Skefjalaus útþenslustefna Rússlandsforystunnar

Það hefur nú loksins runnið upp fyrir forystu Evrópu, Bandaríkjanna og heimsins alls, hversu stórhættuleg fyrir framtíð heimsins alls forysta Rússlands er vegna skefjalausrar útþenslustefnu sinnar, þar sem hún reynir á vitfirringslegan hátt að skrúfa rás tímans aftur um rúmlega 30 ár og jafnvel langt aftur fyrir byltingu mensévíka gegn keisaranum og bolsévíka gegn þeim.  

Það er forneskjuleg og glæpsamleg hugmyndafræði, sem forseti Rússlands hefur kynnt í ritgerðum og ræðum, að Rússlandi beri að sameina slavneskar þjóðir undir ríki sitt með svipuðum hætti og var í blóma rússneska keisaraveldisins. Frá Kalíningrad, gömlu Königsberg í Prússlandi, sem er víghreiður Rússlands við Eystrasaltið, getur rússneski herinn sótt inn í Eystrasaltslöndin, sem reyndar eru ekki slavnesk að stofni, og inn í Pólland. Þessi yfirvofandi hætta hefur nú sameinað Evrópu, Bandaríkin og nánast allan heiminn. (Kínverskur stórbanki í Shanghai, sem hefur haft milligöngu um mikil eldsneytisviðskipti Rússa, hefur nú stöðvað þau. Indverski herinn er búinn rússneskum hergögnum og hefur nú miklar áhyggjur af "gæðum" þeirra.)

Það er með ólíkindum og með öllu óviðunandi fyrir Evrópuþjóðir vestan Úkraínu, að tekin sé ákvörðun um það í Moskvu að leggja frjálst og fullvalda Evrópuland undir Rússland með villimannslegu hervaldi. Við þessa iðju sína beita Rússar ógnaraðferðum og gera óbreytta borgara að skotmörkum flugskeyta sinna og sprengjuvarpa með því að beina þeim að skólum, sjúkrahúsum, stjórnarbyggingum, torgum o.fl., þótt lygalaupurinn Pútín haldi öðru fram og sendimönnum ógnarstjórnar fyrrverandi KGB-manns sé falið að ljúga öðru upp í opið geðið á Vesturlandamönnum, sem búnir eru nú að fá upp í kok af lygaþvættingi stríðsglæpamanna ríkisstjórnar Rússlands og útsendara hennar. Að þvættingurinn frá Moskvu sé enn bergmálaður á Íslandi, er ekki einleikið.

Úkraínumenn hafa með hetjulegum varnarviðbrögðum sannað fyrir umheiminum með óyggjandi hætti, að þeir hafa fengið sig fullsadda af að vera undirsátar Rússa í eigin landi.  Þeir eru tilbúnir að berjast til þrautar við Rússa fyrir fullveldi sínu og sjálfsákvörðunarrétti. Fjöldi mæðra ungra barna hafa flúið eða eru á flótta til nágrannalanda, en feðurnir verða eftir til að berjast við ofureflið.  Fyrrverandi hermenn fara unnvörpum til föðurlands síns til að taka þátt í baráttunni.  Úkraínska hernum hefur orðið ótrúlega vel ágengt gegn fjandmanninum, sem virðist ekki vita sitt rjúkandi ráð. 

 

 

Úkraínska ríkisstjórnin og forsetinn hafa ákallað Vesturveldin um aðstoð gegn ofureflinu, og Vesturveldin hafa svarað með því að einangra Rússland á öllum sviðum og með vopnasendingum, læknabúnaði og matarsendingum, þ.e. með flestu öðru en því, sem þarf til reka fjandmanninn á flótta með skjótum hætti. Það verður samt að vona, að Rússar, sem horfast nú í augu við þá fáránlegu staðreynd, að einn maður hefur nú breytt "móður Rússía" í útlagaríki í heiminum, ýti óþokkanum frá völdum og dragi rússneska herinn inn fyrir landamæri Rússlands. 

Úkraínumenn munu hins vegar seint gleyma því eða fyrirgefa, það sem þessi nágranni þeirra hefur á hlut þeirra gert, og Úkraínumenn eiga siðferðilegan rétt á því eftir þetta, að Vesturlönd ábyrgist landamæri þeirra og þeir fái sérstakt samband við Evrópusambandið og aðgang að Innri markaðinum, eins og þeir hafa ítrekað beðið um.  Evrópa verður að standa saman að uppbyggingu Úkraínu eftir stríðið með aðstoð Bandaríkjanna. Hið gegnumrotna stjórnkerfi Rússlands, þar sem auðjöfrar og stjórnmálamenn með Vladimir Putin, gamlan leyniþjónustumann KGB á toppi pýramídans, stela auði stritandi alþýðu Rússlands, má hreinlega ekki til þess hugsa, að vestan landamæranna þróist grózkumikið hagkerfi og lýðræðislegt stjórnarfar.   

Nina L. Khrushcheva, prófessor alþjóðamála hjá "The New School", á rætur að rekja til Úkraínu, því að langafi hennar, Nikita Khrushchev, var aðalritari sovézka kommúnistaflokksins 1953-1964. Eftir hana birtist í Morgunblaðinu 28.02.2022 greinin:

"Hvað er Pútín að hugsa ?"

Þar stóð m.a. þetta:

"Aðeins slík hugsun [Mao Zedong:"pólitískt vald vex úr byssuhlaupi"-innsk. BJo] getur útskýrt aðgerðir Pútíns í Úkraínu. Hann segist vilja "afnazistavæða" Úkraínu, en merkingarleysi þeirrar fullyrðingar ætti að vera augljóst ekki sízt vegna þess, að forseti Úkraínu, Volodimir Zelenski, er Gyðingur.

Hvert er markmið Pútíns ?  Vill hann refsa NATO með því að eyðileggja hernaðarinnviði Úkraínu ?  Vonast hann til að koma á fót leppstjórn, hvort sem er með því að skipta Zelenskí út eða með því að breyta honum í úkraínskan Philippe Pétain, samstarfsleiðtoga [leppstjóra] Frakklands í síðari heimsstyrjöldinni ?

Svarið við báðum þessum spurningum gæti verið já. En raunveruleg ástæða Pútíns fyrir innrás í Úkraínu er mun óraunsærri og meira ógnvekjandi.  Pútín virðist hafa fallið fyrir sjálfhverfri þráhyggju sinni um að endurheimta valdastöðu Rússlands með eigið greinilega skilgreinda áhrifasvæði."

Sennilega hefur Khrushcheva rétt fyrir sér um það, að vitfirringsleg löngun forseta Rússlands til að endurvekja yfirráð Moskvustjórnar yfir löndum, sem zarinn réði fyrir forðum tíð, þegar veldi hans var mest, ráði gjörðum hans.  Þá varð hann að byrja á Úkraínuen Úkraínumenn hafa nú sýnt og sannað, að þeir kjósa að berjast til þrautar fyrir frelsi sínu og fullveldi landsins. 

Það hafa verið hæg heimatökin hjá þeim að bera saman þjóðfélagsgerð, tæknilegar framfarir og lífskjör austan og vestan við sig, þ.e. í Rússlandi og t.d. í Póllandi.  Þessi samanburður hefur leitt til þess, að þeir vilja eindregið horfa til vesturs, og glæpsamleg innrás Rússa í landið þeirra hefur farið langt með að sameina þá í þeirri afstöðu, og Vestrið hefur loksins vaknað upp við vondan draum.  Það verður að stöðva stríðsglæpamennina í Kreml. Jafnvel Svisslendingar hafa nú fryst eigur þeirra í Sviss.

Úkraínski flugherinn þarf nú flugvélar og flugmenn og gagneldflaugakerfi, eins og t.d. Ísraelsmenn eiga.  Flugbannssvæði yfir Úkraínu mundi þýða stríð NATO við Rússland, ef að líkum lætur. Ef vitfirringin fær að grassera í stjórn Rússlands, verður stríð við hana þó  óhjákvæmilegt.  

"Í ljósi þess, að Pútín treysti á Kína til stuðnings við að skora heimsmynd og yfirráð Bandaríkjanna á hólm, myndi það ekki hafa góð pólitísk eða stefnumótandi áhrif á Xi að ljúga að honum. Það, sem veldur svo miklum áhyggjum, er, að Pútín virðist ekki lengur fær um þá rökhugsun, sem ætti að stýra ákvarðanatöku leiðtoga.  Langt frá því að vera jafningi er Rússland nú á góðri leið með að verða eins konar kínverkst leppríki."

 Þarna lætur Khrushcheva í ljós áhyggjur margra um, að forseti Rússlands sé ekki lengur með "fulle fem", að hann gangi ekki á öllum.  Það er alveg ljóst, að  heilbrigð skynsemi hefur yfirgefið hann, hafi hann einhvern tímann búið svo vel.  Hann er búinn að keyra Rússland niður í siðferðislegan, pólitískan og efnahagslegan ruslflokk og verður nú að sitja og standa, eins og Xi Jinping þóknast.  Hann er með stórveldisdraumum sínum og landvinningastefnu að drekkja Úkraínumönnum í blóði.  Hann mun fyrir vikið uppskera fyrirlitningu og viðbjóð landsmanna sinna og alls umheimsins.  Hann er búinn að vera. 

Ungur skriðdrekahermaður, sem féll í fyrstu viku átakanna, hringdi úr farsíma sínum í móður sína skömmu áður og sagðist vera kominn í stríð í Úkraínu, en hún hélt hann vera á heræfingu á Krím.  Hann sagði, að hermönnunum hefði verið sagt, að Úkraínumenn mundu taka þeim fagnandi, en raunin væri allt önnur.  Hann skammaðist sín svo mikið fyrir hlutskipti sitt, að hann sagðist helzt vilja binda enda á eigið líf.  Þegar vika var liðin frá upphafi innrásarinnar höfðu 9000 rússneskir hermenn fallið í átökunum samkvæmt upplýsingum Úkraínustjórnar.  Þessi villimannslega innrás rússneska hersins gengur á afturfótunum. 

"Innrásin í Úkraínu hefur einnig myndað gjá [á] milli fyrrverandi bandamanna og Pútíns.  Sumir af trúföstustu lærisveinum hans á Vesturlöndum, frá forseta Tékklands, Milos Zeman, til Viktors Orbáns, forsætisráðherra Ungverjalands, hafa fordæmt aðgerðir hans.  En, kannski enn mikilvægara, þá hafa óráðsræður Pútíns hliðsett rússnesku þjóðina.  Með villimannslegri árás á Úkraínu hefur hann fórnað áratuga langri félagslegri og efnahagslegri þróun og eyðilagt vonir Rússa um betri framtíð.  Rússland verður nú alþjóðlegt úrhrak í áratugi."

Í ljósi þessa mats, sem er ekki langsótt, heldur liggur beint við, er stórfurðulegt að sjá nokkrar hræður á samfélagsmiðlum hérlendis bera í bætifláka fyrir stríðsglæpamanninn Vladimir Putin og jafnvel ganga svo langt í fáránleikanum, að hann sé með svívirðilegum stríðsrekstri sínum að uppræta spillingu í Úkraínu.  Fólk, sem lætur svona þvætting frá sér fara, er ekki með öllum mjalla. 

Hver er afstaða forsætisráðherra Íslands og flokks hennar, Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs, til varnarbandalags lýðræðisríkja, NATO ?  Síðast, þegar fréttist, var hún og flokkurinn andsnúin veru Íslands í NATO.  Við núverandi aðstæður gengur það alls ekki, að forsætisráðherra Íslands hafi þessa afstöðu eða sé óheil í afstöðu sinni, beri kápuna á báðum öxlum.  Hvers vegna hefur hún ekki manndóm í sér til að fara að dæmi Svía og Finna, sem nú eru að endurskoða sína afstöðu, og viðurkenna villur síns vegar ?  Ætlar hún enn að halda því fram, að eitthvert hald sé að hlutleysisstefnu ríkis í varnarmálum ? Vitleysa vinstri manna á Íslandi ríður ekki við einteyming nú frekar en fyrri daginn.

"Sömuleiðis er fullyrðing um, að 73 % Rússa styðji aðgerðir Pútíns í Úkraínu, hreinn áróður.  Þúsundir safnast saman í rússneskum borgum og segja "nei við stríði", þrátt fyrir fangelsanir og lögregluofbeldi. Í þetta sinn virðast Rússar ekki líklegir til að gefast upp án andmæla.  Á næstu dögum og vikum getur heimurinn búizt við mörgum vísbendingum til viðbótar um, að Rússar vilji ekki þetta stríð."

 Það er vafalaust þyngra en tárum taki fyrir almenning í Rússlandi að sitja uppi með böðul frænda þeirra vestan landamæranna. Það þarf enga mannvitsbrekku til að átta sig á, að engin glóra er í því fyrir Rússa að standa blóðugir upp fyrir axlir við að þvinga fram sameiningu Rússland og Úkraínu.  Það vissi alþýða Rússlands fyrir 24. febrúar 2022.  

Það er sömuleiðis ótæk hegðun með öllu að láta börn eða fullorðna, sem eru af rússnesku bergi brotin hérlendis, gjalda fyrir framferði ríkisstjórnar lands þeirra, en að mótmæla framferði þessarar rússnesku ríkisstjórnar í Úkraínu með friðsamlegum hætti er hins vegar sjálfsagt mál.

ukrainian-cloth-flags-flag-15727

 

 

    


Bloggfærslur 4. mars 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband