12.9.2022 | 13:38
Frelsisstríð og auðlindastríð
Það er þyngra en tárum taki, að þjóð í Evrópu skuli þurfa að heyja stríð til varnar frelsi sínu og fullveldi og þar með til að koma í veg fyrir að verða enn á ný hneppt í ánauð grimmra, villimannlegra og frumstæðra árásarseggja í austri. Úkraínumenn eru á hærra menntunar- og menningarstigi en Rússar almennt. Frelsisandinn hefur jafnan verið ríkur í brjóstum þeirra og dugar að nefna forfeður þeirra, kósakkana. Þeir vilja þess vegna mun fremur halla sér að Vesturlöndum en að Rússlandi um menningartengsl, viðskipti og stjórnarfar, og þetta þolir ofríkisgaurinn í Kreml ekki. Úkraínumenn þekkja til rússneskrar kúgunar af biturri reynslu. Hvorki forseti Rússlands né aðrir Rússar eiga að ráða neinu um stjórnskipun og stjórnarfar í nágrannaríkjum Rússlands, ekki frekar en Spánverjar eiga að ráða um málefni Portúgala.
Sagt er, að án Úkraínu hefðu Ráðstjórnarríkin vart verið annað en svipur hjá sjón. Það veitir þó að sjálfsögðu hinum fjölmennari og landmeiri Rússum engan rétt til að heyja landvinningastríð gegn Úkraínumönnum sem hvert annað illvígt nýlendustríð. Vesturlöndum hefur orðið á í messunni, að Rússar skyldu nú dirfast að rjúfa friðinn í Evrópu með stórfelldu árásarstríði. Evrópskir stjórnmálamenn gerðu grafalvarleg mistök með þeirri óverjanlegu áhættutöku að veita Úkraínumönnum enga öryggistryggingu og með því að setja eigin þjóðir í orkusnöru Kremlverja. Nú líður Evrópa öll fyrir þessi pólitísku mistök í öryggismálum.
Sárabót er, að Svíþjóð og Finnland leita nú inngöngu í NATO, og NATO verður að tryggja upphafleg (1991) landamæri sjálfstæðrar Úkraínu, svo að Úkraínumenn geti um frjálst höfuð strokið í framtíðinni.
Úkraína að austurhéruðunum og Krímskaga og lögsögu hans út í Svartahafið meðtöldum er gríðarlega auðugt landsvæði og sjávarbotn frá náttúrunnar hendi. Í Úkraínu, ekki sízt í austur- og suðurhlutanum, er t.d. hægt að vinna gríðarlega mikið af eldsneytisgasi með því að beita vökvaþrýstingi neðanjarðar (e. fracking). Hins vegar hefur komið í ljós, að enn betri horfur eru á vænum gasforðabúrum undir botni Svartahafs. Þar eru svo miklar birgðir af eldsneyti, að séð gætu allri Evrópu vestan Rússlands fyrir allri sinni gasþörf um áratugaskeið eða svo lengi, sem þörf krefur, þar til orkuskipti hafa farið fram. Rússland hefur nú lokað fyrir Nord Stream 1 og þar með jarðsett allan snefil af trausti Evrópuríkjanna til Rússlands sem eldsneytisbirgis. Ef Úkraínu tekst að endurheimta sín réttmætu landsvæði m.v. landamærin 1991-2014, þá bíður hennar vonandi björt framtíð sem lýðræðislegt velferðarríki, eins og hugur almennings þar stendur til, á traustum efnahagslegum grunni. Um þetta er barizt.
Það er með endemum, að einræðisseggur í Moskvu með innistæðulausa stórveldisdrauma skuli dirfast að ráðast inn í nágrannaland til að troða upp á það frumstæðum og spilltum stjórnarháttum sínum og framhald á langvinnri kúgun. Honum og meðreiðarsveinum hans verður að kenna sína lexíu. Niðurlæging Rússlands er mikil orðin, þegar stjórnvöld þar leita til útlagaríkisins Norður-Kóreu um kaup á vopnabúnaði, eins og nú berast tíðindi af. Settu Kínverjar afarkosti ?
Forystugrein Morgunblaðsins 25. ágúst 2022 fjallaði um það helvíti á jörðu, sem villimennirnir austan við Úkraínumenn bjóða þeim upp á núna:
"Hálft ár af hörmungum".
Þar stóð m.a.:
"Með það í huga [viðhorf Rússa til Úkraínumanna - innsk. BJo] verður sú spurning áleitin, hvernig friður geti á endanum náðst, ef endanlegt markmið Rússa er að ná yfirráðum í Úkraínu. Slík niðurstaða yrði einfaldlega óviðunandi fyrir hinn vestræna heim, enda yrði þá staðfest, að alþjóðalög væru til einskis og að nú gilti hnefarétturinn einn. Hver yrðu þá örlög annarra svæða, sem búa við hlið ágengra nágranna, sem ásælast þau ?
Volodimir Zelenski, forseti Úkraínu, orðaði það nýlega svo, að Úkraínumenn yrðu að berjast á hverjum einasta degi, til þess að hvert einasta mannsbarn gæti skilið, að Úkraína væri ekki hjálenda, skattland eða eign nokkurs heimsveldis, heldur "frjálst, fullvalda, ósundranlegt og sjálfstætt ríki". Í þessum orðum felst, að Úkraínumenn telja sér heldur ekki fært neitt annað en að berjast til annaðhvort sigurs eða hinztu stundar."
Þarna er vel komizt að orði um langstærsta viðfangsefni samtímans. Vesturlönd standa frammi fyrir því vali að láta engan bilbug á sér finna í vetur, þótt orkuskortur og dýrtíð kunni að sverfa að fólki, á meðan beztu synir og dætur Úkraínu falla á vígvellinum í vörn fyrir sjálfsagðan rétt þjóðar þeirra, og senda til Úkraínu allan þann bezta búnað og mesta, sem í valdi Vesturveldanna stendur, til að halda uppi merkjum frelsis og lýðræðis, eða lyppast niður með skömm gagnart glæpsamlegum ofbeldisöflum í Moskvu, sem einskis svífast í vitfirrtu stríði sínu gegn vestrænni Úkraínu.
Það er á flestra vitorði, að komist frumstætt ríki, sem stjórnað er af mafíósum, upp með gjörning sinn í einu ríki, þá verður enginn óhultur í kjölfarið. Þetta er ögurstund fyrir Vesturlönd. Þau verða að standa saman sem klettur með Úkraínu og beita öllum sínum mikla efnahagsmætti, sem er margfaldur á við Rússland í VLF mælt, til að hjálpa hinni einörðu og hugrökku þjóð, Úkraínumönnum, úr klóm bjarnarins. Ef það verður ekki gert núna, eru öll góð gildi Vestursins í húfi, gildi, sem áður hefur verið úthellt blóði fyrir. Þessi gildi eiga á hættu að rotna, ef gerðir fylgja ekki orðum núna.
Þessari forystugrein Morgunblaðsins lauk þannig:
"Það er enda sá hængur á [hernaðarárangri Úkraínumanna], að Úkraínumenn hafa þurft að treysta á stuðning bandamanna sinna í vestri til þessa, og sá stuðningur hefur, með nokkrum mikilvægum undantekningum, verið veittur með miklum semingi. Þó að fátt bendi til, að Bandaríkjamenn, Bretar, Pólverjar o.fl. muni hætta stuðningi sínum í bráð, má enn greina raddir í Þýzkalandi og annars staðar í Evrópu, þar sem menn virðast furða sig á því, að Úkraínumenn haldi áfram að berjast fyrir lífi sínu.
Það veltur því mikið á, að samstaða Vesturveldanna með Úkraínu haldi, þrátt fyrir að fram undan séu mögulega enn dimmari tímar fyrir Úkraínumenn. Sagan sýnir, að alræðisríki, en Rússland ber nú ógnvekjandi mörg merki slíkra ríkja, láta sjaldan gott heita í landvinningum sínum. Falli Úkraína, verður spurningin einfaldlega sú, hverjir verða næstir."
Þessi semingur við vopnaafhendinguna virðist að sumu leyti hafa átt við Bandaríkin líka fram að þessu, en þá ber að hafa í huga, að nauðsynlegur þjálfunartími á stórbrotinn og afkastamikinn vopnabúnað tekur sinn tíma. Það á t.d. við um HIMARS, sem ásamt öðrum vopnabúnaði, sem nýlega hefur verið tekinn í brúkið af Úkraínumönnum, er að breyta gangi stríðsins þeim í vil. Búnaður á borð við skriðdrekann Leopard 2 frá Þýzkalandi og orrustuþotuna F15 frá Bandaríkjunum, sem Úkraínumenn hafa óskað eftir, hefur þó ekki borizt enn, svo að vitað sé. Með því að flýta afhendingu mikilvirkra vopna til Úkraínumanna þyrma Vesturveldin mörgum úkraínskum mannslífum og jafnvel verður þá hægt að tryggja öryggi stærsta kjarnorkuvers Evrópu gegn hernaðarvá, en tíðindi þaðan eru váleg um þessar mundir.
Kostnaðurinn við afhent hergögn til Úkraínumanna er lítill í samanburði við kostnað Vesturveldanna af orkuverðshækkunum og jafnvel líka í samanburði við boðaðan kostnað ríkissjóðanna við "frystingu" orkuverðs og alls konar bætur til þeirra, sem minna mega sín, til að hjálpa þeim að ná endum saman í heimilisbókhaldinu. Ríkin standa þar misjafnlega að vígi, af því að þau eru misskuldsett. Nú nýtir þýzka ríkið styrk sinn, losar um skuldsetningarhöft ríkissjóðs, og hann nýtur mun hagstæðari lánskjara en t.d. ítalski ríkissjóðurinn.
Olaf Scholz, kanzlari, hefur boðað mrdEUR 65 úr ríkissjóði til stuðnings almenningi í dýrtíðinni. Til samanburður nemur kostnaður BNA við hernaðarstuðning við Úkraínumenn fram að þessu aðeins mrdUSD 16 (gengi þessara gjaldmiðla er á sama róli núna). Aftur á móti boðaði fyrrverandi forsætisráðherra Breta, Boris Johnson, í síðustu heimsókn sinni til Kænugarðs sem leiðtogi Bretlands, 24. ágúst 2022, á þjóðhátíðardegi Úkraínu, að Bretar ætluðu að senda hergögn að andvirði mrdGBP 54, og er það rausnarlegt og Bretum til sæmdar. Liz Truss, arftaki Borisar, var fyrsti ráðherra Vesturlanda, sem höfundur þessa pistils heyrði nefna, að aðeins brottrekstur rússneska hersins frá Úkraínu m.v. landamæri 1991-2014 væri niðurstaða þessa stríðs, sem ásættanleg væri.
Þann 25. ágúst 2022 birti Stefán Gunnar Sveinsson skilmerkilega frétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:
"Við munum berjast til þrautar".
Þar stóð m.a.:
"Zelenski sagði í þjóðhátíðarávarpi sínu, að það kæmi ekki til greina, að Úkraínumenn semdu við "hryðjuverkamenn", en úkraínsk stjórnvöld hafa þrýst á um, að Rússland verði nefnt hryðjuverkaríki. Þá sagði hann einnig, að Úkraína samanstæði af öllu landsvæðinu, sem tilheyrði landinu, þ.m.t. þeim héruðum, sem Rússar hafa nú lagt undir sig eða innlimað.
Vísaði Zelenski þar ekki sízt til Krímskaga, sem Rússland innlimaði árið 2014, en Úkraínumenn hafa á síðustu vikum náð að gera árásir á skaganum, sem hingað til hafði verið talinn langt utan þess svæðis, sem þeir gætu náð til. Hafa Úkraínumenn sagt á síðustu vikum, að endanlegt markmið þeirra sé að frelsa Krímskaga undan yfirráðum Rússa.
Þá hafa Úkraínumenn einnig gert ítrekaðar árásir á birgðageymslur rússneska hersins í rússnesku borginni Belgorod, sem er um 40 km frá landamærum Rússlands að Úkraínu."
Úkraínski herinn virðist beita fjölbreytilegri og óvæntri hernaðartækni, hafa gott vald á nýjum tæknivæddum herbúnaði og sýna stundum af sér sjaldgæfa herkænsku, enda hefur herinn náð undraverðum árangri í viðureigninni við fjölmennari, rotinn, siðlausan og niðurlægðan rússneskan her, sem hafði ógrynni hertóla úr að moða í upphafi innrásar, en virðist nú hafa farið erindisleysu inn í Úkraínu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)