Á tímabilinu 2017-2024 var hér við völd forsætisráðherra, sem fylgdi þeirri línu flokks síns, VG, og útibúsins, Landverndar, að búið sé að virkja nóg á Íslandi. Hvernig í ósköpunum geta stjórnmálamenn verið svo fullkomlega úr tengslum við samfélag sitt að gera þessa fráleitu fullyrðingu, sem er algerlega úr lausu lofti gripin, að sinni pólitísku möntru ? Þegar þeim er bent á mótsögnina, sem felst í því annars vegar að nota olíukatla í fiskimjölsverksmiðjum og hitaveitum í stað rafskautakatla, þar sem þeir eru fyrir hendi, og skerða orkuafhendingu ár eftir ár til stórnotenda, þá hrökkva þeir í gamla afturhaldsgírinn, að stjórnvöld geti bara lokað grónum verksmiðjum.
Sá er hængurinn á, að þetta geta stjórnvöld ekki gert, því að þessar verksmiðjur eru með lagalega skuldbindandi samninga um orkuafhendingu og margt fleira, sem stjórnvöld í réttarríki geta ekki rift á þeim grundvelli, að þau vilji ekki virkja meira. Þessir samningar eru heldur ekki að renna út. Hjá elztu verksmiðjunni gerist það t.d. ekki fyrr en árið 2035. Hugarfar þeirra, sem láta sér svona lagað um munn fara, er ekki hægt að kenna við lýðræðisríki, sem kennt er við lög og rétt frjálsra ríkja, heldur er hægt að kenna málflutning af þessu tagi við einræði og lögleysu. Ber það hugarfari þessa hóps ófagurt vitni, enda er málflutningurinn til skammar, hvernig sem á hann er litið.
Í Morgunblaðinu 16. apríl 2024 birtist neðan Staksteina athyglisverð frétt um orkumál undir fyrirsögninni:
"Virkjanakostir duga ekki til".
"Þeir virkjanakostir, sem eru í rammaáætlun munu ekki duga til að mæta orku- og aflþörf til framtíðar, en í virkjanaflokki áætlunarinnar eru 1299 MW tilgreind og í biðflokki 967 MW til viðbótar. Samtals gera þetta 2266 MW, en samkvæmt raforkuspá Landsnets mun [viðbótar - innsk. BJo] aflþörfin til ársins 2050 aukast í 3300 MW.
Þeir virkjanakostir, sem eru í nýtingar- og biðflokki rammaáætlunar, munu því í mesta lagi skila 2/3 þess afls, sem þarf til að mæta [viðbótar] eftirspurn framtíðarinnar. Í raforkuspánni [réttara er hér að nota hugtakið rafaflsspá] er gert ráð fyrir 135 % aukningu eftirspurnar frá því, sem nú er, til ársins 2050, og því liggi ljóst fyrir, að aukin orkuvinnsla [og uppsett aflgeta - innsk. BJo] verði nauðsynleg til að mæta eftirspurn.
Án vindorku og annarra breytilegra orkugjafa munu markmið stjórnvalda um orkuskipti og skuldbindingar í loftslagsmálum ekki nást."
Það er nú þegar búið að sólunda svo miklum tíma í aðgerðaleysi, að það er kýrskýrt, að markmið stjórnvalda fyrir árið 2030 í þessum efnum eru runnin út í sandinn með afl- og orkuskort og stórfelld útgjöld til kaupa á koltvíildiskvótum í mörg ár sem afleiðingu. Þetta er kostnaðurinn við að leyfa jaðarstjórnmálaflokki á borð við VG að vera í ríkisstjórn og að vera með meingallaða löggjöf um feril virkjanaumsókna, sem er hönnuð til að auðvelda sérvitringum að henda sandi í tannhjólin.
Orkuskipti munu einfaldlega aldrei ná fram að ganga með þessu framhaldi, en það er hins vegar ótímabært að fullyrða, að grípa verði til þess neyðarbrauðs, sem vindorkan er, til að fullnægja afl- og orkueftirspurn 2050. Allar rammaáætlanir hafa ekki enn séð dagsins ljós, og landsmenn kunna að þurfa að velja á milli vindorku og vatns- og/eða gufuorkuvera úr orkulindum, sem nú eru í s.k. verndarflokki. Í stuttu máli eru vindknúnu rafalarnir tiltölulega litlir og flæmast yfir víðáttumikil svæði með mjög áberandi hætti með miklum hávaða, raski og mengun, á meðan orkuvinnslugeta vatnsafls- og jarðgufuvirkjana er iðulega 50 sinnum meiri og vel hægt að fella þær að landslaginu, svo að lítið fari fyrir þeim. Vindorkuver eru þannig stílbrot á Íslandi m.v. þróun verkfræðilegra lausna á sviði virkjana.
"Þetta kemur m.a. fram í nýrri skýrslu Landsnets, þar sem fjallað er um mögulegan ábata af virkum raforkumarkaði."
Verður raforkumarkaður á Íslandi nokkurn tíma virkur sökum fákeppni og eins ríkisrekins risa á markaði ? Öll stærstu orkuvinnslufyrirtækin, nema eitt, eru alfarið í opinberri eigu. Orkuverðið ræðst af meðalvinnslukostnaði fyrirtækjanna. Mikið af virkum eignum er afskrifað, og stórnotendur borga megnið af heildarkostnaði raforkukerfisins. Hinn almenni notandi rafmagns og heits vatns nýtur góðs af þessu fyrirkomulagi í lágu orkuverði.
Dótturfélag Landsnets undirbýr uppboðsmarkað raforku á Íslandi. Þar mun verðið verða ákvarðað með hliðsjón af jaðarkostnaði á kWh, sem er allt önnur Ella en að ofan er lýst og yfirleitt miklu hærri. Það er vandséð, að slíkur uppboðsmarkaður geti þjónað íslenzkum neytendum, þótt orkufyrirtækin muni maka krókinn. Vegna samsetningar íslenzka raforkumarkaðarins verður þessi uppboðsmarkaður eins og örverpi í íslenzku umhverfi og á hingað ekki erindi, en Orkureglari Evrópusambandsins á Íslandi (Orkumálastjórinn) mun í krafti löggjafarinnar umdeildu, Orkupakka #3, hafa þrýst á um þessa stofnsetningu. Hún hlýtur að valda usla, þegar hún kemur til framkvæmdar.
"Þar segir enn fremur, að lokun eins eða fleiri stórnotenda raforku muni ekki duga til að mæta orkuþörf til framtíðar, en virkari þátttaka stórnotenda á raforkumarkaði gæti aftur á móti dregið úr virkjanaþörf. Virk þátttaka þeirra á markaði gæti aukið aflöryggi á hagkvæmari hátt en fjárfesting í afli til að mæta aflþörf."
Þetta er fótalaus draumsýn á Íslandi, þótt fyrirkomulagið tíðkist erlendis. Ástæður þessa munar eru aðallega þessar: Mest munar hér um álag álveranna, en þau eru viðkvæm fyrir álagsbreytingum, og þær eru þeim dýrkeyptar. Þau þyrftu þess vegna að fá mjög hátt verð fyrir hvert MW, sem þau láta af hendi, líklega hærra verð en nemur jaðarkostnaði á MW í íslenzka raforkukerfinu, og það er hærra en gildandi verð á markaðinum. Það eru auðvitað margs konar öðruvísi fyrirtæki á markaðinum, og þau kunna sum hver að vera fús til að láta afl af hendi tímabundið gegn gjaldi, sem rúmast á íslenzka markaðinum, en hversu snögglega þau geta brugðizt við, er annað mál. Þegar vanda hefur borið að höndum í raforkukerfi landsins vegna bilana, hafa álverin alltaf verið liðleg með álagslækkanir.
"Í skýrslunni kemur fram, að núverandi fyrirkomulag raforkuviðskipta sé úr sér gengið, valdi fákeppni og sé hindrun í vegi orkuskipta og skilvirks raforkukerfis, en sú sé niðurstaða starfshóps Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og Landsnets um orkuöryggi á heildsölumarkaði. Einungis 1/10 hluti raforku fer á virkan heildsölumarkað, og viðskipti milli raforkusala, annarra en Landsvirkjunar, séu nánast engin."
Þetta er nokkuð fálmkenndur texti og vitnar fremur um draumsýn en raunsætt mat á raunveruleikanum. Það er einmitt sérkenni íslenzka raforkumarkaðarins, að megnið af honum er ákvarðað með tvíhliða langtímasamningum, og það mun ekkert breytast, þótt uppboðsmarkaði verði hleypt hér af stokkunum. Það er ekki hægt að reka gríðarlega fjárfreka og orkukræfa starfsemi með orkuöryggi undir hælinn lagt frá degi til dags. Þessum sömu stóriðjusamningum er það að þakka, að almenningur á Íslandi býr við einna bezt raforkukjör í heimi, og að setja þá stöðu í uppnám með orkumarkaði að hætti Evrópusambandsins, þar sem eðli orkumarkaðarins er gjörólíkt okkar aðstæðum, er blinda og jaðrar við að leika sér að óþörfu með fjöregg þjóðarinnar.
Í lokin kemur kafli, sem geimvera gæti hafa samið, sem hvorki þekkir haus né sporð á íslenzka raforkukerfinu og er á engan hátt meðvituð um, að allt um lykjandi vandamál geirans er afl -og orkuskortur vegna virkjanastopps í anda afturhaldsins:
"Núverandi fyrirkomulag skapi aðgangshindranir fyrir nýja aðila og standi í vegi nýsköpunar. Virkari raforkumarkaður skapi aftur á móti tækifæri fyrir nýja aðila til þess að koma inn á markaðinn sem og fyrir þá, sem fyrir eru, til að virkja nýja tekjustrauma með því að veita nýjar tegundir þjónustu. Hann muni og leiða til nýrra og hagkvæmari lausna."
Þetta er fagurgali, girnilegar umbúðir utan um ekki neitt. Helzt virðist þetta vera áróður fyrir innleiðingu spákaupmennsku með orkuna, einhvers konar krambúðarhugsjón, sem ekki mun bæta neinni orku inn á kerfið. Nær væri að gera tillögur til stjórnvalda um einföldun leyfisveitingaferlis fyrir nýjar hefðbundnar virkjanir og stofnlínulagnir á milli landshluta. Það er ekki fjarri því að fullyrða megi, að ástand orkumála landsmanna sé til skammar. Nú á sér stað stórfelld olíubrennsla víða um land vegna raforkuskorts. Þá er réttilega borið við vatnsskorti í miðlunarlónum, en ástæða hans er ekki einvörðungu óvenju lítið innrennsli, heldur í vaxandi mæli mikið álag á kerfið, sem útheimtir mikið útrennsli. Sýnidæmi um þetta er, að væri nú búið að fullvirkja Neðri-Þjórsá, þá þyrfti enga raforkuskerðingu á vesturhluta landsins, og sú á austurhluta landsins yrði mun minni að því gefnu, að ný 220 kV Byggðalína væri komin í gagnið.