Leyfa ber sameiningar fyrirtækja í hagræðingarskyni

Á síðum Morgunblaðsins hafa þeir tekizt á um réttmæti framkvæmdar Samkeppniseftirlitsins (SKE) á samkeppnislögunum, Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði við HÍ, og Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.  Sá fyrr nefndi hefur bent á, að það er fleira matur en feitt kjöt, þ.e. í þessu tilviki, að sem mestur fjöldi fyrirtækja á hinum litlu íslenzku mörkuðum, sé engin trygging fyrir lægsta mögulega verði til íslenzkra neytenda, því að verðið getur til lengdar ekki orðið lægra en nemur heildar framleiðslukostnaði hjá hagkvæmasta fyrirtækinu. Hann er háður framleiðni fyrirtækisins, og hún er að jafnaði hærri hjá stærri fyrirtækjum en smærri.  Af þessum ástæðum er einstrengingsleg túlkun SKE á samkeppnislögunum óskynsamleg og skaðleg; í raun ósjálfbær, því að erlend samkeppni er yfirleitt fyrir hendi.  Forstjóri þessarar stofnunar þarf að vera mun víðsýnni og betur að sér um hagfræði en nú er reyndin. 

SKE hefur valdið íslenzku atvinnulífi margvíslegum búsifjum með stirðbusahætti, löngum afgreiðslutíma og kröfuhörku, án þess að séð verði, að hagur strympu (neytenda) hafi nokkuð skánað við allan bægslaganginn.  Nýjasta dæmið er um sölu Símans á Mílu, þar sem SKE þvældist fyrir á dæmalaust ófaglegan hátt og hafði upp úr krafsinu að færa mrdISK 10 frá hluthöfum Símans, sem aðallega eru íslenzkir lífeyrissjóðir, til hluthafa franska kaupandans.  

Ragnar Árnason tók í Morgunblaðsgrein sinni 16.02.2023 ágætis dæmi af íslenzka sjávarútveginum; hvernig væri komið fyrir honum, ef SKE hefði lögsögu yfir honum.  Íslenzkar eftirlitsstofnanir setja of oft sand í tannhjól atvinnulífsins að þarflausu, og þess vegna er guðsþakkarvert, að SKE hefur ekki lögsögu yfir þessari eimreið íslenzkra útflutningsgreina.  

Yfirskrift greinarinnar var:

"Enn um hlutverk Samkeppniseftirlitsins":

"Sjávarútvegurinn er eflaust einn skilvirkasti atvinnuvegur landsmanna og mikilvæg stoð efnahagslegrar velsældar í landinu. Hollt er að hugleiða stöðu hans, ef hann þyrfti að búa við ægivald Samkeppniseftirlitsins, en öfugt við fyrirtæki, sem framleiða fyrir innanlandsmarkað, er hann (samkvæmt 3. gr. samkeppnislaga) því undanþeginn. 

Sjávarútvegurinn hefur í vaxandi mæli þróazt í átt að stórfyrirtækjum og lóðréttum samruna veiða, vinnslu og markaðssetningar.  Með þessu hefur honum tekizt að ná mjög mikilli rekstrarhagkvæmni með þeim afleiðingum, að íslenzkur sjávarútvegur er afar samkeppnishæfur á alþjóðlegum mörkuðum. Stendur hann þar raunar í fremstu röð, jafnvel framar þjóðum, sem hafa miklu meiri sjávarauðlindum úr að ausa (eins og t.d. Noregi). [Veiðigjöld tíðkast ekki gagnvart norska sjávarútveginum - innsk. BJo.]

Hver hefði þróun íslenzks sjávarútvegs orðið, ef hann hefði orðið að lúta þeim samkeppnisskilyrðum, sem Samkeppniseftirlitið hefur sett landbúnaði og ýmsum öðrum atvinnugreinum landsmanna ?  Samkeppniseftirlitið hefði þá auðvitað staðið í vegi fyrir sameiningu sjávarútvegsfyrirtækja í stærri fyrirtæki, svo [að] ekki sé minnzt á lóðréttan samruna [á] milli veiða og vinnslu.  Afleiðingin hefði orðið minni framleiðni í íslenzkum sjávarútvegi, hærri framleiðslukostnaður og lakari samkeppnisaðstaða á erlendum mörkuðum.  Þar með hefði framlag sjávarútvegsins til þjóðarbúskaparins orðið minna og hagsæld neytenda að sama skapi lakari." 

Þrátt fyrir harða samkeppni á erlendum mörkuðum hefur íslenzki sjávarútvegurinn náð að blómstra.  Því má þakka skynsamlegri löggjöf um fiskveiðistjórnun og því, að atvinnugreinin hefur sjálf tekið ábyrgð á eigin þróun, og hún hefur augljóslega gefizt vel, eins og Ragnar rekur hér að ofan, enda er sjálfs höndin hollust. 

Sannleikurinn er sá, að völd Samkeppnieftirlitsins eru vandmeðfarin og stofnunin hefur ítrekað farið offari í afskiptum sínum af fyrirætlunum atvinnulífsins til hagræðingar.  Samkeppniseftirlitið á að láta af óhóflegri afskiptasemi sinni og ekki að grípa fram fyrir hendur fyrirtækjanna, nema sterk rök liggi til þess, að inngripið bæti hag landsmanna.  Því hefur farið fjarri hingað til, að SKE hafi rökstutt mál sitt skilmerkilega. Það hefur bara þjösnazt áfram. Nýlegt dæmi er af viðskiptum franska sjóðstýringarfélagsins Ardin France S.A. og Símans um Mílu, þar sem SKE bannaði heildsölusamning um viðskipti Mílu og Símans, og bannið kostaði hluthafa Símans (lífeyrissjóðina) mrdISK 10.  Enginn bannaði öðrum að gera viðlíka heildsölusamninga við Mílu um mikla gagnaflutninga.  Þarna urðu viðskiptavinir Símans fyrir tjóni án þess, að ljóst sé, að viðskiptavinir samkeppnisaðila Símans hafi hagnazt. 

SKE ber að halda sig til hlés, nema vissa sé um, að hagsmunir neytenda séu í húfi, því að yfirleitt eru það hagsmunir landsmanna, að fyrirtæki fái að þróast, eins og þau sjálf telja hagkvæmast, í áttina til meiri framleiðni og lækkunar á einingarkostnaði hverrar framleiddrar vöru eða þjónustueiningar.  Búrókratar ríkisins eru alveg örugglega ekki betur til þess fallnir en stjórnir og eigendur fyrirtækjanna. 

SKE er kaþólskari en páfinn.  Hvernig stóð á því, að SKE komst í mjög löngu máli að þveröfugri niðurstöðu á við norska SKE í máli kjötafurðastöðva landbúnaðarins um samstarf þeirra í millum ?  Norðmenn eru leiðandi í EFTA-hluta EES, og úrskurður norska SKE hefði átt að gefa tóninn innan EFTA.  Nei, ekki aldeilis, Blönddælingurinn lætur ekki framkvæmd samkeppnisreglna EES-svæðisins stjórna afstöðu SKE.  Þar skal hans eigin þrönga sýn og eintrjáningsháttur vera ráðandi, á meðan hann er þar forstjóri.  Þessi frekja og afskiptasemi búrókratans gengur ekki lengur.  Hann er of dýr á fóðrum fyrir neytendur til að geta rekið SKE eftir eigin duttlungum.   


Bloggfærslur 19. mars 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband