19.4.2023 | 10:47
Hraði snigilsins við línulagnir er óviðunandi
Landsnet hefur það eftir verkfræðistofunni Eflu, að hægt hefði verið að komast hjá öllum raforkuskerðingum 2021-2022, ef ný 220 kV lína hefði þá verið tilbúin frá Fljótsdalsvirkjun til Hvalfjarðar. Í ljósi þess, að veturinn 2022-2023 hefur ekki verið beinn vatnsskortur í miðlunarlónum virkjana, eins og veturinn áður, en samt hefur þurft að skerða afl til notenda með skerðingarheimildir í rafmagnssamningum sínum, er þetta ekki sérlega trúverðug fullyrðing. Ástæðan er, að virkjanir önnuðu ekki hámarksálagi á loðnuvertíðinni, og var samt orkusalan úr landi til Vestmannaeyja mun minni en elilegt er vegna bilunar í nýjum sæstreng þangað. Það er til skammar fyrir Landsnet, að rafmagnstenging Vestmannaeyja við land skuli ekki fullnægja (n-1) reglunni.
Þann 24. marz 2023 gerði Helgi Bjarnason grein fyrir skýrslu, sem Efla gerði nýlega fyrir Landsnet um ofangreindar orkuskerðingar, og þar eru ýmis óvænt tíðindi, sem ekki er víst, að öll standist rýni. Frétt Helga í Morgunblaðinu bar fyrirsögnina:
"Skerðingar kostuðu 5,3 milljarða".
Hún hófst þannig:
"Hægt hefði verið að koma í veg fyrir allar skerðingar á afhendingu raforku til stóriðju, rafkyntra hitaveitna, fiskimjölsverksmiðja og annarrar starfsemi á síðasta ári [2022], ef búið hefði verið að uppfæra Byggðalínuhringinn, eins og áformað er að gera. Samfélagið varð fyrir mrdISK 5,3 kostnaði vegna skerðinganna á þessu eina ári, auk þess sem losun koltvísýrings vegna olíubrennslu varð umtalsverð."
Að fylgjast með framvindu framkvæmda við 220 kV Byggðalínuna hefur verið svipað og að horfa á skít síga fyrir barð. Framvindan er allt of hæg m.v. þróun rafmagnsálagsins í landinu. Afleiðingin er gríðarlegt samfélagslegt tjón, sem skrifa verður á óskilvirkt regluverk, sem veitt hefur þvermóðskufullum afturhaldsöflum kost á að valda endalausum töfum. Stærsta tapið við þetta er fólgið í glötuðum tækifærum óseldrar orku, sem nota hefði mátt til að framleiða verðmæti. Mismunur orkutapa í 132 kV Byggðalínu og 220 kV Byggðalínu nemur meiri orku á hverju ári en Eflu reiknaðist til, að orkuskerðingar 2022 af völdum of lítillar flutningsgetu hefðu numið, og þjóðhagslegt tap af þessum völdum má áætla 10 mrdISK/ár. Andstaðan við sjálfsagða uppbyggingu orkuinnviða í landinu er allt of dýr til að leyfa megi fráleitri hugmyndafræði að ráða ferðinni að miklu leyti, enda er hér um minnihlutahóp að ræða.
"Niðurstaða greininga Eflu sýnir, að óuppfyllt orkuþörf fiskimjölsverksmiðja landsins og rafkyntra hitaveitna og stóriðjuvera á Suð-Vesturlandi nam samtals 270 GWh. Hægt hefði verið að koma í veg fyrir þessar skerðingar að öllu leyti, ef búið hafði verið að uppfæra Byggðalínuna, eins og gert er ráð fyrir í áætlunum um uppbyggingu flutningskerfisins."
Hér er ekki allt á tandurhreinu. Í fyrsta lagi virkar þessi vöntunarorka, 270 GWh, fremur lítil, og víst er um það, að þetta er bara brot af glötuðum sölutækifærum vegna allt of lítils framboðs raforku á Íslandi. 220 kV lína hefði vissulega annað þessum flutningum, en draga má í efa, að Fljótsdalsvirkjun hefði getað staðið undir þeirri framleiðslu, bæði afllega og orkulega, eins og allt var í pottinn búið 2022. Þá eru flöskuhálsar víðar í flutningskerfinu að þéttbýlisstöðum á Austfjörðum, sem takmarka álagið á þessum stöðum, þegar tarnir eru, eins og loðnuvertíð.
"Að sögn Gnýs [Guðmundssonar, rafmagnsverkfræðings og forstöðumanns kerfisþróunar Landsnets] var lagt mat á þann þjóðhagslega kostnað, sem af skerðingunum hlauzt. Olíukaup fjarvarmaveitna og fiskiðjuvera námu samtals mrdISK 1,16, og skuggavirði losunar vegna brennslu olíunnar [m.v. kostnað koltvíildiskvóta - innsk. BJo] reiknast mrdISK 0,12 til viðbótar.
Loðnuvertíðin var mikilvæg vegna þess, hversu mikill kvóti var gefinn út eftir nokkur mögur ár. Kostnaður vegna tapaðrar framleiðslu álvera á Suð-Vesturlandi nam mrdISK 2,8, en álverð var mjög hátt á þessum tíma. Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga þurfti að skerða sína framleiðslu, og er áætlað, að verðmæti tapaðrar framleiðslu þess nemi mrdISK 1,25 [miklar skerðingarheimildir - innsk. BJo]. Samtals nam því beinn kostnaður samfélagsins mrd ISK 5,3 á þessu eina ári, auk þess sem losun koltvísýrings vegna olíubrennslu var umtalsverð."
Þegar beinn kostnaður fornfálegs flutningskerfis og tapaðra tækifæra er lagður saman, er ljóst, að raforkuskorturinn af völdum of fárra virkjana og ófullnægjandi flutningskerfis er farinn að hamla hagvexti. Það er einmitt eftir nótum afturhaldsins, en eins og framkvæmdastjóri Landverndar hefur margoft fullyrt (út í loftið), er hagvöxturinn á Íslandi í senn ósjálfbær og allt of mikill. Landvernd berst fyrir aukinni fátækt á Íslandi og meiri fjárskorti á öllum sviðum samfélagsins en Íslendingar hafa kynnzt í hálfa öld, enda vill hún loka 54 ára gömlu álveri í Straumsvík, sem hefur sjaldan verið sprækara en nú, enda er þar gefinn gaumur að stöðugum fjárfestingum og viðhaldi. Allt, sem Landvernd hefur afrekað, er að valda aukinni koltvíildislosun, og hið sama yrði einmitt uppi á teninginum á heimsvísu, ef einhverju málmframleiðslufyrirtækinu hérlendis yrði lokað.
"Gnýr vekur athygli á þeirri niðurstöðu skýrslunnar, að kostnaður við byggingu nýrra flutningslína á milli Fljótsdals og Akureyrar hafi númið samtals um mrdISK 17.
Til að ljúka við að tengja landshlutana saman, þurfi að [reisa] 3 línur frá Akureyri til Hvalfjarðar af svipuðu umfangi. Sú framkvæmd eigi eftir að auka skilvirkni og nýtingu orkukerfisins næstu 50-70 árin til hagsbóta fyrir þjóðina alla."
Þetta er rétt hjá Gný. Ef tekinn er saman beinn fjárhagslegur ávinningur af minni orkutöpum og meiri flutningsgetu 220 kV Byggðalínu en 132 kV, er hann vægt áætlaður 20 mrdISK/ár. Kostnaður við 220 kV línu á milli Klafa og aðveitustöðvar Kárahnjúkavirkjunar í Fljótsdal, gæti numið mrdISK 40. Af þessu má ráða, hversu arðsöm þessi framkvæmd er. Þess vegna er þyngra en tárum taki, að útúrborulegum afturhaldsöflum, sem í raun er sértrúarsöfnuður um afturhvarf til fortíðar, skuli enn takast að þvælast fyrir þessum sjálfsögðu framkvæmdum. Landsnet verður þó að gæta að sér að troða ekki bændum landsins um tær með því að vaða með þessa stóru línu yfir tún þeirra, eins og mörg dæmi voru um 132 kV línuna. Nú eru breyttir tímar, en gamli tíminn á ekkert erindi aftur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)