19.1.2023 | 13:18
Orkustofnun og ríkisstjórnin ganga ekki í takti
Orkustofnun sýndi af sér sleifarlag við meðhöndlun umsóknar Landsvirkjunar um virkjunarleyfi í Neðri-Þjórsá fyrir Hvammsvirkjun. Forstjóri hennar lofar bót og betrun, en mey skal að morgni lofa. Hiklaust má telja afgreiðsluna hafa dregizt úr hömlu um 1 ár, og það hefur tæplega kætt umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sem alvöruþrunginn nýtir hvert tækifæri til að leggja áherzlu á markmið ríkisstjórnarinnar um 55 % minni losun koltvíildis út í andrúmsloftið hérlendis en 2005 árið 2030. Þetta markmið Katrínar Jakobsdóttur & Co. var glæfralegt og mun ekki nást, ef svo fer fram sem horfir.
Tíminn hefur verið notaður hrottalega illa til að vinna að þessu markmiði, og rétt einu sinni eru hégómagjarnir stjórnmálamenn staðnir að verki. Þeir setja þumalfingurinn upp í loftið og setja síðan einhverja prósentutölu á blað án þess að hafa hugmynd um, hvað það kostar að ná markmiðinu, og engin fullnægjandi áhættugreining fylgir. Afleiðing þessarar sýndarmennsku er, að nú stefnir í dúndrandi neikvæða niðurstöðu árið 2030, enda hefur meginforsendan fyrir árangri algerlega brugðizt með þeirri afleiðingu, að Vestfirðingar neyðast til að brenna olíu, þegar Vesturlína verður straumlaus eða vatnslítið er í Þórisvatni í vetrarbyrjun. Vestfirðingar vilja virkja vatnsföll sín, en afturhaldsöfl, ekki sízt í VG, flokki forsætisráðherra og fyrrverandi umhverfisráðherra, þvælast fyrir, og hvorki stjórnvöld né Alþingi hafa veitt þeim þann stuðning enn, sem dugar. Téð meginforsenda er auðvitað verulega aukið framboð tryggrar og "grænnar" raforku í landinu.
Ráðherra orkumála ætlar í vetur að búa til lagaramma fyrir vindorkuver, en það eru tiltölulega frumstæð, landfrek og mengandi mannvirki, sem við höfum ekkert við að gera í þessu landi, enda raforka frá vindmylluþyrpingum hvorki trygg né "græn". Virkjanamálin hérlendis virðast þannig vera í öngstræti (gíslingu), og er beðið eftir Alexander mikla til að höggva á þann Gordíonshnút. Það verður að hraða undirbúningi hefðbundinna íslenzkra virkjana, vatnsfalla og jarðgufu, svo að einhver von sé til að ná markmiðinu, sem forsætisráðherrann kynnti keik í upphafi þessa áratugar. Það er ein af þverstæðum þessa forsætisráðherra, að þingflokkur hennar dregur sífellt lappirnar í virkjanamálum og eyðileggur þar með markmið forsætisráðherrans.
Þessi tvískinnungur veldur því, að Orkustofnun er vorkunn, þótt hún viti ekki í hvora löppina hún á að stíga, þegar kemur að því að spá fyrir um eldsneytisnotkun landsmanna 2040. Hún hefur ekki reynzt vera í færum til að mata orkuspálíkan sitt á gögnum, sem gefa lægri útkomu en 600 kt af olíunotkun árið 2040, sem jafngilda um 1900 kt af CO2. Þetta hlýtur að virka sem einn á lúðurinn fyrir ríkisstjjórnina, enda hefur hún engar dugandi mótvægisaðgerðir uppi í erminni. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins, SI, getur ekki stillt sig um að núa henni þessu um nasir. Þessu gerir Fréttablaðið grein fyrir 28. desember 2022 undir fyrirsögninni:
"Orkuskiptum ekki náð í tæka tíð".
Í fréttinni stóð m.a.:
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir þetta undarlegt ósamræmi:
"Það finnst mörgum skrýtið, að grunnspá, sem opinber stofnun eins og Orkustofnun setur fram, skuli ekki gera ráð fyrir því, að markmið stjórnvalda í orku- og loftslagsmálum náist. Tala nú ekki um, þar sem markmið Íslands um kolefnishlutleysi eru lögbundin", segir Sigurður.
Hann telur það ekki góð skilaboð út í atvinnulífið og upplýsingarnar misvísandi:
"Ég get ekki ímyndað mér, að ríkisstjórnin sé ánægð með þessi vinnubrögð Orkustofnunar. Allar fjárfestingar í atvinnulífinu taka mið af þessum markmiðum. Fyrirtækin eru á fleygiferð við að tileinka sér nýja tækni, sem tekur mið af breyttum orkugjöfum. Þetta eru mjög kostnaðarsamar aðgerðir. Það er því alger grunnkrafa, að tímasett markmið standi", segir Sigurður og telur tímann þegar orðinn nauman, ef áform um orkuskipti eigi að ganga eftir."
Engum vafa er undirorpið, að orkuskipti útheimta miklar fjárfestingar hjá fyrirtækjum og heimilum. Heimili hafa fengið afslátt opinberra gjalda við að fjárfesta í nýjum rafmagnsbíl, en ríkissjóður hefur ekki, svo að hátt fari, veitt fyrirtækjum sérstakan skattaafslátt fyrir fjárfestingar í aðgerðum, sem eru undanfari orkuskipta, enda er það mála sannast, að ríkisvaldinu hefur mistekizt að skapa grundvöll fyrir nýjar, almennilegar virkjanir, sem gætu framleitt raforku fyrir rafeldsneyti, sem leyst geti jarðefnaeldsneytið af hólmi. Það vantar nýjar virkjanir, og vindmyllur eru gjörsamlega ótækar af kostnaðarlegum og landverndarlegum ástæðum.
Orkustofnun hefur áreiðanlega ekki ætlað sér að grafa undan vilja fyrirtækjanna í landinu til orkuskipta með sinni orkuspá, sem reist er á líkani, sem aðeins er hægt að mata með raungögnum, en ekki draumórakenndu gaspri stjórnmálamanna um framtíðina. Orkumálastjóri varpaði ljósi á þetta með vel uppsettri ritsmíð í Morgunblaðinu á gamlaársdag 2022. Halla Hrund Logadóttir nefndi ritsmíð sína:
"Íslendingar leiðandi þjóð í orkuskiptum".
Þar stóð m.a.:
"Ein af sviðsmyndunum, sem kynntar voru við útgáfu líkansins, var nauðsynlegur orkuskiptahraði í vegasamgöngum. Þar kom m.a. fram, að til að ná lágmarksskuldbindingum okkar í loftslagsmálum í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisins þyrfti nýskráningarhlutfall rafknúinna fólks-, bílaleigu- og sendibíla að vera í kringum 100 % [tæplega 100 %, þetta hlutfall getur ekki farið yfir 100 %-innsk. BJo] strax árið 2025, sem skiptir máli að hafa í huga við þróun ívilnana og löggjafar."
Þetta er kýrskýrt. Orkuskiptin eru á eftir áætlun ríkisstjórnarinnar, og það er langsótt að áfellast Orkustofnun fyrir það. Ríkisstjórnin gaf þessa áætlun út, og hún var allt of brött, hreinlega óraunsæ í ljósi eðlis málsins. Orkuskipti gerast ekki eins og hendi sé veifað. Það er tregða í þessu ferli af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi er tæknin alls ekki tilbúin. Í öðru lagi útheimta orkuskipti miklar fjárfestingar og í þriðja lagi er sálfræðilegi eða tilfinningalegi þátturinn. Mönnum finnst sumum hverjum þeir renna blint í sjóinn að skipta um orkugjafa. Það er glapræði af ríkisstjórninni að hundsa alla þessa þætti, en láta hégómagirni og fordild einstakra sveimhuga í ráðherrastólum ráða för. Sennilega hefur bleyttur þumall ráðherranna gefið þeim ártöl við markmiðasetningu, sem eru áratug á undan því, sem raunhæft má telja. Þessi grobbiðja ráðherra VG mun að líkindum flækja landsmenn í háar sektargreiðslur til Evrópusambandsins eða kaup á rándýrum koltvíildiskvóta á heimsmarkaði fyrir mismun markmiðs og raunar í t CO2 talin. Ábyrgðarleysi vinstri hreyfingarinnar græns framboðs ríður ekki við einteyming.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)