Hafró flengir veiðiréttarhafa og fylgifiska

Atvinnurógur samtaka veiðiréttarhafa í ám og vötnum landsins ásamt málpípum, sem þykjast bera málstað náttúrunnar fyrir brjósti, en eru sekir um að leggja algerlega huglægt mat á alla nýtingu, gagnvart laxeldi í sjókvíum á Vestfjörðum og Austfjörðum, gengur svo langt, að þessir aðilar heimta, að téð starfsemi verði lögð niður, aðallega vegna hættu á erfðablöndun eldisfisksins við náttúrulega íslenzka laxastofna.  Í þessari rógsherferð hafa þessir aðilar ekki skirrzt við að saka Hafrannsóknastofnun Íslands um alls konar ávirðingar, sbr einhver Valdimar Ingi Gunnarsson í Bændablaðinu 17. febrúar 2023, sem hafði þar uppi ósæmilegar dylgjur, eins og Ragnar Jóhannesson, rannsóknastjóri fiskeldis hjá Hafrannsóknastofnun, rakti og hrakti í grein sinni í Bændablaðinu 9. marz 2023:

"Áhættumat erfðablöndunar útskýrt".

Eftir lestur fróðlegrar greinar Ragnars stendur ekki steinn yfir steini í hræðsluáróðri og fúkyrðaflaumi téðra veiðiréttarhafa og sjálfskipaðra náttúruverndara varðandi meinta hættu erfðablöndunar, sem villtir laxar í nytjaám Íslands séu í. Þessi hætta er einfaldlega ímyndun og tilbúningur illvígra gagnrýnenda sjókvíaeldisins, eins og Ragnar sýndi fram á. Nú verður vitnað í téða grein Ragnars: 

"Hlutverk Hafrannsóknastofnunar er að styðja við verðmætasköpun í íslenzkum sjávarútvegi, en gæta jafnframt að náttúruvernd og sjálfbærni nytjastofna.  

Áhættumat erfðablöndunar var þróað til þess eins að spá fyrir um áhættuna á erfðablöndun norskættaðs eldislax við villta íslenzka laxastofna í ám landsins.  Matið tekur ekki tillit til annarra mögulegra umhverfisáhrifa sjókvíaeldis, s.s. laxalúsar eða mengunar.  Matið gerir engan greinarmun á laxeldi eftir því, hvort um innlend eða erlend fyrirtæki er að ræða [var ein af dylgjum téðs Valdimars - innsk. BJo].  Við þróun spálíkans var leitað fyrirmynda hjá nágrannaþjóðum, og matið var unnið í samvinnu við fremstu vísindamenn heims á þessu sviði.

Við gerð áhættumatsins voru varfærnissjónarmið höfð að leiðarljósi, þar sem náttúran var látin njóta vafans.  Ráðist var í umfangsmikla vöktun og mótvægisaðgerðir gegn erfðablöndun.  Ákveðið var að endurmeta [áhættuna] á 3 ára fresti og byggja þá á rauntölum úr vöktun.

Íslenzka áhættumatið hefur verið notað sem fyrirmynd að áhættumati fyrir laxeldi í Kanada.  Ávirðingum Valdimars um náttúruníð, fúsk og spillingu er því algjörlega vísað til föðurhúsanna."

Þarna bregst Ragnar Jóhannesson með málefnalegum hætti við svívirðilegum árásum téðs Valdimars á Hafró og rakalausum tilraunum hugstola veiðiréttarhafa og náttúrugjammara til að grafa undan trúverðugleika Hafró sem hlutlægrar og óvilhallrar vísindastofnunar.  Þeir, sem hafa ekki annað fram að færa en hástemmdan og tilfinningahlaðinn atvinnuróg og níð gagnvart virðingarverðri vísindastofnun, sem aflað hefur sér trausts innanlands og utan, hafa augljóslega ekki fundið fjölina sína og munu aldrei finna hana, nema þeir bæti ráð sitt. 

"Áhættumatið [líkanið] reiknar út áætlaðan fjölda göngufiska úr sjókvíaeldi upp í veiðiár samkvæmt gefnum forsendum.  Matið reiknar út ágengni (e. intrusion) í einstökum ám út frá þekktum upplýsingum um stofnstærð í hverri á.  Rauntölur frá Noregi hafa sýnt, að eldisfiskur hefur margfalt minni æxlunarhæfni en villtur fiskur, og því má reikna með því, að erfðablöndunin verði einnig margfalt minni en ágengnin. Að mati færustu vísindamanna á þessu sviði þarf ágengni að vera a.m.k. 4 % á hverju ári áratugum saman, til þess að erfðablöndun nái að skerða hæfni stofns árinnar. 

Í áhættumati frá 2020 var áætluð ágengni um og innan við 1 % í 89 af þeim 92 veiðiám, sem eru í matinu, og þar af var engin ágengni áætluð í 43 ám."

Í raun og veru er allt moðverk og hræðsluáróður gegn sjókvíaeldinu vegna meintrar hættu á erfðablöndun í hvert skipti, sem eldislaxar sleppa út úr kvíunum, hrakin á grundvelli útreikninga, sem reistir eru á rannsóknarniðurstöðum. Fullyrðingaflaumur veiðiréttarhafa og sjálfskipaðra náttúruverndara er reistur á ímyndaðri hættu, sem á sér enga stoð í raunveruleikanum.

Hvað segir reynslan ?  Á 6 ára skeiði reyndust 10 strokulaxar fara upp í 92 veiðiár, þar af 2 úr eldi erlendis, og gefur það meðalágengni 0,09 %.  Hæsta ágengnin var 1,19 % í Staðará í Steingrímsfirði.  Þetta sýnir, að tilfinningaþrungið moldviðri veiðiréttarhafa og sjálfskipaðra náttúruverndara er innantómur lygaáróður til að grafa undan afkomu fjölda manns í landinu, sem vinnur að nauðsynlegri gjaldeyrisöflun fyrir þjóðarbúið.  Eru það ólíkt meiri tekjur en hafast upp úr krafsinu við sölu réttar til að veiða og sleppa meira eða minna særðum villtum laxi eftir öngul í gininu. 

Höfundurinn, Ragnar Jóhannesson hjá Hafró, gerði ítarlega grein fyrir útreikningunum, sem jók gildi greinarinnar töluvert:

"Matið byggir á tiltölulega einföldum þáttum. Fyrst ber að nefna umfang eldisins p, sem er umfang þessarar framleiðslu í hverjum firði fyrir sig.  Því næst er meðalhlutfall strokufiska á hvert framleitt tonn [t], sem við auðkennum sem S [=n/t, strokufjöldi/t].  Raunverulegar stroktölur eru að sjálfsögðu breytilegar á milli ára [og fjarða-innsk. BJo], en meðaltal síðustu 10 ára í Noregi gefur gefur töluna S=0,8 stk/t. Meðaltal síðustu 6 ára hérlendis gefur töluna S=0,5 stk/t [með tímanum hefur þetta hlutfall lækkað í báðum löndum].  

Einungis [lítill] hluti þeirra fiska, sem strjúka, mun ganga upp í ár og það hlutfall, auðkennt sem L, er nefnt endurkomuhlutfall.  Áætlaður heildarfjöldi eldislaxa, sem gengur í veiðiár [eins fjarðar], e, er því: e=p*s*L stk.

Nú er áætlað endurkomuhlutfall (L) mismunandi [annað] fyrir sjógönduseiði (snemmstrok [L1]) og fisk, sem er orðinn nær fullvaxta (síðstrok [L2]), og að auki er hegðun þeirra önnur. Strok 11 k laxa úr 2 kvíum Arnarlax í febrúar 2018 (síðbúið strok, stórir fiskar) var í raun ágætt álagspróf á fyrstu útgáfu áhættumatsins.  Raunin varð sú, að mun færri fiskar skiluðu sér í veiðiár en búizt var við, og endurkomuhlutfallið [L2] var því lækkað úr 3,3 % í 1,1 % við endurmat árið 2020."

 Komið hefur í ljós, að endurkomuhlutfall strokufiska á ári lækkar hratt með auknum massa fiska á bilinu 0-600 g og hægar eftir það [þ.e. L1>L2]. Fyrir þessu gerði Ragnar góða grein: 

"Eins og nú er vel kunnugt, varð strok úr sjókví við Haganes í Arnarfirði 2021, og gat Arnarlax ekki gert grein fyrir afdrifum 81.564 laxa.  Útreikningar okkar gáfu svipaða niðurstöðu varðandi strokfjölda.  Hér var um sjógönguseiði að ræða (snemmstrok).  Þau synda á haf út í fæðuleit og snúa svo til baka á upprunastað eftir a.m.k. eins vetrar dvöl í sjó [1-3 vetur]. Því var þetta strok álagspróf á stuðla, sem notaðir voru fyrir snemmstrok, enda fyrsta strokið af því tagi hérlendis, sem vitað var um.  

Við endurmat á stuðlum fyrir snemmstrok var notast við greiningu á umfangsmiklum sleppitilraunum, sem norska Hafrannsóknastofnunin stóð fyrir á árunum 2005-2008.  Sú greining leiddi í ljós, að endurkoma fellur með strokstærð, eins og sýnt er á Mynd 1 [í greininni, ekki hér, en sviðið fyrir L1 er 0,52 %-0,08 % fyrir 0-1400 g].  Samkvæmt gögnum frá Arnarlaxi var meðalþyngd þeirra [strokfiskanna] um 900 g við strok.  Í fyrra veiddust 25 fiskar úr þessu stroki í ám í Arnarfirði, meginþorrinn í frárennsli Mjólkárvirkjunar.  Það stemmir nokkuð vel við þá 40 fiska, sem vænta mátti eftir 1 vetur í sjó [samkvæmt líkani - innsk. BJo].  Einnig var dreifing þeirra lítil á frekar takmörkuðu svæði, eins og matið gerði ráð fyrir."

Það getur verið fróðlegt að slá á efri mörk strokufiskafjölda upp í ár landsins við 100 kt/ár laxaframleiðslu í sjókvíum við landið (Vestfirði og Austfirði).  Þetta eru E=100 kt*0,5 stk/t*0,0011=55 stk/ár.  Ef hrygningarstofninn á þessum svæðum er 16 kt, þá er ágengnin Á= 55/16 k = 0,3 %, sem er heilli stærðargráðu undir hættumörkunum 4 %.  Það virðist þess vegna vera borð fyrir báru, hvað erfðaáhættuna varðar, þótt sjókvíaeldið yrði rúmlega tvöfaldað, frá því sem það er núna.  Innantómar upphrópanir ofstækismanna eiga ekki að fá að móta atvinnuþróun og nýtingu auðlinda í íslenzkri lögsögu. Þar verður vísindaleg greining og bezta tækni áfram að fá að ráða för.  

 

 

 


Bloggfærslur 6. apríl 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband