Vanmáttur, firring og vanræksla

Á síðustu misserum hefur heimsbyggðin upplifað vanmátt nútíma tækni, sem engan óraði fyrir.  Síðla árs 2008 riðaði fjármálakerfi heimsins til falls vegna svo nefndra skuldavafninga, sem voru ein af fjölmörgum fjármálaafurðum, sem reistar voru á viðamiklum tölfræðilíkönum, sem fengið höfðu gæðastimpil háskólasamfélagsins og virtra fjármálastofnana.  Þrátt fyrir, að fjármálaheimurinn og mikill hluti fjármálafræðiheimsins, viðskiptalífsins og obbi stjórnmálamanna virtist trúa því, að hér hefði mannshuganum loksins tekizt að þróa virkilega gullhænu, reyndust staðreyndir vera allt annars eðlis.  Hér óð uppi gegndarlaus loddaraháttur, undirferli og annars konar sviksemi knúin áfram af siðlausri græðgi.  Á Íslandi var unnt að rita 3000 blaðsíður um málefnið, en ágætur Englendingur, sem hér var nýlega í heimsókn, sagði, að fyrirbrigðinu mætti lýsa með tveimur orðum:"Græðgi og heimska".  Þetta er hverju orði sannara. 

Þetta vandamál þarfnast raunverulegrar rótargreiningar, t.d. svo nefndrar "Tap Root Analysis", en það eru engin teikn á lofti um, að beztu þekktu aðferðafræði verði beitt til að skapa nýtt umhverfi fyrir fjármálageirann.  Segja má, að hann hafi hvarvetna komizt upp með svikamillu.  Dæmigert er, að rætur vandans lágu í hálfopinberum húsnæðislánasjóðum í BNA.  Eftirlit og endurskoðun var í skötulíki, þó að ekki hafi nú skort reglufarganið.  Það var sniðgengið, enda vonlaus aðferð.  Allt virðist falt.

Það er þó í raun gjörsamlega ótækt fyrir almenning að búa við þann óstöðugleika og áhættu, sem ríkir.  Ríkisreknum seðlabönkum heimsins hefur einfaldlega tekizt einstaklega illa upp við peningamálastjórnina.  E.t.v. ætti að einkavæða þessa starfsemi, sem peningaprentun er ? 

Það er t.d. ljóst, að tilraunin með evruna hefur mistekizt.  Athygli fjármálaheimsins hefur ekki enn beinst að stærsta vandamálinu, sem er Ítalía.  Ríkisskuldir Ítala nema 115 % af VLF, og er þetta hlutfall næst hæst á evrusvæðinu á eftir því gríska, en hagkerfi Ítala er margfalt stærra.  Ríkisbúskapurinn þar nam 53 % af VLF 2009, spilling er landlæg og ríkisstjórnin leggur ekki í niðurskurð fremur en sú íslenzka.  Ítalska ríkið hefur flotið á því, að skuldir þess eru að mestu fjármagnaðar með innlendum sparnaði. 

Á Íslandi hanga lömuð stjórnvöld yfir engu og munu ekkert gera annað en að safna erlendum skuldum þar til landið kemst á vonarvöl.  Þau verða þess vegna að víkja.  Hagvöxtur er enginn og atvinnuleysið vex enn.  Eymdarástand er bein afleiðing aulaháttar, þröngsýni og fordóma núverandi stjórnvalda.  Vendipunkti hefði nú þegar verið náð, ef manndómur hefði verið fyrir hendi í Stjórnarráðinu.  Því virðist hvorki að heilsa á þingi né á meðal embættismanna.  Sannast þar, að heppilegast er, að frumkvæði athafnalífsins fái að njóta sín.  Frelsi þarf hins vegar að fylgja ábyrgð.  Það merkir, að menn skuli gjalda græðgi sinnar, heimsku, yfirsjóna og annarra mistaka, sem leitt hafa til almannatjóns. 

Nú í viku 15/2010 hafa fáheyrðir atburðir gerzt, sem varpa ljósi á veikleika nútíma tækni.  Nánast allt flug um Evrópu hefur stöðvazt vegna eldgoss á Íslandi.  Þetta hafði engum til hugar komið og er auðvitað óásættanlegt.  Allar samgöngur heillar heimsálfu fara úr skorðum vegna lítils eldgoss, af því að stöðvun flugs teppir allar aðrar samgönguleiðir.  Það er ekki nokkur leið að búa við slíkt ástand, sem sýnir, að hið tæknivædda samfélag stendur á brauðfótum.  Þetta kemur mörgum í opna skjöldu.  Þýðir þetta þá, að afturhvarf til náttúrunnar sé eina leiðin ?  Alls ekki.  Nú þarf að stoppa í götin og ekki að leggja eyrun við endalausum úrtölum afturhaldsafla fátæktarboðskaparins.   

Á Íslandi veldur gosið í Eyjafjallajökli miklum búsifjum.  Verst hefur það bitnað á bændum, búaliði og búsmala í grenndinni, en það kann að eiga eftir að leika aðra tæknivædda innviði þjóðfélagsins grátt.  Í þessu máli verður hins vegar ekki orða bundizt að láta í ljósi aðdáun á björgunarsveitum landsins, og kemur ekki annað til greina en að láta fé úr hendi rakna úr sameiginlegum sjóðum landsmanna, þó að björgulegri mættu vera, til styrktar björgunarsveitunum.  Þá er full ástæða fyrir orðunefnd að gera tillögu til forseta lýðveldisins um að sæma þá menn, sem björguðu Markarfljótsbrú, nokkrum bújörðum og búsmala á dögunum, riddarakrossi hinnar íslenzku Fálkaorðu. 

Það er alveg ljóst af viðbrögðum almennings, sem orðið hefur fyrir barðinu á náttúruhamförunum, að þar fara hinir beztu eðliskostir, sem kenndir hafa verið við Íslendinga frá fornu fari: heiðarleiki, dugnaður, hjálpsemi, þrautseigja og útsjónarsemi.

Að svo mæltu vill höfundur benda á stórkostlegt sjónarspil náttúrunnar, án undanfarandi umhverfismats, á myndasýningu, sem birtist með vefgrein þessari. 

    

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband