27.1.2010 | 20:22
Á hringsóli
Ríkisstjórninni verður allt að vandamáli, hún fer í hringi sem villuráfandi sé í þoku. Stefnumörkun er engin af viti og vinnubrögðin afleit. Skárra væri að hafa Mikka mús sem forsætisráðherra og Ragnar Reykás sem fjármálaráðherra.
Einkavæðing bankanna í fyrra var hneyksli. Allt það ferli var fyrir luktum dyrum, og fátt er enn vitað um, hverjir eiga bankana. Stjórnarflokkarnir núverandi gagnrýndu mjög einkavæðinguna upp úr aldamótunum síðustu, en frá sjónarmiði lýðræðis og opinnar stjórnsýslu var það ferli hrein hátíð hjá seinni einkavæðingunni, og stjórnendur bankanna eru hinir sömu í boði ríkisstjórnarinnar með fáeinum undantekningum.
Bankakreppan hefur þess vegna tekið á sig nýja mynd, vegna þess að ríkisstjórnin gengur aldrei hreint til verks. Gríðarleg mismunum á sér stað í atvinnulífinu, þar sem fyrirtæki í gjörgæzlu bankanna keppa við önnur, sem enn eru sjálfstæð, a.m.k. að nafninu til.
Ríkisstjórnin hefur sagt aðalatvinnuvegi þjóðarinnar, sjávarútveginum, stríð á hendur. Þegar fimbulfamb kjaftaska og stjórnmálalegra púðurkerlinga hefur verið hreinsað úr umræðunni um fyrningu aflaheimilda, stendur eftir grímulaust eignarnám ríkisins á útgerðunum, sem minnir á eignarnám böðulsins,Jósefs Djúgaswilis Stalíns, Kremlarbónda, á fyrirtækjum og bújörðum Rússlands, Úkraínu og fleiri landa á sinni tíð.
Málið snýst hér um það að flytja aflaheimildarnar með valdboði úr einkaeign og í hendur stjórnmálamanna, sem síðan eiga að endurúthluta þeim. Þetta er eins ógæfuleg ráðstöfun og hugsazt getur. Hún er ólögleg og brýtur gegn eignarréttarákvæðum Stjórnarskráar, enda veit ríkisstjórnin ekki, hvernig hún á að framkvæma þessa óláns fyrningu. Rikisstjórnin má skerða og auka heildaraflaheimildir með vísindalegum stuðningi Hafrannsóknarstofnunar í nafni þeirrar greinar laganna um fiskveiðistjórnun, sem kveður á um þjóðareign aflaheimilda, en hún hefur ekki lagaheimild til að taka kvótaeign af einum eiganda og fá hana öðrum. Ríkisstjórnin veit hvorki í þennan heim né annan, en þó hafa vinstri flokkarnir ekki gleymt því, að þeir ætluðu að koma höggi á útgerðina. Það mun þó sannast hér sem endranær, að skamma stund verður hönd höggi fegin. Þegar efnahagslíf landsins er í molum, er þessi heimskulegi hernaður gegn atvinnuréttindum fyrirtækja í sjávarútvegi algerlega óafsakanlegur og brottrekstrarsök úr Stjórnarráðinu.
Það er misskilningur, að íslenzkur sjávarútvegur hafi fengið gríðarlega forgjöf frá ríkinu á kostnað annarrar atvinnustarfsemi í landinu, og þess vegna hafi myndazt svo nefnd auðlindarenta í útgerðarfélögunum, sem almenningur í landinu eigi siðferðilegan rétt á, að ríkið geri upptækan. Íslenzkur sjávarútvegur stendur í harðvítugri samkeppni á erlendum mörkuðum við ríkisstyrktan sjávarútveg, aðallega í Evrópu og þá einkum ESB. Sá fyrr nefndi ræður ekki markaðsverðinu og verður að selja framleiðslu sína á því verði, sem býðst. Stundum græðir hann og stundum tapar hann. Með því að taka aflaheimildir eignarnámi er verið að kippa gjörsamlega fótunum undan íslenzkum sjávarútvegi í samkeppninni á erlendum mörkuðum. Kemur þá að því, að sameignarsinnar stjórnarflokkanna taki bújarðir landsins eignarnámi, þegar skortur verður á landrými ?
Nú hefur sú bábilja ríkisstjórnarinnar, að á Íslandi vilji enginn fjárfesta vegna óuppgerðra deilumála við Breta og Hollendinga, verið afsönnuð. Rio Tinto Alcan hefur boðað umtalsverðar fjárfestingar í Straumsvík til að treysta starfsemi sína þar í sessi. Fyrirtækið er auk þess með vandaða hagkvæmnikönnun í gangi á því að fjárfesta enn frekar með viðamiklum breytingum á framleiðslutækjunum til að auka framleiðsluna eins og kostur er með því að beita nútímatækni til hins ýtrasta við hönnun og framleiðslu.
Vinstri flokkarnir hafa aldrei verið hrifnir af starfseminni, sem fram fer í Straumsvík, enda er þar um einkaframtak að ræða að hálfu erlends fyrirtækis, sem er eitur í beinum vinstri sinnaðra stjórnmálamanna. Er skemmst að minnast, hvernig Samfylking og vinstri-grænir lögðu stein í götu nýrrar verksmiðju í Straumsvík árið 2007. Þeir komust lengi vel upp með, að þeirra stefna væri að "fá eitthvað annað", en nú sést berlega, að sá keisari er ekki í neinu; eitthvað annað í draumórum vinstra fólks er annað hvort ekki til eða tóm vitleysa frá atvinnulegu og fjármálalegu sjónarmiði. Gagnrýnin um dýr störf í áliðnaði er óskiljanleg í ljósi þess, að erlend fjárfesting einkaframtaks stendur að baki þeim störfum, mikil fjárfesting veldur mikilli framleiðni, sem er grundvöllur góðra launa, og hár kostnaður hvers starfs eykur hagsmuni eigandans af stöðugleika og veitir þar með meira starfsöryggi. Hver vill hlaupa frá dýrri og arðsamri fjárfestingu ?
Fyrirbrigðið, Vinstri hreyfingin grænt framboð, hélt flokksráðsfund fyrir skemmstu. Þar kom í ljós, að fundarmenn voru algerlega úti á þekju. Þeir ályktuðu gegn veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu af gömlum vana og gegn aðild að Evrópusambandinu, ESB, þó að þingflokkur þeirra hafi veitt umsókninni brautargengi á Alþingi 16. júlí 2009. Þá var hvorki minnzt á "Icesave" né á ríkisfjármálin í ályktun fundarins. Þetta eru þó lykilmál um afkomu almennings í landinu. Þetta hlýtur að vera met í stjórnmálalegri eyðimerkurgöngu.
Umsóknin um aðildarviðræður er andvana fæddur skrípaleikur, sem gefur Evrópuríkjunum kolröng skilaboð frá Íslandi. Ein ástæðan fyrir óbilgirni andstæðinganna í "Icesave" málinu er, að þeir töldu sig hafa kverkatak á Íslendingum, sem upp til hópa þráðu það heitast að komast með þeim í eina sæng. Rándýra og skaðlega umsókn á að draga hið snarasta til baka í ljósi stjórnmálastöðunnar.
Enn tröllríður hégiljan um, að íslenzk stjórnvöld hafi skuldbundið Ísland til að greiða hverjum innistæðueiganda á "Icesave" allt að kEUR 21,887, umræðunni hérlendis, þó að hún sé að verða margbreytilegri erlendis. Þann 23. janúar 2010 er eftirfarandi afturfótafyl á forsíðu Fréttablaðsins:
"Slíkar skuldbindingar er að finna í fjölda skjala, allt frá yfirlýsingum og fréttatilkynningum til samþykkta á Alþingi. Til dæmis segir í samþykkt Alþingis frá 5. desember 2008: "Ísland hefur heitið því að virða skuldbindingar á grundvelli innistæðutryggingakerfisins gagnvart öllum tryggðum innlánshöfum""
Hér er vitnað til tilskipunar ESB nr 94/19, sem leidd var í lög á Íslandi árið 1999. Þar er skilmerkilega tekið fram, að sú tilskipun feli alls ekki í sér ríkisábyrgð á skuldbindingum rétt stofnaðra innistæðutryggingarsjóða, sem séu sjálfseignarstofnanir, fjármagnaðar af bönkunum sjálfum. Hér skýtur Fréttablaðið sig í fótinn, og með þessu markinu er allur áróður stjórnarsinna í "Icesave" málinu brenndur. Stjórnvöld hafa enn ekki náð að skuldbinda landsmenn að þessu leyti. Forseti lýðveldisins bjargaði málinu fyrir horn 5. janúar 2010. Umræðan er að mörgu leyti enn mörkuð fávísi um staðreyndir málsins, undirlægjuhætti og heimóttarskap í garð útlendinga.
Með því að ganga að staðlausum kröfum Breta og Hollendinga, þar sem stjórnvöld reyna að klóra yfir eigin mistök og senda Íslendingum reikninginn, væri verið að kippa stoðunum gjörsamlega undan efnahagslífinu á Íslandi; lánshæfi þjóðar á gjaldþrotsbarmi er ekkert, gjaldmiðillinn ætti sér ekki viðreisnar von, og almenn fátækt héldi innreið sína á Íslandi á ný. Þetta er himinhrópandi óréttlæti gagnvart afkomendum okkar og kemur þess vegna ekki til nokkurra mála. Þá tökum við heldur skammvinna snerru nú en að búa við áratuga fátæktarhlekki útlendinga.
Þann 25. janúar 2010 birtist grein á bls. 17 í Morgunblaðinu eftir tvo allólíka, mikils metna lögfræðinga, Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttardómara, og Sigurð Líndal, prófessor, undir fyrirsögninni, "Réttur íslensku þjóðarinnar til meðferðar fyrir dómi". Þeir leggja til eftirfarandi opinbera kúvendingu við stjórnmálamenn allra flokka:
"Þeir ættu því að koma sér saman um að ríkisstjórn Íslands skuli nú tilkynna stjórnvöldum í Bretlandi og Hollandi, að umbeðin ríkisábyrgð á skuldbindingum Tryggingasjóðs innistæðueigenda verði ekki veitt nema að undangenginni niðurstöðu dómstóls, sem lögsögu hefur í málinu, um að ábyrgðin sé fyrir hendi."
Undir þessa tillögu er hægt að taka, og ekki verður betur séð en hún sé stjórnmálalega fyllilega raunhæf. Um lagalega haldbærni tillögunnar þarf vart að efast, þegar slíkir menn eiga í hlut. Með þessu er höggvið á þann Gordíonshnút, sem flækjufætur ríkisstjórnarinnar hafa reyrt þjóðina í.
Því miður er gæfusnauð óþurftarríkisstjórn ólíkleg til að samþykkja þennan kost. Þegar ríkisstjórnin kemur að vandamáli á hringsóli sínu, þá þæfir hún það, en leysir ekki vandann. Hún þæfist við, en hefur ekki leyst eitt einasta stórmál. Dómurinn um hana, ári eftir valdatöku, er óhjákvæmilega - ÓHÆF. Hún er verri en gagnslaus, hún þvælist fyrir og er einvörðungu til vandræða.
Afleiðingin er auðvitað sú, að á Íslandi er enginn hagvöxtur og ekki útlit fyrir hann. Eins og stöplaritið að ofan ber með sér, er vænzt 2 % hagvaxtar í ríku löndunum 2010 og 5 % hagvaxtar í þróunarríkjunum. Íslendingum ríður á að fá góðan hagvöxt strax nú árið 2010. Undir vinstri stjórn er slíkt algerlega borin von. Bezta lausnin á núverandi þjóðfélagsvanda og á efnahagsvandanum er að vinstri stjórnin leggi upp laupana og fari frá völdum, þannig að ungir, vel menntaðir og öflugir forystumenn borgaralegra afla geti hafið hér löngu tímabært endurreisnarstarf.
Margt bendir til, að ríkisstjórnin njóti ekki stuðnings meiri hluta Alþingis við helztu mál sín, hún hefur orðið fyrir áfalli með synjun forseta lýðveldisins á lagasetningu, þar sem hún lagði líf sitt undir, og miklar líkur eru á staðfestingu þjóðarinnar með miklum meirihluta á synjun forsetans.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Þjóð í pattstöðu! Íslendingar eru sjálfum sér verstir!
Hér skrifa menn að landið sé stjórnlaust barbarí. Er það furða? það er nefnilega þannig hjá venjulegu fólki, að á erfiðleika- og krísutímum þjappa þjóðir sér saman og standa við bakið á stjórnvöldum. Ekki á Íslandi! Það hlýtur að vekja fleiri en mig til umhugsunar, að Sjálfstæðismenn berjast einsog óðir hundar gegn Icesave-samkomulaginu með Framsóknarmönnum. Samt er það talsvert mikið betra en samkomulagið sem þeir voru með í undirbúningi. Meginatriði þess undirbúnings má lesa í “Memorandum of understanding” 11/10 ‘08, sem Árni Matthíasson skrifaði undir með samþykki þáverandi ríkisstjórnar. Drögin, þó minnisblað sé, segja klárlega hvað var í undirbúningi. Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn hafa blásið hér til ófriðar gegn þessum samningi, sem þeir þó unnu að í sumar, en hlupu svo frá! Indefence-hópur Framsóknarflokksins hefur tekist að tromma upp ófriðinn gegn ríkisstjórninni, sem kosin var af meirihluta þjóðarinnar síðastliðið vor. Íslendingar standa ekki saman í erfiðleikunum, hér stofna menn til ófriðar í nafni þjóðarinnar. Undarlegur andskoti. Takist X-D og Framsókn að koma stjórninni frá munu þeir ganga frá Icesave málinu með síst betri niðurstöðu, það er ljóst! Við Íslendingar þurfa ekki óvini. Við erum okkar versti óvinur! Er þjóðin búin að gleyma, hver stefna stjórnarandstöðuflokkanna er? Stefnan sem leiddi þjóðina fram af bjargbrúninni! Stefnan sem leiddi til hrunsins? Kannski er það stefnan sem þjóðin vill að þjóðin fylgi. Skv frjálshyggju hrunflokkanna er eina leiðin útúr kreppu að skera niður, aðeins að skera niður. Skera allt niður við trog. Má benda á málflutning fulltrúa Framsóknar í Seðlabankanum, skoðanabróður Sigmundar. “Ekki taka nein lán, skera niður, skera niður.” Engar fjárfestingar og engin uppbygging! Stjórnarandstaðan hefur nú komið stefnu sinni á í landinu með ófriðarfagnaði sínum. Meðan Icesave-málið er óafgreitt verður hér engin uppbygging og engar fjárfestingar. Aðeins meiri niðurskurður. Menn mega mín vegna kalla staðreyndir hræðsluáróður. þannig er það bara! Hér stofna menn til ófriðarfagnaðar til að svala valdafíkn sinni. Sundra þjóðinni, ekki með hagsmuni þjóðarinnar í huga. Nei, aðeins til að svala valdafíkn sinni. Meðan þjóðir þjappa sér saman á erfiðleikatímum, þá blása Íslendingar til innbyrðis ófriðar og bræðravíga. Merkilegur andskoti! En kannski eiga Íslendingar ekki betra skilið!
Auðun Gíslason, 28.1.2010 kl. 18:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.