll en Svíar m.v. 100 k íbúa !

Þetta er í samræmi fjölda gagna, sem sýna fram á, að opinberar aflokanir og hömlur á samkomum og rekstri voru óskilvirkt úrræði gagnvart SARS-CoV-2.  Nú fyrst við vitum, að höftin eru óskilvirkt úrræði til að stöðva veiruna, mundum við búast við, að í BNA væru áhrif faraldursins á heildarandlátsfjöldann svipuð og í Svíþjóð - þ.e. smávegis aukningu í fjölda heildarandláta má búast við.  Ef á hinn bóginn aukningin er miklu meiri í BNA en í Svíþjóð, þá er hún líklega sökum haftanna.  Hvað sjáum við á grafinu "image-1", sem reist er á gögnum CDC (Sóttvarnastofnun BNA) í viðhengi ? 

Við sjáum aukningu í heildarfjölda andláta í BNA 2020 og 2021, sem er markvert meiri en í Svíþjóð.  Í Svíþjóð er hlutfallsleg aukning heildarfjölda andláta 1 % í samanburði við meðaltal áranna 5 á undan (frá 900 dauðsföllum á 100 k árin 2015-2019 til 912 dauðsföll á 100 k árin 2020-2021).

Í BNA er hlutfallsleg aukning heildardauðsfalla 18 % ! (frá 860 dauðsföll á 100 k árin 2015-2019 til 1016 dauðsföll á 100 k árin 2020-2021).  Það er 18-föld meiri aukning dauðsfalla á þessum 2 árum farsóttarinnar í BNA en í Svíþjóð !

Samantekt: BNA er með innan við tvöfalt fleiri [1,7 sinnum fleiri] covid-dauðsföll en Svíþjóð (0,27 % af bandarísku þjóðinni m.v. 0,16 % af sænsku þjóðinni), en 18 sinnum fleiri umframdauðsföll [frá meðaltali] !  Greinilega er ekki hægt að útskýra þann gríðarlega mun með veirunni.  Það verður að útskýra hann öðruvísi.  Eina haldbæra skýringin frá mínu sjónarhorni eru hrikalegar afleiðingar haftanna á frelsi fólks og fyrirtækja fyrir heilsufar almennings.  Það verður áhugavert að fylgjast með því, hvort bandaríska þjóðin lætur stjórnmálaforystu sína á næstu árum gjalda fyrir gríðarlegan skaða, sem hún hefur valdið þjóðinni með dómgreindarleysi sínu."  Undirstrikun þýðanda. 

 Sóttvarnaryfirvöld hérlendis sitja við sinn keip og fullyrða án þess að hafa rannsakað það neitt nánar, að alls konar dýrkeyptar hugdettur þeirra, sem framkvæmdar hafa verið umhugsunarlítið með útgáfu reglugerða heilbrigðisráðherra, hafi gert eitthvert gagn.  Þá er því oftast kastað fram, að höftin hafi dregið úr álagi á heilbrigðiskerfið.  Hér skal kasta fram þeirri tilgátu, að málinu sé öfugt farið.  Höftin hafi aukið álag á heilbrigðiskerfið, og er þá vísað til þessarar athugunar Sebastians Rushworth hér að ofan.  Öfgar sóttvarnaryfirvalda hafa verið yfirgengilegar með því t.d. að skikka einkennalausa og börn í sóttkví og hvetja foreldrana til að láta bólusetja börn sín í miðjum ómíkrón faraldri, sem bóluefnin eru frá upphafi gagnslaus gegn, og varnarmáttur þeirra hvarf á hálfu ári gagnvart fyrri afbrigðum. 

Það er rík ástæða fyrir Alþingi til að verja almenning gegn öfgum lækna og annarra, sem blygðunarlaust hræða almenning til fylgilags við öfgafullar skoðanir sínar um frelsissviptandi  forsjárhyggju sína.  Það verður að beizla sóttvarnarlækni á hverjum tíma með víðsýnu sóttvarnaráði, skipuðu fólki úr öllum lögum samfélagsins, eins og núverandi heilbrigðisráðherra hefur nú í hyggju.  Ný sóttvarnarlög ættu að taka völdin af ráðherra til frelsissviptinga almennings með reglugerð.  Aðeins Alþingi á að geta veitt ráðherra slíkar heimildir, sem hann síðan útfærir í samráði við sóttvarnarráð, en hvorki landlækni né sóttvarnalækni eina.  

 

 

 

 

 

 

 

   

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 10. febrúar 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband