Niðurlæging höfuðborgarinnar

Það er alveg sama, hvar borið er niður.  Niðurlæging höfuðborgarinnar á þeim tíma, sem "good for nothing persons" undir forystu Samfylkingarinnar hafa verið þar við völd, er alger, og þessi sjálfhælna einskis nýta stjórnmálahreyfing, sem í krafti forsjárhyggju sósíalismans þykist vera í stakk búin að hafa vit fyrir öðrum, kann ekki fótum sínum forráð, þegar til kastanna kemur. 

Ef mótdrægir atburðir verða, sem krefjast skjótra og fumlausra viðbragða stjórnendanna, er það segin saga, að allt fer í handaskolum.  Samfylkingin er búin að ganga af stjórnkerfi borgarinnar dauðu.  Nú eru hæfileikasnauðir stjórmálamenn sem stjórnendur yfirgripsmikilla málaflokka látnir stjórna málaflokkum, sem öflugir embættismenn með fullt vald á tæknihliðum sinna málaflokka, stjórnuðu áður af röggsemi undir beinni stjórn borgarstjóra. Það er borin von um breytingar til batnaðar í borginni, á meðan ráðstjórnarfyrirkomulag Samfylkingarinnar er þar við lýði.   

Dæmi um þetta er embætti borgarverkfræðings, sem aflagt var, og við tók m.a. umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur.  Þetta er í anda gömlu sovétanna eða ráðanna, sem kommúnistaflokkur Ráðstjórnarríkjanna raðaði sínu fólki í.  Hvernig fór fyrir Ráðstjórnarríkjunum ?  Þau hrundu 1991 vegna rotnunar innan frá.  

Eftir mikla snjókomu, hvassviðri og kulda helgina 18.-19. desember 2022 kom í ljós alvarleg brotalöm í snjómokstri borgarinnar.  Hún stóð sig miklu lakar en nágrannasveitarfélögin.  Var þá m.a. kallaður til útskýringa formaður ofangreinds ráðs borgarinnar, sem virtist vera nýdottinn ofan úr tunglinu og ekki vita í þennan heim né annan.  Varð þessari formannsdulu það helzt fyrir að leita blóraböggla utan borgarkerfisins, og urðu verktakar fyrir valinu og þvaðraði um handbók, sem væri í smíðum. Meiri verður firringin (fjarlægðin frá raunveruleikanum) ekki.  Allt er þetta eins lágkúrulegt og hugsazt getur.  

Lítið skánaði málið, þegar leitað var ráða hjá nýjustu mannvitsbrekkunni, sem inn í þetta sovétkerfi borgarinnar gekk eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar með slagorð á borð við breytum borginni, varð óðara formaður borgarráðs og á að taka við borgarstjóraembættinu af fallkandidatinum Degi B. Eggertssyni.  Verkvit væntanlegs borgarstjóra  lýsti sér mjög vel með þeirri uppástungu, að borgin skyldi kaupa nokkra pallbíla með tönn framan á.  Hjá borginni leiðir blindur haltan, og firringin er allsráðandi.  

Ekki verður hjá því komizt í kuldakastinu í desember 2022 að minnast á hlut Orkuveitu Reykjavíkur-OR og dótturfélaga í velferð íbúa höfuðborgarsvæðisins. Nýlega kom framkvæmdastjóri ON, dótturfélags OR, sem sér um orkuöflun og hefur algerlega látið hana sitja á hakanum undandarinn áratug, með spekingssvip í  fréttatíma sjónvarps allra landsmanna og boðaði þar þá  kenningu í tilefni vetrarkulda, að óskynsamlegt væri að afla heits vatns til að anna toppálagi hjá  hitaveitunni.  Þetta er nýstárleg kenning um hitaveituþjónustu fyrir almenning.  Tímabil með -5°C til -10°C, eins og var á jólaföstunni á höfuðborgarsvæðinu, getur varað vikum saman.  Ef ekkert borð er haft fyrir báru, eins og nú virðist vera uppi á teninginum hjá OR og dætrum, gerist einmitt það, sem gerðist í aðdraganda jóla, að ein bilun veldur svo stórfelldum vatnsskorti (20 %), að loka verður öllum útilaugum á höfuðborgarsvæðinu í 2 sólarhringa og hefði getað varað lengur.  Þetta er óboðleg stefna.  Miða á við s.k. (n-1) reglu, sem þýðir, að í kerfinu er borð fyrir báru til að halda uppi fullri þjónustu, þótt ein eining bili á háálagstíma.  Þá er líka nauðsynlegt svigrúm til fyrirbyggjandi viðhalds fyrir hendi á hverjum tíma. 

Hér gætir fingrafara Samfylkingarinnar, eins og alls staðar í borgarkerfinu.  Hún lætur borgarsjóð blóðmjólka OR til að standa straum af gæluverkefnum sínum og silkihúfum, en fórnar fyrir vikið hagsmunum íbúanna, sem ekki hafa í önnur hús að venda, nema að flytjast um set a.m.k. 50 km. 

Þarna er Samfylkingunni rétt lýst.  Hún smjaðrar fyrir almenningi og þykist allt vilja gera fyrir alla á kostnað sameiginlegra sjóða, en hikar ekki við að fórna hagsmunum almennings til að geta haldið uppi sukkinu, sem völd hennar í Reykjavík hvíla á. Stefna Samfylkingarinnar er reist á botnlausri skattpíningu og skuldasöfnun, sem er eitruð blanda, sem getur ekki gengið upp til lengdar, enda er nú komið nálægt  leiðarenda og allt í hönk.

Morgunblaðið gerði sorglegum stjórnarháttum Samfylkingarinnar verðug skil í forystugrein 20. desember 2022:

"Grátlegt að horfa upp á niðurlæginguna".

Hún hófst þannig:

"Það er sárt til þess að vita, hvernig komið er fyrir borginni okkar, höfuðborginni. Það er sama, hvert litið er. Hvernig gat þetta farið svona illa ?  Stóru málin sýna þetta og sanna.  Fjármál borgarinnar og þá ekki síður vandræðin í skipulagsmálum hennar.  Þetta tvennt er auðvitað nægjanlega yfirþyrmandi, enda mun hvert það sveitarfélag bágt, þar sem bæði fjárhagsstaða og skipulagsmál hafa verið keyrð í þrot af fullkomlega óhæfum stjórnendum, sem hafa ekki auga fyrir slíkum þáttum og sitja þó keikir í stólunum í Ráðhúsinu, sem þeir voru á móti því, að yrði byggt og þar með fyrir þeim, sem gætu gert betur, en aldrei verr."

Samfylkingin hefur eyðilagt stjórnkerfi borgarinnar með sovétvæðingu sinni, ráðsmennsku, og þar með varðað leið höfuðborgarinnar til glötunar.  Stjórnmálamennirnir, sem öllu ráða í ráðum borgarinnar, eru óhæfir stjórnendur; það er ekki ofmælt hjá ritstjóra Morgunblaðsins, enda sýna  verkin merkin.  Það er sama, hversu hæfir embættismenn eru ráðnir inn í svona kerfi.  Þeir fá ekki tækifæri til að njóta sín undir ráðunum, eins og samanburður á frammistöðu Véladeildar borgarverkfræðings forðum tíð og umhverfis- og skipulagssviðs nú í snjómokstri sýnir glögglega. 

Ritstjórinn vék að mannvitsbrekkunni, sem nú er afleysingaborgarstjóri og hefur valdið villuráfandi kjósendum Framsóknarflokksins ómældum vonbrigðum á undraskömmum tíma:

"En ásamt borgarfulltrúum minnihlutans hefur formaður borgarráðs, sem vann óvæntan sigur og hefur á örfáum mánuðum siglt með málefni borgarinnar úr öskunni í eldinn, látið óhæfan borgarstjóra, sem keyrt hefur fjármál og skipulagsmál í rjúkandi rúst, teyma sig út á berangur spillingur.  Allt er þetta með ólíkindum."  

Þeim mun verr gefast heimskra manna ráð, sem þeir koma fleiri saman, var einu sinni sagt, og það hefur berlega sannazt í Ráðhúsi Reykjavíkur.  Það gafst afleitlega að fjölga borgarfulltrúum og hefur reynzt rándýrt.  Miðað við meginkosningaloforð Framsóknar í borginni hefur efsti maður listans reynzt ómerkur orða sinna.  Engin breyting til batnaðar hefur orðið á högum borgarinnar við komu hans í pólitíkina.  Hann lætur ferðaglaða lækninn teyma sig á asnaeyrunum, hvert sem er.

"En tilfallandi mál opinbera einnig stjórnleysi og aumingjadóm.  Og það gerði svo sannarlega snjóhríð og erfið átt, sem hvorugt var af verstu gerð, þótt slæmt væri.  Þegar í stað varð algerlega ófært um alla borg !  Ríkisútvarpið "RÚV" spurði mann hjá borginni, sem var sagður eiga að bregðast við atvikum eins og þessum, út í öngþveitið, sem varð.  Hann viðurkenndi aftur og aftur, að þetta hefði ekki verið nægjanlega gott, og var sú játning þó óþörf.  En hann bætti því við til afsökunar, að borgin hefði aðeins "tvær gröfur" - "TVÆR GRÖFUR", sem nota mætti í verkefni af þessu tagi, og hefðu þær ekki haft undan.  Engu var líkara en "RÚV" hefði farið þorpavillt og náð sambandi við 150 manna sveitarfélag úti á landi, þar sem alls ekki væri útilokað, að tvær gröfur hefðu getað hjálpað til að halda 200 m aðalgötu sveitarfélagsins opinni."

Það er deginum ljósara nú í skammdeginu, að viðbúnaðaráætlun borgarinnar gagnvart hríðarviðri er hvorki fugl né fiskur eða innleiðing hennar hefur farið fyrir ofan garð og neðan, nema hvort tveggja sé.  Við blasir ónýtt stjórnkerfi borgarinnar, enda er þetta ráðstjórn með silkihúfum stjórnmálanna, sem hefur safnað öllum völdum í sínar hendur og lagt sína dauðu hönd þekkingarleysis og ráðleysis á verkstjórn borgarinnar.  Tiltækur tækjafloti borgarinnar núna er miklu minni en á dögum borgarverkfræðings og gatnamálastjóra, sem áður fyrr voru ábyrgir fyrir snjómokstri í borginni undir yfirstjórn borgarstjóra.  Að venju, þegar eitthvað bjátar á, hvarf borgarstjóri, og mun Dagur hafa skroppið til Suður-Afríku.  Ráðstjórnarkerfi hans er ónýtt, og það verður að fleygja því á öskuhaugana áður en nokkur von getur vaknað um tök á þessum málum.  Síðan verður að ráða menn með bein í nefinu og verkþekkingu til að skipuleggja viðbúnað og framkvæma hann eftir þörfum.  Stjórnunarleikir silkihúfanna eru dramatískir sorgarleikir óhæfra leikara. 

Að lokum sagði í téðri forystugrein:

"Á meðan borgin var og hét og var ekki stjórnað af óvitum, þá hafði hún öfluga sveit Véladeildar borgarinnar, sem búin var beztu tækjum, sem völ var á í landinu.  Einatt, þegar von var atburða, eins og urðu í gær, þá færði borgarstjórinn í alvöru borg sig inn í höfuðstöðvar Véladeildar borgarinnar, sem var hið næsta höfuðstöðvum borgarverkfræðings, og fylgdist með viðbrögðum öflugra sveita fram eftir nóttu.  En nú þarf ekki annað en smáa snjósnerru og goluþyt, til að öllu sé siglt í strand í borg manna, sem treysta á 2 litlar gröfur í veðurneyð.

Niðurlæging borgarinnar í fjármálaólestri og strandi skipulagsmála, sem eru þó helztu afreksverk Dags. B. Eggertssonar, er bersýnileg, en þegar fjármálabrall leggst við umferðaröngþveiti, sem sífellt versnar, er orðið fátt um fína drætti."

Þetta er athygliverð frásögn fyrrverandi borgarstjóra um stjórnarhætti í skilvirku stjórnkerfi borgarinnar, eins og það var áður en vinstri menn rústuðu því og stofnuðu ráðin, þar sem stjórnmálamenn Samfylkingar og fylgifiska fara með öll völd án þess að hafa nokkra stjórnunargetu eða verksvit.  Borgarstjórinn móðgar ekki afæturnar í ráðunum með því að taka fram fyrir hendur þeirra og setja þar með hagsmunabandalag vinstri klíkanna í uppnám. Þó er til neyðarstjórn í borginni, þar sem borgarstjóri er í formennsku, en hún var ekki kölluð saman, þótt ástæða hefði verið til, enda borgarstjóri að spóka sig á suðurhveli jarðar. 

Menn taki eftir því, að hinir hæfu embættismenn, borgarverkfræðingur og gatnamálastjóri, sáu ástæðu til þess, að borgin réði sjálf yfir öflugum tækjaflota af beztu gerð.  Amlóðar Samfylkingarinnar og fylgitunglanna reiða sig hins vegar alfarið á verktaka án þess að hafa gengið frá almennilega öruggum samningum við þá.  Hvers vegna er dæminu ekki snúið við til öryggis og verktökum leigðar vélarnar með áhöfn á sumrin, þegar borgin þarf ekki á þeim að halda, en yfirleitt er törn hjá verktökum ?  Að auki þarf sérútbúnað, eins og snjóblásara, sem blása  snjónum upp á vörubílspalla, því að mikil vandræði myndast annars við heimreiðar aðliggjandi lóða og á gangstéttum.   

 

 

  

 


Bloggfærslur 7. janúar 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband