6.3.2024 | 18:36
Enn af rússneska fræðimanninum Yudin
Yudin kveður djúpstæðan klofning vera í rússneska þjóðfélaginu. Klofning vantar ekki á Vesturlöndum, en hann er annars eðlis:
"Við erum að tala um land með ótrúlega lítið persónulegt traust á milli manna, óhemju lítinn áhuga á pólitík og sérstaklega á pólitískri þátttöku og litla trú á að geta haft áhrif á pólitíkina. Stríðið er almennt talið koma að utan og ekkert við því að gera. Þetta getur ekki skapað verulega einingu. Það skapar ótta, óvissu og angist."
Hann fullyrðir, að þjóðfélaginu megi skipta í þrennt:
Fyrsti hópurinn - minnihluti 15 % - 20 % - styðja herinn, og aðeins þeirra skoðanir eru leyfðar opinberlega. Þeir eru í eldri kantinum; eldra fólk, sem aðhyllist þá heimssýn, sem ráðamenn setja fram. Jafnstórum hópi fólks býður við þessu stríði og líta á það sem grundvallar mistök, sem leiða muni miklar þjáningar yfir Rússland. Mikill meirihluti fólks er þarna á milli og er í grundvallar atiðum fús til að sætta sig við það, sem henda kann.
Annar þjóðfélagsklofningur er fólginn í tekjuskiptingunni. Þetta er ekki aðeins stríð þeirra gömlu, heldur líka stríð hinna ríku Rússa. Þetta er í raun stríð þeirra, sem ekki eiga á hættu að deyja. Þeir gömlu vilja alls herjar herútboð, en þeir verða undanþegnir, þeir munu senda börnin sín á vígstöðvarnar. Hið sama á við um tekjuhópana. Ríkisbubbarnir verða ekki sendir á vígstöðvarnar. Þeir munu bara senda fátæklingana. Þessi mismunun skapar gíðarlega þjóðfélagsspennu. Óánægjunni er ekki hleypt út vegna stríðsins, en er fyrir hendi og getur brotizt út af minnsta tilefni.
Afleiðing af þessu er, að Rússland er deyjandi heimsveldi.
Það hefur ekkert áhugavert fram að færa fyrir þau landssvæði, sem það hefur hug á að stjórna. Hið eina, sem er í boði, er hugmyndin um endurreisn Ráðstjórnarríkjanna, sem eru aðeins hugarórar. Þar er engin siðmenninggarleg verkefni að finna. Þess vegna virka yfirráð Rússa mjög fráhrindandi á Úkraínumenn og aðrar þjóðir. Þess vegna er valdbeitingin eina haldreipi Rússa.
Yudin ræður frá samningaviðræðum við Pútín: stríðið snýst um, að Úkraínumenn vilja varðveita fullveldi Úkaínu. Hugmyndin um að þvinga Úkraínumenn að samningaborðinu er öfgakennd forsjárhyggja. Hún felur í sér að samþykkja þá sturluðu hugmynd Pútíns, að Úkraína sé ekki fullvalda ríki; að einhver utan Úkraínu setji skilmálana.
"Í huga Pútíns snýst þetta stríð ekki um Úkraínu. Þetta stríð er til að endurreisa heimsveldið. Heimsveldið felur að sjálfsögðu í sér Varsjárbandalags-löndin, arfleifð Stalíns. Þar eð hann gefur ekkert fyrir hlutleysi, ætlar hann ekki að gera þessi lönd hlutlaus, heldur að færa þau aftur á áhrifasvæði Rússlands, gera þau leppa þess. Þar er Austur-Þýzkaland meðtalið. Þetta þarf þýzka ríkisstjórnin í Berlín að gaumgæfa vel. Ef hún hefði gert það af einhverju viti, væru Taurus flaugar nú þegar komnar í hendur úkraínska hersins og ráðgjafar (forritarar) Bundeswehr með þeim. Það er stórhættulegt að reyna að taka á rússneska birninum með silkihönzkum. Ef Rússum tekst ætlunarverk sitt í Úkraínu, láta þeir ekki staðar numið þar. Moldóvía er greinilega inni í hernaðaráætlun Rússa.
Pútín á í vandræðum með það hrokafulla og ofbeldishneigða viðhorf sitt, að Úkraína sé ekki til. Úkraínumenn geta ekki setzt niður með slíkum stjórnvöldum til samningaviðræðna, en gætu náð árangri með næstu stjórnvöldum Rússlands. Framtíðarsýn Pútíns er óhjákvæmilegt stríð við Vestrið, við NATO. Hann lítur ekki á það sem valkvætt, sem það er, auðvitað. Hugarfarið, sem hann hamrar á í Rússlandi, er, að Rússar lifi í heimi án vals.
Nú er Rússland að rifna, því að spennan av völdum óvinnandi stíðs eykst. Pútín er að missa tökin á héraðsstjórnum Sambandsríkisins. Fyrrverandi Ráðstjórnarlönd eru andstæð Kreml. Kazakhstan hefur kallað innásina í Úkraínu stríðsaðgerð og sent hjálp til Úkraínu. Moldóvía hefur sótt um aðild að ESB, eins og Úkraína.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)