29.4.2010 | 19:50
Hernaður gegn landinu
Á þessu vefsetri hefur því verið haldið fram, að annað stjórni gjörðum núverandi umhverfisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, í meginmálum en umhyggja fyrir náttúrunni. Þar var vísað til einkennandi kennda vinstri-grænna, þ.e.a.s. haturs sameignarsinna á athafnalífinu og einkanlega á erlendum fjárfestum í íslenzku atvinnulífi. Til að girða fyrir hagvöxt í landinu, sem er eitur í beinum vinstri-grænna, er þvælzt fyrir allri mannvirkjagerð í landinu, sem beinist að nýtingu orkulindanna.
Þessi hraksmánarlega afstaða hefur nú komið á daginn. Umhverfisráðherra vinstri-grænna er lögzt í hernað gegn landinu. Vægilegar er vart hægt að taka til orða um þá ætlan hennar að fara í eiturefnaherferð til útrýmingar lúpínu og kerfils í yfir 400 m hæð yfir sjó. Eiturefnaherferð af þessu tagi á vegum íslenzka ríkisins er óþörf, kostnaðarsöm, stórlega ámælisverð og sennilega dæmd til að mistakast.
Hún jafngildir hættulegri mengun ósnortinnar náttúru, sem á endanum bitnar á íbúum landsins. Hún er forkastanleg í ljósi þeirra geigvænlegu heilsufarsáhrifa, sem slík eitrun umhverfisins hefur haft erlendis. Viðhorf umhverfisráðherra vitnar um eindæma þröngsýni og skort á faglegum verkferlum með viðeigandi áhættugreiningum. Fyrirætlun hennar snýst um óafturkræf náttúruspjöll og sóun skattfjár til að eitra fyrir skattborgarana og aðra.
Hvað hefur prófessor emeritus, Sigmundur Guðbjarnason, um þennan gæfusnauða málatilbúnað ofstækisins að segja ? Hann ritaði hugvekju í Morgunblaðið, föstudaginn 23.04.2010, undir fyrirsögninni, "Lúpína og skógarkerfill-eyðing með eitri eða aðrir valkostir ?"
"Þegar jurtirnar eru úðaðar með eitri, þá fer eitrið einnig á annan gróður og í jarðveginn. Þessi eitraði gróður verður nýttur af sauðfé, sem gengur laust á sumrin, og getur eitrið þannig fengið greiða leið í lömbin og fæðukeðju manna. Eitrið, sem fer á jörðina, hefur einnig áhrif á lífríki moldarinnar og fer jafnframt í grunnvatnið. ..... Áður en stríðið við illgresið er hafið, stríð sem gæti haft afdrifaríkar afleiðingar, væri heppilegt að kanna, hvort unnt er og hagkvæmt að vinna úr þeim verðmæt efni og gera slíka vinnslu arðbæra og atvinnuskapandi."
Mæli fyrrverandi háskólarektor manna heilastur. Hinn gifturýri ráðherra viðhefur oft frasann um, að náttúran verði að njóta vafans. Hér á sá frasi við betur en í annan tíma. Hún ætlar að ræna komandi kynslóðir þeim möguleika, sem prófessor emeritus nefnir, að nýta þessar tvær harðgerðu og meinhollu jurtir í yfir 400 m hæð yfir sjó til framleiðslu fæðubótarefna og grasalyfja. Gjörð hennar kann að reynast óafturkræft glappaskot.
Vinstri-grænir hafa hingað til verið þekktastir fyrir hernað sinn gegn fólkinu í landinu. Í ríkisstjórn hafa þeir lagt sig í líma við að reyra landsmenn í skuldafjötra fallins einkabanka, sem vinstri flokkarnir, af alræmdri skammsýni sinni og dómgreindarleysi ráðamanna þar á bæ, töldu nauðsynlegt til að ryðja landinu braut inn í Evrópusambandið, ESB. Jafnframt hafa vinstri-grænir framfylgt stefnu sinni um hærri skattheimtu af almenningi á vitlausasta tíma, sem hugsazt gat. Þar með kyrktu þeir efnahagsbata, sem lágt gengi krónunnar annars gat framkallað, juku atvinnuleysið, ollu verðbólguskoti og minnkuðu tekjustofna ríkissjóðs. Þá hafa vinstri-grænir þvælzt fyrir öllum meiri háttar erlendum fjárfestingum í landinu og þannig girt fyrir átak landsmanna út úr kreppunni með beggja skauta byr góðs hagvaxtar.
Það, sem hér hefur verið reifað, er ekki hægt að kalla öðru nafni en hernað sameignarsinna gegn fólkinu í landinu, og kemur þá hernaðurinn gegn landinu sjálfu til viðbótar. Gegn um allar gjörðir vinstri-grænna skín, að fólkið er til fyrir ríkið, og afkoma þess er aukaatriði, ef aðeins hlutdeild ríkisins af þjóðarbúskapnum vex. Hvert einasta upp talið atriði hér er dýrkeypt, og saman komin mynda þau þjóðhættulega ríkisstjórnarstefnu.
Gegn þessu munu Sjálfstæðismenn tefla grunngildum sínum, sem meitluð eru í óskráðan sáttmála íslenzka lýðveldisins. Þessi sáttmáli hefur verið hyrningarsteinn Sjálfstæðisflokksins, sem frá stofndægri sínu 25. maí 1929, er Frjálslyndi flokkurinn og Íhaldsflokkurinn voru sameinaðir undir forystu Jóns Þorlákssonar, landsverkfræðings, hefur verið flokkur allra stétta og flokkur sátta í samfélaginu.
Í stofnskrá Sjálfstæðisflokksins er því lýst yfir, að hann muni "... vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum."
Þetta grunnstef Sjálfstæðisflokksins mun nú ganga í endurnýjun lífdaganna. Þessi gunnfáni flokksins verður hins vegar aðeins borinn fram til sigurs af heiðarleika og ósérplægni. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga eftirfarandi orð fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, Ólafs Thors, sem sannir Sjálfstæðismenn geta gert að sínum:
"Ég lít þannig á, að það sé skylda hvers manns að berjast eftir getu sér og sínum til framdráttar. En getan verður alltaf að fylgja götu heiðarleikans."
Að mánuði liðnum verða haldnar sveitarstjórnarkosningar í landi hér. Þá fá kjósendur kost á að skjóta aðvörunarskoti framan baugs stjórnarflokkanna. Brýnast er nú fyrir íslenzka kjósendur að fá hjól atvinnulífsins til að snúast á nýjan leik. Núverandi ríkisstjórn hefur sýnt og sannað, að hún hefur til þess hvorki vit né vilja. Hér mun allt hjakka í sama fari doða og dáðleysis, ef óbreytt stjórnarstefna verður við lýði. Þar að auki er ljóst, að spilling, tækifærismennska og lýðskrum gegnsýrir stjórnarflokkana. Samfylkinguna skortir dug til að gera hreint fyrir sínum dyrum, og Vinstri-hreyfingin grænt framboð hefur svikið kjósendur sína í þjóðfrelsismálum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Heilbrigðismál, Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.