Skemmdarverkastarfsemi

Engu er líkara en heilbrigðisráðherra vinstri-grænna leggi læknastéttina íslenzku í einelti.  Síðustu fréttir herma reyndar, að embættismenn undir hennar stjórn muni ekki allir kemba hærurnar í embætti.  

Deilt er harkalega um kjör lækna á Landsspítalanum, þrengt er stórlega að sérfræðilæknum fjárhagslega, læknum er gert ókleift að stofna til einkasjúkrahúsa, t.d. á Miðnesheiði til að flytja inn sjúklinga, og jaðarskattar eru hækkaðir stórlega, sem auðvitað bitnar mjög á læknastéttinni. Þetta er dæmigert fyrir stefnu vinstri-grænna, sem snýst um að "jafna" lífskjör að geðþótta valdsmanna með valdboði, þó að það jafngildi tortímingu samfélagsins, eins og við höfum þekkt það, og fátækt flestra.  Vinstri-grænir viðurkenna ekki, að launamunur knýr þjóðfélagið áfram og einstaklingana til dáða.  Sumir læra aldrei neitt.

Þessar aðfarir gegn læknastéttinni eru ekki tilviljun, heldur, eins og áður segir, bein afleiðing af hugmyndafræði vinstri-grænna um, að enginn skuli fá að njóta sín og alls ekki að njóta ávaxta erfiðis síns. 

Um er að ræða eitthvert mest menntaða fólk þjóðarinnar.  Eitt af beztu einkennum hennar hefur einmitt komið fram í því, að sprottið hafa fram úr hennar ranni margir frábærir læknar, sem starfa ýmist innanlands eða utan.  Sýnir það góðan efnivið í þjóðinni, hversu margir synir hennar og dætur hafa staðizt hina mestu áraun, sem erfiðasta háskólanám er. 

Stefna núverandi stjórnvalda hrekur læknana unnvörpum úr landi, sem er þjóðinni hræðileg blóðtaka, og veldur því einnig, að færri sækja sér nám í læknisfræði.  Þetta endar þá með félagshyggjufeigð, sem lýsa má sem "dönsku veikinni", þar sem skurðlæknar koma flestir frá Indlandi, því að dönsk ungmenni sjá sér engan hag í að leggja fyrir sig háskólanám.  Þeim er refsað með háum jaðarsköttum þannig, að lífslaun þeirra verða lægri en félaga þeirra, sem leggja fyrir sig mun styttra nám.  

Viljum við þessa þróun mála á Íslandi ?  Það mundi þýða algera sóun hæfileika. Nei, hvorki þessa né aðra flónsku vinstri-grænna viljum við hafa í þessu landi, og ofan af henni skal verða undið, þó að seinna verði.  Við viljum með engu móti elda grátt silfur út af kjaramálum við læknastéttina.  Til þess er hún þjóðinni of dýrmæt, og hún þekkir líka sinn vitjunartíma.   Læknar eiga að hafa svo góð kjör, að þeir geti unað glaðir við sitt hérlendis. 

Hins vegar er ljóst, að draga þarf úr kostnaði hins opinbera vegna heilbrigðisgeirans.  Lausnir í þá veru eru ekki fólgnar í stórhættulegum inngripum stjórnmálamanna í starfsemi sjúkrahúsanna, heldur felast lausnirnar í að færa umtalsverðan hluta þjónustunnar, e.t.v. fjórðung, til einkaframtaksins í heilbrigðisgeiranum.  Sjálfseignarstofnanir, einkaframtak og opinber rekstur með valfrelsi fyrir fólkið og samanburð á milli rekstrareininga og rekstrarforma er það, sem koma skal.  

Athygliverðar eru í þessu sambandi tölur frá Bandaríkjunum (BNA) og Sviss.  Í BNA fara 17 % af VLF til heilbrigðisþjónustu.  Aðeins 12 % þeirra útgjalda koma beint úr vasa notendaÍ Sviss fara 11 % af VLF til heilbrigðismála, en þar af koma 31 % beint úr vasa notenda.  Með því að mynda markað fyrir heilbrigðisþjónustu, eykst kostnaðarvitund seljenda og kaupenda og samkeppni myndast, sem lækkar kostnaðinn. 

Það má jafna áhrifin á afkomu sjúklinganna með ýmsu móti, t.d. með því að hafa lækniskostnað frádráttarbæran til skatts og með aðkomu lífeyrissjóða og/eða sveitarsjóða, þar sem tekjur sjúklinga eru undir skattleysismörkum.  Fyrst er að skapa fjölbreytileg rekstrarform og fjölbreytilega þjónustu, sem stendur jafnfætis, hafi hún hlotið (fjölþjóðlega) viðurkenningu.  Hér er átt við margháttaðar lækningaaðferðir, smáskammtalækningar, grasalækningar, nálastungur o.fl. ásamt skólalæknisfræðinni.  Leyfum þúsund blómum að blómstra.  

Fimmvörðuháls gosNú hefur verið lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um að veita Landsvirkjun heimild til að virkja Neðri-Þjórsá.  Þá bregður svo við, að umhverfisráðherra umhverfist, hrín hún sem stungin gylta og hefur upp sinn hefðbundna öfugmælakveðskap.  Eru flutningsmanni frumvarpsins jafnvel á brýn borin ólýðræðisleg vinnubrögð.  Hvað er lýðræðislegra í þessu landi en þingmenn láti reyna á vilja meirihluta Alþingis ?  Allir, sem vita vilja, vita, að nú væri virkjanaundirbúningur hafinn, ef afturhaldið lægi ekki á fleti fyrir í ríkisstjórn, þvældist þar fyrir atvinnuuppbyggingu og léki í því augnamiði alla þá tafaleiki, sem því dettur í hug.  Ekki þorir afturhaldið samt að koma til dyranna, eins og það er klætt, með stefnuyfirlýsingu um, að ekkert verði virkjað og ekkert framkvæmt, nema í nafni ríkisins.  Þannig horfa málin samt við. Nú verður sótt að afturhaldinu, og þess vegna heyrast nú skessudrunur úr umhverfishellinum.  Hvernig, sem sú atlaga fer, er alveg öruggt, að þursa þá og skessur, er nú, illu heilli, véla um landsmálin, fyrir slysni, mun fyrr eða síðar daga uppi, og í kjölfarið mun viðreisnin hefjast af krafti, og þá verða engin vettlingatök viðhöfð.   

Í dymbilvikunni reit Svavar nokkur Gestsson, sem titlar sig fyrrverandi heilbrigðisráðherra, greinarstúf í eitt dagblaðanna.  Þar varð honum tíðrætt um hjarðhegðun.  Þeim, sem ekki reiða vitið í þverpokum, er trúandi til að skynja ekki, hvenær þeir kasta steinum úr glerhúsi.  Enginn man lengur eftir Svavari, heilbrigðisráðherra, en sagan mun geyma nafn téðs Svavars fyrir þá sök, að enginn maður hefur nokkru sinni komið heim frá útlöndum með jafnhraksmánarlegan og þjóðhættulegan samning við útlendinga og téður fyrrverandi heilbrigðisráðherra, enda nennti hann ekki að hanga yfir samningaþófinu að eigin sögn.  Heim kominn ætlaði hann að "manipúlera" þingmenn eða að þvinga þá með haldlitlum og takmörkuðum upplýsingum ásamt hálfsannleik og tímaþvingun til að samþykkja þrælahelsi á íslenzka skattborgara um langa framtíð. 

Glæsilegur árangur, beztu, fáanlegu samningar; þetta voru upphrópanir Steingríms og Svavars yfir þingheim.  Þvílík lágkúra !  Hvers konar hegðun var hér verið að reyna að framkalla hjá þingheimi ?  "Hjarðhegðun".  Þingheimur sá við hjarðsveininum og fjárhirðinum, og nú liggur téður Svavar óbættur hjá garði, en sagan mun dæma hann með miskunnarlausum hætti. 

fimmvörðuháls gos 1


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ef læknar flýja úr landi er það nú því miður vegna þeirra hörmunga-svika sem stjórnvöld síðustu áratuga hafa svikið sína landsmenn um, að vinna í þjóðmálunum fyrir almenning Íslands. En það er ótrúlegt hversu siðblindir þeir eru að sjá ekki bjálkann í eigin auga, og gagnrýna flísina í auga náungans. Mkv.Anna

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 4.4.2010 kl. 02:02

2 Smámynd: Sóldís Fjóla Karlsdóttir

 Ég hef megna óbeit á þessu vinstra liði

Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 4.4.2010 kl. 12:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband