Votlendisvitleysan

Loftslagsstefna stjórnvalda er botnlaust fúafen, á meðan stjórnvöld hafa jafnóskýra stefnu í virkjunarmálum og reyndin er. Orkufyrirtækin treysta sér ekki til að semja við nýja viðskiptavini eða gamla um viðbótar forgangsorku, sem nokkru nemi. Sú staða bendir til, að aflgeta kerfisins sé fullnýtt, þegar tekið er tillit til nauðsynlegs reiðuafls og varaafls, sem jafnan verður að vera fyrir hendi í kerfinu til að hindra of mikið spennu- og tíðnifall eða beinlínis skort, ef óvænt atvik verða.

Samt er engin ný virkjun á döfinni yfir 10 MW.  HS Orka vinnur að bættri nýtingu, sem gæti aukið afl til ráðstöfunar á næstunni um u.þ.b. 35 MW.  Hér verður engin græn orkubylting, eins og stjórnvöld dreymir um, án verulegra nýrra virkjana.  Með aðgerðaleysi stjórnvalda í virkjunarmálum og "rammaáætlanir" stjórnar og þings í tómarúmi mun raforkuskortur í landinu hamla hagvexti og orkuskiptum. 

Einn þátturinn í "loftslagsstefnu" stjórnvalda er reistur á mjög ótraustum þekkingarlegum grunni, eins og rannsóknir íslenzkra vísindamanna eru nú að leiða í ljós.  Þessi þáttur er "endurheimt votlendis" með því að moka ofan í skurði.  Þessi aðgerð er aðallega kostuð af ríkissjóði á vegum s.k. Votlendissjóðs.  Rökin eru gripin úr lausu lofti, þ.e. frá búrókrötum IPCC (International Panel on Climate Change-undirstofnun Sameinuðu þjóðanna). 

Notaðir eru stuðlar frá IPCC til að reikna út minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda við "endurheimt votlendis" án þess að sannreyna þá við íslenzkar aðstæður.  Þegar vísindamenn taka nú til við mælingar sínar á bindingu og losun CO2-jafngilda hérlendis, komast þeir að allt annarri niðurstöðu, sem gerir að verkum, að þegar í stað ætti að stöðva fjárútlát úr opinberum sjóðum til þessa flausturslega verkefnis.

Í nýlegri skýrslu Landbúnaðarháskóla Íslands, "Langtímatap kolefnis í framræstu landi" er gerð grein fyrir áfanga í rannsóknum hérlendis á losun úr þurrkuðum mýrum, en miklu fleiri mælingar þarf til að fá heildarmynd af þessari losun fyrir landið allt að teknu tilliti til aldurs skurðanna og frágangs ofanímokstursins. Bændablaðið gerði rækilega grein fyrir þessum tíðindum 7. apríl 2022, og er hér stuðzt við þá umfjöllun:

"Í rannsóknum, sem gerðar voru bæði á framræstu og óröskuðu landi, má greina, að áhrif gosösku í jarðvegi eru umtalsverð á kolefnisbindingu, rotnun og gaslosun.  Lofthiti er einnig veigamikill þáttur.  Þar kemur líka fram, að "engar losunarrannsóknir hafa verið gerðar á framræstu akurlendi (þ.m.t. framræstum túnum) hér á landi".  Samt hafa stjórnvöld og aðrir sett ítrekað fram hástemmdar fullyrðingar um losun á framræstu landi á Íslandi, og byggja þær tölur alfarið á erlendum stuðlum IPCC."  

Samkvæmt IPCC losar framræst land mólendis 20,9 t/ha CO2 og 29,0 t/ha túns og akurlendis.  Samkvæmt Umhverfisstofnun nam heildarlosun á ábyrgð ríkisstjórnar Íslands og samkvæmt viðskiptakerfi ESB árið 2019 4,7 Mt CO2eq og frá landi 9,1 Mt CO2eq, þar af 8,4 Mt CO2eq frá framræstum mýrum.  Þessi háa tala er aðalástæða þess, að stjórnvöld hafa fallizt á að veita fé til að moka ofan í skurði.  Fullyrða má, að hún er allt of há, þótt ekki sé unnt enn þá að setja fram áreiðanlega meðaltölu fyrir landið allt.

Núverandi niðurstöður íslenzkra vísindamanna sýna, að losun úr framræstu ræktarlandi sé 3 t/ha CO2 í samanburði við 29,0 t/ha CO2 hjá IPCC.  IPCC-stuðullinn er 7 sinnum hærri en sá íslenzki fyrir mólendi, þannig að leiðrétta þarf tölur Umhverfisstofnunar með margföldunarstuðlinum 0,14, þ.e. losun frá þurrkuðu landi gæti verið nálægt 1,2 Mt CO2/ár í stað 8,4 Mt CO2/ár.  Mismunurinn er 7,2 Mt CO2/ár, sem er yfir 50 % meira en öll losun Íslands, sem telja á fram samkvæmt Parísarsamkomulaginu 2015. 

Með flaustri hafa landbætur á vegum landbúnaðarins verið settar í slæmt ljós í umhverfislegu tilliti, nánast settar í skammarkrókinn.  Það er líklegt, að umhverfislegur ávinningur af endurheimt votlendis sé hverfandi og jafnvel neikvæður, því að eftir er að draga frá losun endurmyndaðs votlendis.  Þar er um að ræða meira CH4 (metan) á flatareiningu en frá þurrlendinu, en CH4 er um 25 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2 fyrstu 3 áratugina í andrúmsloftinu (tekur efnabreytingum með tímanum). Svona fer fyrir loftslagsstefnunni, þegar blindur leiðir haltan og sýndarmennskan ræður för. 

Sýndarmennska fallins borgarstjórnarmeirihluta reið húsum í kosningabaráttunni.  Það var m.a.  talið "borgarlínu" til gildis, að hún mundi draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þessu er þó alveg öfugt farið.  Hvað halda menn, að upprif gatna og endurmalbikun muni valda mikilli losun CO2 eða að tafir bílaumferðar muni valda mikilli losun.  Bílaflotinn er á leið til rafvæðingar, svo að það er ekki hægt að telja ímyndaða minnkun aksturs fjölskyldnubíls borgarlínunni til tekna í loftslagsbókhaldinu.  

Afturhaldið í borginni hefur misbeitt skipulagsvaldi sínu til að tefja mjög fyrir Sundabraut og gösslaðist áfram með Vogahverfið í veg fyrir Sundabraut, en gleymdi að byggja skóla í hverfinu í flaustrinu.  Afturhaldið ímyndar sér, að Sundabraut auki losun gróðurhúsalofttegunda, af því að hún "fjölgi" bílum. Sannleikurinn er sá, að orkunotkun umferðarinnar mun minnka umtalsvert vegna styttingar akstursvegalengda og greiðara umferðarflæðis.  Stjórnendur Reykjavíkur hafa vaðið áfram í villu og svíma ímyndana, sem falla að hugmyndafræði kratanna og vinglanna, sem með þeim hafa hangið við völd.   

 

 

  


Bloggfærslur 16. maí 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband