Leiðin til ánauðar

Um þessar mundir rennur fræg bók austurríska hagfræðingsins Friedrich von Hayek út eins og heitar lummur erlendis.  Í riti þessu, Leiðinni til ánauðar, er gerð skilmerkileg grein fyrir því, að miðstýring framleiðsluaflanna leiði til ófarnaðar í rekstri fyrirtækjanna og fátæktar almennings, en valddreifing og samkeppni einkaframtaks hins vegar hámarki sjálfbæra nýtingu atvinnutækja, skapi heilbrigðan hagvöxt og bæti almannahag.  Þetta hefur afleit reynsla af ríkisrekstri staðfest.  Hann ber að forðast eins og heitan eldinn.

Ráðstjórnarríkin, sem voru grundvölluð á samyrkjubúskap og höfðu upprætt einkaeignarréttinn, urðu siðferðilega og fjárhagslega gjaldþrota og sameignarstefnan hrundi þar til grunna.  Einkaeignarrétturinn, frjálst framtak og markaðshyggja, hrósuðu sigri.  Ríki sameignarsinna voru örgustu fátæktarbæli, og hið sama gildir um þau fáu, sem eftir eru, e.t.v. að Rauða-Kína undanskildu, þar sem reyndar er blandað hagkerfi. 

Nú bregður svo við hérlendis, að afturganga sameignarstefnunnar birtist undir heitunum "Attack" og Vinstri hreyfingin grænt framboð.  Afturgangan einbeitir sér um sinn að orkugeiranum, þó að orkulindir séu í sameign samkvæmt lögum og aðeins brot af afnotaréttinum í einkaeigu.  Orkuvinnslufyrirtækin, eins og önnur fyrirtæki, þurfa fernt: aðföng, mannauð, fjármagn og markað. Sérstaða orkuvinnslufyrirtækjanna er fólgin í mikilli fjármagnsþörf og langri endingu mannvirkja.  Málsvarar sameignarfyrirkomulagsins virðast bæði vilja éta kökuna og eiga hana.  Það hefur aldrei verið hægt, og arðgreiðslur af virkjun geta ekki hafizt að ráði fyrr en skuldir af henni hafa verið greiddar mörgum árum eftir að starfræksla hófst.  Þess vegna hafa arðgreiðslur íslenzkra orkufyrirtækja verið sáralitlar. Stór hluti kostnaðar orkuvinnslunnar, og þar með orkuverðsins, er framan af vegna vaxtakostnaðar fyrirtækjanna, sem að mestu rennur í vasa erlendra fjármagnseigenda. 

Viðskiptaáætlun Magma Energy gerir ekki ráð fyrir arðgreiðslum til eigenda á næstu árum, heldur verður framlegð nýtt til frekari fjárfestinga á Íslandi.  Þetta er einmitt það, sem Íslendingar þurfa á að halda til að koma hjólum athafnalífsins í gang og til að stækka þjóðarkökuna. Er ekki að efa, að næsta frjálslynda ríkisstjórn, sem mynduð verður í landinu, mun kappkosta einmitt þetta til að efla hagvöxtinn.

Samfylkingarmenn telja sig vera málsvara nútímalegra stjórnarhátta með því að berjast fyrir inngöngu Íslands í ESB (Evrópusambandið).  Miðað við stjórnarhætti vinstri grænna er e.t.v. eitthvað til í því.  Þó verður að segja alveg eins og er, að stjórnarhættir núverandi ríkisstjórnar Samfylkingar hafa keyrt um þverbak.  Þeir vitna um spillingu, og nægir að minna á ráðningu "Umboðsmanns skuldara" og pukrið og potið vegna starfs forstjóra Íbúðalánasjóðs. 

Vita Samfylkingarmenn ekki, að sú einokunarstefna í orkugeiranum, sem sameignarsinnar berjast fyrir, stingur algerlega í stúf við stefnu ESB um skipulag, samkeppni og eignarhald orkugeirans ?  Þar er kveðið á um samkeppni í orkuvinnsluhlutanum, og ríkið má ekki vera markaðsráðandi á samkeppnimarkaði.  Yfirlýsing ríkisstjórnar Samfylkingar um að hindra meirihlutaeigu einkafyrirtækja í orkuvinnslu stangast gjörsamlega á við stefnu ESB.

Á sama tíma berst Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, um á hæl og hnakka við að troða Íslandi inn í ESB.  Fær hann ekki mínus í kladdann hjá Brüssel, þegar aðfarir stjórnarinnar í orkumálum berast inn á borð Stefans Füle, stækkunarstjóra ?  Sá tók skýrt fram nýlega, að alls engar undanþágur frá lögum og reglum ESB stæðu Íslendingum til boða til lengdar.  Þetta er staðfesting á mati andstæðinga ESB-aðildar um þessi efni.  

Síðan 1994 hefur Ísland verið á Evrópska efnahagssvæðinu, hvers grundvöllur eru frelsin fjögur, þ.e. frjálsir flutningar fólks, vöru og þjónustu á milli landa og frjálst flæði fjármagns.  Með boðaðri skerðingu ríkisstjórnarinnar á frjálsu flæði fjármagns frá EES til Íslands skýtur Samfylkingin sig í fótinn; gott, ef hún skýtur ekki fótinn undan trúverðugleika sínum sem stjórnmálaflokkur með einlægan vilja til aðildar lands síns að tilvonandi ríkjasambandi, ESB.  Þegar landbúnaðar-og sjávarútvegsráðherra, Jón Bjarnason, lýsti því yfir, að verja yrði íslenzkt athafnalíf gegn erlendum fjárfestingum, tók þó fyrst steininn úr.  Slíkur málflutningur heyrist aðeins frá Norður-Kóreu nú á dögum.

Fjármálaráðherra "norrænu velferðarstjórnarinnar" heldur sig við yfirborðslegar vísanir til Noregs um eignarhlutdeild ríkis í fyrirtækjum.  Norðmenn eru í þeirri einstöku aðstöðu í Evrópu, að ríkið ræður yfir gríðarlegum upphæðum, olíugróða, sem það telur vel varið með fjárfestingu í öflugum fyrirtækjum af ýmsum toga, þ.á.m. í Noregi.  Ekkert slíkt á við hér.  Þvert á móti er ríkissjóður rekinn á erlendum lánum, og skuldir hans nálgast af þeim sökum að nema heilli landsframleiðslu, VLF.  Skuldirnar eru þar með yfir hættumörkum, enda er lánshæfi ríkissjóðs í ruslflokki samkvæmt Fitch. Af þeim sökum, sem hér hafa verið raktar, eru hvorki stjórnmálalegar né fjárhagslegur forsendur fyrir hendi til að stugga við og jafnvel að þjóðnýta einkaeign í orkuvinnslu Íslendinga.  Veruleikafirringin ríður ekki við einteyming.  

Hvað þýðir þetta fyrir efni þessa máls ?  Það þýðir, að verði VG að vilja sínum, munu vaxtagjöld skattborgaranna til útlanda stórhækka, ríkissjóður dregst nær hengifluginu, og ekkert bolmagn verður til framkvæmda í orkuvinnslu né annars staðar.  Þetta mun stöðva frekari iðnvæðingu landsins.  Með öðrum orðum:

aukin fátækt, stöðnun og landflótti í boði Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.

Ríkisstjórnarflokkarnir fá falleinkunn fyrir framgöngu sína í orkumálum.  Það verður að spyrja þjóðina hið fyrsta, hvort hún vilji fara í þessa eyðimerkurgöngu með afturhaldinu, eða hvort hún vill sópa því út í hafsauga með Alþingiskosningum.  

Vaðallinn snýst mest um þá moðsuðu, að forðast beri, að arðurinn af orkulindunum lendi í höndum útlendinga.  Þeir, sem halda þessu fram um orkufyrirtæki Íslendinga, sem skulda um 600 milljarða króna í útlöndum, hafa annaðhvort ekki kynnt sér málefni orkugeirans af nokkru viti eða þeir tala gegn betri vitund.  Hagkvæmast er nú fyrir ríkissjóð að losa um fé, selja eignir, t.d. í orkuvinnslufyrirtækjunum, og grynnka á skuldum í útlöndum.  Með þessu lækka vaxtagreiðslur skattborgaranna til útlanda, erlent fjárfestingarfé streymir til landsins, atvinna eykst, hagvöxtur myndast, og ríkið nær jafnvægi á rekstur sinn.  Þetta er forsenda þess að lækka skuldabagga hins opinvera erlendis niður fyrir 50 % af VLF, svo að lánstraustið batni og vextir lækki.  Þetta er hagsmunamál almennings í landinu.

Þegar orkufyrirtæki í einkaeign taka að skila arði, mun ríkið hirða hluta hans með skattheimtu.  Það er ætíð og alls staðar svo, að eigandi fjár, sem hann lánar eða festir í eign, fær af því vexti eða arð, nema skuldunautur lendi í greiðsluþroti eða fjárfesting misheppnist.  Ríkið á alls ekki að leggja fé skattborgaranna í áhættufjárfestingar. 

Óvissa ríkir um orkuvinnslugetu jarðvarmaorkuvera, og borholur eru viðkvæmar fyrir jarðhræringum í grennd.  Einkafyrirtæki nær, að öðru jöfnu, lægri vinnslukostnaði en ríkisfyrirtæki.  Ákvarðanataka fyrirtækis með stóra ríkishlutdeild verður mun erfiðari og tregari.  Það er ekki hlutverk stjórnmálamanna í Evrópu að hlutast til um rekstur og fjárfestingar orkuvinnslufyrirtækja.  Þessi þátttaka ríkisins er með öllu óeðlileg í nútíma þjóðfélagi, og er í andstöðu við reglur Innri markaðar EES.     

Kost-CO2spar-2010Nú er mál málanna á orkusviðinu í ESB að auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í raforkuvinnslu upp í 20 % árið 2020.  Þetta er til að draga úr losun koltvíildis, og hér til hliðar er sýndur kostnaður við þetta með mismunandi aðferðum í GBP/t CO2.  Af þessum ástæðum er því spáð, að raunhækkun raforkuverðs muni nema allt að 45 % á þessu tímabili í Evrópu.  Í þessu eru fólgin mikil tækifæri fyrir Íslendinga, því að kostnaður við virkjun hérlendis er einvörðungu um 1/10 á við kostnað í Evrópu á hvert MW (megawatt) í endurnýjanlegum orkulindum þar.  Þegar afnotaréttur orkulinda hérlendis er seldur, t.d. til 20-30 ára, er rétt að tengja verðið við vísitölu orkuverðs í Evrópu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

hvað segirðu um það að Magma Energy fékk 400 milljón króna afslátt af kaupunum með því að nota aflandskrónur?

Ég hef ekki heyrt frjálslynda menn hafa hátt um þetta, en mismunun sem þessi sem stjórnmálamenn hrósa sér síðan fyrir en einmitt öruggasta "leiðin til ánauðar".

Lúðvík Júlíusson, 31.7.2010 kl. 18:51

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ljótt er, ef satt er.  Slíkur gjörningur er lögbrot, og eiga allir að vera jafnir gagnvart lögunum.  Hitt er, að allt of langan tíma hefur tekið að skapa forsendur til að afnema gjaldeyrishöftin, sem eru ástæða hins tvöfalda gengis.

Bjarni Jónsson, 31.7.2010 kl. 21:52

3 identicon

Er nokkur vafi á að þeir keyptu aflandskrónur?  Hitt er annað mál að það er áreiðanlega löglegt, þó spurning sé um siðferðið.  En ég er sammála Lúðvíki að þetta er leiðin til ánauðar, enda hversu fljót getum við verið að gleyma fyrri einkavæðingarævintýrum?  Að hleypa einkafyrirtækjum inn á markaði sem ekki er hægt að keppa á vegna ýmissa tegunda hindranna (dýrt, takmarkaðar auðlindir, reglugerðir etc,) er örugg og tvöfölduð hraðbraut til ánauðar.

Ég get þó hugsað mér einkavædd orkufyrirtæki, en þá aðskilin frá almannaveitunum og bara í viðskiptum við hrægamma eins og álver og aðra auðhringi.  Þar má djöfullinn dansa við ömmu sína.

Georg O. Well (IP-tala skráð) 31.7.2010 kl. 22:27

4 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Mismunun sem þessi, þe. að leyfa einungis erlendum aðilum að nota aflandskrónur en ekki innlendum, er bönnuð innan EES!  Það gæti verið löglegt á Íslandi, en þá verðum við að draga okkur út úr EES.

Lúðvík Júlíusson, 1.8.2010 kl. 03:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband