Vendipunktur

Þjóðverjar nefna endursameiningu Þýzkalands 1990 "die Wende", og 3. október fögnuðu þeir tvítugsafmæli endursameinaðs Sambandslýðveldis.  Með svipuðum hætti má segja, að vendipunktur hafi orðið í viðreisn íslenzks atvinnulífs, þegar alþjóðlega iðnfyrirtækið Rio Tinto Alcan (RTA) tilkynnti haustið 2010 um nýjar fjárfestingar í Straumsvík fyrir tæpa 60 milljarða kr.  Hér var ísinn brotinn eftir frystingu fjármálageirans á fjárflæði til landsins eftir Hrun, nema með tilstilli Alþjóða gjaldeyrissjóðsins .

Í grundvallaratriðum er hér um þrígreint verkefni að ræða.  Í fyrsta lagi að styrkja innviði raforkuflutnings til allara kerskálanna þriggja.  Þetta er nauðsynlegt af tveimur ástæðum.

Í fyrsta lagi vegna öldrunar rafbúnaðarins, en elzti hluti hans er nú orðinn 41 árs gamall og ákveðinn rofabúnaður jafnvel 10 árum betur.  Af þessum ástæðum munu bilanalíkindi fara ört vaxandi að óbreyttu álagi.  Dregið verður úr álagi á gamla búnaðinn, þegar nýr verður tekinn í notkun, til þess að lengja endingu hans enn meir.

Gjörnýting framleiðslutækjanna er stefna fyrirtækisins, og verksmiðjan framleiðir nú 27 % meir en hún var hönnuð fyrir.  Þetta hefur verið gert á kostnað rekstraröryggis, og fyrsti hluti fjárfestinganna er til mótvægis við það.  Nýr búnaður mun veita ráðrúm til stórviðhalds á gamla búnaðinum í þeim mæli, sem það verður talið hagkvæmara en endurnýjun.

Annar þáttur fjárfestinganna er fólginn í byltingu straumleiðarakerfis elztu kerskálanna tveggja til að gera kleift að auka strauminn um 320 ker.  Grundvöllur þessa er líkangerð og viðamiklir straum-og segulsviðsútreikningar í Rannsóknarmiðstöð RTA í Evrópu.  Jafnframt verða innviðir verksmiðjunnar lagaðir að meiri afköstum og framleiðni.  Þetta þýðir m.a., að bæta þarf við nýjum rafbúnaði, og verða þannig tveir nýir 200 MVA aðalspennar í aðveitustöð ISAL, sem verða öflugustu spennar landsins.

Þriðji áfanginn verður fólginn í umbyltingu framleiðslunnar úr fljótandi áli kerskálanna.  Steyptir verða sívalningar, og þeir glæddir í rafhituðum glæðiofnum.  Þessi framleiðsla er arðsamari og veitir meiri markaðsstöðugleika en völsunarbarrarnir. 

Jafnhliða skipulagningu og fjármögnun á þessu verkefni í Straumsvík hefur RTA samið um orkuafhendingu til svo langs tíma við Landsvirkjun, að arðsemi fjárfestinganna er tryggð.  Jafnframt er atvinnuöryggi a.m.k. 2000 starfa, beinna og óbeinna, tryggt.

ISAL í StraumsvíkÞessi orkusamningur gaf Landsvirkjun byr í seglin á erlendum lánamörkuðum.  Deutsche Bank reið á vaðið og keypti skuldabréf af Landsvirkjun við um 6,5 % vöxtum.  Vextirnir þykja nú fremur háir, en arðsemi fjárfestinga Landsvirkjunar verður áfram há, og fjárfestingar hennar bera þessa vexti vel.  Gegnumbrot Íslendinga á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hefur átt sér stað fyrir tilverknað vendipunktsins, sem minnzt var á í upphafi.  Þjóðverjar reynast oss enn sem fyrr haukar í horni.

Hvorugt erlendu fyrirtækjanna, sem hér hafa verið nefnd til sögunnar, eru góðgerðarstofnanir.  Þau þekkja hins vegar Íslendinga af verkum þeirra.  "Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá." 

Mjór er mikils vísir.  Ofangreindar fjárfestingar þarf að tífalda á næstu fimm árum til að koma íslenzka hagkerfinu á skrið.  Nú á að láta kné fylgja kviði.  Raforkunotkun landsins nam árið 2009 um 16,8 TWh (terawattstundir).  Það er engin goðgá, að framleiða megi 50 TWh/a, ekki sízt, ef djúpvinnsla jarðvarmans tekst, og þess vegna er hægurinn á að þrefalda núverandi raforkuvinnslu með sjálfbærum og afturkræfum hætti.

Þetta mun lítil áhrif hafa á aðra landnotkun vegna víðernis landsins, en fróðlegt verður að sjá, hvernig fjallað er um þetta í svo nefndri "Rammaáætlun" um nýtingu og verndun auðlinda.  Skýrslan mun vera nýjasta deiluefni algerlega óhæfrar ríkisstjórnar.  Nú er ekki rétti tíminn til að hengja sig í stjórnmálastefnur til hægri eða vinstri, heldur verða hæfileikar að ráða því, hverjir verða settir til verka í stjórnarráðinu.  Ráðherrar vinstri stjórnarinnar hafa nú svikið öll sín kosningaloforð, svo að engan veginn verður séð, hvaða erindi þeir eiga lengur í Stjórnarráðið.

Tími er kominn til að bretta upp ermarnar og að spýta í lófana á öllum vígstöðvum.  

Kertaljós

     

 

 

 

     

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband