19.3.2024 | 18:34
Hið opinbera fitnar, eins og púkinn á fjósbitanum
Það er sterk tilhneiging í samtímanum til að þenja hið opinbera út og þar með að fjölga starfsmönnum á launaskrám þess. Heilbrigðis- og umönnunarkerfið er dæmi um þetta, og undirliggjandi kraftur þar er öldrun þjóðarinnar, en heilsufar eldri borgara er miklu bágbornara en vera þyrfti, sem stafar af óhollum lifnaðarháttum í allsnægtaþjóðfélaginu. Það er vandlifað í henni versu. Lyfjaátið er yfirþyrmandi og allt of lítið mark tekið á næringarráðgjöfum og þjálfunarsérfræðingum á borð við Janus Guðlaugsson. Þegar allt er komið í óefni, er heimtað "quick fix", en slíkt er ekki til.
Grunnskólakerfið hefur þanizt út að mannafla í mun meira mæli en nemendafjöldinn. Að sama skapi hefur árangur nemenda 10. bekkjar versnað að mati OECD og PISA-prófdómaranna, enda eru komnar alls konar aðrar starfsstéttir inn í kerfið en áður tíðkuðust þar. Þegar nemendum var raðað eftir getu í bekkjardeildir, var minna álag á kennurum í tímum, þótt í bekkjardeild væri yfir 30 manns, og árangur nemenda var að jafnaði betri en síðar varð, þegar "kerfi án aðgreiningar" hafði haslað sér völl. Er einhver í stakk búinn til að mótmæla með rökum þessum tveimur staðhæfingum, sem hér eru settar fram sem tilgátur án eigin rannsóknar. Ef ekki, hvers vegna er þá viðhöfð sú þrákelkni á grunnskólastiginu að viðhalda þessari aðferðarfræði, sem er óframkvæmanleg með góðu móti og hefur reynzt afspyrnu illa (dregið meðaltalsárangur niður) ?
Þann 9. febrúar 2024 birti Magdalena Anna Torfadóttir fróðlega yfirlitsfrétt um umfang hins opinbera á viðskiptafréttasíðu Morgunblaðsins undir sláandi fyrirsögn:
"Ráðstafar annarri hverri krónu".
Hún hófst þannig:
"Hið opinbera velti árið 2022 um mrdISK 1650, sem þýðir, að það ráðstafar tæplega annarri hverri krónu, sem verður til í hagkerfinu. Hlutfallið hefur vaxið jafnt og þétt, allt frá lýðveldisstofnun, þegar um 5. hver króna fór um hendur hins opinbera [þ.e. úr 20 % í 50 % á 78 árum, eða um 0,4 % VLF/ár að meðaltali - innsk. BJo].
Þetta er meðal þess, sem kom fram í skýrslu Viðskiptaráðs, sem kynnt var á Viðskiptaþingi ráðsins í gær [08.02.2024]. Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, kynnti skýrsluna og niðurstöður hennar. Í skýrslunni er fjallað um hið opinbera, og hvernig megi bæta þjónustu þess til lengri tíma litið.
"Í ljósi umfangs ríkis og sveitarfélaga er rétt að rýna, hvernig þessum fjármunum er varið, hvar og hvernig megi gera betur, og hvort hið opinbera þurfi að sinna öllum þeim verkefnum, sem það hefur nú á sinni könnu", segir í skýrslunni."
Umfang opinbers rekstrar á Íslandi vex með ósjálfbærum hætti. Þingmenn og sveitarstjórnarmenn hafa verið of leiðitamir þrýstihópum og fyrir vikið fórnað mikilvægum hagsmunum skattborgaranna og þjóðarinnar allrar, sem sýpur seyðið af óskilvirku bákni, sem er ekki nægilega vel stjórnað og mikil byrði fyrir avinnulífið. Í EES-samninginum er mikil áherzla lögð á, að hið opinbera gæti sín í hvívetna að skekkja ekki samkeppnisstöðu, þar sem það er á markaði í samkeppni við einkafyrirtæki. Á þessu er misbrestur hérlendis, sem er ein ástæða ofþenslu báknsins. Ríkisútvarpið er skýrt dæmi um þetta, en það er mjög óeðlilegt, að það keppi um auglýsingar á miðlamarkaði, því að það getur notað skattfé til að viðhalda markaðsráðandi stöðu sinni. Menningar- og viðskiptaráðherra talar og skrifar mikið og stundar pólitík í anda lýðskrums, en gerir fátt af viti og þ.á.m. næsta lítið, sem máli skiptir, til að minnka umsvif ríkisrekna risans á fjölmiðlamarkaði, sem stöðugt færir út kvíarnar sem opinbert hlutafélag án lagaheimilda til þess.
Landsvirkjun er annars konar dæmi um ríkisfíl í postulínsbúð. Þar er að vísu ekki um ríkisframlög að ræða, heldur arðgreiðslur til ríkisins, en hegðunin er ámælisverð, og hana verður að skrifa á lyndiseinkenni forstjórans, sem nýlega gekk hart fram um setningu laga um viðbrögð við skorti á rafmagni á markaði, sem áttu að hlaða enn meira undir Landsvirkjun, og dylgjaði þessi forstjóri þar um "leka á milli markaða", þ.e. að aðrir en Landsvirkjun hygluðu stórfyrirtækjum á kostnað almennra neytenda. Allt koðnaði það niður hjá honum, enda bitu menn frá sér. Á Alþingi var hætt við þessa lagasetningu, enda hún einskær vitleysa frá Orkustofnun og ráðuneyti orkumála. Eftir stendur, að Landsvirkjun eyðileggur alla raunverulega samkeppni á raforkumarkaði vegna stærðar sinnar og þeirrar staðreyndar, að megnið af tekjum hennar kemur frá stórnotendum á grundvelli langtímasamninga, sem ríkið veitti Landsvirkjun forgang að án samkeppni. Þar af leiðandi mega stjórnendur fyrirtækisins alls ekki traðka í salatinu. Meira að segja Samkeppnisetirlitið mælti gegn téðri skömmtunarlagasetningu. Hvenær gerir stofnunin frumkvæðisathugun á samkeppni á raforkumarkaði ?
Heilbrigðiskerfið er mikið vandræðabarn á ríkissjóði, enda að mestu fjármagnað af honum. Nú er langt komið eða jafnvel búið að meta alla helztu verkþætti Landsspítalans til kostnaðar og spítalinn farinn að fá greitt samkvæmt innsendum reikningum, enda hafa ekki heyrzt núna þau relubundnu harmakvein um fjármagnsskort, sem landsmenn áttu að venjast. Þetta kerfi gerir Sjúkratryggingum kleift að bjóða fyrirhafnarlítið út verkþætti, sem hægt er að úthýsa innanlands og jafnvel á Evrópska efnahagssvæðinu, er útboðið er stórt. Það verður að ganga út frá því sem vísu, að Sjúkratryggingar Íslands nýti útboðsleiðina út í yztu æsar og gefi íslenzkum sérhæfðum læknastofum tækifæri til að hagnýta fjárfestingar sínar í nannauði, húsnæði og tækjabúnaði, og spari um leið skattgreiðendum landsins stórfé.
Kostnaður við hvern grunnskólanemanda hefur vaxið mikið á þessari öld og á sama tíma hefur árangur hans versnað í alþjóðlegu samhengi. Nemendur koma með furðulega gloppótta þekkingu út úr grunnskóla. Kerfið þarf þess vegna að stokka upp. Væri ekki ráð að veita skólunum meira sjálfstæði og ýta undir samkeppni þeirra á milli, t.d. með birtingu meðaltala úr PISA fyrir hvern skóla ? Skólarnir gætu t.d. ráðið því, hvernig þeir raða í bekkjardeildir og mættu flokka nemendur í deildir eftir getustigi, eins og gert var áður fyrr með góðum árangri.
"Svanhildur Hólm stýrði stýrði umræðum með Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur, stofnanda Kara Connect, og Andra Heiðari Kristinssyni, fyrrverandi leiðtoga Stafræns Íslands. Þau ræddu m.a. þær áskoranir og hindranir, sem verða á vegi tæknifyrirtækja í samskiptum við opinberar stofnanir. Þorbjörg Helga lýsti m.a. samskiptum sínum við opinberar stofnanir, þá sérstaklega embætti Landlæknis, sem lagt hafa stein í götu félagsins og starfsemi þess. Hún sagði, að þrátt fyrir yfirlýsinar stjórnmálamanna um nýsköpun í heilbrigðiskerfinu og mikilvægi þess að leita nýrra lausna í þjónustu, væri því ekki fylgt eftir með almennilegum hætti."
Embætti Landlæknis virðist vera steinrunnið apparat, sem er mjög umhendis að veita almenningi þjónustu. Frammistaðan í Kófinu var fyrir neðan allar hellur, þar sem beitt var ótæpilegum og dýrum höftum á umgengni fólks, sem hafði alvarlegar afleiðingar fyrir hagkerfið og andlega líðan fólks. Þetta voru aðgerðir, sem sniðgengu meðalhófsreglu stjórnsýslulaga rýrðu pesónufrelsi án umtalsverðrar gagnsemi. Eins og spáð var um á grundvelli fræða um þessi mál, varð dánartíðnin í kjölfar aðgerðanna hærri en efni stóðu til. Þar bætti ekki úr skák sú stefna embættisins að beita margítrekuðum sprautunum gegn veirunni með tilraunaefnum á bráðabirgðaleyfi Lyfjaefirlits Evrópu. Af þeim hafa hlotizt margvíslegir skaðar á heilsu fólks, en varnarvirknin dalaði mjög hatt eftir inngjöf. Tilraunaefnin hefðu að réttu lagi ekki komizt í gegnum hefðbundið prófunarferli lyfja, og það vekur mikla furðu, að enn skuli þau vera í brúki hérlendis.
"Í fyrrnefndri skýrslu Viðskiptaráðs kemur fram, að undanfarin 30 ár hefur fjöldi starfsfólks í stjórnsýslunni tæplega tvöfaldazt. Árið 1995 störfuðu 387 manns í um 11 ráðuneytum, en í dag starfa 724 í 12 ráðuneytum.
"Að mati Viðskiptaráðs sýnir þróunin, að verulega skorti á hagræðingu hjá hinu opinbera [ríkinu í þessu tilviki - innsk. BJo]. Leiða má líkur að því, að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins leggi stein í götu stjórnvalda til að bregðast við, þegar verkefni breytast, falla niður eða ný verða til. Tækifæri til meira hagræðis í starfsmannahaldi eru vannýtt, og stafræn umbylting virðist frekar hafa verið nýtt til að auka umfang stjórnarráðsins en annað. Það ætti ekki að vera náttúrulögmál, að stöðugt fjölgi í stjórnarráðinu, þótt á þessu tímabili hafi starfsmönnum einungis fækkað á árunum 2013-2016", segir í skýrslunni."
Höfundar skýrslu Viðskiptaráðs hljóta að hafa kynnt sér Lögmál Parkinsons, sem einmitt fjallar um hina ríku tilhneigingu innan opinberrar stjónsýslu að þenjast út, engum til gagns. Þar að auki eru 2 utan að komandi kraftar að verki. Á árunum 2009-2013 var í gangi umsókn um aðild að Evrópusambandinu (ESB), og þar á bæ var óspart fundið að fámenni og getuleysi íslenzkrar stjórnsýslu. Vafalaust brást hin "fyrsta tæra vinstri stjórn" hart við þessu, og aldrei hefur verið undið ofan af þeirri fjölgun, enda á sér stað umfangsmikil innleiðing ESB-reglugerða og -tilskipana, sem útheimtir starfsfólk. Þá má ekki gleyma því, að síðan árið 2017 hefur harðsvíraður miðstýringar- og ríkisafskiptaflokkur leitt hér ríkisstjórn og sett af stað gæluverkefni og gælustofnanir, sem eru óþörf fyrir ríkisreksturinn.
Það var þarfur gjörningur hjá Viðskiptaráði að benda á talnalegar staðreyndir málsins, en þróunin var við búin og er bein afleiðing vanhugsaðrar ákvarðanatöku kjósenda og Alþingismanna. Það er ekki hægt að snúa þessari óheppilegu þróun við, nema henda vinstri mönnum út úr stjórnarráðinu og hætta að rembast við að aðlaga löggjöf smáríkis að löggjöf stórrar ríkjasamsteypu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)