28.12.2010 | 10:36
Er evran svarið ?
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að evran er nú í svo miklu hafróti, að seinna mun segja af því, hvort hún nær landi. Nái hún landi, er vafa undirorpið, hvort hún verði þá ólöskuð. Margt bendir nú til, að hvorki evran né ESB verði söm eftir þann hildarleik, sem fram fer á fjármálamörkuðum heimsins um þessar mundir. Þetta gæti leitt til þess, að kvarnist úr myntbandalaginu og/eða ESB breyti um eðli og taki upp miðstýrða fjárlagastefnu, sem færir það skrefi nær sambandsríki en áður. Óvissan um framtíð evru og ESB óx til muna árið 2010.
Við þessar aðstæður hefur efnahags-og viðskiptaráðherra Íslands kallað eftir greiningu á kostum þess og göllum að taka upp evru. Hann gerir þetta reyndar í kindugu ljósi. Árni Páll Árnason hefur sjálfur marglýst yfir þeirri skoðun sinni, að evran eigi að leysa íslenzku krónuna af hólmi sem fyrst, og hið sama er stefna flokks hans, Samfylkingarinnar. Hvernig gátu þessir aðilar myndað sér stefnu án undanfarandi greiningar ? Hvernig geta þessir sömu aðilar ríghaldið í stefnu sína, þó að umhverfið, þ.e. staða evrunnar, sé gjörbreytt ? Það er margt, sem bendir til þess, að þessi stefnumörkun sé illa ígrunduð fyrir hagsmuni almennings á Íslandi og íslenzka hagkerfisins í heild sinni, eins og hér verður fjallað um.
Það er mála sannast, að til að geta tekið upp evru, að reglum ESB og Evrópubankans, ECB, og án þess að hér fari samstundis allt á hvolf, þarf að hafa náðst viss stöðugleiki í efnahagsmálum. Þar er um að ræða ríkisbúskap, ríkisskuldir og peningamál hins opinbera hagkerfis. Þessum tilskilda stöðugleika er unnt að ná, eins og sýnt var fram á í vetrarhefti ársfjórðungsritsins Þjóðmála, sem kom út í desember 2010, og enn styrkari stoðum er unnt að skjóta undir stöðugleika hagkerfisins með stjórnkerfisbreytingum á grundvelli nýrrar Stjórnarskráar, sem drægi dám af stjórnarskrám þeirra, sem beztum árangri hafa náð í efnahagsmálum. Upptaka erlends gjaldmiðils verður þá valkostur, en ekki þvingaður kostur.
Þegar þessum stöðugleika verður náð, þá reka okkur Íslendinga engar nauðir til að taka upp evru eða annan erlendan gjaldmiðil. Þá verður enginn ávinningur við erlenda mynt hér, en hins vegar talsvert óhagræði. Óhagræðið felst í því, að um fastgengi verður þá að ræða án tillits til afkomu og samkeppnihæfni útflutningsatvinnuveganna. Raungengið getur þá skekkzt mjög, eins og sýnt er á súluritinu hér að ofan af myntsvæði ESB. Þessi ólíka þróun raungengis evrulandanna er sterk vísbending um, að evran eigi sér ekki viðreisnar von að óbreyttu skipulagi ESB.
Til að jafna metin og draga úr verðbólgu þurfa ríki með of hátt gengi að lækka tilkostnað atvinnuveganna eða að auka framleiðnina í meiri mæli en gerist í samkeppnihæfari ríkjunum. Þetta er erfitt í rígbundnum hagkerfum Evrópu og reynist mörgum um megn. Það er t.d. ákaflega erfitt að lækka fólk í launum í kjarasamningum. Raunlaunalækkun er það, sem gerist við gengisfellingar. Slík raunlaunalækkun er óhjákvæmileg, þar sem halli er á utanríkisviðskiptum.
Téður ráðherra birti grein um efnið mánudaginn 27.12.2010. Blaðagrein þessi er furðulega vanburðug. Hann lætur líta þannig út, að val Íslendinga standi á milli fjármálahafta (Capital Control) og upptöku evru. Þetta er tóm vitleysa, því að ríkisstjórnin getur afnumið gjaldeyrishöftin með lagabreytingu og ætti að manna sig strax til framlagningar slíks frumvarps á Alþingi. Gengið mundi fljótlega leita eðlilegs jafnvægis fyrir utanríkisviðskipti og skuldastöðu landsins. Ríkisstjórnin, trú úreltum hagstjórnarkenningum hafta og forræðishyggju, heldur hins vegar dauðahaldi í forarvilpu spillingar, sem úthlutun hins opinbera á takmörkuðum verðmætum, t.d. undanþágum frá höftum, jafnan hefur í för með sér. Höftin halda aftur af hagkerfinu, grafa um sig, og valda sóun og spillingu. Ráðherra snýr orsakasamhengi á haus. Til að ná stöðugleika verða höftin fyrst að hverfa, en ekki öfugt.
Hin furðurök efnahagsráðherra Samfylkingar snúa að því, að krónan standi í vegi erlendra fjárfestinga á Íslandi. Ráðherrann vísar til þess, að Írar setji nú traust sitt á erlendar fjárfestingar að draga þá upp úr argvítugri skuldasúpu, sem ábyrgð ríkisins á einkabönkum leiddi til þar í landi. Hér liggur sannleikurinn óbættur hjá garði ráðherrans. Fjárfestar hafa aðallega áhuga fyrir Írlandi vegna þess, að þar er lægstur tekjuskattur á fyrirtæki innan ESB, þó að Brüssel hafi beitt þvingunarúrræðum á Íra án árangurs til að fá þá til að hækka tekjuskattinn. Ráðherrann skilur ekki þennan hvata, enda stendur hann að hækkun þessa og annarra skatta með hverjum fjárlögum ríkisstjórnar Samfylkingar og vinstri grænna.
Fyrirtækjum í erlendri eigu (og öðrum) er í lófa lagið að færa bókhald sitt í erlendri mynt. Íslenzki markaðurinn er svo lítill, að erlend fyrirtæki hafa sjaldnast áhuga á honum til fjárfestinga. Þau hafa hins vegar mörg hver áhuga á að nýta innlendar auðlindir til útflutnings. Til þess verða þau að fjárfesta í landinu. Tekjur þeirra eru þá í erlendri mynt, og gengi íslenzku krónunnar skiptir þau harla litlu máli. Þau hafa þannig komið sér upp öflugum gengisvörnum. Hvernig getur téður ráðherra verið þekktur fyrir að halda uppi svo einfeldningslegum rökum, sem hér hafa verið gerð að umræðuefni ? Fyrir umrædda Fréttablaðsritgerð sína fær hann 2,5 af 10,0 fyrir viðleitni. Er allt á sömu bókina lært hjá Árna Páli Árnasyni ?
Spyrja má, hvað valdi hrikalegri vantrú Samfylkingarinnar á, að Íslendingar geti spjarað sig sjálfir, og oftrú þeirra á að færa mikilvæga ákvarðanatöku um hagsmunamál Íslendinga til Brüssel. Getur verið, að ráðherrann dreymi um að sitja veizlur, stórar, með höfðingjum í Brüssel ? Hætt er við, að slíkar draumfarir verði endasleppar, því að lítil spurn er eftir jafnyfirgripsmikilli vanþekkingu og getuleysi og hér um ræðir á meðal nokkurra hópa manna, utan Samfylkingarinnar.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Evrópumál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Eg held að þessir mafiugosar her verði ekki hátt skrifaðir neinstaðar - eftir að hafa gefið auðlegð íslands fyrir 7 skildinga.
Þeir fá ekki einusinni að sleikja rassa í Brussel.
EA
Erla Magna Alexandersdóttir, 28.12.2010 kl. 17:41
Eins og þú bendir á Bjarni þá er eins og að Árni hugsi málið allt frá öfugum enda. Hann virðist ekki skilja hvað hann er að tala um.
Gunnar Waage, 28.12.2010 kl. 19:32
Ég veit nú ekki betur til en erlendir fjárfestar flýji nú Írland sem fætur toga. Enginn vill fjárfestsa í landinu, skuldatryggingarálagið er 2,2 sinnum hærra en á Íslandi og algjör kreppa.
Líkt og þjóðin sjálf sem flýr land sitt nú 5 sinnum hraðar en Ísland og flestir eru ekki á leiðina í eymdina og volæðið í ESB heldur tiil Ástralíu og Nýja Sjálands og Kanada, þrátt fyrir ESB og þrátt fyrir Evru.
Einmitt ESB með hjálp AGS og ECB bankans er nú búinn að fjötra Írska Alþýðu í skuldafjötra nástu áratugina á 5,8% okur vöxtum.
Allt í nafni ESB einingar og þessarar Elítu Evru.
Þvílíkir hippókratar og þessum árans fjanda mælir Árni Páll Árnason Froðusnakkur "numero uno" hvað mest fyrir !
Megi hann leysast upp í froðusnakk sitt sem allra fyrst.
Gunnlaugur I., 28.12.2010 kl. 22:48
Þakka ykkur fyrir innlegg ykkar þriggja hér að ofan. Ég deili skoðunum með ykkur. Við vitum, að kratar hafa sterka tilhneigingu til að vera hluti af stærri heild. Þetta kom fram við öll kaflaskil í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, þar sem kratar og forverar þeirra vildu ekki rjúfa sambandið við danska ríkjasambandið. Við þessu er ekkert að segja. Það, sem hins vegar vekur gremju, er, að þetta sama fólk hefur nú forystu um utanríkismál landsins og nýtir hana til að leiða andsnúinn meirihluta landsmanna í eyðimerkurgöngu til Brüssel. Ekki nóg með það. Kratarnir gera þetta, þegar þjóðin er í sárum eftir efnahagsáfall. Þá töpuðu evrópskir bankar um 10 þúsund milljörðum króna. Þeir fjarstýra samningamönnum ESB í Brüssel og vilja sitt fé til baka. Þetta er þess vegna alversti tíminn til að ræða um inngöngu í ESB. Vita kratarnir ekki, hverra erinda þeir ganga ?
Með góðri kveðju /
Bjarni Jónsson, 29.12.2010 kl. 10:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.