Forræðishyggjan tröllríður borgarstjórn Reykjavíkur

Hafa Reykvíkingar samþykkt það í almennri atkvæðagreiðslu, að viðhorf Samtaka um bíllausan lífsstíl verði lögð til grundvallar aðal- og deiliskipulagi Reykjavíkur ?  Nei, og það er orðið aðkallandi, að þeir fái að tjá sig í almennri atkvæðagreiðslu um þetta og þá óvissuferð, sem meirihluti borgarstjórnar er kominn í með s.k. Borgarlínu, sem er sannkölluð sorgarlína.  Til einföldunar mætti spyrja, hvort borgarbúar vilji fá mislæg gatnamót inn á aðalskipulag og deiliskipulag alls staðar, þar sem Vegagerðin ráðleggur slíkt, og hvort borgarbúar kjósi fremur "þunga" borgarlínu á miðju vegstæðis eða nýja sérrein hægra megin götu, þar sem slíkt gæti stytt umferðartíma strætisvagna á annatímum samkvæmt tillögum Betri samgangna fyrir alla".  Núverandi meirihluti borgarstjórnar er að keyra fjárhag borgarinnar í þrot og bílaumferð í borginni í allsherjar hnút.  

Varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Þorkell Sigurlaugsson, gerði skýra grein fyrir valkostum borgarbúa við útúrborulega stefnu sérvitringanna í meirihluta borgarstjórnar í umferðarmálum í Morgunblaðsgrein 14. janúar 2023 undir fyrirsögninni:

"Mengun og vondar samgöngur í boði borgarstjórnar".

Hún hófst þannig:

"Ein aðalfrétt að undanförnu er mengun yfir hættumörkum í Reykjavík.  Heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur taldi í fréttum hjá RÚV og Stöð 2 þann 4. janúar [2022] einu lausnina vera að takmarka umferð og borgin þyrfti að fá skýrari heimild í lögum til að framkvæma slíkt.  

Varaformaður Landverndar var með svipaða orðræðu á sjónvarpsstöðinni Hringbraut 11. janúar [2022], að minnka þyrfti umferð og vildi reyndar kenna nagladekkjum einnig um svifryk þessa dagana.  Ekkert var minnzt á, að vandamálið er fyrst og fremst heimatilbúið vegna langvarandi aðgerðaleysis borgarstjórnar Reykjavíkur."

Það er dæmigerð forræðishyggja að baki því að láta sér detta í hug að grípa inn í líf og lifnað fólks með svo róttækum og skaðvænlegum hætti að banna t.d. fólki með prímtölu í enda bílnúmers síns að aka um götur allrar Reykjavíkur á grundvelli hámarks mæligildis NO2 og/eða svifryks með þvermál undir 10 míkrómetrar nokkrum sinnum á sólarhring yfir viðmiðunarmörkum. Það, sem skiptir höfuðmáli hér, er varanleiki gildanna yfir mörkum, og hversu víðfeðm mengunin er, þ.e. hversu lengi flest fólk þarf að dvelja í menguninni. 

Þótt mæligildi skaðlegra efna á gatnamótum Grensásvegar og Miklubrautar hafi á fyrsta hálfa mánuði ársins 2023 verið í 40 klst yfir viðmiðunarmörkun, er fráleitt að gera því skóna, að einhver hafi á tímabilinu andað þessu slæma lofti svo lengi að sér og umferðartakmarkanir í borginni á þessum grundvelli þess vegna fráleitar.  Að þessu leyti eru aðstæður ósambærilegar við útlönd almennt séð.

  Í Reykjavík eru froststillur (verstu skilyrðin) svo sjaldgæfar, að heilbrigðu fólki hefur ekki stafað ógn af ástandinu, en mæligildin eru nytsamleg til að vara fólk með viðkvæm öndurnarfæri við, og allir geta gert ráðstafanir til að skapa yfirþrýsting í bílnum á verstu stöðunum, t.d. á gatnamótum Miklubrautar og Grensásvegar, en þar mega vegfarendur þrauka í bið á umferðarljósum í boði steinrunnins afturhalds í borgarstjórn, sem vill ekki leyfa Vegagerðinni að setja upp þarna mislæg gatnamót, sem svara kröfum tímans, en forneskjan í borgarstjórninni vill halda höfuðborginni á hestvagnastiginu.

Að eftir hverjar borgarstjórnarkosningar skuli ætíð vera lappað upp á fallinn meirihluta hinnar afturhaldssömu og sérvizkulegu Samfylkingar er þyngra en tárum taki, enda er hagur borgarinnar kominn að fótum fram. Þar ber Dagur, fráfarandi borgarstjóri Samfylkingar, mest ábyrgð, en mun smeygja sér undan henni.  Hann er vissulega sekur um óstjórn og vanrækslu.  

"NO2 er réttilega aðalsökudólgurinn og kemur frá útblæstri bifreiða [aðallega dísilvélum-innsk. BJo].  Borgin hefði sjálf getað sýnt gott fordæmi og sett kraft í orkuskipti hjá Strætó, en af um 160 vögnum eru eingöngu 15 rafvagnar [skammarlega lágt hlutfall, rúmlega 9 % - innsk. BJo].  Nánast við hliðina á mengunarmælistöðinni eru ein umferðarmestu gatnamót Strætó í borginni. 

Hin ástæða mikillar mengunar við Grensásveg og víðar eru gríðarlegar tafir í umferðinni, þar sem flæði umferðar í Reykjavík hefur verið heft vegna vanrækslu borgarstjórnar a.m.k. undanfarin 15-20 ár."

  Þetta er falleinkunn yfir Samfylkingunni og stjórnarháttum hennar í höfuðborg Íslands.  Hvergi í borgum Norðurlandanna er uppi þvílíkur vandræðagangur og óstjórn og í Reykjavík.  Þar er ekki hægt að skrifa allt á vannrækslu meirihluta borgarstjórnar, heldur er um útfærða stefnumörkun afturhaldsins að ræða með því að taka mislæg gatnamót út af aðalskipulagi og þrengja umferðaræðar, t.d. Grensásveg með sérvizkulegum og þverúðarfullum hætti í blóra við umferðarfræði, sem miða að því að hámarka öryggi allra vegfarenda og halda umferðartöfum innan viðunandi marka (núverandi umferðartafir í borginni eru allt að því fimmfaldar viðunandi tafir út frá beinum kostnaði við tafirnar).

 "Fyrir löngu hefði átt að ráðast í gerð mislægra gatnamóta við Miklubraut og Grensásveg og einnig Bústaðaveg við Reykjanesbraut.  Miklabraut gæti verið í nokkurs konar brú yfir Grensásvegi með svipuðum hætti og Miklabraut yfir Elliða[ánum] og Sæbraut/Reykjanesbraut.  Halda síðan áfram og leysa málið með mislægum gatnamótum við Kringlumýrarbraut og jafnvel jarðgöngum undir Lönguhlíð og víðar á þessari tiltölulega stuttu 3 km leið frá Grensásvegi að Landspítala við Hringbraut.  Markmiðið væri að gera Miklubraut að mestu lausa við ljósastýringu umferðar og halda jöfnum, hóflegum hraða. Þannig [næst] bæði lágmarks eldsneytiseyðsla og [lágmarks] hávaðamengun ökutækja."   

Það er hneyksli og vitnar um firringu og forneskjulegan þankagang meirihluta Samfylkingar í borgarstjórn að vilja halda umferðinni á Miklubraut, þessum megin austur-vesturási borgarinnar, á hestvagnastiginu með frumstæðum og hættulegum gatnamótum.  Samfylkingin heldur borgarumferðinni í spennitreyju með yfirgengilegri fávísi um og hundsun á þörfum borgarbúa og annarra vegfarenda í Reykjavík.  Í staðinn koma hátimbraðar fyrirætlanir um að flýta för 4 % vegfarenda á kostnað um 80 % vegfarenda.  Þetta er alveg snarvitlaus forgangsröðun þeirra furðudýra, sem hanga við völd í Reykjavík án þess að geta það. 

"Ef borgin hefði sýnt Sundabraut meiri áhuga, gæti hún verið komin og hefði dregið verulega úr umferð um Vesturlandsveg og Miklubraut, m.a. stórra vöruflutningabifreiða, og opnað ný tækifæri til íbúðauppbyggingar á Geldinganesi, Álfsnesi og Kjalarnesi. 

Árlegur tafakostnaður í umferðinni er ekki undir mrdISK 50.  Hluti af því er umframeyðsla á eldsneyti, 20-30 kt/ár samkvæmt útreikningum verkfræðinganna [og bræðranna] Elíasar Elíassonar og Jónasar Elíassonar, prófessors emeritus [blessuð sé minning hans - innsk. BJo]."   

Skemmdarverkastarfsemi Samfylkingarinnar og taglhnýtinga hennar í borgarstjórn á undirbúningi Sundabrautar er skipulagshneyksli.  Flokkurinn er gjörsamlega siðlaus í athöfnum sínum gegn eðlilegu umferðarflæði í Reykjavík.  Þessar athafnir og athafnaleysi Samfylkingarinnar hafa leitt til alvarlegra slysa á fólki, mikils eignatjóns, tímasóunar og óþarfa mengunar og losunar CO2, sem nemur um 100 kt/ár, sem er ekki óverulegt á landsvísu (um þreföld niðurdæling Carbfix á CO2 við Hellisheiðarvirkjun).

Samfylkingin ber kápuna á báðum öxlum í mikilvægum hagsmunamálum landsmanna, t.d. umhverfismálum, því að hún er mjúkmál um þau, en gerir sér leik að því að valda óþarfa losun, sem nemur um 2 % á landsvísu í Reykjavík einni. Samfylkingunni er í engu treystandi. 


Bloggfærslur 8. febrúar 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband