25.3.2010 | 20:44
Biðin mikla
Þeir, sem ferðazt hafa um suðræn lönd, hafa upplifað hægagang tímans þar og biðina, eftir að eitthvað gerist. Karlpeningurinn þar situr, reykir og malar á meðan kvenfólkið vappar um og/eða puðar. Einkennandi er þó, að samfélagið virðist standa í stað eða vera að bíða. Eftir hverju það er að bíða, áttar ferðamaður að norðan sig aldrei á.
Svipað á sér nú stað með lungann úr íslenzka þjóðfélaginu. Það er að bíða eftir vitrænni leiðsögn. Samtök atvinnulífsins og nú jafnvel ASÍ hafa gjörsamlega gefizt upp á þessari bið, eftir að ríkisstjórnin rumski. Það mun hins vegar aldrei gerast. Ríkisstjórnin er í heljargreipum sérvizku og fordóma gagnvart atvinnulífinu. Hún setur sig á háan hest og þykist þess umkomin að ákveða fyrir atvinnulífið, hvað má framkvæma og hvað ekki. Ef það er ekki opinbert eignarhald og rekstur, þá er því fundið allt til foráttu. Afturhald og fordómar ríkisstjórnarinnar eru fyrir neðan allar skriður. Þeir eru gróft brot á atvinnufrelsi og jafnrétti til atvinnurekstrar og skaða efnahag almennings.
Ráðherrana skortir flesta getu til að stjórna. Sumir þeirra eru gerðir afturreka af samráðherrum með það, sem þeir sömdu um við hagsmunaaðila. Umboðsleysi og vantraust einkennir vinnubrögðin. Af öllu þessu leiðir, að ríkisstjórnin sem heild, og forsætisráðherra sérstaklega, er rúin trausti innanlands sem utan. Þvílíkir dragbítar á framfarir landsins hafa ekki vélað um málefni íslenzku þjóðarinnar, frá því að Skúli, fógeti, Magnússon, taldi rentukammerið á að fjárfesta í "Innréttingunum", sem voru þeirra tíma iðnvæðing, og er mál, að linni.
Forystukreppa hrjáir þjóðina. Eftir "sunami" Hrunsins skolaði til valda naflaskoðurum og nöldrurum af verstu gerð, sem aldrei hafa sett fram framfaravænlega framtíðarsýn, heldur verið límdir við baksýnisspegilinn og verið fulltrúar stöðnunar og afturhalds. Fólk án grasrótarsambands finnur framkvæmdum allt til foráttu og ber fyrir sig náttúruvernd með sefasýkislegum hætti án nokkurrar haldbærrar röksemdafærslu. Upp á þessa hörmung er ekki hægt að horfa lengur.
Segja má, að núverandi stjórnarflokkar séu hrein eyðimörk nýrra hugmynda. Það fáa, sem þaðan kemur, er afturúrkreistingur úreltrar hugmyndafræði. Að auki er þessum vesalings vinstri mönnum með öllu fyrirmunað að leiða nokkurt mál til lykta. Allt þetta er nú að verða lýðum ljóst og ekki seinna vænna. Við þessar aðstæður verða borgaraleg öfl að hysja upp um sig brækurnar og blása til sóknar á hugmyndafræðilegum grunni.
Heiðarlegt markaðshagkerfi með hæfilegu opinberu aðhaldi á að marka sóknina til bættra kjara. Dr Ludwig Erhard, efnahagsmálaráðherra og síðar kanzlari, afnam á einni nóttu öll markaðsleg höft í Sambandslýðveldinu Þýzkalandi og upprætti þannig á svipstundu allt svartamarkaðsbrask í Vestur-Þýzkalandi, sem hafði verið landlægt frá lokum styrjaldarinnar 7. maí 1945. Daginn eftir gekk á fund hans yfirmaður hernámsliðs Bandaríkjamanna, ávarpaði Erhard og sagði: Herra efnahagsmálaráðherra; ráðgjafar mínir tjá mér, að ráðstafanir yðar í efnahagsmálum muni leiða til öngþveitis í öllu Sambandslýðveldinu. Þá svaraði Dr Erhard: Herra yfirhershöfðingi; ég undrast ekki þessi ummæli. Þetta er nákvæmlega það, sem ráðgjafar mínir tjá mér.
Það er ráðsmennska af þessu tagi, sem vantar hér á Íslandi. Forystumenn með þekkingu og þor til að taka djarfar ákvarðanir, sem eru fallnar til að brjótast út úr þeim vítahring, sem Hrunið hefur leitt yfir okkur og sem vinstri stjórnin hefur magnað afleiðingarnar af. Til að rjúfa þennan vítahring þarf að:
- afnema öll höft á hagkerfinu
- afnema skrifræðishindranir fyrir erlendar fjárfestingar
- ýta undir nýsköpun fyrirtækja með lækkun tryggingargjalds og lækkun skattheimtu af hagnaði fyrirtækja
- ýta undir frumkvæði og bætt skattskil með afnámi þrepaskipts tekjuskatts á einstaklinga
- endurskoða peningamálastefnu Seðlabankans með róttækum hætti og setja honum markmið um hámörkun hagvaxtar í landinu næstu 10 árin
- hlutverk Seðlabankans verði m.a. að girða fyrir sveiflur af völdum eignabóla o.þ.h., sem leiða til mikilla yfirskota og undirskota í hagkerfinu
- fara að dæmi Þjóðverja, er ætla að færa í lög hjá sér miklar skorður við skuldasöfnun og hallarekstri hins opinbera
- færa hlutdeild ríkisrekstrar niður í 30 % af VLF á 5 árum, þó að hlutfall ríkisútgjalda verði hærra (útboð verka)
- halda rekstri ríkissjóðs innan fjárlaga 2010 og eyða hallanum á árunum 2011-2012, enda verði hagvöxtur þá hafinn
- erlendar skuldir ríkissjóðs, sem samkvæmt nýlegum tíðindum jafngilda aðeins fimmtungi VLF eða um 300 milljörðum króna, verði greiddar niður á 5-10 árum, háð afkomu þjóðarbús
Gangi ofangreint eftir, mun íslenzka krónan hafa tilhneigingu til að vaxa að verðgildi að nýju. Það á þess vegna að verða unnt fyrir Seðlabankann að halda vöxtunum lágum í þágu markmiðsins um hámörkun hagvaxtar. Þegar líður að því, að hámörkun afkastagetu þjóðfélagsins verði náð, þ.e. allar vinnufúsar hendur hafa fengið vinnu, þarf að draga úr peningamagni í umferð með fjárbindingum af ýmsu tagi og einhverjum vaxtahækunum til að múlbinda verðbólguna. Þá verður að takmarka innstreymi gjaldeyris með skattlagningu til að takmarka hækkun gengis um of. Allt verður þetta hlutverk Seðlabankans.
Seðlabanka og Fjármálaeftirlit á að sameina að nýju og veita Seðlabankanum heimildir til raunverulegs eftirlits og viðurlaga gagnvart fjármálageiranum. Seðlabankinn fái svipað sjálfstæði gagnvart stjórnmálamönnum og "Die Bundesbank" og Evrópubankinn. Aðgreina ber hefðbundna bankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi. Hagkerfið á að verða framleiðsludrifið af náttúruauðaævum landsins til sjávar og sveita. Að beizla 40 TWh/a til viðbótar eða að 2,5 falda núverandi virkjað afl á ekki að tvínóna við. Með núverandi tæknistigi er unnt að gera þetta þannig, að vel falli að umhverfinu, ef vandað er til hönnunar. Allflestar íslenzkar virkjanir bera hönnuðum sínum, framkvæmdaaðilum og eigendum fagurt vitni.
Umræður hafa spunnizt af mikilli vanþekkingu og þröngsýni um orkuverð til stórkaupenda. Er þar að ósekju gert afar lítið úr þeim, sem sömdu um orkuverðið fyrir hönd virkjanafyrirtækjanna. Það er auðvelt að sýna fram á, að þessir langtímasamningar hafa og munu greiða upp virkjanakostnaðinn á skömmum tíma m.v. endingartíma virkjananna. Þá er einnig auðvelt að sýna fram á (og verður gert), að mun hagkvæmara er, þegar allt er tíundað, að nýta orkuna innanlands en að senda hana úr landi.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.