Landsnet gerir í nytina sína

Það er ekki hlutverk stjórnenda eða stjórnar Landsnets að tjá opinberlega skoðanir í nafni fyrirtækisins á ólíkum virkjanakostum.  Af frétt Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu 25. marz 2023 verður þó ráðið, að sú hafi orðið raunin, og sé Landsnet að hvetja til uppsetningar vindknúinna rafala til að bjarga orkuskiptunum. Þetta er mjög óeðlileg hegðun af þessu ríkisfyrirtæki, sem ætlazt er til að gæti hlutleysis og hlutlægni gagnvart fyrirtækjum og orkukostum, sem þau hafa hug á að tengja inn á stofnkerfið.  

Þetta á sérstaklega við í tilviki vindorkunnar vegna þess, hversu umdeild hún er í landinu vegna eðlis síns og landverndarsjónarmiða margra landsmanna. Til að koma í veg fyrir, að vindhvirflar hafi innbyrðis neikvæð áhrif á rekstur vindknúinna rafala, má bilið á milli burðarsúlnanna vart verða minna en d=8xh (h=hæð vurðarsúlu).  Þá fæst fyrir 6,0 MW aflgetu per súlu 2,3 MW/km2.  Til að fá sömu aflgetu frá vindrafalaþyrpingu og frá Hvammsvirkjun, 95 MW, þarf þá að umturna 41 km2 lands, og þar með er ekki öll sagan sögð.  Vegna slitrótts rekstrar vindknúinna rafala, þarf 2,5 sinnum fleiri vindrafala til að framleiða sömu orku og Hvammsvirkjun, 720 GWh/ár.  Það þýðir um 100 km2 lands.  Landþörf Hvammsvirkjunar með vegagerð og stíflu (inntakslón verður í árfarveginum) er á að gizka 5 % af þessu. 

 

Hér hefur ekki verið reiknað með sérlega löngum bilunartíma þessa vindknúna búnaðar, en fréttir frá Færeyjum greina frá mikilli bilanatíðni og löngum viðgerðartíma.  Í Færeyjum er miklu meiri reynsla af rekstri vindrafala en hér, þar sem stöðugt er vísað til tveggja í eigu Landsvirkjunar ofan Búrfellsvirkjunar og tveggja í einkaeigu í Þykkvabænum.  Ekki kæmi á óvart, að bilanatíðni og viðgerðatími yrði sízt lægri hér en í Færeyjum, og það dregur enn úr áreiðanleika afar óáreiðanlegrar raforkuvinnslu. 

Frétt Morgunblaðsins af Landsneti og vindrafölum bar fyrirsögnina:

"Vindorka notuð í rafeldsneyti".

Hún hófst þannig:

"Forstjóri Landsnets segir, að m.v. stöðuna í dag ráði kerfi fyrirtækisins tæknilega við að tengja vindorkugarða með 2500 MW uppsettu afli, sem er jafnmikil orka [sic! þetta er afl, en ekki orka - innsk. BJo] og nú er flutt um kerfið.  [Það getur ekki staðizt, að hægt sé að taka á móti 2500 MW í aðveitustöðvum Landsnets án þess að fjárfesta verulega.  Að 132 kV línurnar geti tekið við þessu viðbótar afli, er ótrúverðugt, því að þær eru nú þegar fulllestaðar.  Hvað gengur forstjóranum til að búa til ævintýri um "vindorkugarða", sem falli svo ljómandi vel að kerfi Landsnets ? - innsk. BJo.] 

Vindorka er ekki stöðug, og vatnsaflsvirkjanir geta ekki brúað nema lítinn hluta bilsins.  Stærsta áskorunin sé því að finna kaupendur, sem geti notað breytilega orku.  Horfir hann til þess, að það sé hægt með framleiðslu á rafeldsneyti, sem verði stór hluti af orkuskiptum í framtíðinni. 

Kom þetta fram í ávarpi Guðmundar Inga Ásmundssonar, forstjóra Landsnets, á vorfundi fyrirtækisins, sem fram fór í gærmorgun [24.03.2023] undir yfirskriftinni "Fjúka orkuskiptin á haf út ?".  Svarið við þeirri spurningu virtist vera neitandi m.v. erindi Landsnetsfólks á fundinum."

Raforka frá vindknúnum rafölum er lítils virði vegna óstöðugleika síns, og þess vegna er ekki boðið upp á hana erlendis eina og sér, heldur með stöðugleikatryggingu frá annars konar raforkuverum, oftast gasknúnum.  Slík verða aldrei reist hérlendis.  Vatnsaflsver hafa reglunargetuna í þetta fylgdarhlutverk, en jarðgufuver ekki.  Núverandi vatnsaflsver standa undir grunnálagi með jarðgufuvirkjunum og taka toppana, og þá er ekkert afgangs.  

Vetnið er grunnefnið í rafeldsneyti, og búnaðurinn til að rafgreina vatn og mynda vetni og súrefni er dýr.  Þegar þannig er í pottinn búið, skiptir full nýting búnaðarins allan sólarhringinn höfuðmáli fyrir samkeppnishæfni og arðsemi framleiðslunnar.  Ef Guðmundur Ingi finnur einhvern fjárfesti, sem vill framleiða vetni með rafmagni frá vindrafölum á Íslandi, sem kostar um 50 USD/MWh að viðbættum flutningskostnaði Landsnets, sem er hærri en t.d. í Noregi, þá skal höfundur þessa vefpistils éta hattinn sinn.  Guðmundur Ingi hefur sennilega kastað þessu fram að óathuguðu máli til að búa til "líklega" viðskiptavini vindrafalaþyrpinganna.  Er Guðmundur ekki kominn langt út fyrir verksvið Landsnets með slíkum vangaveltum (fabúleringum) ? 

"Hann [GIÁ] rifjaði upp mismunandi sviðsmyndir úr grænbók umhverfisráðuneytisins um það, hvað þurfi til að koma, til að orkuskiptin geti náð fram að ganga.  Samkvæmt sumum þeirra þarf að tvöfalda raforkuframleiðsluna frá því, sem nú er. Guðmundur tók fram, að enn vantaði nánari upplýsingar, en sjálfur myndi hann áætla, að miða þurfi við þær sviðsmyndir, sem lengst ganga; að tvöfalda þurfi framleiðsluna.  Núverandi virkjanakostir í vatnsafli og jarðvarma dugi engan veginn dugi engan veginn til, og þess vegna þurfi að horfa til nýrra kosta, eins og vindorkunnar."

Ef orkuþörf millilandaflugsins er sleppt að sinni, verður hægt að útvega næga raforku fyrir orkuskipti og aukningu almenns álags fram til 2050 með samþykktum virkjunum í Rammaáætlun 3, og þar eru aðeins 20-30 vindrafalar í Blöndulundi. Þessi orkuþörf nemur um 7,0 TWh/ár og 1500 MW.  Aflþörfina má hæglega lækka um 100 MW með innleiðingu snjallmæla og lægri taxta á lágálagstíma. Þannig er óeðlilegt hjá forstjóra Landsnets að tilfæra nauðsyn orkuskipta sem rök fyrir vindrafalaþyrpingum á Íslandi. Hvað gengur honum til með því ?

Það er hægt að fara í reikningsæfingar um virkjanaþörf til að anna orkuþörf millilandaflugsins, en slíkt er ótímabært.  Hún verður t.d. engin, ef ofan á verður að setja þóríumver í hverja flugvél ásamt rafhreyflum eða ef hagkvæmara mun þykja að setja upp þóríum-orkuver á verksmiðjusvæði rafeldsneytis.  Þá má ekki gleyma, að með rammaaáætlunum, sem koma á eftir #3, munu birtast ný tækifæri í jarðgufu- og vatnsaflsvirkjunum. 

"Þá vöru [vindorkuna] þurfi að vera hægt að selja, þrátt fyrir að vindurinn skapi ójafna orku.  Nefndi hann, að með núverandi virkjunum sé hægt að jafna á móti [með] vatnsafli um 250 MW.  Það dugi ekki, og því þurfi að leita nýrra lausna til að finna út úr því, hvernig megi nýta þennan orkukost."

  Raforkukerfi landsins er nú þegar yfirlestað á háálagstímum, svo að grípa þarf til að draga úr álagi vissra notenda. Þess vegna kemur spánskt fyrir sjónir, að forstjóri Landsnets segist geta fundið 250 MW aflgetu í virkjunum, sem verði á lausu til að grípa til á álagstíma, þegar raforkuvinnsla vindknúinna rafala skyndilega minnkar.  Hvað gerist þá við skyndilega álagsaukningu um 30 MW eða bilun í um 45 MW spenni eða rafala og minnkun framleiðslugetu kerfisins að sama skapi ?  Þessi málflutningur af hálfu Landsnets er marklaus.

"Greining sérfræðinga Landsnets hafa sýnt, að tæknilega sé flutningskerfið það sterkt, að tengja megi megi vindorkugarða með 2500 MW uppsett afl, sem er það afl, sem kerfi Landsnets nú flytur.  Tók Guðmundur Ingi fram, að ekki væri hægt að flytja alla orkuna, en hægt yrði að tengja vindorkugarðana við kerfið." 

Er ekki Landsnet að skjóta sig í fótinn með svona gorgeir ? Ein af röksemdum Landsnets fyrir nýrri Byggðalínu á 220 kV er, að gamla 132 kV línan sé fullnýtt, og sú staðreynd hamli tengingum nýrra viðskiptavina við kerfið. Nú á allt í einu að vera hægt að tvöfalda aflið inn á línuna.  Hvað með stöðugleikann ?  Er Münchausen kominn í vinnu hjá Landsneti ? 

"Til að nýta orkuna þurfi að líta til margra möguleika; ekki aðeins vatnsaflsvirkjana til jöfnunar.  Að hans mati er mögulegt að finna kaupendur, sem geta notað breytilega orku og spilað þannig á móti.  Telur hann Ísland heppið vegna þess, að í orkuskiptunum sé gert ráð fyrir, að þörf verði á rafeldsneyti og að sú framleiðsla geti tekið á sig ákveðinn breytileika.  Þess vegna þurfi að leggja áherzlu á þann þátt.  Til þess að sá breytileiki nýtist, þurfi að tengja allt landið saman og nota viðskiptalíkan Landsnets og hafa vindorkugarðana ekki alla í sama landshluta."  

Hér skirrist forstjóri Landsnets ekki við að fara út fyrir hlutverk Landsnets í draumkenndri þrá sinni eftir rafmagni frá vindknúnum rafölum á Íslandi. Til er álag, t.d. við vetnisframleiðslu, sem gæti tæknilega lagað sig að framleiðslugetu raforkukerfisins, en eru nokkrar líkur á, að samningar takist um nógu lágt rafmagnsverð, til að fjárfestar fallist á svo óheppilega skilmála ?  Að semja um slíkt er ekki í verkahring Landsnets, og það er ótrúlegt að sjá forstjóra Landsnets tjá sig með svo vilhöllum hætti í garð vindrafala.   

   

  


Bloggfærslur 22. apríl 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband