22.1.2023 | 18:19
Utan gátta
Loftslags-, orku- og umhverfisráðherra virðist vera haldinn þeirri meinloku, að Íslendingar séu að missa af lestinni, af því að þeir hafa ekki enn sett lög um vindmylluþyrpingar og ekki heimilað uppsetningu þeirra, þó að (erlendir) fjárfestar bíði í röðum eftir samþykki viðkomandi yfirvalda fyrir uppsetningu og rekstri slíkra orkuvera. Hvers vegna sýna þeir þennan áhuga núna ?
Þeir kunna að sverma fyrir hærri nýtingu mannvirkjanna en algengt er annars staðar á landi vegna þess, hversu vindasamt hér er, en þá þurfa þeir að taka með í reikninginn viðhaldsþörf í sviptivindasömu landi og óvenju hátt rakastig, sem vafalaust mun valda meira ísingarálagi á spaða, legur og burðarsúlu en margir rekstaraðilar þessara mannvirkja eiga að venjast. Það er heldur ekki hlaupið að því að komast að til viðhalds og viðgerða stóran hluta ársins á mörgum þeirra staða, sem téðir fjárfestar hafa nú augastað á.
Er einhver markaður fyrir vindmyllurafmagn á Íslandi ? Líklega treysta þessir fjárfestar á, að á Íslandi verði viðvarandi raforkuskortur, og þess vegna muni t.d. eigendur raforkuvera, sem háð eru vatni úr miðlunarlónum, grípa hvert tækifæri fegins hendi til að kaupa af þeim rafmagn og spara vatn. Ef hins vegar úrtöluraddir á sviði hefðbundinna íslenzkra virkjana verða ekki látnar komast upp með að virka eins og 5. herdeild spákaupmanna á sviði vindorku og hér verður í náinni framtíð staðið myndarlega að virkjun jarðgufu og vatnsafls, þá mun markaðurinn engan áhuga hafa fyrir vindorkurafmagni, sem er bæði ótryggt og dýrt og flækir fyrir beztun á rekstri íslenzka raforkukerfisins m.t.t. hámörkunar á nýtni við nýtingu orkulindanna.
Noregur er vatnsorkuland, eins og hérlendis er kunnugt, en samt hafa verið settar þar upp vindmyllur í talsverðum mæli. Þetta hefur valdið spjöllum á viðkvæmri náttúru í einu fegursta landi Evrópu. Þess vegna fer andstaða almennings þar í landi mjög vaxandi gegn þessari raforkuvinnslu, enda er hún að miklu leyti fyrir utanlandsmarkað. Sömu sögu er að segja hvaðanæva að úr Evrópu, en þar eru landskortur og afleiðingar þrengsla víða drifkraftur mótmælanna. Við hérlendis eigum að draga lærdóm af þessu, enda er þetta önnur meginorsök áhuga fjárfestanna fyrir Íslandi núna.
Hér hafa ýmsar kenningar verið á lofti um, að sæstrengstenging við raforkukerfi Evrópu muni fylgja vindmylluþyrpingum á Íslandi og þá vísað til orkulöggjafar Evrópusambandsins í því sambandi. Glöggur maður hefur leitt að því lögfræðileg rök, að innleiðing Orkupakka 3 á Íslandi haustið 2019 standist ekki lagalega, af því að sú löggjöf var þá úr gildi fallin hjá ESB og önnur, Orkupakki 4, tekin við. Þá er mikilvægt að hafa í huga, að orkulöggjöf ESB gildir ekki lengur á Bretlandi, en þangað var jafnan mestur áhugi á að leggja aflsæstreng frá Íslandi. Sæstrengur til ESB-landanna er miklu dýrari framkvæmd, og raforkuflutningur þangað mun þýða mun meiri orkutöp og þar af leiðandi óhagkvæmari rekstur. Að lokum er vert að benda á þann varnagla Alþingis við innleiðingu OP3, að löggjafinn áskildi sér rétt til að samþykkja eða hafna slíkri tengingu raforkukerfa. ESA hefur enn ekki gert athugasemd við þann varnagla. Aflsæstrengur til Íslands er þess vegna mjög langsóttur (ólíklegur), en lífseigur efniviður samsæriskenningasmiða.
Þann 30. desember 2022 birtist í Morgunblaðinu frétt af viðtali við ráðherra, sem virðist ekki átta sig á afleiðingum þess fyrir íslenzkt þjóðfélag og náttúru landsins, ef stjórnvöld nú ætla að reiða sig á vindorku til raforkuöflunar fyrir hagkerfi í vexti, og sem þar að auki stendur nú frammi fyrir orkuskiptum, sem reist verða á raforku úr sjálfbærum orkulindum. Fréttin bar lævísan titil, ættaðan frá sama ráðherra:
"Nærumhverfið njóti ávinnings".
Hún hófst þannig:
"Vinna starfshóps, sem ætlað er að undirbúa nýjar reglur (svo !) um nýtingu vindorku, gengur vel að sögn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Jafnframt er unnið að því í 2 öðrum hópum að bera saman reglur í nokkrum öðrum löndum og kanna, hvar hægt er að reisa vindorkuver á hafi. Ætlazt er til, að starfshópurinn skili tillögum í formi draga að lagafrumvarpi fyrir 1. febrúar [2023]."
Með öðrum orðum vinnur ráðherra nú að undirbúningi þess að ryðja vindorkuþyrpingum leið inn í íslenzkt samfélag og ferst verkið óhönduglega. Í stað þess að kynna sér rækilega kosti og galla, þ.e. reynsluna af vindorkuverum í nokkrum löndum, þá er farið yfir regluverkið, þótt það hafi gefizt misjafnlega og víða leitt til harðrar gagnrýni. Að taka raunstöðuna fyrst í mismunandi löndum er nauðsynlegur undanfari þess að semja regluverk um vindmyllur fyrir Íslendinga. Svona vinnubrögð hafa mjög lítið forvarnargildi og eru ógæfuleg.
Það er með ólíkindum að setja í gang vinnu á vegum ríkisins til að opna fyrir umsóknir um leyfi til uppsetningar og rekstrar vindmylluþyrpinga á hafi úti. Þetta eru mengandi fyrirbæri, sem útheimta mikið viðhald og munu verða annarri umferð til trafala, aðallega fiskiskipum. Frá Noregi sýna rannsóknir, að sjávardýr safnast að þessum mannvirkjum, og áhrif hávaðans frá vindmylluspöðunum á sjávardýrin hafa ekki verið fullrannsökuð. Vegna gríðarlegs kostnaðar við þessa gerð raforkuvinnslu verður aldrei neinn markaður hérlendis fyrir rafmagn frá vindmyllum á hafi úti. Ef ætlunin er að flytja rafmagnið utan, bætist við hár flutningskostnaður, sem útilokar samkeppnihæfni slíks verkefnis. Ráðuneytið er algerlega úti á túni með þessa undirbúningsvinnu sína. Hvað er þetta ráðuneyti að gera til að auðvelda samþykktarleið hefðbundinna íslenzkra virkjana, t.d. vatnsaflsvirkjana á Vestfjörðum, sem eru Vestfirðingum og öllu raforkukerfinu nauðsynlegar ? Er ekki vitlaust gefið í fílabeinsturninum ?
"Nú er verið að undirbúa fjölda vindorkuvera, allt að 40 á mismunandi stigum, eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær. Stöðugt bætast við áform, en framkvæmdir stranda á því, að stjórnvöld hafa ekki sett sér stefnu. Guðlaugur Þór bendir á, að enginn hafi heimild til að fara í framkvæmdir, nema að undangengnu mati í rammaáætlun. Þess má geta, að 2 vindorkugarðar Landsvirkjunar eru í nýtingarflokki rammaáætlunar, Búrfellslundur og Blöndulundur, en engir aðrir. Landsvirkjun undirbýr byggingu beggja vindorkugarðanna og hefur sótt um virkjanaleyfi fyrir Búrfellslund."
Það er eftir öðru í ríkisbúskapinum, að stærsta fyrirtækið á raforkumarkaðinum hérlendis, ríkisfyrirtækið Landsvirkjun, ætli nú að ríða á vaðið og innleiða í íslenzka náttúru og samfélag mannvirki til raforkuöflunar, sem eru mengandi og standast engan samanburð við hefðbundnar íslenzkar virkjanir, hvað landþörf á uppsetta afleiningu og hagkvæmni snertir. Ef þessi áform verða að veruleika, þýðir það, að orkuöflunin verður miklu ágengari við náttúru og mannlíf en nokkur þörf er á, og uppátækið mun valda hækkun á raforkuverði í landinu og flækja rekstur raforkukerfisins t.d. m.t.t. til hámarks nýtni búnaðar.
"Guðlaugur Þór segir, að aðrar þjóðir hafi nýtt vindorku lengi. Gott sé að geta lært af reynslu annarra um það, hvað hafi gengið vel og hvað miður.
Eins þurfi að kortleggja möguleika á að byggja upp vindorkugarða á hafinu við landið. Að þessu sé unnið samhliða vinnu 3 manna starfshóps, sem gera muni tillögur um umhverfi vindorkunnar í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar."
Ef ráðherra vill ekki hætta á að fara í geitarhús að leita ullar, ætti hann að byrja á að spyrja "aðrar þjóðir", hvort þær hafi haft yfir að ráða gnótt annars konar endurnýjanlegra orkulinda til að virkja í þágu orkuskipta og vaxtar þjóðar og atvinnulífs næstu 3 áratugina, þegar þær hófu að virkja vindinn. Líklegast verður svarið neitandi, og þar með má strax álykta, að aðstæður á Íslandi séu ósambærilegar þessum öðrum löndum. Þessi undirbúningsvinna á vegum ríkisins er unnin fyrir gýg.
Að undirbúa vindmylluþyrpingar úti fyrir strönd Íslands er sömuleiðis gagnslaust verkefni, því að þær munu jafnan valda umferð á sjó trafala, t.d. fiskiskipa, og áhrifin á lífríkið eru lítt rannsökuð. Raforka frá þessum orkuverum er svo dýr, að í fyrirsjáanlegri framtíð verður enginn innanlandsmarkaður fyrir hana, og flutningurinn til útlanda á þessari orku ylli heildarkostnaði fyrir þessa raforku þangað komna, sem mundi gera hana ósamkeppnisfæra þar.
"Guðlaugur telur, að horfa þurfi til fleiri þátta við reglusetningu fyrir nýtingu vindorkunnar en gert er í ferli rammaáætlunar. "Það liggur fyrir, að hvaða leið, sem við förum, verða leyfi fyrir vindorkuorkugarði aldrei veitt án umræðu og vonandi verður búið þannig um hnútana, að rödd þeirra, sem næst búa, heyrist. Ég tel mikilvægt, að nærumhverfið fái að njóta þess efnahagslega, þegar vindorkugarðar rísa", segir Guðlaugur Þór."
Íbúar í þeim sveitarfélögum, þar sem áform um vindmylluþyrpingar hafa verið kynnt, hafa vissulega margir hverjir tjáð skoðun sína, og stór hluti íbúanna hefur lagzt gegn þessum áformum. Að veifa pokaskjatta með silfurpeningum í breytir varla miklu, því að í mörgum tilvikum hafa íbúarnir einmitt áhyggjur af neikvæðum fjárhagslegum afleiðingum fyrir þá atvinnustarfsemi, sem fyrir er, og af verðfalli eigna sinna á áhrifasvæði vindmylluþyrpinganna. Það er þess vegna ekki sérstaklega skynsamlegt af ráðherranum að fara inn á þessa braut.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)