Misheppnaðir gjörningar í orkumálum

Stjórnmálamönnum er fullljóst, hvers konar lykilhlutverki frumorka hvers konar og raforkuvinnsla úr henni gegna í þjóðfélögum nútímans, en þeim eru þó mörgum hverjum mjög mislagðar hendur, þegar kemur að hlutverki þeirra sjálfra við mótun og framkvæmd orkustefnu fyrir sín samfélög. Að fjalla af viti um orkumál krefst þekkingar, sem er eðlilega ekki á allra færi, enda skripla þar margir á skötunni. Það er aðeins tvennt, sem hægt er með sanngirni að gera kröfu til stjórnmálamanna á Vesturlöndum, að þeir geri fyrir orkumál landa sinna:

(1) að tryggja heimilum og atvinnulífinu viðunandi orkuöryggi, þ.e. nægt orkuframboð til að fullnægja eftirspurn m.v. verð á hverjum tíma og (2) framboð frumorku sé nægt til að halda einingarverði orkunnar tiltölulegu stöðugu, t.d. sveiflur minni en +/- 30 % frá ársmeðaltali. 

Það er öllum ljóst, að yfirvöldum í Evrópu hefur tekizt þetta hrapallega. Þeir settu á laggirnar markaðskerfi raforku, sem var ekki hannað fyrir frumorkuskort.  Þvert á móti verður alltaf að vera nægt framboð frumorku, til að uppboðskerfi raforku, reist á jaðarkostnaðarreglu, virki. Nú er raforkuverð í Evrópu hátt yfir meðalkostnaði raforkuvinnslunnar, og þess vegna er mikill gróði hjá raforkuframleiðendum öðrum en gasorkuverum.  Á meðal raforkusölufyrirtækja er hins vegar tap og getur blasað við gjaldþrot, þar sem selt hefur verið fram í tímann á gamla verðinu.

Samið var við einræðisríki, með ofbeldisfulla og árásargjarna sögu, um kaup á frumorku í miklum mæli án tiltækra varaleiða.  Nú hefur þetta einræðisríki sýnt sitt rétta andlit og notfært sér stöðu sína á orkumarkaðinum í tilraun til að knýja fram vilja sinn á öðrum sviðum, þ.e. til að dregið verði úr refsiaðgerðum á þetta hryðjuverkaríki vegna villimannlegrar og óréttlætanlegrar innrásar í lýðræðislegt og friðsamlegt nágrannaríki. Einræðisríkið hefur reynt að búa til orkuskort í Evrópu.  Þær tilraunir hafa enn ekki leitt til beins skorts, en verðið hefur margfaldazt á eldsneytisgasi, en er nú tekið að falla aftur á jarðolíu og jafnvel á jarðgasinu líka vegna aukins framboðs annarra og minni eftirspurnar frá Kína. Notendur hafa líka dregið úr notkun jarðgass, svo að betur gengur að safna vetrarbirgðum en óttazt var snemmsumars.  

Þetta sýnir, hversu mikilvægt er, að yfirvöld og birgjar hafi vakandi auga fyrir áhættuþáttum á framboðshliðinni.  Það er ekki nóg að stýra flutningskerfunum í smáatriðum og veita nákvæma forskrift um markaðssetningu orkunnar, í þessu tilviki um uppboðsmarkað í orkukauphöll, eins og Evrópusambandið (ESB) gerir með gölluðum hætti, ef framboðshliðin er vanrækt.

Þessi veikleiki á líka við um Ísland, þótt öðruvísi sé.  Hér hafa stjórnmálamenn og embættismenn búið til stjórnkerfi, sem er með slíkum böggum hildar, að það hefur bæði búið til staðbundinn raforkuskort vegna úrelts flutningskerfis og tímabundinn heildar afl- og orkuskort vegna tregðu við að veita framkvæmdaleyfi. Að þetta skuli gerast í orkuríkasta landi Evrópu frá náttúrunnar hendi m.v. fjölda íbúa, þar sem ætti að vera auðveldara að skapa gegnsætt og skilvirkt stjórnkerfi en annars staðar vegna fámennis, er sorgarsaga. Það er mjög fátt, ef nokkuð, sem virðist ganga hnökralaust, þar sem stjórnmálamenn og embættismenn eru í aðalhlutverkum.

  Það er þess vegna mikilvægt stefnumál að einfalda og straumlínulaga stjórnsýsluna og draga úr áhrifum embættismanna á þjóðfélagsstarfsemina á öllum sviðum, þar sem flöskuhálsar koma í ljós. Þetta er hægara sagt en gert, því að varðhundar kerfisins eru fjölmennir í pólitíkinni.

  Þann 9. september 2022 gerðu Staksteinar Morgunblaðsins pistil Jóns Magnússonar, lögmanns, um orkumálin skil undir fyrirsögninni:

"Kuldaleg örbirgð".

"Stjórnmálastétt Evrópu hefur um árabil hamazt við að loka orkuverum og stuðla að svo nefndum orkuskiptum til þess að koma í veg fyrir hlýnun af mannavöldum.  Afleiðingin er hærra orkuverð til neytenda og heljartak Rússa á orkusölu."

Téð stjórnmálastétt hefur gert allt með öfugum klónum. Hún hefur tekið gríðarlega og óverjandi áhættu á framboðshliðinni, og í Evrópusambandinu hefur hún ekki gert neinar vitrænar og róttækar ráðstafanir, sem duga til að draga úr losun koltvíildis við orkuvinnslu og orkunotkun.  Ráðstafanirnar, sem mundu duga Evrópumönnum í þessum efnum, er að reisa kjarnorkuver og loka kolaorkuverum, þegar framboð raforku er orðið nægt.  Þess í stað hafa þeir fordæmt kjarnorkuna og lokað kjarnorkuverum.  Allar stærstu gjörðir þeirra í orkumálum hafa gert illt verra, svo að engu er líkara en þessir stjórnmálamenn hafi einfaldlega verið strengjabrúður Pútíns, og að Angela Merkel hafi þar leikið aðalhlutverkið.  Arfleifð hennar er afleit.  Hún beitti sér t.d. fyrir banni Sambandsþingsins í Reichstag á gasvinnslu með vökvaþrýstingi neðanjarðar, sem Pútín laug að henni, að væri stórhættuleg, en engin dæmi voru þó um umhverfisslys af þessum völdum áður í Þýzkalandi.  Græningjar sem ríkisstjórnarflokkur í Berlín eru nú að vinda ofan af hverri vitleysunni á fætur annarri í sinni stefnu, hvort sem um er að ræða skinhelgi í hermálum eða dellu í umhverfismálum.  Þýzkalandi verður þó vart mörkuð leiðandi og lífvænleg framtíðarstefna fyrr en Friedrich Merz, formaður CDU, sem Merkel bolaði burt,  tekur við keflinu í "Kanzleramt" í Berlín.

"Afleiðing af glórulausu ofstæki í orkumálum og hjátrú loftslagsbreytinga verður til þess, að í vetur verður helkuldi víða á heimilum í Evrópu, af því að fólk hefur ekki efni á að hita upp.  Framleiðsla dregst saman og örbirgð eykst vegna minni þjóðarframleiðslu." 

Ekki er líklegt, að þessi helkuldaspádómur á mörgum heimilum rætist vegna þess, að markaðskraftarnir eru fljótir að taka við sér. Bæði olíu- og gasverð fer nú lækkandi.  Bretar o.fl. munu sennilega geta aukið gasvinnslu sína í haust og vetur að tilhlutan Liz Truss, enda til mikils að vinna. Þýzkum fyrirtækjum hefur á undraskömmum tíma tekizt að draga stórlega úr gasþörf sinni án þess, að komi niður að ráði á framleiðslunni. Afkomendum þeirra, sem héldu uppi fullri hergagnaframleiðslu fyrir Wehrmacht með allt í rúst ofanjarðar, er ekki fisjað saman.  Tapararnir eru Moskvumenn, sem enn á ný sýna af sér arfaslaka herstjórn, misreiknuðu sig á öllum vígstöðvum og tókst ekki að knýja skjálfandi Evrópumenn á hnén núna með því að skrúfa fyrir eldsneytisgasið til þeirra.  Með villimannlegum tilburðum sínum á öllum vígstöðvum hafa þeir bitið af sér beztu kúnnana um alla framtíð.  Fyrir vikið bíður þeirra að lepja dauðann úr skel.

"Kaldhæðni örlaganna verður þá, að fjöldi þeirra, sem deyja úr kulda í Evrópu margfaldast vegna tilrauna stjórnmálastéttarinnar til að koma í veg fyrir, að fólk deyi úr hita.  Því miður virðist íslenzka stjórnmálastéttin jafnlangt gengin í ruglandanum og sú evrópska og hefur skuldbundið þjóðina til að greiða milljarðatugi á næstu árum á grundvelli Parísarsamkomulagsins svo nefnda, sennilega af því að fólki finnst vera allt of hlýtt á Íslandi." 

Kjarni þessa boðskapar er, að það er kolröng forgangsröðun á ferðinni í Evrópu allri í orkumálunum. Framboðshliðin hefur verið hundsuð.  Það er skylda stjórnmálamanna í nútíma þjóðfélögum að sjá til þess, að jafnan sé til næg raforka og orka til upphitunar á viðráðanlegu verði fyrir alla borgarana og atvinnureksturinn.  Inngrip stjórnmálamanna hafa verið þveröfug.  Þeir hafa lagt frumorkuafhendinguna í hendur ofbeldisfulls einræðisherra, sem um langa hríð er búinn að láta í ljós opinberlega vitstola hugmyndir um nýlendustríð til að endurreisa kúgunarstöðu Rússa yfir öðrum Slövum og Eystrasaltsþjóðunum, jafnvel Finnum.  Þeir hafa niðurgreitt raforku frá vindmyllum og sólarhlöðum, sem valda miklu álagi á náttúruna við öflun efna og þurfa stóran flöt á afleiningu og eru algerlega óáreiðanlegur aflgjafi.  Þeir hafa útilokað þá gerð orkuvera, sem ein getur víðast hvar leyst orkuver knúin jarðefnaeldsneyti af hólmi, þ.e. kjarnorkuverin.  Á Íslandi virðast þeir vera á góðri leið með að útiloka hagkvæmustu og umhverfisvænstu tæknina, þ.e. þá, sem felst í að beizla fallorku vatns. Allt, sem stjórnmálamenn hafa aðhafzt í orkumálum, er markað sérvizku og dómgreindarleysi. 

Afleiðingin er sú, að hjakkað er í sama farinu varðandi losun gróðurhúsalofttegunda, orkuverðið í Evrópu er orðið svimandi hátt, og fleira fólk mun deyja úr kulda í vetur í Evrópu en dó af völdum hás hitastigs í sumar.  Að Íslendingar skuli hafa verið skuldbundnir með jafnóábyrgum hætti og raun ber vitni um varðandi samdrátt losunar koltvíildis að viðlögðum þungum fésektum er til vitnis um, að ráðamenn eru á valdi sefasýkilegs áróðurs um heimsendi handan við hornið.  Sá heimsendir kæmi ekki 5 mínútum fyrr, þótt Íslendingar ykju bara losun sína í samræmi við hagvöxt, því að það munar nánast ekkert um losunina innan lögsögu Íslands, enda er um 85 % orkunotkunarinnar úr umhverfisvænum orkulindum.  Það leika ekki margar þjóðir eftir. 

Þetta hrikalega sjálfskaparvíti meginlandsmanna og Breta í orkumálum er vatn á myllu þeirra Evrópumanna, sem framleiða allt sitt rafmagn án aðkomu jarðefnaeldsneytis, en það eru líklega bara frændþjóðirnar, Norðmenn og Íslendingar. Norðmenn sitja hins vegar með skeggið í póstkassanum, eins og þeir taka til orða sjálfir um þá, sem verður á í messunni, því að menn með þá pólitísku trú, að vist í fangi Evrópusambandsins sé frelsandi fyrir Norðmenn, börðu Stórþingið til hlýðni (þetta á aðallega við um Verkamannaflokkinn), svo að það samþykkti innleiðingu Orkupakka 3 í norka lagasafnið. Með því lét Stórþingið völdin yfir millilandaflutningum raforku til og frá Noregi í hendur ACER-Orkustofu ESB vitandi vits, því að margsinnis var varað við þessu í ræðu og riti innan þings og utan.  Nú sitja íbúar Noregs, nema norðurhlutans, uppi með Svarta-Péturinn og u.þ.b. tífalt hærra raforkuverð en eðlilegt getur talizt m.v. aðstæður í Noregi, og ríkisstjórnin getur ekki ákveðið að hætta útflutninginum til að safna vetrarforða í miðlunarlónin vegna OP3.  Ola Nordmann og Kari eru ekki ánægð með þetta. 

Í þessu orkuríka landi, Noregi, frá náttúrunnar hendi kemur þetta ástand líka niður á orkukræfum iðnaði, því að hann er ekki með langtímasamninga, sem spanna alla orkuþörf hans.  Þannig er Norsk Hydro að draga saman seglin í áliðnaðinum í Noregi, og hefði það einhvern tímann þótt vera saga til næsta bæjar m.v. markaðstæður núna og markaðshorfur, þegar álver annars staðar án aðgangs að raforku frá vatnsorkuverum eru að leggja upp laupana eða a.m.k. að minnka umsvifin vegna þrúgandi hás orkuverðs.  Stór hluti Mittelstand í Þýzkalandi, sem er samheiti eigenda smárra og meðalstórra iðnaðarfyrirtækja, oft fjölskyldufyrirtækja í nokkra ættliði á sérhæfðu sviði, segjast ekki lengur vera samkeppnishæfir á mörkuðum, því að þeir þurfi að borga tífalt hærra orkuverð en samkeppnisaðilar, t.d. í Bandaríkjunum.  Grundvöllur atvinnulífs í ESB er að bresta með kreppu sem afleiðingu vegna algerlega misheppnaðrar orkustefnu Þýzkalands og ESB. 

Þann 9. september 2022 birtist frétt með viðtali við Þórð Gunnarsson, hagfræðing, undir fyrirsögninni:

"Orkukreppan gæti kallað á lokun fleiri álvera í Evrópu".

  Um þessa fyrirsögn má segja, að eins dauði er annars brauð (Eines Tot einem anderen Brot), því að bann við Rússaáli, tollur á Kínaál og stöðvun kerskála í Evrópu vegna hás orkuverðs ætti að skapa grundvöll fyrir meiri eftirspurn en framboð af áli og þar með hátt verð á því.  Það skapar grundvöll til aukinna fjárfestinga hérlendis, góðs hagnaðar íslenzkra orkufyrirtækja og þar með ávöxtun eigendanna á eigin fé í orkuverunum.

Í fréttinni sagði m.a.:

"Haft var eftir Clive Moffatt, sérfræðingi í orkumálum, í viðtalsþætti Nigel Farage á GB News, að verkfræðingar hefðu verið boðaðir til fundar vegna áætlana um að hefja á ný raforkuframleiðslu úr kolum í Drax-raforkuverinu á Bretlandi.

Þórður [Gunnarsson, hagfræðingur] segir aðspurður, að heyrzt hafi óstaðfestar fréttir um slík áform, en taka muni nokkurn tíma að endurræsa kolaorkuverin.  Þá sé til skoðunar að aflétta banni  við vinnslu jarðgass með bergbroti í Bretlandi, en henni sé hægt að koma í gagnið á nokkrum mánuðum. 

Að sama skapi sé til umræðu í Hollandi að hefja á ný vinnslu jarðgass úr Groningen-gaslindinni, en henni hafi verið hætt vegna loftslagsmála."

Það er grundvallar skilyrði, að forgangsraðað sé í þágu fólksins, en í orkumálunum fer því fjarri, að það hafi verið gert í Evrópu. Í fyrsta forgangi er að útvega næga raforku á viðráðanlegu verði fyrir almenning.  Þess vegna verður núna að kveikja upp í öllum fáanlegum kötlum, sem knúið geta rafala,  og jafnvel hitað vatn til upphitunar húsnæðis ásamt því að afla allrar fáanlegrar frumorku innanlands og þess, sem á vantar erlendis frá utan Rússlands, sem skrúfað getur hvenær sem er fyrir allar lagnir, sem það ræður yfir, til Vesturlanda, auk Nord Stream 1 og 2, sem eru lokaðar. 

Fysta krafan er að hindra straumleysi, að gera fólki kleift að hita híbýli sín.  Losun Evrópu á koltvíildi í fáein ár mun hvort sem er engum sköpum skipta um hlýnun jarðar. Stjórnmálamenn eru búnir að valda miklu tjóni með rangri forgangsröðun.  Það er hægt að bæta birgðastöðu eldsneytisgass með því að leyfa aftur vinnslu þess á landi úr setlögum með því að beita vökvaþrýstingi neðanjarðar, en það var ein af vitleysum stjórnmálamanna á fyrstu tveimur áratugum þessarar aldar, t.d. Angelu Merkel, að banna þessa vinnslu vegna ímyndaðrar umhverfisvár, en aldrei hafði orðið nokkurt umhverfisslys af þessum völdum í Þýzkalandi.  Það er eins og Merkel hafi gert sér leik að því að gera Þjóðverja berskjaldaða gagnvart Rússum, þegar þeim dytti í hug að loka fyrir gasið.  

""Nýlega var samþykkt á Evrópuþinginu, að fjárfestingar í raforkuframleiðslu úr gasi flokkist sem grænar. Markmið í loftslagsmálum eru ekki efst á baugi núna, heldur snýst málið um, hvort fólk krókni úr kulda í vetur", segir Þórður."

Þarna lýsir Þórður Gunnarsson, hvert vitlaus forgangsröðun stjórnmálamanna í orkumálum hefur leitt Evrópubúa.  Engir hafa eytt meira af skattpeningum íbúanna í niðurgreiðslur á raforku úr vindmyllum og sólarhlöðum.  Nú, þegar hæst á að hóa, er ekkert hægt að reiða sig á þessar kjánalegu fjárfestingar.  Áður en orkuver knúin jarðefnaeldsneyti eru lögð niður, verður að vera búið að reisa orkuver án koltvíildislosunar, sem geta tekið við, t.d. kjarnorkuver. 

Að reiða sig á mikilvæga aðdrætti frá einræðisríki, sem hefðbundið hefur stundað nýlendukúgun í Evrópu, og var jafnvel með grimmilega árásarsögu á 21. öldinni fyrir 24. febrúar 2022, er svo mikil blindni og grafalvarlegur barnaskapur, að það er ekki einleikið, og hafa grunsemdir um fláræði vaknað af minna tilefni. 

Hér á Íslandi hafa draumlyndir stjórnmálamenn skuldbundið þjóðina um minnkun losunar koltvíildis 2030, sem er óraunhæf með öllu án verulegrar kjaraskerðingar, en láta þó Orkustofnun komast upp með að láta útgáfu virkjanaleyfa, t.d. fyrir Hvammsvirkjun, dankast. Þegar kemur að orkumálum, nær framlag stjórnmálamanna ekki máli og veldur miklu samfélagslegu tjóni. Tvískinnungur og hræsni eru aldrei vænleg fyrir árangur í þágu fólksins í stjórnmálunum.  

Að lokum stóð í þessari frétt:

"Spurður um stöðuna í Frakklandi segir Þórður, að vegna lítillar úrkomu hafi kjarnorkuver þar í landi verið keyrð með 30 %-40 % afköstum í sumar, enda hafi skort kælivatn fyrir kjarnakljúfana.  Það hafi birzt í orkuverðinu í sumar, sem hafi oft og tíðum verið hærra en í Þýzkalandi.

"Ríki, eins og Frakkland og Þýzkaland, munu komast í gegnum þetta, en þurfa að borga mikið fyrir orkuna.  Ef Rússar halda áfram að skrúfa fyrir gasið, er fátt, sem bendir til, að orkuverð muni lækka mikið [í Evrópu á næstunni], nema það verði meiri háttar kreppa og stórnotendur raforku stöðvi framleiðslu", segir Þórður."

Í Frakklandi er nú lögmál Murphys að verki, þ.e. það slæma, sem getur gerzt, gerist á versta tíma.  Umfangsmikið fyrirbyggjandi viðhald eftir ástandsgreiningu margra kjarnorkuvera var ekki talið mega bíða.  Á sama tíma hefur vatnsorkuverin skort vatn.  Afleiðingin er sú ótrúlega staða, að raforkuverð í Frakklandi hefur um hríð verið hærra en í Þýzkalandi.  Gallarnir sitja ekki uppi með græningja í ríkisstjórn, eins og nágrannarnir austan Rínar, og hafa þess vegna tekið þá rökréttu ákvörðun að setja kraft í að reisa um 6 ný kjarnorkuver, en slík vitræn ákvörðun vefst fyrir Germönum, sem hafa ekki einu sinni ákveðið að fresta lokun 3 síðustu kjarnorkuvera sinna.  Öðru vísi mér áður brá. Neyðin mun þó kenna nakinni konu að spinna sem forðum.  

   

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 18. september 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband