Landvernd afhjúpuð

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að allt frá útkomu bókarinnar "Limits to Growth" (Endimörk vaxtar) á 7. áratugi 20. aldar, einmitt þegar grundvöllur var lagður að fyrsta meiriháttar virkjanaátaki Íslendinga til að stíga fyrstu umtalsverðu skref til iðnvæðingar í krafti íslenzkra orkulinda, hefur verið við lýði sérlundaður hópur á Vesturlöndum, sem trúir því, að auðlindir jarðar séu að klárast vegna þess, sem þeim finnst vera neyzluæði og kenna að sjálfsögðu auðmagnshagkerfinu um, sem þurfi stöðugan hagvöxt til að þrífast. Þetta þröngsýna viðhorf er reist á fákunnáttu og misskilningi og má alls ekki fá að móta þjóðfélagsþróunina.   

Þennan sérvitringahóp hefur dagað uppi, því að ekkert af heimsendaspánum rættist, því að höfundarnir hugsuðu ekki málið til enda.  Þeir gleymdu mikilvægum þætti auðmagnshagkerfisins, sem er verðmyndun, en hún er fall af framboði og eftirspurn og mikilvægi vörunnar/þjónustunnar í framleiðslukeðjunni og því, hvort til sé staðkvæmdarvara, sem nota megi í staðinn. Þá þróast ytri aðstæður, t.d. tækni á öllum sviðum, sem lítill gaumur var gefinn í "Endimörkum vaxtar". 

Allt hefur þetta leitt til þess, að ekkert þeirra efna, sem spáð var, að yrðu uppurin innan tilgreinds tíma á 20. öldinni, hefur horfið af markaðinum enn.  Markaðskraftar ýta í raun undir sjálfbæra auðlindanýtingu, því að hún er hagkvæmust til lengdar.  Hringrásarhagkerfið þrífst með vörur, sem ódýrara er að endurvinna en að frumvinna.  Gott dæmi um þetta er álið, sem hægt er að vinna aftur og aftur með lítilli rýrnun og tiltölulega lítilli orkunotkun.   

Orkulindir Íslands eru fjarri því að vera fullnýttar að teknu tilliti til hófsemi í vernd og nýtingu.  Nú hafa verið virkjaðar um 20 TWh/ár í vatnsföllum og jarðgufu til raforkuvinnslu, og hiklaust á með varfærni að vera unnt að bæta a.m.k. 15 TWh/ár við úr sams konar orkulindum.  Síðan er spurning, hversu mikið verður ásættanlegt að framleiða með vindmyllum til að anna allri orkueftirspurn um árið 2040, þegar orkuskiptum og kolefnishlutleysi á að verða náð. Þau, sem þá þurfa að velja á milli orkulinda, munu e.t.v. hafa um fleiri kosti að velja en þau, sem nú taka ákvörðun, t.d. þóríum-kjarnorkuver af ýmsum stærðum. 

 

Þau, sem móta stefnuna núna, eru Alþingismenn.  Þar er margur sauður í mörgu fé, og spurning, hvort þeir glutra völdunum úr höndum sér með fáfræði og ábyrgðarleysi, t.d. til ACER, orkustofnunar Evrópusambandsins.  Reyndar er embættisfærsla æðsta fulltrúa ACER á Íslandi nú um stundir, Orkumálastjóra, alveg afleit, og stærsta dæmið um það er, að Orkustofnun hefur lagzt á umsókn Landsvirkjunar um leyfi til að reisa Hvammsvirkjun í Neðri-Þjórsá og tafið afgreiðslu óeðlilega í tæpt ár, en komnir eru um 13 mánuðir síðan stofnunin fékk þessa sjálfsögður umsókn loks í hendur.  Þeir eru víða Júmbóarnir og dragbítar embættiskerfisins.

Jónas Elíasson, fyrrverandi verkfræðiprófessor, gerði þingmenn, orkumál og umhverfisvernd að viðfangsefni sínu í Morgunblaðsgrein 30. júní 2022:

"Þingmenn í biðflokki".

Þar gat m.a. að líta þetta:

"Það er alltaf forvitnilegt að fylgjast með umræðum um orku- og umhverfismál á Alþingi.  [Það er þó fremur sorglegt en forvitnilegt - innsk. BJo.]. Margir þingmenn nota tækifærið til að belgja sig út í miklum æsingi yfir því, hversu miklir náttúruverndarmenn þeir séu, ekki megi skemma náttúruna fyrir nokkurn mun, "íslenzk náttúra er það dýrmætasta, sem við eigum", sem er satt og rétt, en menn verða að vita, hvað eru náttúruspjöll og hvað ekki, til að geta fylgt þessu eftir."

Sá málflutningur, sem þarna er vitnað til, er endurómur af talsmáta Landverndar og kemur í raun vernd einstakra náttúruminja ekki við, heldur er einfaldlega afturhaldsstefna undir fölsku flaggi rekin af trúflokki, sem trúir því, að til að bjarga jörðunni frá glötun verði að stöðva framleiðsluaukningu á jörðunni og þar með vöxt hagkerfanna, sem þó er undirstaða bættra lífskjara. 

Þessu fólki hryllir við aukinni raforkuvinnslu á Íslandi, þótt úr endurnýjanlegum orkulindum sé og engu einstæðu gróðurlendi, landmyndunum eða vatnsföllum sé fórnað fyrir vikið.  Þau leggja einfaldlega allar breytingar á náttúrunni af mannavöldum til jafns við óafturvirkt tjón.  Þetta ofstækisviðhorf gengur auðvitað ekki upp í siðuðu samfélagi, sem vill reisa auðlindanýtingu á beztu fáanlegu þekkingu.  Málamiðlun á milli nýrrar verðmætaköpunar og ósnortinnar náttúru verður að finna, og löggjöf um Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúruauðlinda var tilraun til þess, en þar skipta mælikvarðarnir öllu máli, og illa rökstudd slagsíða til verndunar hefur einkennt þá.  Á tímum orkuverðs í himinhæðum í heiminum og orkuskorts, sem sums staðar má jafna við kreppu, er tímabært, að fram fari hlutlæg rýni og endurskoðun á þessum mælikvörðum og vægi þeirra, sem ráða því, hvort Verkefnisstjórn um Rammaáætlun raðar virkjunarkostum í verndar- eða nýtingarflokk.  Mikið er í bið vegna meints skorts á gögnum.

"En hvað er til í þessu tali um, að virkjun sé náttúruspjöll ?  Nánast ekki neitt.  Ef menn eiga að nefna einhver náttúruspjöll, sem íslenzk virkjanagerð hefur valdið, vefst flestum tunga um tönn.  Þau eru til, en æstir náttúruverndarmenn hafa bara sjaldnast hugmynd um, hver þau eru.  Þeir kunna nöfnin á nýlegum orkuverum, hafa mótmælt þeim öllum, en sitja svo uppi með, að enginn teljandi skaði varð af byggingu þeirra."

Fyrrverandi verkfræðiprófessor, Jónas Elíasson, er ekki líklegur til að fara með neitt fleipur, svo að það má slá því föstu, að virkjanir hingað til hafi ekki valdið neinu óafturkræfu tjóni á íslenzkri náttúru.  Ef þessi tilgáta er rétt, má telja afar sennilegt í ljósi stöðugra tækniframfara við slíka hönnun og framkvæmd, að niðurstöður verkefnastjórna Rammaáætlunar hingað til séu gróf yfirskot í þágu verndunarsjónarmiða.  Þetta bendir aftur til rangrar aðferðarfræði við mat á kostum og löstum virkjunar. Almennilegar (hlutlægar) skilgreiningar á mælikvörðum matsins vantar. 

"Þá gera virkjanir heilmikið gagn í verndun náttúrunnar.  Bezta dæmið er líklega Efra-Fall.  Þá var útrennsli Þingvallavatns stíflað, og þar með hvarf möguleiki rennslisins til að til að grafa gil í haftið niður í farveg Sogsins og tæma Þingvallavatn, rétt eins og Jökulsá á Brú tæmdi Hálslón og Tungnaá Sigölduvatn á sínum tíma, en Sigöldugljúfur tæmdi vatnið alveg.  Það vatn er nú komið til baka sem Sigöldulón, en með heldur lægra vatnsborði en gamla vatnið.

Nær allir ferðamenn á leið til Landmannalauga fara fram hjá virkjanaröðinni í Þjórsá-Tungnaá og hafa ánægju af, enda eru stöðvarhúsin haganlega gerð.  Sumir leggja lykkju á leið sína til að skoða Sigöldulónið.  Það neikvæða við þessa þróun er, að umferð um Dómadalsleið hefur næstum lagzt af, sem er synd, því [að] sú leið í Landmannalaugar er mjög falleg."  

Hægt er að taka undir hvort tveggja hjá verkfræðiprófessornum fyrrverandi, að vatnsaflsvirkjanir draga úr eða stöðva stöðugar náttúrulegar breytingar á náttúrunni, sem flestir eru sammála um, að séu til hins verra, og þess vegna eru vatnsaflsvirkjanir oft til bóta fyrir þróun náttúrunnar.  Jöfnun rennslis neðan við virkjaðar ár er jákvæð fyrir fiskgengd í árnar og dregur jafnframt úr landbroti og tjóni á ræktarlandi í flóðum og vegna ísjakareks.  Dæmi um þetta eru Neðri-Þjórsá og Blanda, en framburður þeirra á seti og ísi stöðvast að mestu í miðlunarlónunum, svo að þær breytast í góðar veiðiár. 

Hitt atriðið er alþekkt staðreynd í öllum löndum vatnsaflsvirkjana, að mannvirkin, stíflur og stöðvarhús, virka sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn, einkum ef virkjunareigandinn setur upp móttökuaðstöðu fyrir áhugasama ferðalanga.  Við mat á virkjanakostum hérlendis hefur allt of mikið varið gert úr neikvæðum áhrif virkjana á ferðamennsku.  Jákvæðu áhrifin eru yfirgnæfandi. 

Að lokum reit Jónas Elíasson:

"Nú er búið að samþykkja nýja [nr 3-innsk. BJo] rammaáætlun á Alþingi. Það telst til tíðinda, að nokkrir þingmenn ákváðu að skella sér í biðflokkinn og styrkja hann.  Kjalölduveita og Héraðsvötn voru færð í þann flokk.  Þetta er ekki stórt skref, en verulega til bóta.  Full þörf er á að virkja jökulvatnið og draga þar með úr landbroti, og þetta á við um báða þessa virkjunarkosti.  Bændur í Skagafirði verða oft fyrir búsifjum af völdum Héraðsvatna, en virkjun getur bægt landbroti frá jörðum þeirra, eins og gerzt hefur meðfram Þjórsá og Blöndu.  Þannig hjálpa virkjanir til við að varðveita náttúruna.  Vel gert, þingmenn."  

Það er rík ástæða til að leggja meiri áherzlu á jöfnunaráhrif virkjana á rennslið og þar með á öryggi fólks og fénaðar neðan virkjunar og auðveldari landnotkun og aukið notagildi ánna ásamt eflingu ferðamennskunnar, sem af virkjunum leiðir.  Þessir þættir hafa verið vanmetnir hingað til af verkefnisstjórnum um Rammaáætlun.  Þessi atriði auk framfara í virkjanatilhögun og mikil verðmætaaukning raforkunnar á síðustu misserum vegna orkuskipta og landvinningastríðs Rússa í Úkraínu getur hæglega lyft  virkjanakostum úr verndarflokki og í nýtingarflokk, ef aukin hlutlægni fær að ráða för, og valdið því, að fleiri færist úr biðflokki í nýtingarflokk en í verndarflokk.    Þríhyrningur

 


Bloggfærslur 6. júlí 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband