Orkuaðsetur á Bakka við Skjálfanda

Þann 26. apríl 2022 barst loks frétt af raunhæfri viðskiptahugmynd um framleiðslu á rafeldsneyti til innanlandsnota og til útflutnings.  Í iðngörðum á Bakka við Húsavík er ætlunin að nýta raforku frá stækkun Þeistareykjavirkjunar og stækkun Kröfluvirkjunar eftir atvikum til að framleiða vetni og ammóníak. Með verð á olítunnunni í USD 120 og stígandi, er þetta sennilega orðin raunhæf viðskiptahugmynd nú þegar, þótt forstjóri Landsvirkjunar hafi í útvarpsviðtali að morgni 1. júní 2022 talið, að svo yrði ekki fyrr en að 5 árum liðnum. Téð frétt Morgunblaðsins um þetta efni var undir fyrirsögninni:

"Framleiða rafeldsneyti á Bakka".

Hún hófst þannig:

"Í ljósi markmiða ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutlaust Ísland [og] óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040 verður að hraða undirbúningi að framleiðslu rafeldsneytis, eins og vetnis og ammoníaks, að mati Sigurðar Ólasonar, framkvæmdastjóra Green Fuel. Slíkt eldsneyti sé lykilatriði í orkuskiptunum.  Fyrirtækið stefnir að byggingu fyrstu stórskala rafeldsneytisverksmiðju landsins á Bakka við Húsavík."

Það er rétt, að orkuskiptin á Íslandi verða aldrei barn í brók án öflugrar rafeldsneytisverksmiðju í landinu, og þess vegna er frétt um þetta frumkvæði einkaframtaksins fagnaðarefni. Að hefjast handa er ekki einvörðungu nauðsyn vegna loftslagsmarkmiðanna, heldur ekki síður til að spara gjaldeyri, þegar líklegt er, að verð á hráolíu verði yfir 100 USD/tunna á næstu árum m.a. vegna viðskiptabanns Vesturlanda á útlagaríkið Rússland, sem unnið hefur til þess að verða einangrað vegna grimmdarlegs og blóðugs yfirgangs við lýðræðislegan og fullvalda nágranna sinn. 

Notendur afurðanna  verða m.a. fiskiskip, flutningaskip, flutningabílar vöru og fólks og flugvélar.  Stór markaður bíður þessarar verksmiðju, en hann mun opnast smátt og smátt vegna vélanna, sem í mörgum tilvikum þarfnast breytinga, enda ekki hannaðar fyrir þessar afurðir sem kjöreldsneyti fyrir hámarksnýtni og endingu. 

"Sigurður segist í samtali við Morgunblaðið finna fyrir miklum áhuga og meðbyr.  "Green Fuel mun framleiða vetni og ammoníak, sem bæði eru algerlega kolefnislaus í framleiðslu og notkun.  Þessar 2 tegundir rafeldsneytis eru því lausn á loftslagsvanda heimsins og munu stuðla að því, að Ísland uppfylli ákvæði Parísarsamkomulagsins varðandi minnkun kolefnisútblásturs.  T.d. væri það mikill kostur, ef kaupskipa- og fiskiskipaflotinn næði að skipta út dísilolíu [og flotaolíu - innsk. BJo] yfir í rafeldsneyti", segir Sigurður.

Ammóníakið, sem Green Fuel hyggst framleiða, myndi duga til að knýja þriðjung íslenzka fiskiskipaflotans að sögn Sigurðar.  Auk þess mun Green Fuel framleiða vetni í fljótandi formi, sem er álitlegur orkugjafi [orkuberi - innsk. BJo] fyrir þungaflutninga og innanlandsflug á Íslandi."

Það er ekki bara kostur, heldur nauðsyn, að flotinn losi sig úr viðjum eldsneytisinnflutnings og verði um leið kolefnishlutlaus.  Vetnið er grunnvaran fyrir allt rafeldsneyti.  Til að færa það á vökvaform er vetnið sett undir háan þrýsting og jafnvel kælt líka. Þetta er orkukræft ferli, og minni hagsmunum verður einfaldlega að fórna fyrir meiri til að útvega "græna" raforku í verkið. Þokulúðrar á þingi á borð við Þórunni Sveinbjarnardóttur, þingkonu Samfylkingar, sem í pistli á leiðarasíðu Morgunblaðsins, sem gera þarf nánari skil á þessu vefsetri, bar brigður á það, að virkja þyrfti meira til að vinna bug á raforkuskorti í landinu, reyna sitt til að leggja steina í götu eðlilegrar iðnþróunar í landinu. Forstjóri Landsvirkjunar játar, að raforkueftirspurn í landinu sé nú meiri en raforkuframboðið, í greinarstúfi í Fréttablaðinu 1. júní 2022, en samt situr Orkustofnun á leyfisumsókn fyrirtækis hans um Hvammsvirkjun síðan fyrir um ári, og hann kvartar ekki mikið undan silakeppshættinum opinberlega. Það hvílir ótrúlegur doði yfir stjórnsýslunni í landinu á ögurstund.   

"Stefnt er að því að hefja framleiðsluna á Bakka árið 2025, ef samningar ganga eftir.  Um er að ræða um 30 MW raforkuþörf [aflþörf - innsk. BJo] í fyrsta áfanga , en 70 MW til viðbótar í seinni áfanga."

Þetta eru alls 100 MW, sem ætti að vera unnt að útvega úr jarðgufugeymum Þingeyinga, en er Landsvirkjun tilbúin í stækkun Þeistareykja og Kröflu ? Lok fréttarinnar hljóðuðu þannig: 

"Spurður um helztu magntölur segir Sigurður, að þegar báðir áfangar verði komnir í gagnið [orkunotkun um 800 GWh/ár - innsk. BJo], verði framleiðslan um 105 kt/ár eða 300 t/d af ammóníaki.

Störfin segir Sigurður, að muni skipta tugum, þó [að] of snemmt sé að fullyrða um endanlega tölu.  "Verksmiðjan kemur með atvinnu inn á svæðið, bæði í verksmiðjunni sjálfri og hjá þjónustufyrirtæjum í nærumhverfinu", segir Sigurður að lokum." 

Hér er örugglega um þjóðhagslega arðsamt fyrirtæki að ræða og mjög líklega um rekstrarlega arðsamt fyrirtæki að ræða, þegar hráolíutunnan er komin vel yfir USD 100, eins og nú.  Þess vegna þarf að fara að hefjast handa, en orkuskortur hamlar.  Það er næg orka í gufuforðageymum Þeistareykja og Kröflu, og skýtur skökku við, að Landsvirkjun skuli ekki hafa brugðizt betur við og boðað stækkun þessara virkjana. Ekki er ráð, nema í tíma sé tekið, þegar málsmeðferðartími opinberra leyfisveitenda er annars vegar.  Það liggja víða dragbítar framfara á fleti fyrir.  

 

 

 

 


Bloggfærslur 1. júní 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband