23.8.2022 | 17:02
Stjórnmálamenn, embættismenn og rekstur fara illa saman
Það, sem talið er upp í fyrirsögninni, virðist vera eitruð blanda, þótt kaffihúsasnatinn Karl Marx hafi um miðja 19. öldina talið fyrirkomulagið varða leiðina inn í draumaríki kommúnismans, sem mundi leysa auðmagnskerfi Adams Smiths af hólmi. Allt voru þetta ranghugmyndir raunveruleikafirrts heimspekings.
Hérlendis hafa undanfarið dunið á almenningi fréttir um ríkisrekið heilbrigðiskerfi, sem sé að hruni komið, og leikskólakerfi borgarinnar, sem annar ekki þörfinni. Einkenni opinbers rekstrar eru óhóflegar biðraðir, sem oftast lengjast, og sú er einmitt raunin í þessum tveimur kerfum. Samt er gríðarleg tregða hjá embættismönnum og stjórnmálamönnum að grípa til þeirra einu ráða, sem duga til að bæta þjónustuna, þ.e. úthýsingar starfsemi hins opinbera til einkaframtaksins. Á því græða bæði skjólstæðingar ömurlegrar þjónustu hins opinbera og skattborgararnir. Opinber rekstur stenzt einkaframtakinu einfaldlega ekki snúning, og það er reginhneyksli hérlendis á 21. öldinni, að stjórnmálamenn skuli standa uppi ráðþrota og bara berja hausnum við steininn. Vilji er allt, sem þarf til að berjast við embættismennina, sem standa vörð um þetta rotna kerfi.
Þann 16. ágúst 2022 birti Morgunblaðið lýsandi viðtal um þá stöðu, sem að ofan er lýst. Þar er lýst ofan í ormagryfjuna. Fréttin hófst þannig:
"Eins og fram hefur komið, er mikill skortur á læknum á Íslandi. Nú er svo komið, að í nokkrum sérfræðigreinum er meirihluti lækna yfir 60 [ ára] og mikill skortur á nýliðun [svo !; nýliðun er lítil]. Þannig er staðan í augnlækningum í dag. 59 % starfandi augnlækna eru 60 ára eða eldri, og meira en helmingur þeirra, sem eru eldri en 60, eru komnir yfir 70. Ljóst er, að bregðast þarf við þessu grafalvarlega ástandi.
Jóhannes Kári Kristinsson, augnlæknir á augnlæknastöðinni Augljós, segir, að ekki hafi verið gerð nákvæm úttekt á því, hversu marga augnlækna þurfi, til að ástandið [verði] bærilegt.
"Það er erfitt að meta þetta, en hins vegar er alveg ljóst, að heilbrigðisyfirvöld, og þá sérstaklega Sjúkratryggingar, hafa að mörgu leyti brugðizt sinni skyldu. Augnlækningar eru fag, sem byggist oft eingöngu á samningum við Sjúkratryggingar, því [að] það eru ekki allir augnlæknar, sem vinna á sjúkrahúsum [betra er: ekki vinna allir augnlæknar á sjúkrahúsum-innsk. BJo]. Nú hafa samningar verið lausir í 4 ár; nýir sérfræðingar úr námi hafa átt erfitt með að komast á samning, og án samnings eru þeir ekki samkeppnishæfir við aðra augnlækna. Þeir geta jafnvel séð hag sínum betur borgið að verða áfram erlendis eða flytja aftur út með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir íslenzkt heilbrigðiskerfi.""
Hér er vandamál ríkisrekstrarins í hnotskurn. Embættismenn í heilbrigðisráðuneyti og/eða hjá Sjúkratryggingum Íslands draga lappirnar við samningsgerð við sérfræðilækna, t.d. á sviði augnlækninga, og búa þar með til tvöfalt heilbrigðiskerfi og læknaskort vegna þess, að ungir læknar í sérnámi erlendis skortir réttu hvatana frá ríkisvaldinu til að hasla sér völl á íslenzkum vinnumarkaði. Aðalástæða þessarar óeðlilegu og stórskaðlegu hegðunar embættismannanna er af hugmyndafræðilegum toga. Þeir eru illa haldnir af grillum um, að heilbrigðisþjónusta eigi hvergi annars staðar heima en á stofnun í opinberri eigu, helzt í ríkiseigu, en rekstur slíkra stofnana er nánast undantekningarlaust með þeim ömurlega hætti, að þar myndast biðraðir, jafnvel með bið í meira en eitt ár. Nýtingu tækjakosts er þar ábótavant og óánægja í starfi landlæg, sem leiðir til starfsmannahörguls og yfirálags. Engu virðist breyta, þótt hellt sé í hítina fé úr ríkissjóði í meira mæli en nokkru sinni fyrr á alla mælikvarða.
Auðvitað kom þessi ömurlega hugmyndafræði alla leið frá ráðherra málaflokksins í síðustu ríkisstjórn, sem hrúgaði nýjum verkefnum á yfirlestaðan Landsspítalann glórulaust með slæmum afleiðingum. Eins og nýr stjórnarformaður Landsspítalans hefur ýjað að, verða þessi vandamál ekki leyst, nema Landsspítalinn taki upp nýtt fjármögnunarkerfi (greiðslu fyrir verkþátt) og úthýsingu til einkarekinna læknastofa.
Svipað vandamál er fyrir hendi í menntageiranum. Svik borgarstjórans í Reykjavík gagnvart foreldrum með börn á 2. ári hafa verið í sviðsljósinu, enda svæsin og endurtekin. Ástandið í Reykjavík er þannig, að augljóslega ráða stjórnmálamenn og embættismenn ekki við viðfangsefnið, enda gufaði borgarstjóri upp strax eftir fyrsta hústökufundinn í Ráðhúsinu, eins og hans var von og vísa, sbr skolpmálið alræmda, þegar hann lét ekki ná í sig. Hvers vegna er ekki löngu búið að virkja einkageirann á þessu sviði og hætt að láta stjórnmálamenn og embættismenn borgarinnar fást við það, sem löngu er útséð með, að þeir ráða ekki við ? Þaðan kemur ekkert annað en froðusnakk og þokulegar glærusýningar, sem foreldrar hafa ekkert gagn af og fóru þar af leiðandi í taugarnar á þeim á hústökufundi með varaborgarstjóra. Viðbára jafnaðarmanna er jafnan sú, að enginn megi græða á þessari starfsemi. Hvers vegna er það "tabú", ef það leysir brýnan vanda fjölda fólks og veitir samfélagslegan sparnað og/eða tekjuauka ? Fordómar eru vandi jafnaðarstefnunnar í hnotskurn. Jafnaðarstefnan glímir við tæringu. Farið hefur fé betra.
"Jóhannes var yfirlæknir hjá augnlækningastöðinni Sjónlagi á árum áður. "Á árunum 2006-2008 reyndum við að koma á augnsteinsaðgerðum fyrir utan spítala í fyrsta sinn. Það hafði myndazt 2 ára biðlisti, og vandinn fór sífellt vaxandi. Við áttum samtal við 3 heilbrigðisráðherra, og það var alltaf sama sagan. Gríðarleg tregða er gagnvart því að koma verkum út af spítalanum til að framkvæma þau í miklu ódýrara húsnæði. Það endaði með því, að við keyptum bara inn tæki til augnsteinsaðgerða án þess að hafa fengið samning, og þau lágu nær ónotuð í 2 ár. Þetta bjó þó til þrýsting á Sjúkratryggingar og á ráðherra. Þó var það ekki fyrr en í ráðherratíð Guðlaugs Þ. Þórðarsonar, að loksins var tekin ákvörðun í málinu árið 2008. Í kjölfarið voru augasteinsaðgerðir boðnar út, og þær voru þá framkvæmdar í fyrsta sinn utan spítala hér á landi. Við þetta styttust biðlistarnir hratt, og viðbótar tilkostnaður varð ekki mikill. Þessir samningar, sem verið er að gera við augnlækna utan spítalans, eru alveg gríðarlega hagstæðir. Það er stjarnfræðilegur munur á kostnaði við að senda sjúkling til útlanda í aðgerðir eða sinna þeim hér á stofum. Þessi tregða við að gera hlutina ódýrar og hagkvæmar er óskiljanleg."
Þetta er afar lýsandi dæmi um tregðu embættismannakerfisins til breytinga, sem leitt geta til samkeppni við ríkisstofnun. Frumkvöðlar ræða við ráðherra og gera honum grein fyrir því, að tækniþróunin hafi nú gert kleift að auka afköstin og spara ríkissjóði fé með úthýsingu verkefna frá Landsspítala-háskólasjúkrahúsi, sem annar ekki verkefnunum og veldur þar með þjáningum fjölmargra og óþarfa samfélagslegum kostnaði. Ráðherra talar við ráðuneytisfólk sitt, en það er í hugmyndafræðilegum viðjum ríkisrekstrar og lítur jafnvel á nýbreytni sem ógnun við kerfið fremur en tækifæri fyrir sjúklinga og skattgreiðendur. Hann talar síðan við forstjóra Landsspítalans, sem strax fer í vörn og finnur samkeppni um sjúklingana flest til foráttu. Ráðherrann skortir sannfæringu, innsæi og/eða stjórnunarhæfileika til að halda áfram með málið, og þingflokkur hans maldar jafnvel í móinn. Þetta er meginskýringin á botnfrosnu kerfi, sem ræður ekkert við verkefnin sín og er að hruni komið (lýsing núverandi forstjóra Landsspítalans á stöðu spítalans var sú nú í ágúst, að staðan þar hefði aldrei verið verri og að spítalinn væri að þrotum kominn, sem þýðir , að sjúklingarnir muni ekki njóta eðlilegrar þjónustu). Þetta hreyfir ekkert við búrókratíinu. Það er að veita neina þjónustu. Það er að standa vörð um kerfið sitt.
Nú er komin stjórn yfir Landsspítalann með stjórnarformann með auga fyrir skilvirkri stjórnun og rekstri. Ráðherra er þannig kominn með viðmælanda, sem getur ráðlagt honum af viti um útvistun verkefna, og ráðherrann verður að hrista upp í gaddfreðnum Sjúkratryggingum Íslands og koma á alvöru samningaviðræðum við "stofulæknana".
"Núna er staðan mjög slæm og líklega að verða tveggja ára bið eftir að komast í augasteinsaðgerð. Það er bilað ástand. Þessar hefðbundnu aðgerðir, sem flestir fara í, taka 10 mín/auga." Hann bendir á, að önnur aðgerð, sem er nú eingöngu gerð á sjúkrahúsi, ætti betur heima utan þess. "Það eru sprautumeðferðir í augnbotni, s.k. glerhlaupsinndælingar. Þá er lyfi sprautað inn í augað við sjúkdómi, sem fellur undir ákveðna gerð af hrörnun í augnbotnum. Þessi aðgerð hefur verið bylting í meðferð á þessum sjúkdómi. Hún tekur stuttan tíma og er framkvæmd aðallega af aðstoðarlæknum á spítalanum á skurðstofu, en væri hægt að framkvæma á hvaða stofu sem er, eins og víða er gert í löndunum í kringum okkur. Hérlendis má ekki framkvæma þessa aðgerð á stofu, því [að] lyfin, sem notuð eru til að sprauta í augun, eru með S-merkingu, sem þýðir, að eingöngu megi nota þau á spítala.
Það er engin ástæða fyrir því, að þessi lyf eru S-merkt í þessum tilvikum. Ef því væri breytt, væri hægt að framkvæma inndælingarnar á stofu sérfræðinga og nýta skurðstofur spítalans betur til að stytta biðlista fyrir augasteinsaðgerðir."
Þetta er svakaleg lýsing á heilbrigðiskerfi í fjötrum einokunar ríkisrekstrar. Klóför embættismanna, sem berjast með kjafti og klóm fyrir einokun Landsspítalans í smáu og stóru, má greina. Þarna binda búrókratarnir notkun lyfs við spítala í stað þess að binda hana við viðurkennda sérfræðinga. Þessi mismunun lækna á spítala og sérfræðinga á stofu varðar líklega við lög. Það er verið að skerða atvinnufrelsi, sem varið er í Stjórnarskrá. Þegar svona er í pottinn búið, er aðeins von, að keraldið leki. Ráðherrann verður að fá einhvern með rekstrarvit og auga fyrir sparnaði til að greina kerfisbundið, hvaða verkefni hins opinbera eru hæf til útvistunar og leggja tillöguna fyrir stjórn Landsspítalans og fulltrúa stofulækna til umsagnar.
Á meðan uppstokkun verkefnaskiptingar Landsspítalans og læknastofanna er látin dankast og samningsgerð Sjúkratrygginga Íslands við sérfræðilækna á stofum er látin reka á reiðanum, lengjast biðlistar með hörmulegum afleiðingum og læknaskorturinn verður sárari. Verknámsaðstaða Landsspítala er flöskuháls á útskriftarfjölda lækna og þar með innritunarfjölda. Jafnframt alvöru samningaviðræðum við fulltrúa læknastofanna má ræða við þá um möguleika á að taka við læknanemum í þjálfun til að auka útskriftargetuna. Þessi ofurtrú á stofnanaveldi og ríkisrekstur er ótrúlega lífseig tímaskekkja m.v. ömurlega reynslu hér og annars staðar af þessu trénaða fyrirkomulagi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)