Rætur vandans

Nú hefur rannsóknarnefnd þingsins skilað af sér lærðri ritgerð um orsakir ófara þjóðfélagsins.  Ferill nefndar þessarar endurspeglar galla, sem hér eru landlægir, þ.e. vanhæfi og takmarkað tímaskyn.  Skilatími nefndarinnar var reyndar bundinn í lög.  Hafi þessum lögum verið breytt, hefur það farið fram hjá mörgum.  Annars fól dráttur á skilum til 12.04.2010 í sér lögbrot.  Þá voru á tímabili áhöld um hæfi eða vanhæfi eins nefndarmannsins vegna þess, sem sumum þóttu vera sleggjudómar í upphafi rannsóknarstarfs.  Einn nefndarmanna gegnir stöðu, sem fer með eins konar yfireftirlitshlutverk ríkisbáknsins.  Hvorki heyrðist hósti né stuna frá þessu embætti varðandi frammistöðu annarra eftirlitsstofnana með fjármálageiranum.  Auðvelt er að vera vitur eftir á.  

Í lögum um Umboðsmann Alþingis segir svo: "Ef umboðsmaður verður þess var, að meinbugir séu á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum, skal hann tilkynna það Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn."

Hér skal setja þá kenningu fram, að sökin á Hruninu og því, hvernig komið er málefnum landsins, liggi hjá Alþingi.      Alþingi setur leikreglurnar í þessu þjóðfélagi.  Þess vegna berast böndin að Alþingi og vinnubrögðum þess, þegar reynt er að grafast fyrir um rætur hins þjóðfélagslega skipbrots, sem hér hefur orðið.  Of margar brotalamir eru í lagasetningunni.  Dæmi um þetta eru Baugsmálin svo nefndu.  Dómstólar sáu sér ekki fært að verða við kröfum ákæruvaldsins.  Í ljósi seinni upplýsinga gefa þau málalok til kynna, að löggjöfin sé gölluð.  Seinagangurinn við rannsókn brotamála kann að stafa af lagaflækjum.  Engin hemja er, að ákærur skuli enn ekki hafa verið birtar og að enn starfi meintir sökudólgar í athafnalífinu.  Afsökunarbeiðni án iðrunar er ófullnægjandi.  Dómar verða að ganga, og lögbrjótar að taka út refsingu.

Gríðarlegt flóð reglna rekur á fjörur Alþingis frá Evrópusambandinu, ESB, sem heimtar, að þær séu leiddar í lög í aðildarlöndum Evrópska efnahagssvæðisins, EES.  Fullyrða má, að án aðildarinnar að EES hefði ekkert Hrun orðið.  Ástæðan er innleiðing fjórfrelsisins með EES, en án frjáls flæðis fjármagns hefði útrásin ekki tekið á sig þá sjúklegu mynd, sem raun varð á, og bankarnir hefðu ekki tútnað út í risavaxin skrímsli. Hér skal þó ei mæla með fjármagnshöftum; þvert á móti ber að afnema núverandi höft strax, en girða verður fyrir æxlismyndun, t.d. með því að skilja að starfsemi fjárfestingarbanka og innlánsstofnana.

Alþingi leiddi hér margt í lög að lítt athuguðu máli.  Til að girða fyrir þetta þarf að hægja á lagasetningarflóðinu og vanda betur til verka.  Vegna mikilvægis gæða lagasetningar fyrir landsmenn þarf Alþingi að koma sér upp lagastofnun, sem áhættugreinir fyrirmæli ESB, metur kosti og galla lagafrumvarpa og ráðleggur þinginu mótvægisaðgerðir til að draga úr hættu á slysum og annars konar neikvæðum afleiðingum lagasetningar.  Þá þarf að grisja lagafrumskóginn og hindra, að ný lög brjóti í bága við eldri lög. 

Í raun og veru má segja, að Umboðsmaður Alþingis hefði átt að gegna þessu hlutverki samkvæmt laganna hljóðan um embættið.  Það hefur hann augljóslega enga burði haft til að gera, eins og hrikalegir meinbugir á lagasetningu og starfsemi opinberra stofnana hafa leitt í ljós.  Vera kann, að heppilegra sé, að sérstök lagastofnun Alþingis hafi með höndum ráðgjöf til að bæta gæði lagasetningar, en Umbinn hafi eftirlit með framkvæmdavaldinu. 

AGS Nýlegt dæmi um embættisfærslu fjármálaráðherra hefði átt að framkalla miklu harðari viðbrögð Alþingis, sem hefði átt að draga ráðherrann til ábyrgðar fyrir afglöp í starfi.  Fjármálaráðherra sendi yfirlýsingu til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, AGS, sem túlka má sem yfirlýsingu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um það, að Íslendingar ætli að tryggja Bretum og Hollendingum greiðslur EUR 20 887 hvers innlánsreiknings með vöxtum.  Þetta gerir ráðherrann án nokkurrar lýðræðislegrar umræðu á vettvangi Alþingis, sem er eini aðilinn í landinu, sem skuldbundið getur íslenzka borgara til skattgreiðslna.  Jafnframt lætur ráðherrann eins og þjóðaratkvæðagreiðslan í marz 2010 hafi aldrei átt sér stað.

Hér er um að ræða fádæma valdhroka og valdníðslu að hálfu þessa þöggunarráðherra.  Það er hneyksli, að Alþingi skuli láta þetta viðgangast.  Alþingi verður að taka upp hanzkann fyrir þjóðina, sem tjáð hefur sig greinilega í þessu máli, en ráðherrann hunzar algerlega þann úrskurð.  Fyrir slíkt ber ráðherra að gjalda dýru verði.  Alþingi verður að reka af sér slyðruorðið og láta Umboðsmann Alþingis fara ofan í saumana á þessum gjörningi. 

Alþingi verður að standa betur í ístaðinu en það hefur gert.  Hrunið er hægt að skrifa á gjörðir og aðgerðaleysi þingsins.  Þess vegna er með eindæmum, að enn skuli sitja í ríkisstjórn sama fólk og sat í ríkisstjórn, er Hrunið varð.  Þetta fólk og fleira þar innanborðs er óhæft og ætti að sjá sóma sinn í að taka hatt sinn og staf. 

Stóra spurningin er hins vegar, hvernig hægt er að fá Alþingi til að sýna vígtennurnar.  Sennilega verður það bezt gert með því að gera þingmenn sjálfstæðari gagnvart stjórnmálaflokkunum.  Prófkjör og uppstillingar eru gróðrarstía spillingar.  Hvers vegna mega kjósendur ekki sjálfir velja úr hópi þeirra, sem bjóða vilja sig fram undir merkjum stjórnmálaflokkanna eða sjálfstætt ?  Til að einfalda þetta má hafa blandað kerfi.  Landslista stjórnmálaflokkanna,  og þeir, sem vilja, mættu einnig velja tiltekinn fjölda frambjóðenda úr sínu kjördæmi, þvert á stjórnmálaflokka.

Það verður með öllum ráðum að efla sjálfstæði Alþingis.  Til starfa þingsins verður að gera mjög háar gæðakröfur, því að velferð landsins veltur á störfum Alþingis.   

  

   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Er sammála flestu sem þú segir Bjarni, en minnir þó að skilatími nefndarinnar hafi verið síðasta haust.

Það má ekki heldur gleyma þeirri staðreynd að tilgangurinn með starfi nefndarinnar var að finna sannleikann, eins langt og það er hægt, og að útgáfa skýrslunnar yrði til að sameina þjóðina. Það er ekki að sjá að þetta hafi tekist. Kannski er ekki nefndarfólkinu um að kenna, það er eins og það fólk sem rætt er um í þessari blessaðri skýrslu sé fyrirmunað að sjá eigin sök en er duglegt við að benda á mistök annara. Þessi skýrsla hefur því valdið enn meiri misklíð í þjóðfélaginu.

Það góða við skýrsluna er þó að við almenningur höfum fengið staðfestingu á öllu ruglinu sem tíðkaðist, þó enginn nýr sannleikur hafi svo sem komið fram.

Það er hinsvegar öllu verra að sjá að sú stjórn sem nú situr er að vinna eftir því sem verst er talið í skýrslunni. Aðgerðarleysi, baktjaldamakk, spilling og sérhagsmunapólítík tröllríður öllu í stjórnarráðinu.

Meðan þingmenn ekki geta hagað sér eins og vitiborið fólk getur ekki orðið breyting á neinu hjá okkur, við munum fá á okkur annan brotsjó og þá er ekki víst að okkur takist að rétta við.

Gunnar Heiðarsson, 24.4.2010 kl. 23:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband