Stjórnleti

Fáum blandast hugur um, að óþarfleg lausatök séu á málefnum ríkisins, og ríkið virðist stundum reka á reiðanum vegna útvistunar valda frá stjórnmálamönnum og til ýmissa nefnda, oft s.k. úrskurðarnefnda um embættisfærslu stofnana eða millistykki til að skapa s.k. armslengd frá stjórnmálamönnum.  Þetta er gallað fyrirkomulag, sem útvatnar lýðræðið í landinu og skapar þessum nefndum völd án ábyrgðar, sem aldrei er hollt.  Nefndirnar sjálfar eru dýrar í rekstri, en þó kastar tólfunum, þegar kostnaður af gjörningum þeirra er reiknaður.  Dæmi um hið síðar nefnda er, þegar úrskurðanefnd um málefni hælisleitenda mat Venezúela hættulegt land íbúum sínum.  Þessu sneri nefndin síðar við.  Í Venezúela ríkja sósíalískir stjórnarhættir, sem mörgum íbúanna stafar ógn af.  Stjórnarflokkurinn hefur stórskaddað atvinnuvegi landsins, svo að almenningur þar líður skort.  Ísland getur ekki verið allsherjar griðastaður fyrir alla, sem búa við hörmungar, en við sýndum Úkraínumönnum samstöðu, sem sjálfsögð var, þegar miklu stærri nágranni (í austri) hóf landvinningastríð í anda fornfálegrar nýlendustefnu keisara fyrri tíma.  

Morgunblaðið gerði reiðarekið að umræðuefni í forystugrein 20. marz 2024 undir heitinu:

"Kjörnir fulltrúar í aukahlutverki"

"Það er lítið lýðræði í því [þegar stjórnmálamenn fara á bak við kjósendur sína og svíkja kosningaloforð sín], en ekki bætir úr skák sú ásýnd stjórnleysis eða jafnvel hreint stjórnleysi, sem hlýzt af því, þegar látið er reka á reiðanum af ótta við átök innan ríkisstjónar og treyst á, að "kerfið" leysi vandann einhvern veginn. 

Hvernig getur staðið á því, að ríkisstjórnin steypti sér í slíkar ógöngur ? Hún galopnaði þetta litla land fyrir fólki, sem margt vill ekkert hafa með þá að gera, sem fyrir eru.  Rétt nýkomið er öskrað á þá, sem fyrir eru, eins og þingmenn þekkja öðum betur.  Þá er búið að eyðileggja skólakerfið vegna stjórnlauss innflutnings til landsins.  Vegna hans er tilkynnt, að nú sé nauðsynlegt að tvöfalda stærð ríkisfangelsisins. Ekkert af þessu kom þó á óvart. Af hverju sá ekki það fólk, sem var þó skyldugt til að stjórna með augu sín opin ?

Ungviði okkar á þetta ekki skilið. Allur fjöldinn bíður þess aldrei bætur.  Stór hluti af vegi þess til menntunar við forsvarnlegar aðstæður hefur verið eyðilagður.  Dæmin lágu galopin fyrir allra augum.  Ógöngur Svía, sem ráða illa við sín mál og geta ekki tryggt öryggi þeirra, sem fyrir voru, blasa  við öllum,  sem vilja sjá. Það fólk,  var aldrei spurt. Foreldrar barnanna voru aldrei spurðir. Allur almenningur var ekki spurður.  

Fullyrt er,  að þjóðin hafi "komið sér" í þessar ógöngur, án þess að þing og ríkisstjórn  hafi kynnt nokkrum,  hvað stóð til. Áhugamenn og "álitsgjafar" leiddu ráðamenn fram af brúninni.   Hvernig gat þetta gerzt  ?  Það veit enginn,  hvaða einstaklingar felast í þessum taumlausa innflutningi. "

 

 Hér er talað tæpitungulaust á 11. stundu. Útlendingalögin, sem þessi málaflokkur fylgir, voru samin 2016 af skýjaglópum,  sem ekki vissu,  hvað þeir voru að gera,  og  líklega hefur engan órað fyrir afleiðingunum.Í hópi þessara innflytjenda er margt heiðarlegt og duglegt fólk,  en þarna eru líka svartir sauðir,  sem oflesta hér lögreglu,  dómskerfi og fangelsi.  Sumir eru heilaþvegnir af ofstækisfullum trúarpredikurum,  og þeir eru hér eins og tifandi tímasprengjur,  eins og dæmin sanna annars staðar í Evrópu. Dómsmálaráðherra skilur vandann og vinnur að úrbótum,  en þinginu er illa treystandi í þessum efnum. Það er mikil bót í máli, að nýr, hæfileikaríkur forsætisráðherra er tekinn við völdum á Íslandi.  Hann hefur miklu skarpari sýn á aðalatriði mála en fyrirrennarinn, sem á mikla sök á reiðarekinu, sem Morgunblaðið gerði að umfjöllunarefni.  

"Nýjasta dæmið um stjórnleysið og reiðarekið er í Landsbankanum, þar sem stjórnendur fóru fram með offorsi gegn eigendastefnu og samningi við eigendur.  Bankastjórinn segir, að ríkisstjórninni og almenningi komi málið ekki við.  Bankinn sé ekki ríkisbanki, heldur sé hann banki að verulegu leyti í eigu ríkisins.  Af hverju leyfist þessu fólki að standa uppi í hárinu á fulltrúum fólksins í landinu ?  Það fólk hefur aldrei heyrt þennan bankastjóra nefndan.  Af hverju er þessum bankastjóra með derring gagnvart ríkisstjórninni ekki falið að leita sér starfa annars staðar ?  Það getur ekki verið vandamálið og eflaust slegizt um svona opinberan starfsmann. 

Hugmyndir um armslengd frá ráðherra voru ekki ætlaðar til þess að veita starfsmönnum ríkisfyrirtækja olnbogarými til þess að fara sínu fram.  Það er tímabært, að kjörnir fulltrúar, sem almenningur velur og hafnar reglulega og með beinum hætti, verði aftur í aðalhlutverki á sviði hins opinbera; þeirra á valdið að vera, og þeir þurfa að axla þá ábyrgð.  Almannavaldinu má ekki "útvista"." 

Hegðun bankastjórans og bankaráðsins (stjórnar bankans) er einsdæmi.  Bankastjórinn og ráðið virðast samspyrt um þá skoðun, að kaup Landsbankans á TM sé góð viðskiptahugmynd, en um ekki eru allir á einu máli um, að TM standi undir tilboðsupphæð Landsbankans.  Sú aðferðarfræði að binda tilboðið ekki skilyrði um samþykki Bankasýslunnar er forkastanleg í ljósi þess, að gjörningurinn stríðir augljóslega gegn eigandastefnu bankans, og handhafi langstærsta hlutarins í bankanum var búinn að funda með æðstu stjórnendum bankans um málið og láta í ljós skoðun sína.  

Nú er nýr ráðherra tekinn við fjármála- og efnahagsráðuneytinu og hans bíður að sýna viðbrögð eigandans við framferði bankaráðsins, sem tekur út yfir öll þjófamörk.  Eðlilegt er, að bankaráðið víki, og nýtt bankaráð leiti hófanna um ógildingu tilboðsins án verulegra fjárhagsútláta fyrir bankann og eiganda hans.  

Þetta mál er sýnidæmi um það, hversu óheppilegt það er, að ríkissjóður sé bankaeigandi, svo að ekki sé nú talað um þau ósköp, að hann eigi tryggingafélag vegna bankaeignarinnar.  Vonandi tekst á þessu kjörtímabili að losa um allt eignarhald ríkisins á Íslandsbanka og á næsta kjörtímabili að draga verulega úr eignarhaldi ríkisins í Landsbankanum.  Slíkir gjörningar munu vafalaust bæta stjórnarhættina í þessum fjármálastofnunum og gera ríkissjóði kleift að minnka skuldabyrði sína.  Slíkt gerir hann í stakk búinn að fjárfesta í þörfum og arðsömum innviðum vegna lægri skuldabyrði.  Hér þarf að taka fram, að Borgarlínan er algerlega óarðsöm.  Sala á ríkiseignum er síður en svo verðbólguhvetjandi, en lántökur ríkissjóðs eru það.  

 

 


Bloggfærslur 14. apríl 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband