24.7.2022 | 17:26
Ánægjuleg þróun matvælaframleiðslu
Kjötframleiðsla á Íslandi á undir högg að sækja. Kjötneyzla á mann er mjög mikil eða um 50 kg/ár, en hún fer minnkandi á sama tíma og grænmetisneyzla góðu heilli vex. Innlenda kjötið keppir bæði við innflutt kjöt og vaxandi framboð af fiski; bæði er fjölbreytt úrval villtra fisktegunda og af eldisfiski. Þessi misserin á sér stað gríðarleg aukning í eldisfiski, bæði á sjó og landi. Vegna mikillar nýtniaukningar og vöruþróunar innan hefðbundins sjávarútvegs er samt ekki líklegt, að útflutningsverðmæti eldisfisks verði meiri en villts fisks á þessum eða næsta áratugi. Mikil aukning framleiðslu á próteinríkri fæðu með tiltölulega lítið kolefnisspor er fagnaðarefni.
Björn Bjarnason, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, gerði þróun í fiskeldi að umræðuefni í Morgunblaðinu, 16. júlí 2022, undir fyrirsögn, sem vísar til merkra tíðinda á þeim vígstöðvum:
"Strategískar ákvarðanir um fisk".
Greinin hófst þannig:
"Frá því var skýrt undir lok júní [2022], að færeyska fiskeldisfyrirtækið Bakkafrost hefði keypt Boeing-757 þotu til að ná forskoti í keppninni um að koma ferskum laxi á borð veitingastaða á Manhattan á innan við 24 tímum frá slátrun.
Í frétt brezka blaðsins The Guardian um þotukaupin segir, að stjórnendur Bakkafrosts, sem einnig eigi Scottish Salmon Company (nú Bakkfrost Scotland), svari gagnrýni á kolefnisspor þotuflugsins yfir Atlantshaf á þann veg, að sporið minnki með því að fara ekki um Heathrow-flugvöll með laxinn; jafnframt minnki matarsóun, þegar tíminn styttist [á] milli slátrunar og matargerðar bandarísku viðskiptavinanna.
Í Færeyjum tala þeir um eldislaxinn sinn sem "kampavínslaxinn". Hann sé sem sagt allra laxa beztur. Seiðin í þennan hágæðalax koma héðan, þar sem eldisfyrirtæki verða sífellt öflugri. Í nýjasta tölublaði Bændablaðsins (7. júlí [2022]) um öran vöxt landeldis, einkum á laxi og bleikju, en 5 fyrirtæki, sem stundi "þauleldi fisks á landi", hafi nýlega stofnað samtökin Eldís, Landeldissamtök Íslands."
Það er saga til næsta bæjar, þegar fyrirtæki kaupir stóra vöruflutningaflugvél til að spara flutningatíma og skjóta keppinautunum ref fyrir rass, með því að bjóða ferskari vöru en jafnvel framleiðendur í heimalandinu eða í nágrannaríkjum, t.d. Kanada í þessu tilviki, geta gert. Þetta er áreiðanlega framkvæmt að vel athuguðu máli og sýnir, hversu mikils kröfuharðir viðskiptavinir meta ferska matvöru, enda eru þeir fúsir að greiða meira fyrir hana en hina.
Við Ísland eru ekki síðri aðstæður til fiskeldis en við Færeyjar. Þótt sjórinn sé hlýrri við Færeyjar og vöxturinn þar með hraðari, fylgir sá böggull skammrifi, að lúsin er þar vágestur allt árið. Hér lifir laxalúsin ekki vetrarkuldann í sjónum. Eitrun er því beitt í meira mæli þar en hér.
Íslendingar eru þar að auki með ás uppi í erminni í samkeppninni við fiskeldisfyrirtæki annars staðar við Norður-Atlantshaf, þar sem er landrými, nægt ferskvatn, raforka á hagstæðu verði og síðast en ekki sízt víða jarðvarmi, sem gefur af sér hitaveituvatn til að stýra vaxtarhraðanum. Þá losna landeldisfélögin við alla áhættu af blöndun eldisfisks við villtan lax, og lækkar þá eftirlitskostnaður og viðhaldskostnaður kera. Það hefur reyndar verið gert allt of mikið úr áhættu erfðablöndunar hérlendis, þar sem sjókvíaeldi er bannað á Vesturlandi og Norðurlandi (nema í Eyjafirði), og er ekki stundanlegt úti fyrir Suðurlandi, nema í úthafskvíum framtíðarinnar. Þá er langur vegur á milli þess, að eldislax sleppi og að hann æxlist með villtum laxi og að erfðaeinkenni eldislaxins komi fram í lífvænlegum afkvæmum.
Þessari fróðlegu grein lauk Björn Bjarnason þannig:
"Fjórum vikum fyrir Vísis-kaupin birtust fréttir um, að Síldarvinnslan hefði keypt 34,2 % hlut í norska laxeldisfélaginu Arctic Fish Holding AS fyrir um mrdISK 14,8. Arctic Fish Holding á 100 % hlutafjár í Arctic Fish ehf., einu af stærstu laxeldisfyrirtækjunum hér; rekur það eldisstöðvar á Vestfjörðum með rúmlega 27 kt/ár leyfi fyrir eldi í sjó.
Án þess á nokkurn hátt sé gert lítið úr eignarhaldi á þorskígildistonnum og gildi veiða og vinnslu þeirra, blasir við, að hér verði sama þróun og í Noregi: eldi í sjó og á landi og útflutningur á slátruðum eldisfiski vegi meira við sköpun verðmæta en gamalgrónu veiðarnar.
Alls eru 98 % íslenzks sjávarfangs flutt á erlenda markaði. Þar er samkeppni hörð og kröfur miklar. Flugvélarkaup Bakkafrosts sýna, að keppinautar um beztu markaðina vilja skapa sér forskot með ofurgæðum. Sjávarútvegsfyrirtæki hér keppa við þá beztu.
Í þessu ljósi ber að skoða strategískar ákvarðanir öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjanna. Þær eru teknar til að styrkja samkeppnisstöðu þjóðarinnar allrar sem framleiðanda matvæla í hæsta gæðaflokki. Er fagnaðarefni, að fyrirtækin hafi fjárhagslegan styrk til stórsóknar án þess að vera háð opinberri fyrirgreiðslu."
Undir þetta allt, ályktanir og fullyrðingar Björns, skal heils hugar taka. Íslendingar hafa borið gæfu til að skjóta stoðum undir öflugan sjávarútveg. Hann færir nú út kvíarnar og fjárfestir í fiskeldi, bæði í sjó og á landi. Þröngsýnis- og smammsýnismenn hérlendir hafa gagnrýnt erlent eignarhald á fiskeldinu. Það er óviturleg gagnrýni, enda hefur erlendu fjármagni fylgt þekking, tækni og markaðssambönd. Nú þegar fiskeldinu vex fiskur um hrygg, eru Íslendingar að flytja fjármagn í þessa grein, m.a. úr hefðbundnum sjávarútvegi. Hælbítar sjávarútvegsins hafa af þekkingarleysi og almennri bölsýni sinni gagnrýnt hann fyrir að fjárfesta í öðrum greinum, þótt þeim komi það lítið við. Er það óeðlilegt m.v. þær þröngu skorður, sem íslenzkum sjávarútvegsfyrirtækjum eru settar um aflahlutdeildir ? Skyldu sömu aðilar þá vilja leggjast þversum gegn fjárfestingum sjávarútvegsins í fiskeldinu ? Þessir gagnrýnendur sjávarútvegs og fiskeldis virðast vera gjörsamlega úti á þekju. Þetta er yfirleitt sama fólkið og gagnrýnir fiskveiðistjórnunarkerfið af talsverðri heift. Það skilur ekki enn löngu viðtekin sannindi um, að framseljanlegar nýtingarheimildir aflahlutdeilda eru grundvöllur allrar vel heppnaðrar auðlindanýtingar. Það klifar á þeirri illa ígrunduðu fullyrðingu í anda marxista, að þetta fyrirkomulag feli í sér arðrán, en það er öðru nær, því að þetta er einfaldlega þjóðhagslega hagkvæmasta fyrirkomulagið. Evrópusambandið býr við annað fiskveiðistjórnunarkerfi, og þar er nú verið að ausa út í annað skiptið á stuttu tímabili fé úr opinberum sjóðum í "björgunarpakka" handa sjávarútvegi ESB.
Stærsti vaxtarbroddur innlendrar matvælaframleiðslu í fjárfestingum talið og tonnum próteins er laxeldi á landi. Á þessum áratugi gæti landeldið numið yfir 130 kt/ár til slátrunar, sem gætu gefið um 150 mrdISK/ár í útflutningstekjur. Ef slátrun upp úr sjókvíum undir lok þessa áratugar verður rúmlega tvöföld að magni m.v. 2021, þá gæti andvirði hennar numið um 100 mrdISK/ár, svo að eldið gefi þá alls um 250 mrdISK/ár. Árið 2021 nam heildarútflutningsverðmæti hefðbundins sjávarútvegs mrdISK 296, og binda má vonir við hækkun þessarar upphæðar að raunvirði vegna vaxandi gæða, meiri úrvinnslu, hækkandi nýtingar og vaxandi afla, þar sem ástand lífríkis í hafinu umhverfis Ísland lofar góðu um framhaldið. Þess vegna hillir ekki undir meiri tekjur af fiskeldi en hefðbundnum sjávarútvegi, hvað sem síðar verður. Alkunna er, að í Noregi hefur fiskeldið farið tekjulega fram úr hefðbundnum sjávarútvegi, en þar eru ekki viðlíka takmarkanir á laxeldi í sjó, eins og hér við land.
Bændablaðið fjallaði um þann efnilega vaxtarbrodd, landeldi, 7. júlí 2022. Undir fyrirsögninni:
"Landeldi í örum vexti",
stóð þetta m.a.:
"Rúnar [Þór Þórarinsson] segir umfang landeldis hér á landi vera í örum vexti.
"Samherji rekur eldisstöð í Öxarfirði, þar sem áherzlan er á áframeldi á laxi og bleikju, en þar að auki rekur Samherji bleikjueldi á landi í Grindavík og við Vatnsleysuströnd. Fyrirtækið áformar enn fremur að stórauka framleiðsluna á laxi með uppbyggingu sinni á Reykjanesi, [í] svo nefndum Auðlindagarði. Áformar Samherji að auka þannig framleiðslu sína á landöldum laxi upp í 45 kt/ár.""
Líklega er Samherji með þessum fjárfestingum að skipa sér sess sem brautryðjanda í heiminum á sviði landeldis laxfiska. Það hefur glímt við hælbíta í fjölmiðlaheiminum, og jafnvel Seðlabankanum undir fyrrverandi Seðlabankastjóra, sem aldrei hafa skapað nein verðmæti og líklega aldrei neitt annað en niðurrif og skítkast, eins konar eiturnöðrur.
Með aðgerðum sínum nú á sviði fjárfestinga í laxeldi sýnir fyrirtækið í hnotskurn, hversu framsækið og verðmætt það er, þar sem það haslar sér völl á sviði ferskvatnsnýtingar og hitaveitunýtingar til matvælaframleiðslu, sennilega að langmestu leyti í framtíðinni úr íslenzku fóðri. Þróun fiskeldis hérlendis í samstarfi Norðmanna og Íslendinga og í auknum mæli í krafti fjárfestinga íslenzkra sjávarútvegsfyrirtækja er ævintýri líkust.
"Saman tekið eru því 131,5 kt af landöldum laxi á ársgrundvelli við sjóndeildarhringinn hjá þessum 5 landeldisfélögum. Langmest eru uppbyggingaráformin, hvað landeldi varðar, á Suðurlandi og [á] Reykjanesi, segir Rúnar og bætir við, að til samanburðar hafi heildarmagn þess lax, sem slátrað var úr sjókvíum við Ísland árið 2021 verið alls 44,5 kt. Nam útflutningsverðmæti þess rúmum mrdISK 20 á síðasta ári."
Ef engir óvæntir erfiðleikar koma upp í landeldinu, stefnir það hraðbyri í að verða með talsvert meiri framleiðslu en sjókvíaeldið, þar til tæknin leyfir úthafseldi. Verður spennandi að sjá, hvort einhver verðmunur verður á afurðum þessara tveggja greina, en kostnaðarmunurinn er verulegur. Það vekur athygli, að samkvæmt ofangreindum upplýsingum hefur verð fyrir sjókvíaafurðirnar aðeins numið um 450 ISK/kg, sem er svipað og fyrir t.d. þorskinn, en yfirleitt hefur verð laxins verið a.m.k. tvöfalt þorskverðið.
""Lífrænn úrgangur og hliðarafurðir eru orðnar enn mikilvægari auðlindir en áður til áburðarnotkunar í ljósi mikilla hækkana á innfluttum, tilbúnum áburði. Hlutverk BÍ og Eldís næstu mánuði verður að vinna að sameiginlegri umsókn í samkeppnissjóði á sviði loftslags- og umhverfismála á grundvelli þeirrar hugmyndafræði, að með innlendri endurnýtingu á lífrænum efnum, sem falla til við landbúnað og landeldi, sé hægt að framleiða áburð, sem mætir þörfum innanlandsmarkaðar, og þannig stuðla að aukinni sjálfbærni í íslenzkum landbúnaði", segir í sameiginlegri tilkynningu félaganna. Með samstarfsverkefninu sé hafin ein af þeim framtíðaraðgerðum, sem lögð var til í spretthópi matvælaráðherra."
Þetta hljómar mjög vel, og ekki er að efa, að efnainnihaldið og áburðargildið er ríkt, en það verður að leggja rannsóknir til grundvallar á því, hversu mikið þarf að bera á til að fá æskilega uppskeru á hverju ræktarlandi fyrir sig. Skemmst er að minnast hraklegrar ofstjórnar ríkisstjórnar Sri Lanka á bændum þar, en hún bannaði þeim að nota tilbúinn áburð, og allir bændur skyldu umsvifalaust leggja fyrir sig lífræna ræktun. Afleiðingin varð hrun landbúnaðarframleiðslunnar á Sri Lanka, gjaldeyrisvarasjóðurinn varð uppiskroppa með fé, og hungursneyð hélt innreið sína í landið. Ekki má gleyma því, að vegurinn til heljar er varðaður góðum áformum.
Orkuverð í Evrópu mun ekki lækka niður í jafngildi 70 USD/tunnu hráolíu, sem það var í um áramótin 2021/2022. Það gæti rólað um 100 USD/tunnu næstu árin, og gasverðið verður áfram hátt, því að gasflæðið frá Rússlandi til Evrópu er nú aðeins um 40 % af því, sem var, og stefnt er að því, að það verði ekkert á næstu árum. Í staðinn mun koma jarðgas víða að, t.d. frá gaslindum úti fyrir ströndum Ísraels um lögn til Krítar, Kýpur og meginlands Grikklands. Jarðgas á gasformi frá Ísrael og á vökvaformi (LNG) annars staðar frá, verður dýrara en Rússagasið, og þessi viðskipti munu auðga Ísrael mjög (tugmilljarða USD tekjur á mánuði). Þannig er líklegt, að rekstrargrundvöllur verði fyrir vetnis- og ammoníakframleiðslu með raforku hérlendis og arðsamt rafeldsneyti og áburð úr þessu "hráefni".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)