12.2.2011 | 12:59
Orð eru dýr
Í nauðvörn ringulreiðar eftir Hrun lýstu ráðherrar í ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde yfir vilja til samninga um bætur úr ríkissjóði Íslands til innlánseigenda Icesave til að tryggja þeim EUR 20000 í hlut. Síðar var dregið í land og lýst yfir, að ekki væri um skuldbindingu að hálfu íslenzka ríkisins að ræða.
Mikill tími hefur farið í samningaviðræður, svo að ríkisstjórn landsins hefur staðið við upphafleg orð Geirsstjórnarinnar um vilja til samninga. Því var hins vegar aldrei lofað að semja skilyrðislaust, enda var um algera afarkosti að ræða, sem landsmenn aldrei hefðu getað staðið undir með góðu móti. Hörmungarframmistaða fulltrúa ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur er öllum kunn, enda verður ekki lægra lotið.
Það var ekki fyrr en Sjálfstæðisflokkurinn kom að samningunum eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna 6. marz 2010, þar sem algjöru vantrausti var lýst á ríkisstjórn norrænnar helreiðar, að eitthvert vit varð í þeim. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins skipaði hæfan og mætan lögmann, sem á opinberum vettvangi hafði, ásamt lagaprófessor við Háskóla Íslands, verið rödd heilbrigðrar skynsemi og góðrar lögfræði í umræðum um hörmungina, sem ríkisstjórn Samfylkingar og vinstri-grænna tróð gegnum þingið og ætlaði að reka með valdi ofan í kok þjóðarinnar.
Engu að síður er niðurstaðan enn ósamþykkjanleg fyrir skattborgara þessa lands. Vaxtagreiðslur og afborganir á bilinu 50-250 milljarðar ofan á núverandi skuldasúpu ríkissjóðs getur hæglega riðið honum að fullu. Það yrði reiðarslag, efnahagsáfall og mikill álitshnekkir fyrir Íslendinga, ef ríkissjóður þeirra kæmist í greiðsluþrot. Slíkt mundi þýða torfengin og dýr lán frá útlöndum vegna tortryggni lánadrottna í áratug á eftir. Þetta mundi leiða til hækkunar vaxta og ládeyðu í hagkerfinu, jafnvel samdráttar og þar af leiðandi rýrnandi kaupmáttar ár eftir ár. Hagkerfið yrði fársjúkt, eins og í alþýðulýðveldi, nema vaxandi atvinnuleysi og landflótti mundi engum dyljast. Á þetta er engan veginn hættandi. Líkindi á lögsókn að hálfu Breta og Hollendinga eru minni en 50 %, og lakari útkoma en samningunum nemur vart hugsanleg. Slíkt yrði saga til næsta bæjar og einsdæmi í sögunni á friðartímum. Hvers vegna hafa þeir ekki farið þá leið enn ? Staðan er einfaldlega þannig, að lög standa ekki að baki kröfunni, og efnahagsástand Íslands er með þeim hætti eftir Hrun nánast alls fjármálakerfis landsins, að landið getur ekki bætt á sig meiri erlendum skuldbindingum. Þetta er nauðvörn.
Þar að auki brýtur það gegn Stjórnlögum landsins að skuldbinda ríkissjóð fyrir óvissri upphæð, eins og prófessor emerítus, Sigurður Líndal, hefur bent á. Þennan samning, sem reistur er á löglausum kröfum Breta og Hollendinga, má af efnahagslegum, lögfræðilegum, sanngirnis- og stjórnmálalegum ástæðum alls ekki samþykkja. Við slíkt hæfist útstreymi úr gjaldeyrisvarasjóðinum, sem leiða mun til enn meira falls krónunnar, ef að líkum lætur, sem leitt getur til óðaverðbólgu, eins og í Weimarlýðveldinu, og langrar frestunar á afnámi gjaldeyrishaftanna. Allt mundi þetta leiða til þess, að þjóðin drægist mjög afur úr öðrum vestrænum þjóðum í lífskjörum.
Líta má svo á, að örlög Icesave-málsins séu enn hjá þjóðinni. Það eru grundvallarmannréttindi að fá að tjá sig í leynilegum kosningum um svo miklar álögur, sem hér er um að tefla, og um svo örlagaríkt mál. Gildir þá einu, hversu stór meirihluti á Alþingi verður fyrir málinu. Vegna stefnumarkandi afstöðu Landsfundar Sjálfstæðisflokksins er þingmönnum flokksins ekki stætt á að veita þessu máli brautargengi. Fylgismenn samningsins, sem er miklu betri en þeir fyrri, eiga að sitja hjá, en þingflokkurinn ætti að sameinast um kröfuna um þjóðaratkvæði. Annað yrði stjórnmálalegt glapræði.
Hér skal fullyrða, að engin þjóð í Evrópu léti bjóða sér aðra eins afarkosti ótilneydd og að greiða í erlendum gjaldeyri til útlanda vegna falls einkabanka USD 1360 - USD 7000 á hvert mannsbarn. Þetta er þó það, sem Íslendingum er boðið upp á þessa dagana. Þeir eiga að halda sig við lagalegan rétt sinn og hina íslenzku leið, sem er fólgin í því að hafna hengingaról um háls skattborgara til stuðnings fjármálakerfis í einkaeigu, umfram það, sem rétt stofnaður tryggingasjóður annar.
Í ríkisstjórn Jóhönnu er umhverfisráðherra, sem hraut ofan á skýrsluhaugum í ráðuneyti sínu um díoxín útblástur ofan leyfilegra marka frá sorpeyðingarstðvum í landinu. Sami ráðherra hefur staðið fyrir eitrunarherferðum á hendur gróðri, en eitrið endar skiljanlega að lokum ofan í fólki. Allt er þetta óafturkræft, sem í fólk kemst, því að eitrið festist í vefjum líkamans. Svandís Svavarsdóttir rumskaði ekki fyrr en díoxínmálið komst í hámæli. Fyrir stórfellda vanrækslu í starfi ber þess vegna þinginu að ákæra hana og senda hana fyrir Landsdóm fyrir vikið.
Málsmeðferð þessa dæmalausa ráðherra ber merki siðblindu ráðstjórnar, og hún er löglaus. Ráðherrann hefur á öllum stigum þvælzt fyrir staðfestingu á skipulagi Flóahrepps og haldið honum í gíslingu eigin stjórnmálakredda í tvö ár. Skipulag Skeiða-og Gnúpverjahrepps hefur af sömu ástæðum verið í uppnámi. Um hag almennings skeytir ráðherrann engu. Hún er í stjórnmálum til að vinna þröngsýnum sjónarmiðum ofstækis brautargengi, þó að slíkt jafngildi skemmdarverkastarfsemi á hagkerfi landsins.
Áðfarir hennar voru löglausar dæmdar í héraði, en ráðherrann hékk eins og hundur á roði á ógildingu skipulagsins með þeim öfugsnúnu ráðstjórnarrökum, að fyrirtækjum væri ekki í lögum leyft að greiða fyrir vinnu vegna undirbúnings mikilla framkvæmda í litlum sveitarfélögum. Það er ekki heil brú í þessum ráðherra, enda var úrskurður Héraðsdóms nú í viku 6/2011 staðfestur af Hæstarétti. Orðhengilsháttur, mismunun og hrein valdníðsla þessa afturhaldsstjórnmálamanns hefur valdið íbúm Flóahrepps miklu tjóni og kann vel að hafa tafið viðreisn hagkerfis landsins, því að málið snerist um Urriðafossvirkjun og þar með allar virkjanirnar í Neðri-Þjórsá. Díoxínráðherrann fékk á snúðinn, en eins og vænta mátti er siðblinda ráðstjórnarinnar og valdagræðgi næg til að spýja yfir landslýð orðhengilshætti og algerum þvættingi í kjölfar Hæstaréttardóms, sem á að réttlæta áframhaldandi setu í ráðherrastóli. Þessi ráðherra er óhæfur til að gegna hlutverki handhafa framkvæmdavalds í lýðræðisríki.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál, Dægurmál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.