30.5.2022 | 17:33
Mannvonzka og lygar í öndvegi Rússaveldis
Að ganga fram með grimmúðlegu og miskunnarlausu nýlendustríði á hendur fullvalda lýðræðisríki í Evrópu árið 2022 er geðveikislegt, enda er það réttlætt af árásaröflunum með fjarstæðum á borð við upprætingu nazisma, og að fórnarlambið eigi að vera nýlenda "mikilfenglegs Rússlands" af sögulegum ástæðum og með fáránlegum söguskýringum. Þessir atburðir eru svo alvarlegir, að þeir hafa sameinað drjúgan hluta heimsbyggðarinnar undir merkjum Vesturlanda og NATO. Svíar, sem verið hafa hlutlausir í átökum Evrópu síðan á Napóleónstímanum, og Finnar, sem verið hafa á áhrifasvæði Rússa síðan í lok Síðari heimsstyrjaldarinnar, þegar þeir fengu að kenna á vopnuðum yfirgangi Rússa, hafa nú sótt um NATO-aðild.
Þar með gengur einn öflugasti og nútímalegasti her Evrópu til liðs við varnarbandalag vestrænna þjóða, NATO. Þetta er högg í andlit Putins og kemur vel á vondan, því að alræðisherra Rússlands hefur framkallað þessa stöðu sjálfur. Nú liggur Kola skagi vel við höggi, og auðvelt er að eyðileggja einu veg- og járnbrautartenginguna á milli Kolaskaga og annarra hluta Rússlands.
Úkraínumenn berjast nú upp á líf og dauða fyrir hinum góða málstað, þ.e. að fá að lifa í friði, sjálfstæðir í fullvalda ríki sínu, og fá að ráða stjórnarformi sínu sjálfir og þróun efnahagslífsins í þessu auðuga landi frá náttúrunnar hendi, og að fá að velja sjálfir sína bandamenn og nánu samstarfsþjóðir. Hér er líka um að ræða baráttu lýðræðis og frelsis í heiminum við einræði og illyrmislega kúgun. Málstaður Rússlands er svo slæmur, að þrátt fyrir stanzlausar áróðurslygar Kremlverja, sem dynja á rússnesku þjóðinni, og þótt sannleikurinn sé bannaður, virðist baráttuandi rússnesku hermannanna ekki vera upp á marga fiska, sem ásamt innanmeinum og rotinni spillingu í rússneska hernum og þjóðfélaginu í heild, virðist munu gera úkraínska hernum kleift að reka fjandmanninn af höndum sér, vonandi fyrir fullt og allt.
Olga Dibrova, sendiherra Úkraínu á Íslandi með aðsetri í Helsinki, skrifaði upplýsandi og áhrifamikla grein til Íslendinga, sem birtist í Morgunblaðinu 28. apríl 2022, þegar Rússar höfðu níðzt á úkraínsku þjóðinni með sprengjuregni í rúmlega 2 mánuði. Þegar þetta er skrifað, er 3 mánuðir voru frá innrásinni, sem lygalaupunum þóknast að kalla "sérstaka hernaðaraðgerð", virðast hrakfarir rússneska hersins á vígvöllunum engan endi ætla að taka og að sama skapi heldur ekki lúalegar og illmannlegar árásir hans á almenna borgara.
Grein sendiherrans hét:
"Stríðsglæpamönnum skal hvergi látið órefsað".
"Um tveggja mánaða skeið hefur heimsbyggðin mátt horfa upp á miskunnarlaust þjóðarmorð Rússa á úkraínskri jörð. Mannfórnir rússnesku innrásarinnar eru skelfilegar, og sannarlega aðhafðist þjóð mín ekkert það, er ýta mætti undir þær hörmulegu stríðsaðgerðir. Konur og börn hafa týnt lífinu, þúsundir óbreyttra borgara hafa mátt flýja heimili sín undan skefjalausu ofbeldi.
Engum dylst, að með aðgerðum sínum í Úkraínu stefna stjórnarherrar Rússlands að því markmiði að eyðileggja úkraínsku þjóðina að einhverju eða öllu leyti. Að því markmiði er sótt með morðum og skefjalausu ofbeldi gagnvart Úkraínumönnum. Er þar engu eirt og börn okkar jafnvel nauðungarflutt á rússneskt landsvæði, rúmlega 121 000 börn, eins og staðan er nú, höfum við eftir áreiðanlegum heimildum."
"Sérstök hernaðaraðgerð" Vladimirs Putins, einræðisherra Rússlands, var reist á alröngum forsendum um ímyndaða ógn við Rússland og rússneskumælandi Úkraínumenn og kolröngu herfræðilegu mati rússneska herráðsins. Leiftursókn að Kænugarði misheppnaðist hrapallega, og úkraínski herinn rak illa skipulagðan, og óagaðan Rússaherinn af höndum sér frá Kænugarðssvæðinu, svo að sá undir iljar hans norður til Hvíta-Rússlands og móðurlandsins. Þaðan var þessi sigraði her fluttur til austurhéraðanna, Luhansk og Donetsk, þar sem hann veldur gríðarlegri eyðileggingu og drápi á almennum borgurum, bæði rússneskumælandi og úkraínskumælandi.
Þegar herstyrkur úkraínska hersins verður orðinn nægur til sóknar eftir vopnaflutninga Bandaríkjamanna og Breta að landamærum Úkraínu, bíður Spetsnaz og nýliðanna úr Rússaher ekkert annað en flótti heim til móður Rússlands. Á 3 mánaða afmæli ofbeldisins bárust af því fréttir, að sérsveitirnar, Spetsnaz, hefðu óhlýðnast fyrirmælum yfirmanna um að sækja fram, því að loftvarnir væru ófullnægjandi. Þetta er vísbending um væntanlega upplausn rússneska hersins, enda baráttuviljinn í lágmarki, og herstjórnin afleit. Það, sem átti að sýna mátt og mikilleik Rússlands, hefur opinberað risa á brauðfótum og geltandi bolabít með landsframleiðslu á við Spán og undirmálsher, sem yrði auðveldlega undir í beinum átökum við NATO. Vladimir Putin hefur með yfirgengilegu dómgreindarleysi og siðblindu orðið valdur að fullkominni niðurlægingu Rússlands, sem mun setja svip á þróun heimsmálanna næstu áratugina.
Í suðri hefur Rússum tekizt að ná Maríupol eftir tæplega 3 mánaða umsátur, og borgin er í rúst eftir þá. Þetta er villimannlegur hernaður af hálfu Rússa og eins frumstæður og hægt er að hugsa sér. Vopnin eru miklu öflugri en hæfir þroskastigi þeirra. Margfalt fleiri óbreyttir borgarar hafa farizt í sprengiregninu á og við Maríupol á þessum tæplega 3 mánuðum en í hertöku borgarinnar og 2 ára hernámi af hálfu Wehrmacht 1941-1943. Heimurinn hefur ekki séð jafnvillimannlegar aðfarir í hernaði og af hálfu þessa Rússahers. Sárin eftir þetta stríð verða lengi að gróa, og áhrif Rússa í heiminum verða hverfandi.
"Heilar borgir eru nú rústir einar, s.s. Volnovaka, Isíum, Maríupol, Oktíra, Tsjernihív, Skastía o.fl. Innrásarherinn hefur skaddað eða eyðilagt 14 000 íbúðarhús, 324 sjúkrahús, 1 141 menntastofnun og nær 300 leikskóla auk húsnæðis trúflokka, sveitabæja, landbúnaðarfyrirtækja og stjórnsýslu- og iðnaðarbygginga. Alls hafa Rússar valdið mismiklu tjóni á um þriðjungi allra innviða landsins; má þar nefna 300 brýr, 8 000 km af vegum, sem gera hefur þurft við eða leggja upp á nýtt og tylft járnbrautarbrúa."
Kostnaðurinn við enduruppbyggingu landsins eftir vandalana, sem kappkosta að eyðileggja sem mest af þjóðarverðmætum Úkraínumanna, svo að enduruppbyggingin taki sem lengstan tíma, og mannslífin og menningarverðmætin verða aldrei bætt. Kostnaður enduruppbyggingar mun vart nema undir trnUSD 1 í allri Úkraínu. Frystar eignir Rússlands og ólígarkanna á Vesturlöndum verða vonandi nýttar í uppbygginguna. Rússar eru sjálfir að eyðileggja sem mest í Úkraínu, sem minnir á nýlendukúgun Rússa, en ný heimili, skólar, sjúkrahús, samgönguinnviðir og veitur verða reist með vestrænni tækni. Úkraína mun ganga í ESB og NATO og verða gríðarlega samkeppnishæft land með landsframleiðslu á mann, sem verður fljótt miklu meiri en í Rússlandi, þar sem hún var undir 13 kUSD/íb árið 2021. Landsframleiðsla Rússlands var þá á svipuðu róli og Spánar, sem sýnir, að krafa Kremlar um að verða talin til stórvelda með áhrifasvæði í kringum sig á sér enga stoð. Eftir ósigurinn í Úkraínu gæti landið liðazt í sundur og Kínverjar tekið ytri Mongólíu, sem var hluti Kínaveldis þar til eftir Ópíumstríðið á 19. öld.
"Rússar hafa lagt undir sig eignir og valdið eyðileggingu á m.a. innviðum rafmagns, vatns og húshitunar auk þess að standa í vegi fyrir mannúðaraðstoð og brottflutningi borgara, sem fyrir vikið líða illilegan skort lífsnauðsynja um kalda vetrarmánuði, matar, vatns, hita og heilbrigðisaðstoðar. Þetta ástand er aðeins til þess fallið að valda þjáningum og tæringu fjölda almennra borgara víða um Úkraínu, svo [að] ekki sé minnzt á nýlega flugskeytaárás á Kramatorsk-járnbrautarstöðina, sem kostaði 52 mannslíf, þar af 5 líf barna. Þar fyrir utan særðust tugir og dvelja nú á sjúkrahúsum, þ.á.m. börn, sem misstu útlimi.
Að svelta almenna borgara til ávinnings í hernaðarskyni er ekkert annað en glæpur gegn mannkyninu. Hernám borga á borð við Maríupol og Tsjernív ber þeim ásetningi Rússa vitni að ætla sér að tortíma a.m.k. hluta úkraínsku þjóðarinnar."
Rússar virðast stela öllu steini léttara á hernámssvæðum sínum í Úkraínu. Þeir stunda þar grimma "Rússavæðingu", krefjast þess, að fólk tali rússnesku og börnum er sagt, að þau fái nú ekkert sumarfrí, því að í haust taki við rússnesk námsskrá og þau þurfi að búa sig undir hana. Hér er um illkynja nýlendustríð að ræða, þar sem "ómenningu" herraþjóðarinnar á að troða upp á undirsátana, og fólk hefur verið herleitt til Rússlands, þar sem enginn veit, hvað við tekur. Nái Rússar austurhéruðunum, þar sem m.a. eru ýmis verðmæti í jörðu, verða þessi héruð skítnýtt af herraþjóðinni, og undirsátarnir fá náðarsamlegast að þræla fyrir nýlendukúgarana. Það er með eindæmum, að þessi forneskjulega atburðarás eigi sér stað framan við nefið á okkur árið 2022.
"Rússar halda því fram, að þeir ætli sér að "afvæða nasisma" [sic !?] [afnema nazisma] í Úkraínu með aðgerðum sínum. Þau orð hafa þeir notfært sér til að tengja árás sína við tortímingu "nazista", sem að þeirra skoðun búa í Úkraínu. Stjórnvöld í Rússlandi kalla þá Úkraínubúa "nazista", sem styðja hugmyndina um sjálfstæða Úkraínu og berjast fyrir framtíð landsins í samfélagi Evrópuþjóða."
Áróður Kremlverja um nazisma í Úkraínu er gjörsamlega úr lausu lofti gripinn m.v. úrslit þeirra frjálsu kosninga, sem þar hafa verið haldnar undanfarin ár, þar sem örfá % kjósenda léðu stuðning sinn við eitthvað, sem nálgast gæti þjóðernisjafnaðarstefnu. Þessi firra áróðursmanna Kremlar er einvörðungu til heimabrúks á meðal illa upplýsts lýðs, sem býr við illvíga ritskoðun og ríkisvæddar fréttir. Annars staðar grefur þessi fáránlegi málflutningur undan trúverðugleika rússneskra stjórnvalda, sem nú er enginn orðinn, þ.e.a.s. það er ekki orð að marka það, sem frá Putin og pótintátum hans kemur.
Hið þversagnakennda er, að þessi rússnesku stjórnvöld minna um margt á fasistastjórn, og hugmyndafræði Putins um Stór-Evrópurússland svipar á marga lund til hugmyndafræði foringja Þriðja ríkisins um Stór-Þýzkaland og "Drang nach Osten für Lebensraum" eða sókn til austurs fyrir lífsrými handa aríum Þriðja ríkisins, en í báðum tilvikum leikur Úkraína aðalhlutverkið, orkurík og gróðursæl (kornforðabúr Evrópu). Hernaður Rússa nú gegn almenningi í Úkraínu, sjúkrahúsum hans, skólum og menningararfleifð, ber þess vitni, að grimmlyndir Rússar með mongólablóð í æðum frá 14. öld vilja eyða þjóðareinkennum Úkraínumanna, og framkoma þeirra við Úkraínumenn ber vitni um hugarfar nýlendukúgara í landi, sem þeir vilja gera að nýlendu sinni með svipuðum hætti og Stormsveitir Himmlers komu fram við "Untermenschen" í Síðari heimsstyrjöldinni, oft í óþökk Wehrmacht.
"Heimsbyggðinni væri réttast að skella skollaeyrunum við fölskum málflutningi Rússa og hafa það hugfast að, Rússland er árásaraðili, og stjórnendur landsins eru stríðsglæpamenn. Úkraínumenn treysta á stuðning Íslendinga í sakaruppgjöri við alla þá, sem gerzt hafa sekir um hrottalega glæpi gegn mannkyni, þ.á.m. rússneska stjórnmála-, viðskipta- og hernaðarleiðtoga, er staðið hafa fyrir falsfréttum, hindurvitnum og áróðri til að fela þann hrylling, sem nú á sér stað, og hermenn og herstjórnendur, sem nauðgað hafa úkraínskum konum og jafnvel börnum og bera ábyrgð á dauða og þjáningu þúsunda. Þar skal réttlætinu fullnægt."
Kremlverjar eru algerir ómerkingar, og málflutningur þeirra er heilaspuni og lygaþvættingur, sem því miður endurómar sums staðar, jafnvel hérlendis. Þeir, sem ímynda sér, að raunhæft verði að ganga til einhvers konar "friðarsamninga" við þá um, að þeir komist upp með að ræna austurhéruðunum (Donbass) og suðurhéruðunum við Svartahafið af Úkraínu og að þeir muni láta þar við sitja varanlega, vaða í villu og svíma eða ganga beinlínis erinda ofbeldismannanna rússnesku á Vesturlöndum; eru eins konar kvislingar. Kremlverjar eru ekki einvörðungu sekir um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni, sem er nógu slæmt, heldur eru þeir sekir við alþjóðalög um gróft og alvarlegt brot gegn sjálfstæðu og fullvalda ríki í Evrópu. Evrópa á ekki að una sér hvíldar fyrr en þetta hefur verið leiðrétt, og hún á að nýta sér og ýta undir vilja Bandaríkjamanna til að veita mikla og dýrmæta aðstoð í þessum efnum. Enginn veit, hvenær vindátt snýst á þeim bænum og stórhættuleg uppgjafar- og einangrunarstefna í anda fyrrverandi forseta, sem smjaðraði fyrir mafíuforingjanum í Kreml, verður tekin þar upp.
"Alþjóðasamfélaginu er í lófa lagið að hindra glæpina með því að banna þegar í stað öll viðskipti með olíu og gas frá Rússlandi. Orkuútflutningur Rússa er þeirra helzta hagnaðarvon og þörf annarra þjóða fyrir hann helzta trygging stjórnenda landsins fyrir því, að ríki þeirra sé ósnertanlegt. Þar með vona þeir, að heimsbyggðin sé tilbúin að líta framhjá stríðsglæpum herja þeirra. Allir rússneskir bankar eru hluti af stríðsvél landsins og styðja hana með einum eða öðrum hætti. Afnema þarf tengingu þessara banka við alþjóðahagkerfið. Það er fullkomlega óviðunandi, að þeir, sem standa á bak við helztu ógn öryggis í heiminum græði á tá og fingri."
Vingulsháttur hefur einkennt afstöðu og aðgerðaleysi stærstu Evrópusambandslandanna, Þýzkalands og Frakklands, til svívirðilegrar tilraunar fasistastjórnarinnar í Moskvu til að hernema Úkraínu og koma þar á leppstjórn. Fyrir 2 mánuðum lofuðu stjórnvöld Þýzkalands að senda Úkraínumönnum skriðdrekabanann Gephardt, en þessi tæki eru enn ekki komin á vígvöllinn, og sama er að segja um loftvarnarkerfi, sem Úkraínumenn áttu að fá frá Þýzkalandi. Vingullinn við Elysée í París hefur lítið látið af hendi rakna, og hann virðist enn halda, að hann geti gegnt einhverju hlutverki við friðarsamninga.
Ursula von der Leyen reynir mikið til að fá leiðtogaráð ESB til að fallast á olíukaupabann á Rússa, en Orban í Búdapest setur löppina fyrir, svo að ekki er hægt að loka dyrunum. Hann gengur erinda stríðsglæpamannsins í Kreml, sem virðist ætla að leggja borgir og bæi Úkraínu í rúst í sjúklegri heift yfir harðri andstöðu Úkraínumanna, úkraínskumælandi og rússneskumælandi, við valdatöku Rússa í Úkraínu, sem allir vita, að jafngilda mundi nýlendustöðu landsins gagnvart glæpsamlegum nýlendukúgara.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)