Galdrafár 2010

Forsætisráðherra var spurð að því 11. september 2010, hvort hún teldi tillögu þingmannanefndarinnar um Hrunsskýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis mundu að einhverju leyti "róa almenning".  Jóhanna Sigurðardóttir svaraði: "Ég vona það; til þess var þetta nú sett á laggirnar." 

Þetta svar forsætisráðherra Íslands jafngildir því, að hún kasti réttarríkinu á bálið.  Þetta minnir á stjórnmálaleg réttarhöld sögunnar, s.s. í alþýðulýðveldum 20. aldarinnar og galdrabrennur Evrópu á 17. öld, þar sem mörgum sakleysingjanum var kastað á bálið eftir sýndarréttarhöld ofstækismanna, oft til að friða almenning, sem bjó við kröpp kjör og leið fyrir mikið samfélagslegt óréttlæti af hendi hinna ráðandi stétta.  Á Íslandi voru rúmlega 20 manns dæmdir til kvalafulls dauðdaga fyrir galdra, enda margir ofsækjendur þeirra helteknir af hindurvitnum og ofstæki.

Fulltrúar úr röðum Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hafa líka komið til dyranna, eins og þeir eru klæddir, þ.e. sem rauðliðar í grænu dulargervi.  Þeir hafa tjáð sig sem lýðskrumarar, sem enga virðingu bera fyrir þrígreiningu ríkisvaldsins, þegar á hólminn er komið.  Þeir tala nú opinskátt um nauðsyn "pólitískra réttarhalda".  Þetta er fólkið, sem "búsáhaldabyltingin" lyfti til valda á Íslandi, svo að ekki er kyn, þó að keraldið leki.  Einræðishneigðin og afturhaldshugarfarið leynir sér ekki.  Hindurvitnin eru ekki langt undan.   

 

Þingmannanefnd Atla Gíslasonar hafði það hlutverk að rýna skýrslu Hrunsnefndarinnar og vinna úr henni úrbótatillögur.  Hún hefur sett fram svo margvíslegar hugmyndir með fremur ómarkvissum hætti, að hætt er við, að ekki verði neitt úr neinu.  Gagnrýna umfjöllun um skýrsluna er ekki að finna, og meirihluti nefndarinnar virðist fylgja þeirri forkastanlegu og löngu úreltu forskrift, að sækja skuli stjórnmálamenn til saka, ef minnsti vafi leiki á um sakleysi þeirra, því að meirihluti þingmannanefndarinnar leggur til við Alþingi, að um mál 3-4 fyrrverandi ráðherra verði fjallað af Landsdómi, þó að slíkar málalyktir orki mjög tvímælis út frá gildandi réttarfari í landinu. 

Meintar ávirðingar ráðherranna í Hrunsskýrslunni og í skýrslu þingmannanefndar Atla Gíslasonar eru þannig vaxnar, að nánast þarf að gefa sér þá forsendu, að umræddir fjórmenningar hafi verið svæsið galdrahyski, sem séð hafi í gegnum holt og hæðir, til að þeir hefðu mögulega getað búið yfir þeim upplýsingum, sem dygðu þeim til ákvarðanatöku um mótvægisaðgerðir til að hamla gegn hættu á hruni bankanna þriggja, sem féllu óhjákvæmilega í októberbyrjun 2008. 

Allur þessi málatilbúnaður Atla Gíslasonar o. fl. um stórfellda vanrækslu í starfi, er beinlínis hafi bakað ríkinu tjón, er í raun reistur á eftirávizku, sem ekki er eftirsóknarverð.  Það er auðvelt að vera vitur eftir á, enda eru margir iðnir við þann kolann, og það sem eftir á getur litið út sem vanræksla, þarf ekki að hafa verið óyggjandi vanræksla í rauntíma. Þar á leikur umtalsverður vafi, og Alþingi mun óneitanlega setja niður, ef það hleypur eftir slíku og gengur gegn gildandi réttarfari um vissu varðandi sakarefni, og Landsdómur síðan vísar málum frá eða sýknar sakborninga.    

Við vitum t.d. nú, að bankarnir voru maðksmognir, haldnir innanmeini og stóðu á brauðfótum, svo að eftir 2006 var líklega aðeins tímaspurning, hvenær þeir féllu, en hvernig gátu ráðherrarnir vitað það ?  Það mun Landsdómur þurfa að vega og meta, feli Alþingi honum úrskurð málsins. Landsdómur mun að sjálfsögðu ekki ganga gegn gildandi réttarfari í landinu. 

Þá verður að hafa í huga við mat á meintu aðgerðaleysi, að Seðlabanki, Fjármálaeftirlit (FME) og ríkisstjórn þurftu að gæta að sér varðandi yfirlýsingar og aðgerðir til að framkalla ekki áhlaup á bankana, sem flýtt hefði hruni þeirra og dregið úr svigrúmi til neyðaraðgerða.  Hefði slíkt getað réttlætt kvaðningu Landsdóms ? Þegar staða fjórmenninganna árin 2007-2008 er metin, verður að hafa eftirfarandi 3 atriði í huga: 

  1. Löggiltir endurskoðendur höfðu skrifað upp á bókhaldsuppgjör fjármálastofnananna, sem alla tíð sýndi afar sterka fjármálastöðu.
  2. Álagspróf FME sýndi trausta stöðu bankanna.
  3. Matsfyrirtækin gáfu bönkunum mjög háa einkunn.

Að ofangreindum þremur staðreyndum virtum, er hæpið, að nokkuð það, sem ráðherrarnir eru sakaðir um að hafa vanrækt, geti með réttu talizt hafa verið vanrækslubrot á sínum tíma eða að önnur breytni þeirra, á grundvelli upplýsinga þess tíma, en raun var á hefði nokkru máli skipt um það, hvernig fór. 

Hrappana er að finna í hópi bankastjórnendanna og eigenda bankanna, og það er síðan væntanlega í verkahring Sérstaks saksóknara að rannsaka, hvernig bankarnir gátu villt jafnrækilega um fyrir eftirlitsaðilum og raun bar vitni um.  

Meirihluti þingmannanefndar Atla Gíslasonar leggur til að kasta barninu út með baðvatninu.  Barnið í þessu tilviki eru ekki þær persónur, sem hér eiga í hlut, heldur grunnstoð lýðveldisins, þrígreining valdsins og grundvallarmannréttindi Vesturlanda.  Niðurrifsöflum og ofstækismönnum nútímans er hollara nú að hafa í huga hið fornkveðna, að skamma stund verður hönd höggi fegin.  

Frá Alþingi í júní 2010 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón  Benediktsson

Það er gott að bent sé á þess leiktjöld stjórnmálanna og ótrúlega ósvífið svar forsætisráðherra. Til þess var leikurinn einmitt gerður, að blekkja almenning og byrja næstu svikamyllu. Hafðu þökk fyrir pistilinn.

Sigurjón Benediktsson, 14.9.2010 kl. 20:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband