7.1.2011 | 22:18
Hagspá óhagfelld
Furðudýrið fúlskeggjaða, sem nú er opinber aðalfulltrúi Íslendinga gagnvart umheiminum vegna slyss, utanríkisráðherrann Össur Skarphéðinsson, er m.a. með þann meðfædda galla að telja sig ná sér niðri á samferðarmönnum sínum með því að tala um þá með niðurlægjandi hætti.
Þegar Össur talar um Dr Lilju Mósesdóttur sem burðuga hryssu með strok í genum mætti halda, að fengitími væri kominn hjá Dr Össuri, en hann sérhæfði sig á meðal Engilsaxa í kynlífi laxfiska á sinni tíð áður en hann varð ritstjóri Þjóðviljans. Talsmáti Össurar er ruddafenginn og ber vitni um meingallaðan persónuleika í sálarháska. Þessi utanríkisráðherra er landsmönnum til skammar, hvar sem hann birtist. Þessu hefur Samfylkingin þó lyft til æðstu metorða, og lýsir það innviðum flokksins betur en mörg orð.
Það er að krystallast, að Samfylkingin er með hegðun sinni og stefnu innanlands og utan að einangrast í íslenzkum stjórnmálum. Með henni getur í raun enginn hinna stjórnmálaflokkanna unnið án þess að bíða tjón af. Samfylkingin er þeirrar gerðar, að aðeins stjórnleysingjar á borð narrann Gnarr geta unnið með henni.
Samfylkingin rak rýting í bak Sjálfstæðisflokksins fyrir tveimur árum, og nú engist Vinstri hreyfingin grænt framboð í eitruðu faðmlagi félagshyggjunnar, sem koma mun sjálfri sér fyrir kattarnef á nýju ári. Spurning er, hvers konar framboð verður þar á ferðinni fyrir næstu Alþingiskosningar ? Stjórnmálamenn, sem svíkja öll sín meginkosningaloforð, missa traust kjósenda. Þeir verða sem trúðar á vettvangi stjórnmálanna.
Mælikvarði á stjórnarhætti er m.a. hagvöxtur. Ef allt hefði verið með felldu, ætti að verða 3 % - 5 % hagvöxtur á Íslandi 2011. Spáð er hér aðeins 0,5 % hagvexti, eins og stöplaritið hér til hliðar sýnir. Hagkerfið, íslenzka, tók djúpa dýfu árið 2009, en þó ekki jafndjúpa og t.d. hagkerfi Eistlands, sem dróst þá saman um 14 %. Þar er nú á hinn bóginn spáð 4,4 % hagvexti 2011. Eistar hafa búið við fastgengi lengi. Þeir öðluðust sjálfstæði árið 1919 og voru með eiginn gjaldmiðil, sem tengdur var Reichsmark til 1940. Þeir voru af Ráðstjórnarríkjunum þvingaðir til að taka upp rúblu, en hentu henni árið 1992, ásamt félagshyggjunni, og tóku þá að nýju upp kroon og markaðsbúskap, en bundu gengið þá við Deutsche Mark. Tíu árum síðar negldu þeir kroon við evruna, og 1. janúar 2011 tóku Eistar upp evru.
Eistar eru vanir fastgengi, eins og að framan er lýst, en engu að síður verður fróðlegt að fylgjast með raungengi Eistlands innan sameiginlega myntsvæðisins, vegna þess að verðbólga fer nú vaxandi í Eistlandi. Nú ráða Eistar ekki lengur vaxtastiginu í landi sínu og eru þannig sviptir peningalegum stjórntækjum í baráttunni við verðbólgu eða verðhjöðnun. Afleiðingin getur orðið lakari samkeppnistaða Eista gagnvart útlöndum, sem hrjáir Íra og Spánverja, svo að dæmi séu nefnd.
Opinberar skuldir Eista eru hinar minnstu á meðal evruríkjanna eða 8 % af þjóðarframleiðslu m.v. 84 % á evrusvæðinu að meðaltali. Þetta er árangur mikils aga við fjárlagagerð og við að framfylgja fjárlögum. Slíkt er í ófullnægjandi horfi á Íslandi. Til eru ráð við því, eins og lesa má um í tímaritinu Þjóðmálum, vetrarhefti 2010 og væntanlegu vorhefti 2011.
Eistneska ríkið þurfti ekki að hlaupa undir bagga með bönkunum, af því að bankakerfi Eistlands er í erlendri eigu, og eru Svíar þar drjúgir. Erlent eignarhald á fyrirtækjum, jafnvel bönkum, hamlar ekki góðum árangri í efnahagsmálum, nema síður sé, hlíti fyrirtækin lögsögu gistilandsins og greiði þar með skatta og skyldur þangað. Þetta fyrirkomulag hefur þvert á móti greitt leið Eista að fjárfestingarfé.
Fastgengið hafa þeir hins vegar keypt verði gríðarlegs atvinnuleysis, og var það árið 2010 17,5 % að meðaltali. Eistar hafa þess vegna orðið fórnarlömb spekileka og misst af mikilli verðmætasköpun fyrir vikið.
Það, sem knýr hagvöxt Eista áfram núna, er m.a. skattkerfið. Það er afar einfalt, um 17 % flatur tekjuskattur. Það, sem aftur á móti heldur aftur af íslenzka hagkerfinu, eru flækjur og gríðarlegar skattahækkanir ofan í samdrátt. Þetta er einstaklega heimskuleg hagstjórn öfundarknúinnar, illvígrar félagshyggju án hagspekilegra raka, enda lengir hún kreppuna og rýrir skattstofnana. Fyrir vikið mun taka lengri tíma en ella að grynnka á skuldum hins opinbera, sem nú nema 130 % af þjóðarframleiðslu, og eru þær komnar hátt yfir hættumörk. Ríkissjóður er að sligast undan skuldum sínum og vaxtagreiðslum til útlanda. Við stjórnvölinn sitja þá aulabárðar, sem láta allt reka á reiðanum. Við svo búið má ekki standa.
Rétta ráðið er að lækka skatta, a.m.k. í sama horf og árið 2006, örva fjárfestingar með því að liðka fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja og heimila, sem ríkisstjórninni hefur mistekizt, afleggja verðtrygginguna og fjarlægja hindranir í vegi erlendra fjárfestinga, s.s. gjaldeyrishöft og virkjanahöft.
Með núverandi ríkisstjórn stefnir í greiðsluþrot ríkisins, fjölda fyrirtækja og einstaklinga. Stækkun þjóðarkökunnar er eina raunhæfa leiðin út úr vandanum. Með 5 % hagvöxt í 10 ár mun landsframleiðslan vaxa um 63 %. Hún verður þá 1000 milljörðum kr meiri en nú. Undir ráðstjórn vex hún ekkert. Þarna skilur á milli feigs og ófeigs, hvort ræðst við skuldavandann eða ekki. Allt annað er hjóm.
Þess vegna leikur ekki á tveimur tungum, að hin feiga félagshyggjustjórn afturhaldsins í landinu, sem hatast við athafnalífið og hefur asklok fyrir himin, verður að hverfa af vettvangi hið bráðasta og umbótastjórn á sviði hagstjórnar og stjórnsýslu, nánast byltingarstjórn á öllum sviðum, að taka við.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Flottur pistill hjá þér Bjarni og innihaldsríkur mjög.
Jón Ríkharðsson, 7.1.2011 kl. 23:36
Þakka þér fyrir umsögnina hér að ofan, Jón. Ég vil jafnframt þakka þér fyrir þarfa hugvekju í vetrarhefti Þjóðmála 2010.
Dýraríki Dr Össurar er þannig varið: Steingímur J. er folinn, sem gætir stóðsins. Hann er nú orðinn getulaus og þess vegna komið strok í hópinn, einkum merina Mósesdóttur með trippi og folaldi, enda er hún með strok í genum með burði til að leita á gjöfulli mið.
Eistar eru aðeins 1,5 milljónir að tölu og öðluðust sjálfstæði um svipað leyti og við. Sögu þeirra svipar um sumt til okkar, en er að öðru leyti gjörólík. Þeir sóttu inngöngu í ESB fast til að tryggja sig gegn birninum í austri. Forfeður okkar leituðu hingað úr Noregi undan aðsópsmiklum kóngi með sameiningaráráttu ólíkra landshluta. Hvers vegna skyldum við nú kasta burt mikilvægu ákvörðunarvaldi um eigin málefni til Brüssel, Frankfurt og Berlínar að þarflausu og verða þar með áhrifalaus hreppur á útjaðri stórríkis ?
Með góðri kveðju /
Bjarni Jónsson, 8.1.2011 kl. 13:26
Sæll vertu,flottur pistill,jú Össur er mikill dóni um þessar mundir,samfylkingin er að einangrast,og
einangrast mjög hratt ef ekki verði hlustað á Björk,og þremmenningana sem mun þá koma með nýtt framboð sem gæti náð um þessar mundir um 5o% end stóð hún sig með sóma í Norænahúsinu.
Bernharð Hjaltalín, 8.1.2011 kl. 21:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.