Frá Rentukammeri til Ráðstjórnar

Verstu hrakspár um vinstri flokkana við stjórnvöl þjóðarskútunnar íslenzku hafa nú rætzt.  Þessi ríkisstjórn gæti verið sú lakasta frá upphafi Heimastjórnar 1904 og jafnvel mun lengra aftur, mælt í þróun landsframleiðslu á hennar valdaferli miðað við nágrannaþjóðir okkar.  Þetta er mælikvarði, sem segir til um, hvort hagur landsmanna versnar eða batnar miðað við aðrar þjóðir.  Skemmst er frá því að segja, að nýbirt gögn Hagstofunnar sýna, að hagkerfi landsins stefnir í "alkul", og skyldi engan undra eftir aðfarir afturhaldsins. Ferill ríkisstjórnarinnar er ein samfelld hrakfallasaga.

Vinnubrögðin eru enda afleit, sinnuleysið, doðinn og döngunarleysið við viðreisn efnahagslífsins er hræðilegt.  Dæmin um spillta og myrka stjórnarhætti eru legíó og spanna bankasýslið, skipan í stjórnir á vegum ríkisins, ráðningar í ráðuneyti og stofnanir, ólýðræðislegar ákvarðanir um stórmál eins og fullveldisframsal til framkvæmdastjórnar og ráðherraráðs ESB (Evrópusambandsins) auk Evrópuþingsins og Evrópudómstólsins og nú síðast flausturslegt frumvarp um Stjórnarráð Íslands. 

Þá má ekki gleyma hörmulegri hagsmunagæzlu í Icesave-málinu og síðan handjárnaðri lögfestingu landráðasamnings um ríkisábyrgð á Tryggingasjóði bankastofnana, sem þjóðin rifti glæsilega í þjóðaratkvæðagreiðslu að undirlagi forseta lýðveldisins þann 6. marz 2010.

Sönnunin um getuleysi vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur við viðreisn efnahagslífsins kom nú í byrjun september 2010 við birtingu Hagstofunnar á þróun VLF (verg landsframleiðsla) á 2. ársfjórðungi 2010.  Fjármálaráðherra hafði gumað af, og forsætisráðherra étið upp eftir honum, að botni efnahagslægðarinnar væri náð á Íslandi. Það reyndust innantómar fullyrðingar, sem sýna, að hvorugt þeirra skötuhjúanna ber hið minnsta skynbragð á efnahagsmál landsins.  Hvorugt er til nokkurs nýtt á þessu sviði, enda vill hvorugt þeirra nokkuð af lögmálum hagkerfis vita. Þau lifa í sjálfsblekkingu forræðishyggjunnar, sem reist er á löngu afsönnuðum villukenningum um handstýringu hagkerfisins.

Hér skal setja fram þá kenningu, að lélegri árangur við hagstjórn landsins hafi enginn ráðherra náð, sem vélað hefur um fjármál landsins, síðan á dögum Rentukammersins í Kaupmannahöfn forðum daga en núverandi fjármálaráðherra. Það er reyndar athugunarefni hagspekinga, hvort nokkru sinni í sögu landsins hafi orðið jafnmikill samdráttur 7 ársfjórðunga í röð síðan í Móðuharðindunum 1783-1785. 

Má með sanni segja, að vinstri stjórnin sé völd að móðuharðindum af mannavöldum, því að í flestum löndum er hagvöxtur 2010 dágóður, en hér hefur ríkt samfelldur samdráttur síðan á 4. ársfjórðungi 2008.

atvinnuleysi2010

Þegar samsetning samdráttar á 2. fjórðungi 2010, sem nam 3,1 % frá 1. fjórðungi, er skoðaður, verður deginum ljósara, að um heimatilbúinn vanda ráðstjórnarinnar er að ræða; kreppan er bein afleiðing stjórnarstefnunnar, aðgerða og aðgerðaleysis, og er geigvænlega afleiðingu afturhaldsstefnunnar að sjá á grafinu um hlutfall atvinnulausra af fólki á íslenzka vinnumarkaðinum 2007-2010 hér að ofan.  

  • einkaneyzla dróst saman um 3,1 %.  Ástæðurnar eru m.a. hækkanir Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, á bæði tekjutengdum sköttum og neyzlusköttum, og minnkandi framboð atvinnu, t.d. vegna atvinnufjandsamlegrar skattastefnu og fjandsemi Svandísar Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, í garð atvinnusköpunar, auk vingulsháttar iðnaðarráðherra, Katrínar Júlíusdóttur, sjá skuggalega þróun atvinnuleysis á grafinu hér að ofan.
  • fjárfesting dróst saman um 4,7 %.  Ástæðurnar eru moldvörpustarfsemi, sem ríkisstjórnin hefur, illu heilli, rekið gegn íslenzka sjávarútveginum.  Ríkisstjórnin hefur gert sig seka um að grafa undan undirstöðuatvinnuvegi landsins með þeim afleiðingum, að svo mikil óvissa hefur skapazt um framtíð greinarinnar, að stjórnendur og eigendur treysta sér ekki til að fjárfesta.  Þetta verður að flokka sem skemmdarverkastarfsemi ráðstjórnarinnar gegn einkaframtakinu, en hún vill þjóðnýta greinina, koma hér á bæjarútgerðum að nýju og niðurgreiða greinina að hætti ESB.  Ríkisstjórnin áttar sig ekki á, að útgerðirnar eru að afla hágæða matvæla, sem afhenda verður samkvæmt pöntun á tilsettum tíma á tilteknum stað.  Ferlið er í raun að verða við kröfum viðskiptavina og krefst stöðugleika, ef ekki á illa að fara, og er miklu flóknara en einvörðungu að draga bein úr sjó, þó að rétt vinnubrögð við það krefjist líka mikillar þekkingar. Þá hefur afturhaldið í Stjórnarráðinu lagt stein í götu erlendra fjárfesta eftir mætti, þvælzt fyrir og stórskaðað trúverðugleika íslenzkra viðsemjenda með framkomu sinni, t.d. í skattamálum, hvort sem um ræðir rafskatt, tekjuskatt  eða virðisaukaskatt.
  • samneyzla jókst hins vegar um 1,0 %.  Það er algert hneyksli að auka samneyzluna með erlendum lánum, eins og tvímælalaust á sér stað með dúndrandi halla á ríkissjóði.  Ríkisstjórnarviðrinið gerir nákvæmlega ekkert af viti.  Það tefur viðreisnina, og mun gera hana enn sársaukafyllri. Fjármálaráðherra reynir samt að blekkja Alþingi með fullyrðingum um, nýir skattar virki lítt íþyngjandi.
  • útflutningsverðmætin jukust um 2,8 % að raunvirði, og innflutningurinn minnkaði um 5,1 %.  Ytri skilyrði eru mjög hagstæð, en ríkisstjórnin ræður engan veginn við viðfangsefnin, þ.e.a.s. hún vinnur allt með öfugum klónum, fer vitlaust að öllu, sem hún kemur nálægt, stundar snarvitlausa forgangsröðun viðfangsefna; er í fáum orðum sagt óhæf til að stjórna landinu. 

 

VSITAL~1Myndin hér til hægri sýnir verðbólguþróunina á Íslandi sem 12 mánaða meðaltal 2007-2010.  Árið 2009 varð verðbólguskot vegna hækkandi innflutningsverðs í kjölfar hruns fjármálamarkaðarins, sem leiddi til helmingunar á verðgildi gjaldmiðilsins, og árið 2010 annað minna vegna skattahækkana.  Ríkisstjórninni varð ekkert ágengt við að styrkja krónuna í sessi 2009, og lánshæfi landsins er nú í ruslflokki.  Það er fyrst árið 2010, að krónan er tekin að braggast vegna mjög hagstæðra vöruskipta við útlönd og mikilla erlendra lántaka Seðlabanka fyrir brösuglega milligöngu AGS, Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, sem gefur ríkisstjórninni langt nef hvað eftir annað.  Þrátt fyrir, að öll þessi upptalning hagstærða bendi til hættu á verðhjöðnun, sem er illvígt kreppuástand, viðheldur Seðlabankinn tiltölulega háum vöxtum á sama tíma og seðlabankavextir eru víða um og undir 1 %.  Seðlabankinn vantreystir augsýnilega ríkisstjórninni til að gera nauðsynlega uppstokkun á ríkisfjármálunum.  

"Landið tekur að rísa"  er yfirskrift greinaflokks hugstola fjármálaráðherra um efnahagsþróunina á Íslandi, sem út kom skömmu áður en Hagstofan birti hagtölurnar, sem hér hefur verið vitnað til.  Innihaldið reyndust eintómir hugarórar hrakfallabálks, sem ræður engan veginn við viðfangsefni sín í fjármálaráðuneytinu, og mun aldrei gera.  Á meðan hann er þar verður enginn viðsnúningur. Hann er kolfallinn á prófinu og hlýtur lægstu einkunn, sem nokkur maður, sem vélað hefur um fjármál íslenzka ríkiskassans, hefur hlotið, og eru rentukammersmenn Danakóngs þá meðtaldir.     

 

  

    

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Því miður eru líkur á að greinaflokkur fjármálaráðherra, "Landið tekur að rísa", ekki hugarórar. Meiri líkur eru á að vit hanns á efnahagsmálum sé ekki meira en þetta. Hvort heldur þetta eru hugarórar eða vöntum á viti, þá er maðurinn stór hættulegur meðan hann fær að sytja áfram í stól fjármálaráðherra!

Gunnar Heiðarsson, 10.9.2010 kl. 06:28

2 Smámynd: Helgi Kr. Sigmundsson

Það er venjulegu fólki oft erfitt að skilja hver stefnan er hjá þessari ríkisstjórn.  Á það ekki hvað síst við um hagstjórnina. 

Við vonum öll að þeim gangi sem allra best við þetta því mikið eigum við undir því, en því miður verð ég að taka undir flest sjónarmið sem þú setur fram.  Þetta er einfaldlega ekki nógu gott og enn verra þykir mér að það kemur mér ekkert sérlega mikið á óvart að svona sé að fara. 

 Hversu lengi halda þau áfram á þessari braut og hversu lengi verður hægt að fara sífellt fram með öll mál í skjóli þess að hér hafi orðið "eitt stykki efnahagshrun"?  Nú held ég að við þurfum að sætta okkur við að hlutirnir hafi farið eins og þeir fóru og reyna að byggja upp á jákvæðari forsendum en vinstri flokkarnir hafa viljað gera hingað til.

Helgi Kr. Sigmundsson, 10.9.2010 kl. 13:41

3 Smámynd: Viggó Jörgensson

Frábær færsla Bjarni.

Viggó Jörgensson, 10.9.2010 kl. 22:44

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Réttar ábendingar og áhugaverðar hugleiðingar hjá báðum.  Téður "fjári" hefur heldur ekki lag á að fylla í eyður verðleikanna með hæfum aðstoðarmönnum, og er óþarft að nefna nöfn í því sambandi.  Þá er orðið meira en tímabært að snúa sér að viðfangsefnunum af þekkingu, kjarki, festu og marksækni í stað þess holtaþokuvæls og lömunar, sem einkennir núverandi stjórnarherra.

Með góðri kveðju / Bjarni Jónsson

Bjarni Jónsson, 10.9.2010 kl. 22:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband