12.4.2023 | 09:39
Þróun fjárfestinga í fiskeldi
Nöldrarar, sem allt hafa á hornum sér, en leggja lítið vitrænt til mála, hafa gagnrýnt norskt eignarhald á fyrirtækjum, sem stunda laxeldi í sjó hér við land. Staða þeirra mála er þó að því leyti sambærileg við orkukræfa málmframleiðslu landsins, að lífvænlegur stóratvinnurekstur á þessu sviði hefði aldrei orðið barn í brók án fjárfestinga erlendra þekkingarfyrirtækja á þessum sviðum atvinnurekstrar. Í tilviki laxeldisins urðu Norðmenn fyrir valinu í krafti umsvifa sinna við Norður-Atlantshafið, og af því að þeir voru þá þegar í útrás. (Minnir dálítið á landnám Íslands.)
Laxeldið er fjármagnsfrekt, og til að fjárfestingar nýtist, þarf framleiðsluþekkingu, sem reist er á vísindalegum rannsóknum og reynslu af rekstri eldiskera við fjölbreytilegar aðstæður. Það þarf líka markaðsþekkingu, bæði fyrir aðföng og afurðir. Þessa grunnþætti til árangurs skorti hérlendis, þegar Norðmenn hófu uppbyggingu sína hér, og síðast en ekki sízt skorti hér fjármagn, því að lánstraust innlendra aðila, sem fengizt höfðu við starfsemina, var ekki fyrir hendi hjá innlendum lánastofnunum.
Gagnrýni á erlent eignarhald er þess vegna gagnrýni á uppbyggingu þessarar efnilegu starfsemi í heild sinni. Af henni hefði alls ekki orðið án erlends eignarhalds. Úrtöluraddirnar eru eins og venjulega á vinstri kanti stjórnmálanna, en þar liggja málpípur Evrópusambands aðildar Íslands á fleti fyrir, sbr umsókn ríkisstjórnar Samfylkingar og VG 2009. Þarna er á ferðinni einhvers konar pólitískur geðklofi, þegar kemur að erlendum fjárfestingum.
Í Morgunblaðinu 18. marz 2023 birtist afar greinargóð baksviðsfrétt Helga Bjarnasonar um þetta efni undir fyrirsögninni:
"Hlutur íslenzkra fjárfesta eykst".
Fréttin hófst þannig:
"Íslenzk sjávarútvegsfyrirtæki hafa verið að koma sterkt inn í laxeldi. Með því eykst hlutur Íslendinga í vissum félögum verulega. Með kaupum Ísfélags Vestmannaeyja á hlut í eignarhaldsfélagi um meirihlutaeign í Ice Fish Farm á Austfjörðum á félagið 16,44 % hlut í félaginu og íslenzkt eignarhald [þá] komið upp í um 42 %. Síldarvinnslan á rúmlega þriðjung í Arctic Fish á Vestfjörðum. Þá eiga íslenzk útgerðarfélög eða hafa átt að fullu vaxandi fiskeldisfyrirtæki eins og Háafell í Ísafjarðardjúpi og Samherja fiskeldi. Íslenzkir lífeyrissjóðir, sérstaklega Gildi, hafa verið að fjárfesta í fiskeldi.
Rökrétt virðist, að sjávarútvegsfyrirtæki, sem búa við kvótaþak og ýmsar takmarkanir, og í ljósi þess, að ekki eru líkur á auknum veiðum, hugi að fjárfestingum í fiskeldi. Nokkur ár eru síðan framleiðsla eldisfisks í heiminum varð meiri en veiðar skila á land og ljóst, að heimurinn hefur þörf fyrir aukna matvælaframleiðslu á næstu árum og áratugum.
Sigurður Pétursson, stofnandi Lax-inn, fræðsluseturs í fiskeldi, telur það jákvætt fyrir íslenzkt fiskeldi að fá sjávarútvegsfyrirtæki og fleiri íslenzka fjárfesta í hluthafahópinn. Það sé gott fyrir ímynd atvinnugreinarinnar, sem gagnrýnd hefur verið fyrir erlent eignarhald. Það hafi ekki síður þýðingu, að sjávarútvegsfyrirtækin hafi þekkingu á og reynslu af fullvinnslu og sölu sjávarafurða, sem geti nýtzt fiskeldinu."
Ímynd fyrirtækja vegna eignarhalds verður varla í askana látin. Meira virði eru samlegðaráhrifin, sem af þessum innlendu fjárfestingum hljótast. Það er ekki hægt að hugsa sér eðlilegri íslenzka fjárfesta í laxeldinu, hvort sem er í sjó við Ísland eða á landi, en íslenzku sjávarútvegsfyrirtækin. Það er t.d. vegna tækniþróunar þeirra á sviði fullnýtingar hráefnisins, tilreiðslu og pökkun og markaðssetningar. Það er líklegt, að einhverjir viðskiptavina þeirra vilji líka kaupa íslenzkan eldislax. Að geta boðið hann styrkir markaðsstöðu íslenzku sjávarútvegsfyrirtækjanna í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar. Þessi samlegðaráhrif munu styrkja íslenzkan þjóðarbúskap, því að framleiðnin getur vaxið og afurðaverð jafnvel hækkað fyrir vikið.
"Aðild stórs framleiðanda fiskimjöls og lýsis að fiskeldisfyrirtæki, sem notar mikið fóður, er einnig rökrétt skref í þróun sjávarútvegsfyrirtækjanna. Megnið af fóðrinu, sem notað er í sjóeldi hér á landi, er framleitt í Noregi, m.a. úr hráefni frá íslenzkum framleiðendum. Það hlýtur að vera skynsamlegra út frá umhverfissjónarmiðum og hagkvæmara að framleiða fóðrið hér á landi. Síldarvinnslan á meirihlutann í stærstu fóðurverksmiðju landsins, Laxá á Akureyri, og tilkynnti á síðasta ári, að fyrirtækið og fóðurframleiðandinn BioMar Group hefðu skrifað undir viljayfirlýsingu um að byggja fóðurverksmiðju hér á landi."
Fjárfestingar íslenzkra sjávarútvegsfyrirtækja í fiskeldisfyrirtækjum hérlendis opna möguleika á innlendri samþættingu allrar framleiðslukeðju fiskeldisins. Það er verðugt stefnumið að samþætta framleiðslukeðju laxeldisins innlendum iðnaði, og það ætti vissulega að verða þekkingargrundvöllur í landinu til þess, því að aðgangur að framleiðslutækni og framleiðsluleyfum batnar til muna við tengt eignarhald. Samkeppnisgrundvöllurinn ætti og að vera fyrir hendi vegna mun minni flutningsþarfar innlendrar framleiðslu.
Aðeins rafkynt framleiðsla þessa mjöls kemur til greina, og þar rekst iðnaðurinn enn og aftur á þá nöturlegu staðreynd í landi náttúrulegrar og endurnýjanlegrar orkugnóttar, að raforku vantar fyrir nýja notendur. Engu er líkara en hin forpokaða og glórulausa skoðun Landverndar, að nóg sé komið af virkjunum og flutningslínum, af því að raforkunotkun á mann sé hér meiri en annars staðar, tröllríði húsum leyfisveitingavaldsins á Íslandi, svo að hér ríkir nú raunverulega "virkjanastopp". Þetta er ömurlegt sjálfskaparvíti, þar sem hvorki Landsvirkjun né orkuráðherrann hafa uppi sjáanlega tilburði til lausnar. Sérvizka og beturvitablæti Landverndar o.fl. kostar samfélagið nú þegar tugi mrdISK/ár í beinum útgjöldum og glötuðum atvinnutækifærum. Þetta er óviðunandi með öllu og ábyrgðarleysi af Alþingi og stjórnvöldum að láta þetta viðgangast.
Þessari fróðlegu baksviðsgrein lauk þannig:
"Fyrirtækin, sem eru að byggja upp landeldisstöðvöðvar, eru í fjármögnunarferli og þess vegna óvíst um endanlegt eignarhald. Samherji fiskeldi hefur verið hreint dótturfélag Samherja. Það var gert að sjálfstæðu félagi vegna fjárfrekrar uppbyggingar á Reykjanesi og víðar. Í tengslum við mrdISK 3,5 hlutafjáraukningu var tilkynnt um, að Alf-Helge Aarskog, fyrrverandi forstjóri Mowi, hefði tekið þátt í hlutafjáraukningunni og verið kosinn í stjórn.
Fjárfestingafélagið Stoðir er stærsti einstaki hluthafinn í Landeldi með um þriðjungs eignarhlut, en Landeldi er að byggja stóra stöð í Þorlákshöfn. Stofnendur félagsins og starfsmenn eru enn með meirihluta hlutafjár á sínu valdi. Virðast stjórnendur horfa meira til íslenzkra fjárfesta en erlendra. Íslenzk og sænsk félög, sem tengjast Aðalsteini Gunnari Jóhannssyni, athafnamanni, eru eigendur að Geo Salmo, sem er að undirbúa landeldisstöð í Þorlákshöfn. Félagið lítur til norskra fjárfesta og íslenzkra í þeirri vinnu við fjármögnun, sem nú stendur yfir, að því er fram hefur komið í Morgunblaðinu.
Icelandic Land Farmed Salmon (ILFS), sem er að byggja landeldisstöð í Vestmannaeyjum, er í eigu fjölskyldu úr sjávarútvegi í Eyjum, sem ætlar að taka fyrstu skrefin í verkefninu, hvað svo sem síðar verður."
Það er ótrúlega mikill áhugi á meðal innlendra fjárfesta á landeldi laxins. Það virðist samt vera á brattann að sækja með fé, enda vextir alls staðar óvenju háir, verkefnin fjármagnsfrek, rekstrarkostnaður hár og lítil tæknileg reynsla af þessum rekstri. Óvissa um arðsemi er þess vegna fyrir hendi. Markaðirnir munu hins vegar reynast gjöfulir. Einkar athyglisvert er, að tekin er sú áhætta að reisa landeldisstöð í Vestmannaeyjum í ljósi mikillar raforkuþarfar og þarfar á hitaveituvatni. Þessi starfsemi krefst mikils áreiðanleika í afhendingu hvors tveggja, en hörgull hefur verið á þessum gæðum í Vestmannaeyjum, sem þó stendur til bóta. Raforkuafhending til þessarar starfsemi verður að lúta (n-1) reglunni, sem þýðir, að stærsta einingin má falla úr rekstri án þess afhending verði rofin, nema örstutt.
Það verður tæplega jafnarðsamur rekstur í landeldi og í sjóeldi, en viðskiptahugmyndin er virðingarverð og áhugaverð í ljósi próteinþarfar heimsins, einkum þar sem áreiðanlegur aðgangur er að rafmagni og heitu vatni. Vindrafalaraforka kemur hér ekki til greina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)