28.4.2023 | 10:56
Falskur tónn loftslagspredikara
Eftir Tryggva Felixson birtist grein í Morgunblaðinu 31. marz 2023, sem af fyrirsögn hennar að dæma mætti ætla, að væru aðvörunarorð til landsmanna vegna hlýnunar andrúmsloftsins, en er í raun sá fjarstæðukenndi áróður, að hérlendis geti orðið orkuskipti án nýrra virkjana. Í greininni er reynt með lævíslegum hætti að koma sektarkennd inn hjá Íslendingum vegna mikillar losunar koltvíildis á mann, en sannleikurinn er sá, að fáar eða engar þjóðir hafa gert meira en Íslendingar til að draga úr losun á heimsvísu á mann en Íslendingar.
Landverndarforkólfar eru iðnir við að segja hálfsannleika í blekkingarskyni, og þess vegna er nauðsynlegt að draga upp heildarmyndina. Loftslagsvána, ef vá skyldi kalla, er ekki hægt að fást við með lausnarmiðuðum hætti með því að flytja losun úr einu landi í annað, eins og virðast vera ær og kýr forpokaðra loftslagspredikara hérlendis. Þeir halda, að framleiðsla t.d. áls á heimsvísu muni minnka í sama mæli og dregið væri úr framleiðslunni hérlendis. Fávíslegri verður málflutningur varla.
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að í kjölfar olíukreppa 8. áratugar 20. aldarinnar, sem leiddu til margföldunar olíuverðs, fóru fram orkuskipti húshitunar á Íslandi með s.k. hitaveituvæðingu eða rafvæðingu húshitunar, sem öflugra flutnings- og dreifikerfi gerði kleifa. Á síðasta fjórðungi aldarinnar var gert stórátak í að útrýma olíukyndingu húsnæðis og innleiða í staðinn nýtingu innlendra orkulinda, þ.e. jarðvarma og vatnsafls, aðallega hið fyrrnefnda. Þetta gerðu fáar eða engar aðrar þjóðir á þeirri tíð, enda er húsnæði og notkun þess enn þann dag í dag einn stærsti losunarvaldur koltvíildis á heimsvísu, þótt svo sé ekki á Íslandi. Landvernd grípur gjarna til samanburðar koltvíildislosunar á mann og ætti nú að gera það fyrir húshitunina. Landverndarforkólfar minnast hins vegar aldrei á það, sem vel er gert, heldur hallmæla flestu. Landvernd setur sig oft í eins konar fórnarlambshlutverk og býr til blóraböggla úr almenningi, sem stundar sína lífsbaráttu og reynir að auðvelda sér hana með því að nýta tækniþróunina, eins og hann getur. Þetta kallar Landvernd ósjálfbæra neyzluhyggju, sem er innantómt og fullyrðingakennt froðusnakk.
Ekki rekur höfund þessa vefpistils minni til gagnrýnisradda þá í þá veru, að það væri ósjálfbær lausn að ganga á íslenzkar orkulindir til að markaðssetja meiri jarðvarma og meira rafmagn. Nær væri að loka stóriðjufyrirtækjum þess tíma en að virkja til að draga úr innflutningi jarðefnaeldsneyti. Þennan afturúrkreistingslega áróður viðhefur Landvernd nú. Þvættingur af þessu tagi getur aðeins náð hljómgrunni í afar veruleikafirrtu umhverfi.
Hitt meginframlag Íslendinga til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu er einmitt nýting náttúrulegra orkulinda Íslands til að framleiða álmelmi og önnur melmi til útflutnings. Þessu þreyttist öðlingurinn, kennari minn í HÍ og síðar orkumálastjóri, Jakob Björnsson, rafmagnsverkfræðingur, ekki á að benda á með gildum rökum. Þau eru, að í heiminum er ákveðin þörf fyrir hendi á álmelmum, kísilmelmum o.fl. slíku. Samdráttur í þessari framleiðslu hérlendis, mundi þýða aukna framleiðslu erlendis, og þá með meiri losun gróðurhúsalofttegunda bæði við framleiðsluna sjálfa og við raforkuvinnsluna vegna hennar. Þar getur verið um að ræða tífalda losun á hvert tonn áls. Það væri þess vegna skref aftur á bak, en ekki fram á við, eins og Landvernd fullyrðir, að draga saman seglin á Íslandi. Forkólfar Landverndar setja gjarna upp þröngsýnisgleraugun og horfa þá fram hjá þeirri staðreynd, að andrúmsloftið er sameiginlegt fyrir alla jarðarbúa, þegar upp er staðið. Líta má svo á, að Íslendingar, sem ráða yfir meiri endurnýjanlegum orkulindum á mann en aðrar þjóðir, axli ábyrgð á þessu ríkidæmi með því að nýta þær með þeim hætti, sem andrúmsloftið munar mest um í alþjóðlegu samhengi.
Téð grein Tryggva Felixsonar bar fyrirsögnina:
"Loftslagskrísan dýpkar - viðbrögð íslenzkra stjórnvalda einkennast af doða":
Þar voru gamalkunnar lummur:
"Það eru líkur á því, að 1,5°C hækkun á meðalhita jarðar verði raunveruleiki laust eftir 2030. En sú staðreynd má ekki letja okkur til aðgerða. Enn skiptir öllu máli að draga úr losun. Ef við sitjum með hendur í skauti, mun losunin halda áfram að aukast, fara yfir 2°C eða jafnvel mun hærra. En ef við göngum vasklega til verka, er von til þess hitastigið lækki aftur síðar á öldinni og nálgist eðlilegt ástand."
Þokulegri getur boðskapur varla orðið. Þarna stendur í raun og veru, að ekki sé útilokað, að IPCC muni meta það svo, að orðið hafi 1,5°C hækkun hitastigs andrúmsloftsins eftir um áratug hér frá. Síðan er gefið í skyn, að eitthvað muni um losun Íslendinga, en áhrif hennar eru langt innan skekkjumarka í þessum fræðum. Hvenær fer hitastigshækkun yfir 2°C ? Það veit enginn, og þróun hitastigsins samkvæmt gervihnattamælingum dr John Christy við við Háskólann í Alabama, BNA, bendir til, að það verði alls ekki á þessari öld. Hvað er mun hærra en 2°C ? Svona málflutningur í vönduðu dagblaði á borð við Morgunblaðið er óboðlegur. Það er himinn og haf á milli hitastigsmælinga IPCC og vísindamanna á borð við John Christy, sem nota nákvæmustu og áreiðanlegustu mæliaðferðir, sem völ er á. Hið sama á við um hitastigshækkunina og þá um leið áætlaðan tíma upp í 2°C hækkun m.v. upphaf iðnbyltingar. Hér má bæta við þeirri niðurstöðu kunns íslenzks veðurfræðings, Trausta Jónssonar, að hitastig hafi ekkert hækkað síðan 2004. Landverndarforkólfar halda uppteknum hætti og fiska í gruggugu vatni. Þau þekkja ekki til vísindalegra vinnubragða. Tilgangurinn helgar meðalið á þeim bænum.
"Loftslagsbreytingar eru ekki vandamál annarra [sic ! nú, hverra þá ?], eins og oft heyrist í umræðu hér á landi [hver heldur þessari vitleysu fram ?]. Við berum öll ábyrgð, en mest er ábyrgð ríkisstjórna og þjóðþinga. [Það liggur í augum uppi, að mest ábyrgð hvílir á herðum ríkisstjórna, sem fara fyrir þjóðum, sem mest losa og sýna litla viðleitni til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þessi ríki er að finna í Asíu. Þjóðverjar fara nú að kröfu græningja og loka 3 síðustu kjarnorkuverum sínum. Ekki mun slíkt draga úr hlýnun jarðar. ] Þar liggur lykillinn að aðgerðum, sem verða aflvaki nauðsynlegra breytinga; að gera einstaklingum og fyrirtækjum kleift að taka þátt í lausn vandans með skilvirkum hætti. Valdefling er lykillinn að lausn. Fjármagn og tæknilegar lausnir eru fyrir hendi, sem ekki hafa verið nýttar til að leysa aðkallandi vanda. Að fjármagna breytingar að mestu með framlögum úr ríkissjóði, eins og virðist lenzka hér á landi, er ekki haldbært. Það verður að beita mengunarbótareglunni með mun víðtækari hætti en nú er gert - reglunni, sem kveður á um, að sá borgi, sem mengar."
Þetta er að mestu leyti rangt. Einkafjármagn er ekki á lausu í orkuskiptin, eins og þarf, af því að arðsemi og tækni skortir á þessu sviði. Rafeldsneyti er dýrt í framleiðslu og raforku skortir til að framleiða það. Vélar eru ekki tilbúnar fyrir full umskipti til rafeldsneytis. Það er sem sagt markaðsbrestur á þessu sviði, og þess vegna hefur ríkisvaldið stigið inn á sviðið, t.d. með afslætti á opinberum gjöldum rafmagnsbíla. Formaður Landverndar ofeinfaldar málin og vænir einkaframtakið um áhugaleysi. Það er illa ígrundað, enda fer hann yfirleitt yfir á hundavaði. Spyrja má, hvers vegna allan þennan asa, þegar hinn talnafróði og talnaglöggi veðurfræðingur, Trausti Jónsson, heldur því nú fram, að ekkert hafi hlýnað frá 2004 ? Í tilefni þessarar mengunarbótareglu Tryggva Felixsonar mætti spyrja, hvort hann sé sammála Evrópusambandinu um gjaldið á flugið, sem nú stendur fyrir dyrum, en íslenzka ríkisstjórnin hefur eytt töluverðu púðri í að andæfa, því að með þessu gjaldi stórversnar samkeppnisstaða Íslands. Hvað varðar Landvernd um þjóðarhag ?
"Ísland sem ein ríkasta þjóðin [sic ! land er ekki þjóð] ber mikla ábyrgð. [Þetta er hundalógík. Auður skapar ekki ábyrgð á gerðum annarra. Losun Íslendinga hefur ekki valdið neinni hlýnun. Hún er of lítil til þess og hefur staðið of stutt.] Þau orð, sem höfð hafa verið um loftslagsaðgerðir, eru mörg, en innihaldslítil. Hvorki stjórnvöld né atvinnulífið hafa axlað ábyrgð í verki, enn sem komið er. [Í hverju á sektarkenndin að vera fólgin - að nota mest allra af endurnýjanlegri og kolefnislausri orku ?] Í beinni og óbeinni losun á mann er Ísland því sem næst heimsmeistari. [Hvaða máli skiptir þetta fyrir andrúmsloftið, þegar um örfáar hræður er að ræða ? Það, sem máli skiptir í alþjóðlegum samanburði, er heildartonnafjöldi CO2 hvers lands, og framleiðsluafköst á hvert tonn CO2, t.d. tAl/tCO2. Þar eru Íslendingar í fremstu röð.] Losun hér á landi hefur farið vaxandi, og stjórnvöld hafa ekki uppfært áætlun um aðgerðir í samræmi við losunarmarkmið. [Markmiðasetning stjórnvalda um samdrátt losunar var frá upphafi skrípaleikur, hrein sýndarmennska.] Viðbrögð íslenzkra stjórnvalda einkennast af áhugaleysi, sem er ekki í neinu samræmi við vandann, sem við blasir. [Þessu má snúa við. Menn á borð við Tryggva Felixson eru komnir fram úr sér, búa jafnvel til vandamál, sem er ekki fyrir hendi, hvað þá, að tæknin sé tilbúin að leysa viðfangsefnið.]"
Síðan kemur rúsínan í pylsuendanum úr smiðju afturhaldsins, þar sem lagzt er þversum gegn nýjum virkjunum. Með því verða ofurhlýnunarpostular algerlega ótrúverðugir, því að almenningi hérlendis er fullljóst, að án nýrra virkjana verða engin orkuskipti.
"Helzt ber á hugmyndum um að sækja enn meira í náttúru landsins til að auka orkuframleiðslu til orkuskipta. Skortur á raforku er ekki vandinn. Íslendingar eru margfaldir heimsmeistarar í raforkuframleiðslu á mann. Vandinn liggur í því, hvernig við nýtum orkuna, sem við höfum til verðmætasköpunar. Samanburður, sem OECD hefur gert, sýnir laka stöðu Íslands í þessum efnum. Sífelld sókn í meiri raforku er ekki lausn, heldur hluti af kjarna vandans; ósjálfbær neyzla og framleiðsla og eyðilegging náttúru og víðerna landsins okkar."
Þessi málflutningur er með eindæmum. Þeir, sem svona láta, fara bara í hringi og geta aldrei leitt nein mál til lykta. Tryggvi ber saman epli og appelsínur. Augljóslega verður meiri virðisauki per MWh af raforku, sem notuð er á enda virðiskeðjunnar næst viðskiptavini, t.d. í bílaiðnaði Þýzkalands, en við að framleiða réttu álmelmin á Íslandi fyrir þennan sama bílaiðnað. Íslendingum stendur hins vegar ekki til boða að framleiða bíla, og það hefur meira að segja ekki tekizt að fá framleiðendur íhluta fyrir bíla hingað.
Vitund forkólfa Landverndar er svo brengluð, eins og af ofangreindu sést, að ekki er hægt að búast við neinu vitrænu þaðan. Þau afneita þeirri staðreynd, að raforkuskortur sé í landinu, sem hamli framvindu orkuskiptanna, á meðan hann varir. Þá er það úr lausu lofti gripið, að neyzla landsmanna sé ósjálfbær og að hún hafi eyðilagt náttúru landsins. Slíkar gildishlaðnar fullyrðingar falla um sjálfar sig í ljósi þess, að virkjanir, miðlunarlón og mannvirki, spanna innan við 0,5 % af flatarmáli landsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)